22.03.1966
Efri deild: 54. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

13. mál, vélstjóranám

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Þegar unnið var að samningu frv. þessa, var það, áður en endanlega var gengið frá því, sent til umsagnar margra aðila, stofnana og stéttasamtaka, og þar á meðal L.Í.Ú., og á þeim tíma hafði L.Í.Ú. ekkert við það að athuga. Síðar, eftir að frv. kom í þingið, var það sent aftur til umsagnar allra þessara aðila, og þegar gengið var frá nál. og brtt., er ræddar voru við 2. umr. um frv., hafði ekkert svar borizt frá L.Í.Ú., en það barst á síðustu stundu, áður en 2. umr. fór fram, og þar var landssambandið að koma með nokkrar ábendingar, og þess vegna gat ég um það við 2. umr. málsins, að n. mundi athuga þær ábendingar á milli 2. og 3. umr. Það hefur n. gert, og þessar ábendingar landssambandsins hafa leitt til þess, að n. flytur nú enn á ný brtt. við frv.

Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa hér hluta úr bréfi Landssambands ísl. útvegsmanna til menntmn. Þar segir svo m.a.:

„Varðandi frv. þetta viljum við taka fram: Á síðasta aðalfundi samtakanna var eftirfarandi till. vísað til stjórnar landssambandsins:

Aðalfundur L.Í.Ú. 1965 samþykkir að beina þeim tilmælum til væntanlegrar stjórnar, að hún beiti áhrifum sínum til þess að fá frv. til l. um vélstjóranám, sem lagt hefur verið fram á Alþingi, breytt á þann hátt, að heimilt sé að kenna á Akureyri annað fræðslustig skv. 1. gr. frv., þar sem nauðsyn er, að bætt verði úr vélstjóraskorti á fiskiskipaflotanum sem allra fyrst, og benda má á, að á Akureyri er fyrir hendi húsnæði, vélakostur og aðgangur að nægjanlegum kennslukröftum til að annast umrædda fræðslu.“

Þetta var till., sem samþ. var á landssambandsþinginu, en síðan segir stjórn sambandsins áfram í bréfi sínu:

„Með tilvísun til þessa leyfum vér oss að leggja til, að jafnt og áætlað er, að haldin verði námskeið fyrir vélstjóraefni úti á landi til að ljúka fyrsta stigi vélstjóranáms, verði einnig unnt fyrir menn að ljúka öðru stigi vélstjóranáms úti á landi, þar sem aðstæður allar leyfa. Höfum vér í þessu sambandi einkunn í huga Ísafjörð, Akureyri, Neskaupstað og Vestmannaeyjar.“

Ég leitaði umsagnar um þessa till. frá lands, sambandinu hjá forstöðumanni mótornámskeiða Fiskifélags Íslands, sem þekkir þessa hlið málsins allra manna bezt, og það var skoðun hans, að það skorti mikið á það úti á landi, að þar væru fyrir hendi kennslukraftar eða vélakostur eða aðrar aðstæður til þess að taka þar upp á næstunni nám í fyrsta bekk vélskólans eða öðru námstigi, eins og frv. greinir frá. Þó áleit hann, að það mundi vera næst lagi í næstu framtíð, að þetta yrði gert á Akureyri, og þar taldi hann reyndar eina staðinn, sem líklegur væri til þess, að aðsókn yrði næg, til þess að það væri hægt að mynda bekkjardeild þar. Það mundi naumast koma til greina annars staðar.

Ég ræddi þetta einnig við skólastjóra vélskólans, og hann taldi ekkert því til fyrirstöðu að setja heimild í frv. um það, að kennsla í fyrsta bekk skólans eða á öðru námstigi færi fram úti á landi. Og sú varð niðurstaðan í nefndinni, að hún var sammála um að taka þessa heimild inn, og hún kemur fram í 5. brtt. á þskj. 344, þar sem segir í niðurlagi þeirrar brtt.: „Þá er skólanum og heimilt, ef þörf krefur og aðstæður leyfa, að halda uppi kennslu fyrir annað námstig (1.bekk) utan Reykjavíkur.“

Það má auðvitað gera ráð fyrir því, að samþykkt þessa frv. leiði til þess, að það fjölgi í vélskólanum, og það er beinlínis tilgangur þessa lagafrv., og þá mundi skólinn innan tíðar verða fullsetinn hér í Reykjavík, og gera má ráð fyrir því, að fyrsti bekkur skólans verði einmitt fjölmennasti bekkur. Þegar að því kemur, að húsakostur skólans innan fárra ára verður fullnýttur hér í Reykjavík, þá væri mjög eðlilegt að bæta úr á þann hátt að setja á stofn kennslu í fyrsta bekk eða öðru námstigi úti á landi, þar sem aðstæður væru hægastar til þess og líklegast væri, að næg aðsókn fengist.

Í bréfi L.Í.Ú. er einnig önnur ábending um breytingar við frv. Það er á þá leið, að það verði tekin upp á námskeiðunum og í fyrsta bekk skólans kennsla í meðferð radartækja. Þá till. tók n. upp, og hún kemur hér fram bæði í 3. brtt. á þskj. 344 og 7. brtt.

Þá kom einnig í sambandi við þessar ábendingar L.Í.Ú. fram sú hugmynd í n., að það væri rétt að breyta nafni skólans. Eftir frv. heitir hann Vélskólinn í Reykjavík, og það hefur hann heitið að undanförnu, áður hét hann reyndar Vélskóli Íslands. Það komu fram þær hugmyndir í n. að breyta nafninu aftur í Vélskóla Íslands með það m.a. í huga, að skólinn á skv. þessu frv. einn að hafa með höndum alla vélstjórakennslu í landinu og sjá um námskeið, sem haldin eru úti á landi, og svo þegar fram líða stundir, er heimild til þess að taka upp kennslu í fyrsta bekk á vegum vélskólans einnig utan Reykjavíkur, og þess vegna fannst nefndarmönnum nafnbreyting eðlileg. Þetta var borið undir skólastjóra vélskólans, og hann var því samþykkur, og því hefur n. einnig tekið upp þá brtt. að skipta um nafn á skólanum og kalla hann Vélskóla Íslands í staðinn fyrir Vélskólann í Reykjavík, og að því lúta brtt. Það er 1. brtt., það er 2. brtt., sú 4., sú 5. að nokkru leyti og 6. brtt.

Um þessar brtt. varð n. öll sammála.