25.10.1965
Efri deild: 6. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

13. mál, vélstjóranám

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Gildandi lög um kennslu í vélfræði eru fyrir löngu orðin algerlega úrelt, enda frá árinu 1936 og hafa þannig staðið óbreytt í 28 ár. Hins vegar hefur ekki verið að öllu leyti auðvelt að koma fram endurskoðun á þeim l., vegna þess að ýmsum aðilum, sem um slíka endurskoðun hafa þurft að fjalla með eðlilegum hætti, hefur ekki sýnzt eitt og hið sama um það, hvert stefna skyldi við endurskoðunina. Annars vegar hafa verið sjónarmið þeirra, sem um menntunarmálin sjálf, um skólamenntunina hafa fjallað, og hins vegar hinna, sem þegar hafa fengið atvinnuréttindi á grundvelli þess menntunarkerfis, sem hingað til hefur verið í gildi. Hefur þetta valdið því, að þegar n. hafa verið skipaðar til þess að fjalla um endurskoðun þessara l., en það mun hafa gerzt oftar en einu sinni um langt skeið undanfarið, hafa þær ekki orðið sammála eða niðurstaða þeirra orðið með þeim hætti, að hlutaðeigandi ríkisstj. hafa ekki treyst sér til að bera fram frv. um ákveðnar breyt. á gildandi menntunarkerfi.

Það hefur þó verið öllum augljóst, sem það hafa viljað sjá og áhuga hafa haft á þessum málum, að stórfelld tækniþróun með mjög ört vaxandi vélakosti til lands og sjávar kallar á æ fleiri vel menntaða vélstjórnarmenn. En því miður hefur það sýnt sig, að mikill skortur hefur verið og er í landinu á vélstjórum, og fer því víðs fjarri, að þörf atvinnuveganna fyrir menn með þá menntun, sem hér er um að ræða, hafi verið fullnægt. Í raun og veru hefur ástandið í þessum efnum farið versnandi ár frá ári og svo mjög, að allmiklum fjölda manna með of takmarkaða þekkingu á þessu sviði hefur með undanþágum verið veittur réttur til vélstjórnar á fiskiskipa- og kaupskipaflotanum. Mun nú láta nærri, að u.þ.b. helmingur þeirra manna, sem starfa að vélstjórn á skipaflotanum. hafi eigi fyllstu lögmæt atvinnuréttindi. Þarf ekki mörgum orðum um það að fara, hversu varhugavert það hlýtur að teljast að þurfa að trúa mönnum með ónóga þekkingu fyrir umsjón og stjórn véla, sem hver um sig getur jafnvel kostað margar millj. kr. og þar sem mjög miklir fjárhagslegir hagsmunir og jafnvel mannslíf geta verið að veði, ef út af ber um meðferð og stjórn þessara dýru og vönduðu tækja.

Það er megintilgangur þessa frv. að skapa grundvöll að hagfelldari vélstjóramenntun og gera mönnum auðveldara en áður að afla sér hennar, með það fyrir augum, að vélstjórastéttinni geti á næstu árum fjölgað svo mjög að fullmenntuð vélstjórastétt komist yfir að leysa þau verkefni, sem að kalla og sí og æ fara vaxandi.

Ég hef haft með vélskólann að gera allar götur síðan 1956 og gert fleiri en eina tilraun á þessum árum til an samræma þau sjónarmið, sem uppi hafa verið varðandi vélstjóramenntunina annars vegar og atvinnuréttindi vélstjóranna hins vegar. Að loknum ýtarlegum undirbúningsviðræðum, bæði við forstöðumenn vélskólans og við forstöðumenn samtaka vélstjóranna, skipaði menntmrn. í febrúar 1964, í febrúar í fyrra 5 manna n. til athugunar á málinu í heild, þ.e. nauðsynlegum menntunarkröfum annars vegar og svo atvinnuréttindum vélstjóranna hins vegar. Í n. voru skipaðir þeir Jón Þorsteinsson alþm., og var hann skipaður formaður n., Gunnar Bjarnason skólastjóri, tilnefndur af vélskólanum í Reykjavík. Guðmundur Pétursson vélstjóri, tilnefndur af Vélstjórafélagi Íslands, Jón S. Pétursson vélstjóri, tilnefndur af Mótorvélstjórafélagi Íslands, og Magnús J Magnússon forstöðumaður mótornámskeiða Fiskifélags Íslands, tilnefndur af Fiskifélagi Íslands.

