23.04.1966
Neðri deild: 76. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

176. mál, Atvinnujöfnunarsjóður

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það um atvinnujöfnunarsjóð, sem hér liggur fyrir hv. deild, er flutt í samræmi við þá yfirlýsingu, sem ríkisstj. hefur áður gefið um það, að hún mundi beita sér fyrir því, að settur yrði á fót sjóður, er hefði yfir verulegu fjármagni að ráða, til þess að stuðla að ýmiss konar atvinnuframkvæmdum víðs vegar um landið með það í huga að reyna að tryggja sem bezt jafnvægi í byggð landsins.

Að þessum málum hefur verið unnið með ýmsum hætti um alllangt árabil. og skal ég þá eingöngu einskorða mig við það, sem í þrengri merkingu má segja, að hafi verið ráðstafanir til atvinnuaukningar, því að að sjálfsögðu er ótalmargt af því, sem verið er að gera á hverju ári og liggur utan ramma hliðstæðrar löggjafar eða ráðstafana og þessar ráðstafanir eru, til þess fallið að efla atvinnulíf víðs vegar um landsbyggðina og þannig stuðla að jafnvægi í byggð landsins. En það er of umfangsmikið og viðamikið mál til þess að fara út í á þessum vettvangi, enda snertir það ekki í rauninni beint það viðfangsefni, sem hér er til umr.

Allt frá árinu 1951 hefur verið ráðstafað af ríkisfé með sérstökum fjárveitingum í fjárlögum tilteknum upphæðum, sem gengið hafa til atvinnuaukningar eða til þess að leysa ýmiss konar atvinnumál víðs vegar um landsbyggðina, og hefur samtals á undanförnu 15 ára tímabili verið varið um 160 millj. kr. í þessu skyni úr ríkissjóði, mismunandi mikið á hinum ýmsu tímum, en nú síðustu árin, eða frá 1962, hefur gilt löggjöf um atvinnubótasjóð, sem þá tók til starfa með ákveðnu ríkisframlagi, og er gert ráð fyrir, að sjóður sá, sem hér er lagt til að stofna, leysi þann sjóð af hólmi.

Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er tvennt gert, sem má telja grundvallarbreytingar frá því, sem áður hefur gerzt í þessum efnum. Annars vegar er lagt til, að ráðstafanir þær til atvinnuuppbyggingar víðs vegar um landið, sem að verður unnið, verði gerðar með skipulegri hætti en hingað til hefur verið gert. Vegna hins takmarkaða fjár, sem verið hefur til ráðstöfunar á undanförnum árum, hefur ekki verið hægt að vinna að kerfisbundinni uppbyggingu, en skv. frv. um atvinnujöfnunarsjóð er gert ráð fyrir því, að þessi sjóður vinni fyrst og fremst að því að greiða fyrir því, að framkvæmdar séu þær sérstöku áætlanir til uppbyggingar atvinnulífi og félags- og menningarlífi, sem gert er ráð fyrir að unnið verði að, fyrst og fremst af Efnahagsstofnuninni, annaðhvort af henni af sjálfsdáðum eða þá eftir ákvörðunum eða óskum stjórnar atvinnujöfnunarsjóðs.

Er þar gert ráð fyrir tvíþættum áætlunum: Annars vegar fyrir stærri landshluta, svo sem nú er unnið að og er nú að mestu lokið fyrir Vestfirði, og hafin er áætlunargerð í svipuðum stíl fyrir Norðurland, og lokið hefur verið fyrir nokkru áætlanagerð f samgöngumálum fyrir Vestfirði, sem þegar er hafin framkvæmd á og aflað hefur verið verulegs fjár til. Er gert ráð fyrir, að unnið verði áfram að þessum stærri áætlunum, en auk þess er að sjálfsögðu nauðsynlegt að gera áætlanir í minni stíl fyrir einstaka staði eða minni byggðarlög. En höfuðáherzlan er sem sagt á það lögð, sem ég hygg að allir geti verið sammála um, að nauðsynlegt sé að kanna sem rækilegast, hvaða atvinnuframkvæmdir það eru eða aðrar framkvæmdir, sem bezt geti að því stuðlað að tryggja jafnvægi í byggð landsins.

