25.04.1966
Neðri deild: 77. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

187. mál, lántaka vegna framkvæmdaáætlunar 1966

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þegar fjárlög voru hér til meðferðar fyrir áramótin, skýrði ég frá því, að ég teldi eðlilegast, að í stað þess að taka upp í fjárl., eins og oft hefur verið, ýmsar heimildir til lántöku til ýmissa framkvæmda, yrðu slíkar heimildir ekki teknar upp í fjárlög þá, heldur yrði það tekið til athugunar, eftir að gengið væri frá framkvæmdaáætlun fyrir árið 1966, hvaða heimilda væri þörf til lántöku vegna þeirrar framkvæmdaáætlunar, og þá yrði sameiginlega leitað heimildar Alþ. með sérstöku lagafrv. til að taka þau lán. Frá framkvæmdaáætluninni hefur nú verið gengið, og er fyrirhugað að gefa Alþ. skýrslu um áætlun þessa og ýmis atriði í sambandi við hana, svo og einnig grg. um þróun efnahagsmála síðustu árin, þar eð þetta er lokaár þeirrar áætlunar, sem gerð var 1963 sem rammaáætlun til fjögurra ára Mun þar að sjálfsögðu koma ljósar fram, hversu eigi að hagnýta það fé, sem hér er gert ráð fyrir að afla með frv. þessu, en segja má þó, að í frv. sjálfu sé að finna nokkurn veginn skýringar á því, hvernig hagnýta eigi þetta fjármagn.

Hér er um að ræða samtals rúmar 178 millj. kr., og skiptist það þannig, að í fyrsta lagi er gert ráð fyrir, að teknar verði 13.5 millj. vegna flugvalla og vegagerða á Vestfjörðum. Það er annar þáttur samgönguáætlunar Vestfjarða, sem hér er um að ræða. Hér í er ekki reiknað með hafnargerðum, enda þarf ekki til þeirra sérstakar lántökuheimildir.

Þá er í öðru lagi um að ræða að heimila að taka að láni allt að 318 þús. dollara vegna sanddæluskips, sem vita- og hafnamálastjórnin hefur fest kaup á. Það var gerð athugun á því af hálfu vitamálastjóra, hvort ekki væri auðið að koma við þessum framkvæmdum vitamálastjórnarinnar með hagkvæmara hætti en tekizt hefur að gera hingað til. Það kom í ljós, að auðið var að festa kaup á tækjum, sem voru í senn afkastamikil og eigi heldur það dýr, að sýnilegt var, að með eðlilegum rekstri þeirra væri hægt að vinna stóra áfanga í sambandi við sanddælingu og standa undir þeim kaupum að fullu, en jafnframt að lækka mjög verulega kostnaðinn við dælinguna. Það þótti því augljóst, að hér væri um svo tvímælalaust hagkvæm kjör að ræða, að sjálfsagt væri að kaupa þessi tæki, og hefur tekizt að afla lánsfjár til þeirra, en hins vegar skortir heimild til þess að taka það lán, og er farið fram á slíka heimild hér.

Í þriðja lagi er leitað eftir því, að taka megi allt að 6 millj. kr. lán vegna öryggistækja flugmálastjórnarinnar. Það er nú komið í ljós í sambandi við grg. mína fyrir framkvæmdaáætluninni, að framkvæmdir í flugmálum verða mjög verulegar á þessu ári, og er þar þó fyrst og fremst um að ræða flugöryggisþjónustuna. Það er brýn nauðsyn, miðað við hið stóraukna flug hér, einkum innanlands, að þar verði öryggisþjónusta bætt svo sem verða má, og mun verða auðið að fá lán til þess að greiða hluta af andvirði þeirra tækja, sem nauðsynlegt er að kaupa vegna öryggisþjónustunnar, og er það sú fjárhæð, sem hér er leitað heimildar Alþ. til þess að mega taka að láni.

Þá er í fjórða lagi farið fram á heimild til að taka allt að 45.5 millj. kr. lán vegna framkvæmda í raforku- og jarðhitamálum. Svo sem hv. dm. er kunnugt, var sú fjárhæð, sem sérstaklega var veitt til framkvæmda í rafvæðingarmálum, annars vegar tengd raforkusjóði og hins vegar rafvæðingu sveitanna, þannig að til þess, sem gera þarf á vegum rafmagnsveitna ríkisins til uppbyggingar dísilstöðva og annarra framkvæmda, verður að taka lán. Er hér leitað heimildar til þess að taka umrætt lán, sem fellur þá innan ramma þeirrar framkvæmdaáætlunar, sem gerð hefur verið í sambandi við þessi mál, raforku- og jarðhitamálin.

Þá er loks leitað eftir því að fá heimild til þess að gefa út til sölu innanlands svokölluð spariskírteini, allt að 100 millj. kr. Þetta hefur verið gert í tvö ár og reynslan af því verið mjög góð. Hér er um verðtryggð bréf að ræða eða vísitölutryggð, og hefur tekizt að selja öll þau bréf. sem boðin hafa verið til sölu. Á s.l. ári voru boðnar út 75 millj. kr., sem seldust að fullu, og þykir ástæða til að ætla, að auðið mundi verða að selja nú bréf fyrir 1 millj. kr., enda er óumflýjanlegt að gera það, ef auðið á að vera að afla þess fjár, sem þarf til framkvæmdaáætlunarinnar. Það er gert ráð fyrir, að þetta lán verði boðið út með svipuðum kjörum og fyrri lán, og í 8. gr. frv. er tekið fram sundurliðað, til hverra þarfa eigi að nota þetta fé, sem fæst með sölu spariskírteinanna, og svo sem hv. þdm. mun vafalaust ljós vera af deilingu þess fjár, er þar um að ræða framkvæmdir, sem ég hygg óhætt að megi fullyrða, að allir muni sammála um, að nauðsynlegt sé að vinna að sem bezt. En það kemur einnig nánar í Ijós við grg. fyrir framkvæm áætluninni, hvaða framkvæmdir það eru, se hér er sérstaklega átt við í hverju þessar tilfella, sem í gr. er að vikið.

Þetta frv. var samþ. einróma í hv. Ed., og vildi ég leyfa mér að vænta þess, að þessi hv. d. gæti fallizt á að taka frv. með sama ætti, og jafnframt, að auðið væri að afgr. að sem fyrst hér í d., m.a. vegna þess, að áformað er að hefja útgáfu viss hluta spariskírteina nú svo fljótt sem við verður komið. Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að a lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.