26.04.1966
Neðri deild: 79. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

119. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Á þskj. 579 höfum við 1. þm. Norðurl. v. leyft okkur að flytja 2 brtt. við það frv. til l. um tekjustofna sveitarfélaga, sem hér er komið til 3. umr. Fyrri brtt. fjallar um það aðstöðugjald, sem ætlunin er að leyfa sveitarfélögunum að leggja á Síldarverksmiðjur ríkisins, Viðtækjaverzlun ríkisins, Landssmiðjuna og Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg. Eins og mönnum er ljóst, er það fyrst og fremst aðeins eitt af þessum fyrirtækjum, sem skiptir máli, þ.e.a.s. Síldarverksmiðjur ríkisins, sem hafa gífurlega veltu á hverju ári og eru staðsettar á allmörgum stöðum á landinu. Það er sem sagt meiningin. að það sé leyfilegt að leggja aðstöðugjald á þessa stofnun, og það þarf ekki að taka það fram, að hér er um mjög merkilegan áfanga að ræða, sem allir eru sammála um, að sé mjög mikilvægt að fáist samþykktur.

Áður en frv. var lagt fyrir Alþ., var það borið undir stjórn Síldarverksmiðja ríkisins. Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins samþykkti að mæla með frv., en þó með einni breytingu. Í bréfi til félmrn., sem ég hef fengið afrit af, segir, með leyfi forseta, að „stjórn SR geti mælt með frv. með þeim viðauka, að gjaldið verði lagt á í einu lagi og annist skattstjórinn í Reykjavík álagninguna eins og álagningu landsútsvars. Við skiptingu aðstöðugjaldsins milli þeirra staða, sem Síldarverksmiðjur ríkisins eru staðsettar á, skal miða skiptinguna jöfnum höndum við afkastagetu verksmiðjanna á hverjum stað árið fyrir álagninguna og við meðaltal hundraðshluta verksmiðjanna af unninni bræðslusíld á hverjum stað næstu 3 árin á undan álagningu.“ Í þessu bréfi stjórnar síldarverksmiðjanna kemur glöggt fram, hvað þessi breyting muni hafa í för með sér. Það kemur t.d. fram, að afkastageta verksmiðjunnar á Siglufirði er 50% af afkastagetu allra verksmiðjanna. En ef aðstöðugjaldið verður samþykkt eins og það liggur hér fyrir í frv., mun líklega innan við 10% af aðstöðugjaldinu falla í hlut Siglufjarðar, enda þótt þar sé yfirstjórn verksmiðjanna, allar skrifstofur, viðgerðarverkstæði og þjónusta, og það einungis vegna þess, að til verksmiðjanna barst að þessu sinni lítill afli. Stjórn síldarverksmiðjanna leggur sem sagt áherzlu á, að einnig sé miðað við afkastagetuna. Nefna má hér annað dæmi: Skv. bréfi stjórnar síldarverksmiðjanna kemur það fram, að á Skagaströnd eru 10% af vélaafli Síldarverksmiðja ríkisins, en ef þetta frv. verður að l., eins og hér liggur fyrir, fá Skagstrendingar ekki grænan eyri, enda þótt þessi stóra verksmiðja sé þar staðsett, sá staður hafi byggt sig upp og fólk flutzt þangað í því trausti, að þetta mesta stórfyrirtæki á staðnum mundi verða starfrækt. Fólk á Skagaströnd hefur orðið að leggja á sig kostnað við gatnagerð og ýmsa aðra þjónustu við þetta stórfyrirtæki, en það fær ekkert í sinn hlut frá verksmiðjunum, ef frv. verður samþykkt í því formi, sem hér liggur fyrir.

Ég er ekki í nokkrum vafa um, að það mundi verða heilladrýgra til lengdar og skapa meira samhengi, ef miðað væri við hvort tveggja, veltuna á hverjum stað og afkastagetuna. Það munu verða minni breytingar frá ári til árs. Ég þykist vita, að Austfirðingar séu almennt á móti því að gera á frv. breytingu, vegna þess að þeir sjá fram á, að þeir fá meira fé með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir í frv. Ég er hræddur um, að þetta sé heldur skammsýn afstaða. Meðan síldin er við Austfirði, fá þeir verulegan hluta af aðstöðugjaldinu, og sveitarfélögin munu venja sig við að byggja fjárhag sinn á þessum tekjum. En þegar síldin hverfur, fá þeir allt í einu ekki neitt. Ég býst við, að þá mundi þeim þykja heldur betra, að miðað hefði verið einnig við afkastagetuna og þannig yrði meiri jöfnuður milli ára.

Það vill nú fara svo, að þegar mikil síld berst á land á einum stað, eru miklar tekjur á staðnum og í raun og veru minni þörf fyrir aðstöðugjald. En þegar síldin bregzt, er einmitt mest nauðsynin að hafa tekjur, sem geta vegið þar eitthvað á móti.

Ed. hefur nú fjallað um frumvarpið, og því miður hefur þetta sjónarmið hvergi komið fram í þeim umr. né heldur í neinu þskj., sem um þetta mál fjallar. Það hefur ekki komið fram, með hvaða skilyrði stjórn Síldarverksmiðja ríkisins mælti með frv.

Við flm. þessa frv. erum að vísu ekki mjög bjartsýnir á, að þessar breyt. nái fram að ganga. N. hefur þegar fjallað um málið, og hún mælir með því, að það sé samþ. óbreytt. En við töldum samt eðlilegt, að sjónarmið okkar kæmi skýrt fram.