Það er vert að gera sér grein fyrir því í sambandi við þetta mál. að reynslan hefur sýnt mjög áþreifanlega, að það eru ekki eingöngu atvinnumálin sjálf í þrengri merkingu, sem sköpum ráða um það, hvort helzt við byggð eða hún eflist í landinu á hinum einstöku stöðum. Þetta hefur orðið sérstaklega áberandi einmitt á síðustu árum, vegna þess að þá hefur hagur fólks batnað mjög víða um landið og það svo, að viða er atvinnulega séð miklu betra ástand en jafnvel á þéttbýlissvæðum. Það hefur hins vegar komið í ljós, að við auknar tekjur fólks gerir það mun meiri kröfur til lífsins á öðrum sviðum, þannig að ef ekki er unnið að umbótum jafnframt á sviði menningar- og félagsmála, þá er hætt við því, að jafnvel hin atvinnulega velmegun geti leitt til þess, að jafnvægisleysi skapist og fólkið telji sig ekki geta fengið í heimabyggð sinni þau þægindi, sem þéttbýlið getur veitt því og það hefur nú efni á að velta sér sjálft.

Það er hins vegar svo, að það má gera ráð fyrir og ég tel það fullkomlega eðlilegt, að atvinnujöfnunarsjóður hafi einnig í huga ýmislegt annað en atvinnumálin í hinni þrengri merkingu, þó að það hljóti auðvitað fyrst og fremst að vera verkefni sjóðsins að tryggja það, að nægilega blómlegt atvinnulíf verði á hverjum stað. Það verður jafnframt að koma fram, sem ég hygg að allir hv. þdm. fallist á, að einmitt með hliðsjón af uppbyggingu sjóðsins og því, að gert er ráð fyrir, að hann vinni með kerfisbundnum hætti að uppbyggingu atvinnulífs, þar sem skilyrði eru fyrir hendi, þá er auðvitað ekki með því sagt, að það eigi að verja fé til þess að halda uppi byggð hvarvetna á landinu. Það verður um leið að meta það, hvort það er arðbært og hagkvæmt þjóðfélagslega séð og jafnvel fyrir fólkið sjálft, sem þar býr, að byggð haldi áfram á öllum þeim stöðum, þar sem kann að vera búið í dag.

Þetta kom sérstaklega greinilega fram í hv. Ed. við meðferð málsins þar, og var raunar gerð breyting á 1. gr. frv., eins og hún upphaflega var í frv., er það var lagt fram, þar sem var lögð áherzla á, að sjóðnum bæri að styðja að uppbyggingu á þeim stöðum, þar sem yrði að telja, að byggilegt væri frá þjóðfélagslegu sjónarmiði.

Þetta er í stórum dráttum verkefni sjóðsins. Því eru sett mjög víð mörk, eins og menn sjá í frv., og það byggist á því, að það er ákaflega erfitt á þessu stigi að segja til um það, hvað verður ofan á í hinum einstöku áætlunargerðum, hvað það verður, sem talið verður nauðsynlegast að leggja áherzlu á, og því ekki talið æskilegt á þessu stigi að marka sjóðnum of þröngan bás.

Það er gert ráð fyrir því, að sjóðsstjórn verði kjörin af Alþingi, og fjöldi sjóðsstjórnarmanna við það miðaður, að allir þingflokkar geti átt þar sæti og að öll sjónarmið geti að því leyti komið fram í sjóðsstjórninni. Það verður um leið að leggja á það áherzlu, að það verði leitað eftir því að finna sem breiðast samkomulag fyrir starfsháttum sjóðsins, og það á upp lýsa það í þessu sambandi, að í atvinnubótasjóði, sem starfað hefur um nokkurt árabil, hefur það orðið niðurstaðan, að afgreiðslur sjóðsins hafa þar jafnan verið einróma, og einmitt það ætti að benda til þess, að það hafi verið lögð áherzla á að reyna að skoða málin frá sem flestum hliðum og láta sanngirni og rökrétta hugsun, hlutlausa hugsun þar ráða ákvörðunum manna.

Ég hygg ekki, að það sé ástæða til þess að bera neinn kvíðboga fyrir því, að stjórn þessa sjóðs geti ekki markað þær eðlileg starfsreglur innan þess víða ramma, sem hér er settur, og ætti því að vera ástæðulaust að setja reglurnar, a.m.k. á þessu stigi. Það er þá hægt að breyta því síðar, ef það sýni sig, að sjóðurinn starfar ekki á þeim grundvelli, sem Alþ. kynni að hafa ætlazt til.

