28.04.1966
Neðri deild: 80. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

176. mál, Atvinnujöfnunarsjóður

Frsm. 1. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef kosið að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. í sérstöku nál., se prentað er á þskj. 590. Í því kemur fram, að ég get stutt frv., svo langt sem það nær, en tel hins vegar, að miklu meira þurfi til að koma, til þess að verulegur árangur eigi að fást til lausnar á þeim vandamálum, sem við er glímt í sambandi við flutning á þessu frv. Með þessu frv. er að vísu gert ráð fyrir því, að nokkru meira fjármagn gangi til stuðnings byggðarlögum úti á landi, þar sem skortur er á atvinnu, heldur en verið hefur nú um nokkra hríð. En þó er hér ekki um neinar stórbreytingar að ræða frá því, em verið hefur. Og sérstaklega er það ljóst, að breytingarnar koma tiltölulega seint, og ef það er svo haft í huga, að einmitt nú er verið að gera ráðstafanir til þess að efna til stórframkvæmda hér í aðalþéttbýli landsins, er ósköp hætt við því, að sá fjárstuðningur, sem yrði samkv. þessu frv., kæmi að harla litlu gagni til þess að vega á móti þeim áhrifum, sem þær miklu framkvæmdir hlytu að hafa á byggðajafnvægið í landinu. Ég tel, að með sérstöku tilliti til þessara stórframkvæmda þurfi að taka hér miklu rösklegar til hendinni en gert er samkv. þessu frv. Þó legg ég á það höfuðáherzlu í sambandi við það vandamál, sem hér er um að ræða, að ég tel, að það sé ófullnægjandi með öllu að treysta á hjálparsjóð svipaðan þeim, sem gert er ráð fyrir að mynda samkv. þessu frv., sem hefði það hlutverk að veita aðstoðarlán eða viðbótarlán og í vissum tilfellum nokkra styrki. Ég held, að ef á að takast að stöðva fólk flóttann utan af landi, þá þurfi að koma til miklu samfelldari ráðstafanir af hálfu hins opinbera heldur en slíkar styrkja- eða lánveitingar sem hér er um að ræða.

Það, sem sérstaklega mundi koma að gagni að mínum dómi, væri, að yfirstjórn fjárfestingarmála í landinu væri með þeim ætti, að samkv. yfirlögðu ráði yrði að því efnt að byggja upp atvinnulífið á raunhæfan átt víða úti á landi, þar sem fólkinu fækkar nú mest og þar sem mest þrengir að í þessum efnum nú.

Það er enginn vafi á því, að það þarf að gera stórfelldar ráðstafanir varðandi framkvæmdir í landinu og uppbyggingu atvinnulífsins til frambúðar á þann hátt, að að því sé stefnt að treysta undirstöðurnar einmitt í þeim landshlutum, þar sem hin atvinnulega undirbygging er veikust nú. Þetta er gert að meira eða minna leyti í ýmsum nálægum löndum, þar sem upp hafa komið vandamál af svipuðu tagi og það, sem við glímum við í þessum efnum. Það er alkunna, að t.d. í Bretlandi er það þannig, að ýmsum fyrirtækjum stendur þar til boða að fá tiltölulega hagstæð framkvæmdalán og jafnvel beina styrki og ákveðin skattfríðindi, ef þau ráðast í byggingu á sínum verksmiðjum í þeim héruðum landsins, þar sem erfiðleikar eru af þessu tagi, en slík fyrirtæki eiga hins vegar ekki kost á því að fá stofnlán til sinna framkvæmda, ef þau hugsa sér að byggja sínar verksmiðjur í þéttbýlinu. Enn þá sterkari tökum eru þessi mál tekin víða annars staðar, þar sem settar eru á stofn stofnanir af hálfu hins opinbera, sem hafa mikil fjárráð og geta beinlínis staðið fyrir uppbyggingunni og fylgt á eftir þeim rekstri, sem er verið að byggja upp. Ráðstafanir af þessu tagi, held ég, að þurfi að koma til frá okkar hálfu, jafnhliða því sem gerðar væru síðan ráðstafanir á ýmsum öðrum sviðum en beinlínis á atvinnumálasviðinu, t.d. varðandi menningarmál eða skólamál almennt, einnig varðandi ýmiss konar þjónustu. Ef skipulega væri unnið að því að leysa vandamál landsbyggðarinnar á þessum sviðum fyllilega til jafns við það, sem þekkist í fjölbýlinu, en ekki gera strjálbýlið á þann hátt háð fjölbýlinu í þeim efnum öllum, eins og það er nú, þá held ég, að það mundi takast að snúa straumnum við.

