21.10.1965
Neðri deild: 5. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Frv. því, sem hér er til umr., er m.a. ætlað að heimila, að sett verði verðtrygging á lán, sem veitt eru til íbúðabygginga. Er ætlunin að láta á þennan hátt verðtryggingu vega á móti þeim verðbólgugróða, sem íbúðareigandi getur hlotið, þegar verðlag breytist.

Hér á landi er byggt mjög mikið af íbúðum samkv. sérstökum lögum. Þ. á m. eru verkamannabústaðir, sem njóta sérstakra hlunninda og eru ætlaðir fyrir þann 1/10 hluta launþega, sem lökust hefur kjör. Í l. um verkamannabústaði er beinlínis tekið fram, að þeir, sem þá eiga, hafi ekki heimild til að endurselja íbúðir sínar á þann hátt, að þeir njóti þess, sem kalla mætti verðbólgugróða, eða þeirrar verðhækkunar, sem verður á íbúðunum. Mér virðist, þegar bannað er með l. um sérstakar íbúðir, að eigendur þeirra megi selja þær á gangverði og njóta þeirrar verðbólguhækkunar, sem verður á íbúðunum, að þar sé ekki sanngjarnt að leggja á lán til þeirra íbúða verðtryggingu.

Af þessum ástæðum hyggst ég flytja brtt., sem mundi verða við 4. gr. og á þá lund, að aftan við b-lið þeirrar gr. bætist þessi orð: „Þó má eigi verðtryggja lán til íbúða, ef endursala þeirra með verðhækkun á hverjum tíma er takmörkuð í lögum.“ Ég vænti þess, að sú n., sem fær frv. til athugunar, taki þessa brtt. einnig til vinsamlegrar athugunar.