Um sjóðinn að öðru leyti er það að segja, að það, sem mestu máli skiptir varðandi möguleika hans, er að sjálfsögðu það fjármagn, sem hann hefur yfir að ráða. Atvinnubótasjóður hefur haft 10 millj. kr. árlegt framlag úr ríkissjóði. Að vísu hefur hann stundum fengið allverulegar aukafjárveitingar til þess að bæta úr tilteknum vandamálum, sem skapazt hafa, en hinar lögbundnu fjárveitingar hafa verið miðaðar við 10 millj. kr. á ári. Hér er gert ráð fyrir, að stofnfé sjóðsins verði fjórþætt. Í fyrsta lagi eignir atvinnubótasjóðs, sem voru um síðustu áramót um 116 millj. kr. Hafði þá þegar verið afskrifað allmikið af þeim eignum, miðað við það, að á líðnum árum hefur að sjálfsögðu fé sjóðsins, atvinnuaukningarfénu áður, verið varið bæði til styrkja og til ýmiss konar lánveitinga, sem síðan hefur reynzt algerlega útilokað að innheimta. En eftir standa 116 millj. kr., sem að vísu má gera ráð fyrir að þurfi að afskrifa að einhverju leyti, en stjórn atvinnubótasjóðs hafði gert ráð fyrir, að yrði í meginefnum lögð áherzla á að innheimta, en hins vegar að breytt yrði lánsskilmálum og lánin lengd mjög verulega frá því, sem verið hefur, því að sannleikurinn er sá, að það er ekki fyrr en nú 2—3 síðustu árin, sem nokkrar alvarlegar ráðstafanir hafa verið gerðar til að innheimta þetta fé. En á s.l. 3 árum hafa samtals innheimzt rúmar 7 millj. kr. af því, sem atvinnubótasjóður hefur lánað og hafði verið lánað af fé til atvinnuaukningar, en fyrir langflestum þessara lána hafa á undanförnum árum verið tekin veð í viðkomandi framkvæmdum, nema þegar um lán til sveitarfélaga hefur verið að ræða.

Í annan stað er gert ráð fyrir, að framlag ríkissjóðs til sjóðsins verði 15 millj. kr. á ári næstu 10 ár, eða samtals 150 millj.kr., sem verði talið með stofnfé sjóðsins.

Þá er gert ráð fyrir því, að af tveimur þáttum mótvirðissjóðs verði lagðar til sjóðsins vissar fjárhæðir: Annars vegar af mótvirði óafturkræfs framlags Bandaríkjastjórnar 1960 5 millj. kr., sem eiga að greiðast sjóðnum á næstu 4 árum, 15 millj. kr. á ári 3 fyrstu árin og eftirstöðvarnar á fjórða ári. Og loks, að hálfu mótvirðissjóðs þess, sem hingað til hefur runnið til Framkvæmdabankans eftir ákveðnum reglum og greiðzt hefur af 3.6 millj. kr. á ári, renni eftirstöðvarnar til atvinnujöfnunarsjóðs, en það eru rúmar 40 millj. kr., og verði það greitt sjóðnum á næstu 4 árum, eða 10—11 millj. kr. á ári.

Þetta yrði stofnfé sjóðsins. Tekjur sjóðsins er hins vegar gert ráð fyrir, að verði annars vegar vaxtatekjur hans, sem miðað við stofnféð geta orðið verulegar upphæðir á næstu árum, eða þegar nokkrir tímar líða, en að öðru leyti, og er það að sjálfsögðu miklu veigameira mál, að til hans renni ákveðinn hluti af skattgjaldi álbræðslu, fyrstu 9 árin verði það um 70%, sem renni til atvinnujöfnunarsjóðs, en síðan 75%. Eins og hv. þdm. er kunnugt, eru skattgreiðslur álbræðslunnar nokkuð mismunandi eftir árabili. En gera má ráð fyrir skv. því, sem ég hef hér um getið, að tekjur atvinnujöfnunarsjóðs af þessu skattgjaldi verði á árunum 1970—1972 um 11.3 millj. á ári, næstu 2 árin 17 millj. kr. og árin 1976—1978 verði skattgjaldið, sem renni til sjóðsins, orðið 36.2 millj., síðan hækki það í 38 millj. og loks á árunum 1985—1987 verði það orðið 53.9 millj. og hækki þá enn, svo sem áætlun um skattgreiðslur álbræðslunnar gerir nánar grein fyrir og hefur verið margrætt í þessari hv. deild.

Skv. þessum tekjum mundi sjóðurinn smám saman byggjast upp allverulega, þannig að þegar á árinu 1966 mundi ráðstöfunarfé hans verða um 44 millj. kr., á næsta ári, 1967, um 50 millj. og síðan fara hækkandi ár frá ári og verða 1975 um 112 millj. kr. Er þá gert ráð fyrir því, að inn komi fé af þeim lánum, sem lánuð verði á næstu árum, en dregin verði þó frá nokkur fjárhæð árlega, sem gangi til styrkveitinga, og í þessari áætlun er aðeins gert ráð fyrir því, að af atvinnubótasjóðslánunum gömlu innheimtist í vöxtum og afborgunum 4 millj. kr. á ári, þannig að sú áætlun ætti að vera mjög hófleg.

