22.04.1966
Efri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

144. mál, alþjóðasamþykkt um varnir gegn óhreinkun sjávar

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Efni þessa litla frv. er eingöngu að stækka það svæði, sem bannað er að menga sjó eða óhreinka hann með olíum eða olíublönduðu vatni eða sjó.

Í kringum Ísland var þetta hannsvæði skv. samningnum frá 1954 50 mílur, en nú er lagt til, að þetta svæði verði stækkað upp í 100 mílur, í samræmi við það, sem gert hefur verið annars staðar.

Óhreinkun sjávar af völdum olíu eða olíuefna hefur færzt í vöxt, og það er mjög nauðsynlegt fyrir alla að ýta þessari óhreinkun frá sér eða frá ströndum landa sinna eins og mögulegt er, og við það er þessi stækkun bannsvæðanna miðuð. Dýraverndunarfélag Íslands hefur verið ákaflega áhyggjufullt yfir þeirri þróun, sem átt hefur sér stað í þessum málum, og hefur lagt mikla áherzlu á, að þessi stækkun bannsvæðis næði samþykkt.

Í frv. er reyndar önnur lítil breyting, og hún er sú. að framvegis verði heimilað að auglýsa gildistöku breytinga á þessari alþjóðasamþykkt í Stjórnartíðindunum, án þess að borið verði sérstaklega undir Alþingi, ef um aðeins smávægilegar hreytingar eins og þessar er að ræða. Því er lýst yfir af hálfu ráðuneytisins, að þessi heimild verði ekki notuð, nema því aðeins að um mjög smávægileg atriði sé að ræða.

Ég álit, að hvor tveggja þessi breyting þurfi ekki langra skýringa, og leyfi mér að leggja til. að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.