Önnur brtt.. sem við flytjum við þetta frv.. er við 20 gr. tekjustofnalaganna. Frv. var upphaflega samið fyrir rn. af þremur mönnum. sem til þess voru fengnir, og í því frv.-uppkasti var gert ráð fyrir því, að helmingurinn af landsútsvörum, sem til féllu á hverjum stað eða í hverju sveitarfélagi, kæmi í hlut þess sveitarfélags. Í bréfi, sem okkur þm. barst frá bæjarstjórninni á Siglufirði, kemur skýrt fram. að það var vegna tilmæla stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, að þessu var breytt á þann veg, að aðeins fjórðungur landsútsvara, sem til fellur í hverju sveitarfélagi, kemur í hlut þess, en hlutar fara í jöfnunarsjóð. Bæjarstjórn Siglufjarðar og reyndar fleiri staðir hafa barizt fyrir því, að þessu yrði breytt í a.m.k. helmingaskipti, og till. okkar er flutt til að vekja athveli á þessu sjónarmiði.

Þegar landsútsvörum var komið á, var það fyrst og fremst gert af sanngirnisástæðum, vegna þess að talið var, að mörg sveitarfélög ættu rétt á að njóta einhvers hluta af þeim skatti, sem ríkisfyrirtæki væru látin greiða, þ.e.a.s. ríkisfyrirtæki, sem spönnuðu yfir landið allt. En því miður gerðist það, þegar þessi landsútsvör voru samþ., að breytingin varð mjög mikið áfall fyrir Siglufjörð. Ég held ég megi segja, að það sé rétt, sem forustumenn Siglufjarðarbæjar hafa haldið fram, að sú breyting hafi orðið þeim mjög í óhag. Það er þannig ástatt t.d. á Siglufirði, að af atvinnufyrirtækjum á staðnum eru þrjú fyrirtæki, síldarverksmiðjurnar, tunnuverksmiðjan og síldarútvegsnefnd, sem eru með 68% af atvinnurekstri á staðnum, en gjöldin, sem þessi fyrirtæki hafa verið látin greiða, eru sáralítil. Hins vegar skal ég viðurkenna, að með þeim breytingum, sem gerðar eru nú á l., batnar ástandið lítillega, en alls ekki nægilega. Ég vil benda á, hverja sérstöðu Siglufjarðarkaupstaður hefur hvað snertir aðra kaupstaði landsins. Við skulum líta á annað dæmi, þ.e.a.s. hvað útsvör af atvinnurekstri séu í hundraðshlutum af heildarútsvörum. Ef maður nefnir fyrst dæmi af stað eins og Neskaupstað, kemur í ljós, að 50% af heildarútsvörum þar eru útsvör af atvinnurekstri. Ef við lítum á Reykjavík, kemur í ljós, að þar eru 20% af útsvörum útsvör af atvinnurekstri. En á Siglufirði er þetta hlutfall aðeins 1.8%. Það eru launþegarnir, sem verða einir að standa uppi með 98.2%. Ég held, að þetta hlutfall sé algert einsdæmi. Ég held, að það sýni líka vel, hversu illa settur þessi kaupstaður er. Hann hefur algera sérstöðu í þessu máli. En það eru reyndar fleiri staðir, sem eru illa settir, staðir, sem eru einhliða byggðir upp með ríkisrekstri í þágu alþjóðar og þurfa að fá einhverja leiðréttingu sinna mála, staðir eins og t.d. Skagaströnd. Það er ekki aðeins, að þessir staðir hafi glímt við mikil atvinnuvandamál og mikill brottflutningur hafi verið þaðan, heldur er það hin voðalega staðreynd, að fjárhagur þessara sveitarfélaga hefur verið algerlega í molum. Ég vil geta þess hér, að á Siglufirði hefur útsvarsstigi verið notaður eins og lög leyfa með 20% álagi. Samt sem áður hefur vantað undanfarin ár skv. áætlun 4—5 millj. til þess að mæta allra brýnustu útgjöldum, og það skarð, sem þarna vantar að fylla, er raunverulega miklu stærra, líklega milli 7 og 8 millj. Það lendir svo á jöfnunarsjóði sveitarfélaga að reyna að bæta þar eitthvað um, en hann hefur alls ekki fjármagn til þess að koma til hjálpar nema að litlu leyti. Skuldirnar halda því áfram að vaxa.

Ég held ég hafi þessi orð ekki fleiri. Því miður hefur heilbr.- og félmn. ekki haft tækifæri til að fjalla um þessar till. Það má vel vera. að þær hljóti ekki mörg atkv. hér í hv. d., en flm. telja, að þessi tillöguflutningur þjóni þeim tilgangi að benda á, að hér er um stórfellt vandamál að ræða, hreinræktað óréttlæti, sem ekki er endanlega bætt úr með þeim mikilvægu leiðréttingum, sem fást fram með þessu frv. Ég tek fram. að við leggjum megináherzlu á, að frv. okkar verði samþ., og þar sem ekki hefur komið fram í þessum umr. neitt, sem bendir til þess, að breyt. á frv. muni tefja framgang þess. sjáum við ekki ástæðu til annars en standa fast við till., enda þótt við undirstrikum, að það skiptir auðvitað mestu máli, að frv. dagi ekki uppi, heldur verði afgreitt.