En þótt um sé að ræða hjálparsjóð, sem getur lánað út á ári hverju 30 millj. eða 40 millj., sem dreift verður til margra aðila sem smávægileg viðbótarlán eða styrkir til þess að halda uppi atvinnu, í mörgum tilfellum í mjög svipuðu formi og verið hefur, slíkar ráðstafanir held ég, að komi að harla litlu gagni, enda höfum við beinlínis fyrir augum okkar reynsluna af slíkum ráðstöfunum. Ég vil þó ekki segja, að sjóður svipaður þeim, sem hér er gert ráð fyrir að byggja upp, geti ekki komið að nokkru gagni og auðvitað því meira gagni, sem hann ræður yfir meira fjármagni. En ég held þó, að Alþ. þurfi að gera sér grein fyrir því, að þessi miklu vandamál varðandi misvægið í byggð landsins verða ekki leyst eftir þessari styrkjaleið. Það þarf að taka þau allt öðrum tökum. Það bætir lítið úr að mála upp á óraunhæfan hátt það, sem raunverulega er verið að gera í þessum efnum. Hér eru menn t.d. í sambandi við þetta mál að reikna út alllangt fram í tímann, a.m.k. 1—2 áratugi, hvað geti komið há fjárhæð út úr þeim fjárveitingum, sem hér er verið að ákveða, og á þann hátt er auðvitað, þegar 10—20 ár eru lögð til grundvallar, hægt að fá allmyndarlega fjárupphæð út úr dæminu, og svo er þessu hampað og í það látið skina, að hér muni nú um tiltektirnar. Þannig er þessu t.d. varið í sambandi við uppsetningu 2. gr. þessa frv. B-liður gr. er um það, að framlag ríkissjóðs skuli vera 150 millj. kr., sem greiðist með jöfnum fjárhæðum á næstu 10 árum, í fyrsta sinn á árinu 1966. En framlagið til atvinnubótasjóðs, sem starfað hefur að sama verkefni, er t.d. á fjárl. nú 15 millj. kr., og fjárveitingar til þessa sjóðs hafa um langan tíma verið mjög nærri þessari upphæð. Það breytir því engu að leggja þetta nú saman fram í tímann í 10 ár og fá þannig út 150 millj. kr. og halda slíku á loft, því að það gefur aðeins falskar vonir. Sannleikurinn er sá að ég teldi í rauninni miklu eðlilegra að tilgreina, að framlag á fjárl. skyldi nú vera 15 millj. kr., því að ef verðlagsþróunin verður eitthvað svipuð á næstu 10 árum eins og hún hefur verið á næstliðnum 10 árum, þyrftu auðvitað þessar 15 millj. að vera orðnar að 30 millj. á ári a.m.k.. ef hin raunverulega fjárveiting ætti að koma að hliðstæðum notum þá eins og 15 millj. kr. fjárveitingin gerir nú. En það er rétt, það er þó gert ráð fyrir í þessu frv. að auka framlögin til þessa sjóðs frá því, sem verið hefur, og það ber vitanlega að fagna því út af fyrir sig.

Ég hef leyft mér að flytja hér brtt. við frv. á þskj. 591. Það eru sams konar till. og hv. 4. þm. Norðurl. e. flutti í Ed., þegar þetta mál var þar til afgreiðslu. Samkv. þeim till. er gert ráð fyrir að auka tekjur þessa sjóðs talsvert frá því, sem lagt er til í frv., m.a. að sjóðurinn fái nú þegar 100 millj. kr. af því fé, sem geymt er á bundnum reikningi í Seðlabankanum. Þetta fé er til staðar, og það er hægt að verja því í þessu skyni, ef vilji er fyrir hendi, og ég sé enga ástæðu til þess að binda þetta við aðeins 55 millj. kr. og gera síðan ráð fyrir því, að þessar 55 millj. kr. skuli greiddar sjóðnum á næstu 4 árum. Það er hægt að láta sjóðinn hafa álit þetta fé strax, og það mætti vera ríflegra en það er samkv. frumvarpinu.

Þá legg ég einnig til, að þessi sjóður fái fast framlag á fjárl., sem nemi 1 1/2 % af áætluðum skatt- og tolltekjum ríkissjóðs á viðkomandi fjárlagaári. Þessi tekjustofn mundi auka tekjur sjóðsins allverulega, og þó fer fjarri því að mínum dómi, að hér séu gerðar till. um nægilegt ráðstöfunarfé handa slíkum sjóði sem þessum ef hann ætti að geta leyst verkefni sitt vel af hendi.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál. Mál þetta hefur verið hér oft til umr. áður, dreifbýlisvandamálið, og skoðanir manna og flokka hafa komið fram í því. En með sérstöku tilliti til þess, sem nú er verið að gera í atvinnu- og efnahagsmálum landsins, og þar á ég fyrst og fremst við þær stóriðjuframkvæmdir, sem eru fyrirhugaðar hér í þéttbýlinu, er vitanlega nú enn þá meiri þörf en áður að gera myndarlegt átak í þessum efnum, annað tveggja að áætla þeim sjóði, sem á að veita stuðningslán og styrki, miklu meira fjármagn en gert er ráð fyrir í þessu frv. eða þá að unnið verði að því, sem ég teldi langsamlega þýðingarmest, að unnið yrði að því á skipulegan hátt að beina fjárfestingunni í ýmsum efnum til þeirra héraða, þar sem vandinn er mestur í þessum málum nú, en það er vitanlega hægt, ef yfirstjórn er á efnahagsmálum landsins, þá er hægt að vinna að lausn þessara mála eftir þeirri leið.

Ég vænti þess, að þær brtt. fáist nú samþ., sem ég flyt hér, en það skal þó tekið fram, að ég tel, að frv. stefni þó, það sem það er, í rétta átt.