Skömmu eftir að n. hóf starf sitt, tók varamaður Jóns S. Péturssonar, Halldór Guðbjartsson vélstjóri, sæti í n. í stað Jóns og starfaði með henni, þangað til hún lauk störfum að þessu verkefni. Enn fremur starfaði Örn Steinsson vélstjóri um hríð með n., meðan Guðmundur Pétursson dvaldist erlendis.

Þessi n. náði algerri samstöðu um það frv., sem hér er nú flutt á hinu háa Alþ. Veit ég, að n. lagði fram mikið og mjög mikilvægt starf, og sé ég fulla ástæðu til þess að þakka nm. öllum fyrir gott og ötult starf og sérstaklega fyrir það að hafa lagt sig fram um það, að n. gæti skilað einróma áliti. Má með þessu einróma áliti telja, að fullkomið samræmi hafi náðst milli sjónarmiða skólamanna annars vegar og vélstjórastéttarinnar hins vegar. Ágreiningur þeirra á milli ætti því ekki að þurfa að verða því til trafala, að þetta frv. fái greiðan gang í gegnum hið háa Alþ. En meginefni frv. er fólgið í því, sem nú skal greina í fáum orðum.

Í fyrsta lagi gerir frv. ráð fyrir því, að framvegis fjalli ein stofnun, þ.e. vélskólinn í Reykjavík, um alla vélstjórakennslu í landinu, hvort sem kennslan fer fram í Reykjavík eða úti á landi. Í öðru lagi gerir frv. ráð fyrir því, að vélstjóranáminu verði framvegis skipt í 4 skýrt afmörkuð námsstig, þ.e. eitt einhvers konar undirbúningsnámskeið og svo hina 3 bekki vélskólans, sem starfað hafa síðan núgildandi lög um skólann voru sett, og er gert ráð fyrir því, að hvert námsstig um sig veiti sérstök fullgild atvinnuréttindi á sínu sviði og fari þau vaxandi, eftir því sem námsstigið verður hærra. Í þriðja og síðasta lagi, — og er það ekki minnst um vert, — gerir frv. ráð fyrir því, að inntökuskilyrði í vélskólann verði mjög rýmkuð og slitin séu að mestu leyti tengslin milli járnsmíðanáms annars vegar og vélstjóranáms hins vegar.

Ég skal fara nokkrum fleiri orðum um hvert þessara meginatriða frv. um sig.

Eins og kunnugt er, hefur kennsla í vélfræði fram til þessa farið fram með tvennu móti. Annars vegar hefur Fiskifélag Íslands haldið tvenns konar mótorfræðinámskeið, hið minna og hið meira, sem svo hafa verið nefnd, og hins vegar hefur kennsla farið fram í vélskólanum í Reykjavík. Aftur á móti hafa engin tengsl verið milli þessara tveggja kennslustofnana. Próf frá námskeiðum Fiskifélagsins hafa ekki veitt nein réttindi til inngöngu í vélskólann, og hefur það auðvitað leitt til þess, að færri nemendur hafa sótt þessi námskeið en ella, og auk þess hefur það staðið í vegi fyrir því, að menn sæktu þessi námskeið Fiskifélagsins, að þeir, sem þeim námskeiðum ljúka, hafa ekki átt kost á neinni framhaldsmenntun. Vélskólinn í Reykjavík hefur hins vegar starfað sem ein heild í þrem bekkjum, en nemendur í vélskólanum hafa ekki hlotið nein atvinnuréttindi á mótorskipum út á námið, fyrr en þeir hafa lokið skólanum að fullu, þ.e. lokið fullu þriggja ára námi í vélskólanum. Þá er það mjög mikilvægt í þessu sambandi, að inntökuskilyrði, sem gilt hafa í vélskólann, hafa verið allri starfsemi hans mikill fjötur um fót og beinlínis valdið því, að miklu færri nemendur hafa sótt skólann en æskilegt er, miklu færri nemendur hafa sótt skólann en þörf hefur verið fyrir, að sæktu hann, og hefur þetta átt mjög verulegan þátt í vélstjóraskortinum og þeim mörgu og margvíslegu undanþágum, sem óhjákvæmilegt hefur verið talið að veita í þessu sambandi. Aðalfjöturinn um fót í þessu sambandi hefur verið sá, að það hefur verið inntökuskilyrði í vélskólann, að nemandinn hafi í 4 ár stundað iðnaðarnám í einhverri grein járniðnaðarins. En þessi regla hefur reynzt mjög óheppileg og í raun og veru alveg ónauðsynleg. Í fyrsta lagi er 4 ára undirbúningsnám undir vélskólanám óþarflega langt, ef rétt er á haldið, auk þess sem telja má mjög hæpið, að sá undirbúningur, sem fæst við járnsmíðanám, sé á hinu rétta sviði í öðrum greinum járniðnaðarins en vélvirkjun. Þeir, sem hugsað hafa til vélskólanáms, hafa margir beinlínis horfið frá því vegna kröfunnar um það, að þeir skuli áður hafa stundað 4 ára iðnaðarnám í vélsmiðju. En jafnvel þótt þeir hafi viljað leggja á sig iðnaðarnámið til þess að komast í vélskólann, þá miklu fórn til að standast þessa ströngu kröfu, hefur þeim oft og einatt verið óhægt um vik, því að járnsmíðaverkstæðin hafa verið ófús að taka til náms slíka nemendur, sem augljóst hefur verið um frá upphafi, að ætli ekkí að helga sig störfum í smiðjunum, heldur hverfa að loknum námstímanum til starfa eða til náms í vélskólanum, þannig að segja má, að ríkjandi fyrirkomulag hafi verið öllum aðilum jafnóhagkvæmt, vélstjórastéttinni sem slíkri, vélskólanum sem slíkum, nemendunum sem slíkum vegna óeðlilegra krafna á hendur þeirra og smiðjunum sem slíkum, vegna þess að þær hafa þurft að taka að sér að hafa menn sem nemendur í langan tíma, sem síðan hafa horfið burt frá starfi í smiðjunum. Þess vegna gerir frv. ráð fyrir því, að þessum inntökuskilyrðum sé breytt, og má segja, að það sé ein veigamesta breytingin í frv. Lágmarksaldur til inngöngu í skólann hefur vegna kröfunnar um iðnnámið í raun og veru verið 20 ár, en með frv. er aldurinn í raun og veru lækkaður niður í 18 ár. Auk almennra skilyrða, sem gilda um hliðstæða skóla yfirleitt og ég sé ekki ástæðu til þess að rekja, er gert ráð fyrir því, að umsækjandi eigi rétt á að setjast í vélskólann, ef hann fullnægi einu af eftirfarandi þrem skilyrðum: 1) Hafi lokið vélstjóranámi fyrsta stigs, þ.e. staðizt próf að loknu námskeiði fyrir vélstjóraefni, sem gert er ráð fyrir að vélskólinn haldi bæði í Reykjavík og utan Reykjavíkur. 2) Hafi öðlazt a.m.k. 2 ára reynslu í meðferð véla eða vélaviðgerðum og staðizt sérstök inntökupróf í skólann, sem meiningin er, að skólinn taki upp. 3) Hafi lokið eins vetrar námi í forskóla iðnnáms í járnsmíðagreinum og hlotið a.m.k. 6 mánaða reynslu að auki í meðferð véla eða vélaviðgerðum og enn fremur staðizt sérstök inntökupróf við skólann. En jafnframt er vélskólanum heimilað að halda námskeið til undirbúnings inntökuprófi.

Með þessu móti er sem sagt almennur inntökualdur í vélskólann lækkaður í 18 ár og gert að öðru leyti einnig mun auðveldara að komast inn í skólann, vegna þess að gert er ráð fyrir því, að menn geti sótt námskeið, sem vélskólinn heldur og hægt á að vera að ljúka á minna en einum námsvetri. Samhliða þessu er gert ráð fyrir því, að allt námskeiðshald af hálfu Fiskifélags Íslands hverfi alveg úr sögunni. N. var reiðubúin fyrir sitt leyti að fallast á, að Fiskifélagið hefði áfram námskeiðshald hér í Reykjavík. En að gaumgæfilega athuguðu máli óskaði Fiskifélagið ekki eftir því, og það er því óhætt að fullyrða, að þessi breyting á vélstjóranáminu, þ.e. brottfelling þeirra mótornámskeiða, sem Fiskifélagið hefur haldið uppi um áratugi og með miklum sóma, sú breyting er gerð í fullkomnu samráði við Fiskifélag Íslands sjálft.

Þá er þess að geta, að í frv. felst sú breyting frá núgildandi l.; sem einnig verður að teljast mjög mikilvæg, að hvert námstig verður framvegis grundvöllur sérstakra atvinnuréttinda. Af því leiðir auðvitað, að jafnframt verður að gera breytingu á l. um atvinnu við siglingar að því er varðar atvinnuréttindi vélstjóra. Um það mál er fjallað í öðru ráðuneyti, þ.e. í samgmrn., og mun samgmrh. væntanlega flytja sérstakt frv. um það efni. En n., sem ég gat í upphafi, fjallaði einnig um þessi atriði og náði einnig um þau samkomulagi. Það kann að vera, að þessu frv. hafi þegar verið útbýtt. (Grípið fram í.) Ég bið afsökunar, því mun þegar hafa verið útbýtt. Og það er samið af þessari sömu n., sem einnig stendur einhuga að baki því frv.

Eins og inntökuskilyrðin í vélskólann hafa verið, hefur það verið svo, að hver og einn, sem þar hefur lokið námi, hefur verið hvort tveggja í senn vélstjóri og járniðnaðarmaður. Ef þær breytingar, sem í þessu frv. felast og atvinnuréttindafrv., ná fram að ganga, verður í framtíðinni sú breyting á, að hér verður nokkuð skilið í milli, enda er í raun og veru engin þörf á því, að allir vélstjórar hafi iðnréttindi. Það er ekki nauðsynlegt annað en þeir einir vélstjórar hafi iðnréttindi, sem ljúka öllum stigum prófnáms og þá taka að sér störf sem yfirvélstjórar á stærstu skipum flotans. Til þess að öðlast full atvinnuréttindi eða mestu atvinnuréttindi í vélstjórastéttinni verða menn að ljúka fyllsta vélstjóraprófi, fyllsta prófi úr vélskólanum og auk þess sveinsprófi í vélvirkjan, en kunnátta í þeirri grein járniðnaðarins kemur vélstjórum að sjálfsögðu að mestum notum.

Í frv. er enn fremur gert ráð fyrir því, svo að ég láti þess að síðustu getið, að stofnuð verði 5 manna skólanefnd við vélskólann í Reykjavík, Fiskifélag Íslands óskaði eftir því að eiga fulltrúa í skólanefndinni, svo að félagið rofnaði ekki alveg úr tengslum við vélstjórafræðsluna í landinu, þó að hin svonefndu mótorfræðinámskeið þess yrðu lögð niður. Við teljum sjálfsagt að verða við óskum Fiskifélagsins um þetta efni, enda hefur það, eins og ég gat um áðan, gegnt sínu hlutverki í þessu efni á undanförnum áratugum með stakri prýði.

Áður en n., sem frv. samdi, gekk endanlega frá frv., var það sent ýmsum aðilum til umsagnar: iðnfræðsluráði, A.S.Í., Landssambandi ísl. útvegsmanna, Fiskifélagi Íslands, skipaskoðunarstjóra, Vélstjórafélagi Íslands, Mótorvélstjórafélagi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna. Hjá öllum þessum aðilum fékk frv. í þeirri mynd, sem það er flutt hér, góðar undirtektir. Einstakar aths. við minni háttar atriði komu fram, og mun n. hafa tekið flestar þeirra til greina. Hv. þn. mun að sjálfsögðu fá aðgang að þeim plöggum, sem í menntmrn. eru til um þetta efni, til þess að ganga úr skugga um, hvort hún kynni að hafa áhuga á einhverjum brtt., sem höfundar frv. töldu ekki ástæðu til á þessu stigi a.m.k. að taka til greina.

Með þessum orðum, herra forseti, vona ég, að mér hafi tekizt að gera grein fyrir meginefni þessa frv. Ég held, að alveg óhætt sé að fullyrða, að samþykkt þess mun mega teljast til mikilla bóta fyrir vélstjóramenntunina í landinu, en menntun vélstjórastéttarinnar hefur verið ábótavant vegna hinna algerlega — að mínu viti — úreltu laga, sem gilt hafa um vélskólann. Það er tilgangur frv. að ráða bót á þessu, og er ég sannfærður um, að af því mundi leiða mjög heillavænlega bót á menntun vélstjóranna og með því móti ætti að mega telja, að öryggi allt við vélgæzlu og vélstjórn mundi stóraukast og stórbatna frá því sem verið hefur um undanfarna áratugi. Ég leyfi mér því að óska þess, að þetta frv. fái sem greiðastan gang í gegnum hið háa Alþingi.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. menntmn.