28.04.1966
Neðri deild: 80. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

176. mál, Atvinnujöfnunarsjóður

Frsm. meiri hl. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Frv. þetta var lagt fram í hv. Ed., og gerði deildin engar verulegar breytingar á frumvarpinu.

Í aprílmánuði 1962 voru samþ. hér á hv. Alþ. lög um atvinnubótasjóð. Hlutverk sjóðsins var að veita lán eða styrki til þess að auka framleiðslu á þeim stöðum í landinu, þar sem þörfin er brýnust, og stuðla þannig að aukinni atvinnu og jafnvægi í byggð landsins. Stofnfé sjóðsins var þá ákveðið 100 millj. kr., sem greiddust með jöfnum greiðslum á næstu 10 árum, og eftirstöðvar lána þeirra, sem veitt höfðu verið til þess að bæta úr atvinnuörðugleikum á vissum stöðum á landinu. Sjóður þessi hefur síðar komið að verulegum notum, þar sem lánveitingar hans eða styrkir hafa oft og tíðum ráðið úrslitum um það, hvort unnt hefur verið að stofnsetja fyrirtæki úti um land, og einnig orðið til þess að hjálpa til í sambandi við rekstur margra fyrirtækja.

Með þessu frv., sem hér liggur nú fyrir, er lagt til af hálfu hæstv. ríkisstj., að stofnaður verði nýr sjóður, atvinnujöfnunarsjóður, sem taki að sér fyrrgreint hlutverk, að veita lán og styrki til framkvæmda í þeim landshlutum, þar sem brýn þörf er fjölbreyttara atvinnulífs. Er það í samræmi við yfirlýsta stefnu ríkisstj. um, að unnið verði eftirleiðis með skipulegri hætti að þessu nauðsynjamáli jafnframt því, sem ráðstöfunarfé f þessu skyni verði stóraukið frá því, sem verið hefur. Það er gert ráð fyrir því í stuttu máli, að stofnfé sjóðsins verði eignir atvinnubótasjóðs, sem námu á síðustu áramótum kringum 116 millj. kr. Þá er framlag úr ríkissjóði, 15 millj. kr., á næstu 10 árum, í fyrsta sinn nú á þessu ári, 55 millj. kr. af mótvirði óafturkræfs framlags Bandaríkjastjórnar 1960, sem greitt verður á árunum 1966—1969, 43 millj. af eftirstöðvum mótvirðissjóðs, sem greiða átti til Framkvæmdabanka Íslands, og komi þetta fé til ráðstöfunar á næstu 4 árum. Þá er einnig lagt

til, að sjóðurinn fái meginhlutann af skattgjaldi væntanlegrar álbræðslu við Straumsvík, sem gera má ráð fyrir að taki til starfa á árinu 1970.

Eins og fram kemur í aths. við frv., mun ráðstöfunarfé sjóðsins af eigin fjármunum nema á yfirstandandi ári 44 millj., á næsta ári 50 millj., og það fer síðan ört hækkandi og verður í kringum 112 millj. á árinu 1975.

Í 6. gr. frv. er veitt heimild til lántöku hjá framkvæmdasjóði ríkisins, og einni er þar veitt heimild til þess, að sjóðurinn megi taka allt að 300 millj. kr. erlent lán. Ef þessar heimildir verða notaðar, mun geta sjóðsins að sjálfsögðu mjög mikið aukast.

Fjhn. hefur athugað frv. efnislega, og allir nm. hafa lýst yfir stuðningi sínum við frv. En minni hl. n. hefur þó kosið að skila séráliti, og einnig flytur hann nokkrar brtt. við frv. Hins vegar leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþ. óbreytt.