Það er ekki gert ráð fyrir því í þessari áætlun, að styrkveitingar verði nema um 5% af fé sjóðsins árlega. Það kann að vera, að það verði nokkru meira, en þá er vert að benda á það, að gerð hefur verið breyting á l. um atvinnuleysistryggingasjóð, þar sem gert er ráð fyrir, að 1/4 hluta af vöxtum þess sjóðs verði heimilt að verja sem áhættulánum, sem raunar mundu í ýmsum tilfellum jafngilda styrkjum, og er í því efni m.a. gert ráð fyrir því, að á þessu ári verði allmiklu fé varið til þeirrar aðstoðar við sjávarútveginn, sem sérstaklega hefur verið lögð fram á árinu í ár varðandi Norðurlandið vegna erfiðleika útgerðarinnar þar, og að sá hluti verði veittur til atvinnujöfnunarsjóðs, þannig að á þessu ári mundi atvinnujöfnunarsjóður því ráðstafa um 50 millj. kr.

Það hefur komið fram hjá ýmsum í hv. Ed., og ég skal fúslega undir það taka, að æskilegra hefði verið, að þessi sjóður hefði haft yfir meira fé að ráða, en þegar á það er litið, ber að hafa það í huga, að auk þessara beinu fjárframlaga, sem ég hef hér gert grein fyrir, eru atvinnujöfnunarsjóði veittar mjög víðtækar lántökuheimildir hjá framkvæmdasjóði ríkisins annars vegar og jafnframt annaðhvort framkvæmdasjóðnum eða beint af hálfu atvinnujöfnunarsjóðs að taka erlent lánsfé. Það hefur t.d. , eins og hv. þdm. er kunnugt, verið í sambandi við samgönguáætlun Vestfjarða, að tekið hefur verið erlent lánsfé til þeirra framkvæmda, og kann vel að vera, að að því ráði verði einnig horfið varðandi framkvæmdir í öðrum landshlutum og á öðrum sviðum. Lántökuheimildirnar eru það víðtækar, að þær eru við það miðaðar, að atvinnujöfnunarsjóður fái nægilegt ráðstöfunarfé til að geta með eðlilegum hætti unnið að framgangi þeirra framkvæmdaáætlana fyrir einstök byggðarlög, sem gert er ráð fyrir að unnið verði að og atvinnujöfnunarsjóði verði sérstaklega falið að sjá um framkvæmd á. Í því sambandi er vert að leggja áherzlu á það, að atvinnujöfnunarsjóður á ekki að létta í einu né neinu hlutverki af öðrum stofnlánasjóðum, þannig að það fé, sem hér er um að ræða, kæmi algerlega til viðbótar því lánsfé, sem aðrir stofnlánasjóðir veita, og með þetta í huga, þá hygg ég, að við getum í rauninni verið sammála um það, að hér sé þó mjög verulegt spor stigið til þess að bæta aðstöðuna til hinnar atvinnulegu uppbyggingar og greiða fyrir því, að þær framkvæmdaáætlanir, sem gerðar verða, komi að raunverulegum notum og verði í reynd framkvæmdar. Kemur í því sambandi að sjálfsögðu margt til greina og eitt atriði þó alveg sérstaklega, sem ég vil leggja áherzlu á, og það er, að auðvitað er ekki nægilegt að gera áætlun um framkvæmdir, heldur verður að vera fyrir hendi það framtak heiman frá, að þar sé einhver forusta til staðar til þess að standa fyrir framkvæmdunum, því að reyndin er nú einu sinni sú, að það er ekki mjög heppilegt — og er þar vægilega að orði komizt — að byggja upp atvinnulíf staða, ef ekki er fyrir hendi á stöðunum sjálfum framtak manna til þess að standa að þessum aðgerðum og hafa um þær forustu og bera á þeim ábyrgð. Það hlýtur fyrst og fremst að vera hlutverk þessa sjóðs og er undirstaða allrar raunhæfrar uppbyggingar, ef hún á að ná nokkrum traustum árangri, að fyrir hendi sé á stöðunum vilji og framtak til að notfæra sér þá aðstoð, sem kynni að vera kostur á í sambandi við starfsemi atvinnujöfnunarsjóðsins.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar um málið, nema sérstaklega gefist til þess tilefni, en vil leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjhn.