24.03.1966
Neðri deild: 59. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Hv. 6. landsk. (DÓ) hefur nú gert grein fyrir áliti meiri hl. um það frv., sem hér er til umr. Hann hefur réttilega skýrt frá því, að við í fjhn. höfum ekki getað orðið sammála um afgreiðslu málsins að svo stöddu a.m.k., þar sem við 3 nm., þ.e. hv. 1. þm. Norðurl. v. og hv. 5. þm. Austf. ásamt mér, leggjum til, að málinu verði frestað enn um skeið og þess freistað að semja betra frv. með ákveðnari fyrirmælum um framkvæmd þessa mikilsverða máls, og það verði aftur lagt fyrir til meðferðar á hv. Alþ. að þeirri athugun lokinni. Ég mun nú leyfa mér að gera grein fyrir nál. okkar þremenninganna og rökstyðja það, á hverju við byggjum þessa till., sem ég nú lýsti.

Það er vissulega rétt, sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, að það er alllangt síðan ýmsir hér á hv. Alþ. hafa gert sér grein fyrir því, hver skaðvaldur verðbólguþróunin er, og allra tiltækra ráða þyrfti að leita til þess að sporna við henni. Ein af þeim ráðstöfunum, sem menn hafa komið auga á í þessu skyni, er verðtrygging sparifjárins, og það er alveg rétt, að það var einmitt hinn 5. febr. 1953, sem Alþ. samþ. þáltill. frá hv. 1. þm. Norðurl. v., sem nú er, og tveim öðrum þm. Framsfl. um að láta fara fram athugun á því, hvort og með hverju móti mætti takast á hagfelldan hátt að tryggja verðgildi þess fjár, sem bankar og sparisjóðir taka til geymslu og ávöxtunar. Þessi athugun mun hafa farið fram, en það varð ekkert af framkvæmdum. En hugmyndin var þó ekki lögð til hliðar, og á tveimur þingum árið 1959 var enn borin fram till. til þál. um athugun á þessu máli, — ég hygg, að flm. hennar hafi þá verið hv. núv. 3. þm. Norðurl. v., Ólafur Jóhannesson, — en sú till. fékk ekki afgreiðslu, og sama er að segja um þáltill., sem bornar voru fram á þingunum 1963 og 1964, að þær fengu ekki þinglega afgreiðslu. En vera má, að ástæðan til þess, að svo fór um a.m.k. síðustu till., hafi verið sú, að hæstv. ríkisstj. hafi þá þegar verið farin að huga að undirbúningi þess frv., sem nú sér hér dagsins ljós, og ég vona, að svo sé.

Það er ekki nema eðlilegt, að alþm. leiði hugann að því, hvernig verðbólgan og verðfall peninganna leikur efnahagskerfi landsins, svo mjög sem við höfum séð áþreifanleg dæmi um það nú á síðustu árum. Íslenzkt fjármálalíf hefur raunar á síðustu áratugum öðru fremur einkennzt af sífelldu verðfalli peninga. Þarf ekki mörgum orðum að eyða að lýsingu þess, hver óheillaáhrif slíkt hefur fyrir efnahagslíf landsins, og verðfall peninganna er vissulega ein meginorsök þess verðbólguvaxtar, sem hér hefur átt sér stað. Innlendur sparnaður er vitanlega, fyrir okkur Íslendinga sem aðra, ein mikilvægasta forsenda þróttmikillar og heilbrigðrar efnahagsstarfsemi. Afleiðingin af því verðfalli peninga, sem átt hefur sér stað hér á undanförnum áratugum, er hins vegar ónógur sparnaður, þ.e. að fólk hefur ekki haft trú á að leggja fé sitt til ávöxtunar í banka og sparisjóði, heldur veitt því í aðrar leiðir. Enn fremur hefur lánastarfsemi vegna lítillar sparifjármyndunar markazt í auknum mæli af stuttum og óhagkvæmum lánum úr bankakerfinu, og það er víst óhætt að segja: vaxandi lánastarfsemi utan bankakerfisins, það er víst áreiðanlega öllum ljóst, hve brögð hafa vaxið að þeirri starfsemi að undanförnu. Sá gróði, sem verðfall peninganna hefur skapað þeim, sem taka lánin, hefur valdið æðisgengnu kapphlaupi um það takmarkaða lánsfé, sem fyrir hendi er hverju sinni, og leitt til mikillar verðbólgufjárfestingar. Þeir, sem hafa getað fengið fé að láni, hafa getað nokkuð treyst því, að verðbólgan mundi sjá til þess að standa undir lánunum, að hún mundi auka þeirra hlut. En sú endurskipting eigna í þjóðfélaginu, sem á sér stað með þessum hætti, að þeir, sem spariféð eiga, séu sífellt að tapa, en þeir, sem lánin taka, séu sífellt að græða, er ósanngjörn og mjög óæskileg. Þess vegna er það vafalaust, að mikill ávinningur væri að því, ef hægt væri að skapa jafnvægi í þessum málum, og það er skoðun margra og líklega flestra, sem um þetta hafa fjallað, að verðtrygging sparifjár og annarra fjárskuldbindinga mundi verða stórt skref í þessa átt, ef takast mætti að framkvæma eftir heppilegum leiðum. Þess vegna er hér um mjög stórt og þýðingarmikið mál að ræða, og ég vil segja, að þeim tíma sé vel varið, sem fer til þess að finna þær heppilegustu leiðir í þessu máli, sem fyrir hendi eru.

Ég get farið fljótt yfir það að rekja þá sögu verðtryggingar, sem hér hefur átt sér stað að undanförnu. Hv. 6. landsk. gerði það áðan. Eins og hann nefndi, er þetta á aðeins mjög takmörkuðu sviði, að því er tekur til innlána aðeins á tveim mjög litlum sviðum, þ.e.a.s. sparifjársöfnun skólabarna, sem aðeins mun nú nema um 1 1/2 millj. kr., og skyldusparnaður ungs fólks, sem nemur nokkru meira, en er þó líklega ekki enn nema um 200 millj. kr. En þegar haft er í huga, að álit sparifé landsmanna er 7700 millj. kr. um s.l. áramót, sést vitanlega, hversu örlítið brot af sparifé landsmanna hefur fram til þessa verið verðtryggt, svo lítið brot, að enga ályktun er hægt að draga af þeirri reynslu, sem fengizt hefur og skiptir raunar engu máli í þessu sambandi.

Að því er tekur til útlánanna hafa að vísu heldur stærri skref verið stigin. Munar þar vitanlega mest um það, sem gert var með samkomulagi ríkisstj., atvinnurekenda og verkalýðsfélaganna í júnímánuði 1965, þegar samið var um það, að lán frá húsnæðismálastofnun skyldu öll vera verðtryggð miðað við vísitölu.

Hitt dæmið um verðtryggingu í útlánum er að finna um skuldabréfalán ríkissjóðs, þau sem boðin voru út 1964 og 1965, þar sem miðað er við byggingarvísitölu. Þar er um 150 millj. kr. upphæð að ræða. Ég vil því segja, að þrátt fyrir þau ummæli, sem hv. 6. landsk. lét hér falla áðan þess efnis, að hér væri ekki um neinn nýgræðing að ræða, og rökstutt var með því, að þáltill. hefðu fyrr verið bornar fram um þetta mál, vil ég þó segja, að hér sé raunar, þegar betur er skoðað, um algert nýmæli að ræða, þar sem hér er í fyrsta skipti gerð tilraun til þess að setja heildarlöggjöf um verðtryggingu fjárskuldbindinga.

Það var svo seint í aprílmánuði árið 1965, sem hæstv. ríkisstj. lagði fram frv. það, sem hér um ræðir, um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Það

mál hlaut þá enga afgreiðslu, var ekki vísað til nefndar. En í þingbyrjun nú var málið endurflutt í óbreyttu formi, og það er rétt, að þetta mál hefur verið alilengi í athugun hjá fjhn, með nokkrum hvíldum á milli þó.

Frv. sendum við til umsagnar viðskiptabankanna, fengum svör frá þeim allmörgum, og enn fremur kom dr. Jóhannes Nordal til fundar við okkur og skýrði sum þau ákvæði, sem við vorum ekki vissir um, hvernig skilja bæri.

Þetta frv. er samið í heimildarformi. Samkv. 3. gr. frv. á Seðlabankinn að hafa umsjón með framkvæmd laganna. Honum er ætlað að veita heimildir til verðtryggingar, nema þar sem hún er annars staðar ákveðin í lögum, og umsóknir um heimildir til verðtryggingar á að senda bankaeftirliti Seðlabankans. Að vísu eru þó í frv. talin nokkur almenn skilyrði um verðtryggingu. Það er aðallega í 4. gr., þar sem segir, að verðtrygging skuli yfirleitt miðuð við vísitölu framfærslukostnaðar og verðtrygging skuli fyrst og fremst heimiluð í fjárskuldbindingum, sem eru tengdar öflun fasteigna eða annarra fjármuna, sem ætla má að hækki í verði með almennum verðlagsbreytingum.

Þrátt fyrir þessi almennu ákvæði, sem svo eru orðuð, eins og ég nú las, eru engar fastar reglur í frv. um það, hvernig framkvæma beri verðtryggingu. Við, sem stöndum að nál. minni hl., teljum hins vegar, að þar sem um svo þýðingarmikið mál er að ræða sem ég nú hef gert grein fyrir og allir eru sammála um, væri ákjósanlegra, að löggjöfin væri ákveðnari um ýmsa þætti þess en hún mundi verða, ef þetta frv. væri samþ. óbreytt, eða þó að það væri samþ. með þeirri breytingu, sem hv. meiri hl. leggur til.

Í sambandi við framkvæmd verðtryggingar, eins og hún er ráðgerð samkv. þessu frv., vakna ýmsar spurningar, sem ég tel að mjög væri þýðingarmikið að svarað yrði, áður en Alþ. tekur afstöðu til frv., spurningar, sem hefur verið varpað fram bæði hér við 1. umr. málsins og eins við meðferð þess í hv. fjhn., en hafa ekki fengizt svör við eða a.m.k. ekki fullnægjandi svör. Ég get nefnt nokkur atriði, sem ég tel skipta miklu máli um það, hvernig verðtryggingin tekst eða hvernig ætla má, að verðtryggingin takist, og atriði, sem að mínum dómi þyrfti að ákveða nánar, áður en heimildarlögin eru sett.

Í fyrsta lagi vil ég leyfa mér að nefna það, að það liggur ekki fyrir, hvernig verðtrygging verður framkvæmd á sparifé því, sem geymt er í bönkum og sparisjóðum. Þegar dr. Jóhannes Nordal kom til viðtals við okkur fjhn.-menn um þetta mál, upplýsti hann, að framkvæmdin væri hugsuð þannig, að í fyrsta lagi yrði tekin upp verðtrygging á útlánum lífeyrissjóða og líftryggingarfélaga. Í öðru lagi yrði tekin upp verðtrygging á útlánum opinberra fjárfestingarlánasjóða. Í þriðja lagi sagði hann: Það er hugsanlegt að taka upp verðtryggingu í sambandi við viðskipti manna á meðal, þó allt með heimild frá Seðlabanka. Og í fjórða lagi sagði hann svo, eftir því sem ég hef skrifað hér upp eftir honum: í fjórða lagi kemur svo tilraun með banka og sparisjóði, tilraun til þess að skapa þar verðtryggingu smám saman, og ráðgert er í fyrsta lagi í byrjun að taka upp verðtryggingu á sparisjóðsviðskiptum til alllangs tíma, enda er í frv. talað um, að sparifé verði að vera bundið til 3 ára til þess að njóta verðtryggingar, enda þótt að vísu séu undantekningar leyfðar í sjálfu frv.

Hvernig verður þetta þá í framkvæmd? Ef húsnæðislánin eru verðtryggð, ef lán lífeyrissjóða og líftryggingafélaga eru verðtryggð, ef lán frá opinberum fasteignalánasjóðum eiga líka að vera verðtryggð, þá má segja, að nokkuð sé séð fyrir fjárfestingarlánunum og verðtryggingu að því er þau snertir. En þá er allt spariféð eftir. Sparifé landsmanna, sem lánað er út, mest til rekstrarlána, á að vera óverðtryggt eða verðtryggt að mjög óverulegu leyti. Ég hefði talið, að ein meginástæða til þess að setja lög um verðtryggingu fjárskuldbindinga væri a.m.k. ekki síður sú að tryggja sparifjáreigendum, að verðgildi eigna þeirra rýrni ekki. Mér finnst samkv. þessu frv., að áherzlan sé ekki fyrst og fremst lögð á þetta þýðingarmikla mál. Og ef það á að verða svo, að spariféð verði verðtryggt aðeins að mjög litlu leyti, er þá ekki hætt við því, að verðtryggingin og þau lög, sem hér á að setja, stöðvi ekki verðbólguna, eins og þeim þó er ætlað? Ef það verður svo, að mestur hluti sparifjárins er eftir sem áður lánaður út óverðtryggður, 7000 millj., eða hvað það nú er, eru þá líkur til þess eða standa þá vonir til þess, að þau útlán, sem lánuð eru til fjárfestingar í þeim greinum, sem ég áður nefndi, nægi ein til þess að hafa þau áhrif, að verðbólgan fari minnkandi, að verðbólguvöxturinn fari minnkandi? Nú má auðvitað segja, að það sé allt á huldu um það, hversu mikið af sparifé leiti inn á brautir verðtryggingar og lögin séu einmitt höfð í heimildarformi til þess, að það sé hægt að ráða því, hversu mikið sparifé lendi inn á þessar brautir. En einhverja hugmynd verða menn þó að reyna að gera sér um það, hversu mikið af þessu sparifé leiti í þennan kanal. Og einn af þeim aðilum, sem sent hafa umsögn um frv., það er Landsbanki Íslands, hefur reynt að gera sér grein fyrir því, hversu mikið af sparifé bankans geti farið inn á verðtryggingarbrautir. Og mig langar til þess að gera örstutta grein fyrir því, hvað Landsbankinn segir um þetta, með leyfi forseta:

„Í 4. gr. C. er gert ráð fyrir því, að lágmarkstími verðtryggðra fjárskuldbindinga verði 3 ár, en þó má Seðlabankinn samkv. 5. gr. stytta þann tíma, að því er innlán varðar. Enn fremur hefur oss skilizt, að nú sé ætlunin að bæta við 5. gr. umboði til Seðlabankans til að heimila bönkum og öðrum innlánsstofnunum að veita skemmri verðtryggð lán, ef nánari skilyrðum er fullnægt, enda séu slík lán eigi verðtryggð nema allt að 50% höfuðstóls og vaxta,“ — og ég skýt því hér inn í, að brtt. er einmitt komin fram um þetta frá meiri hl. fjhn. Landsbankinn segir áfram: „Nú er þetta að vísu allt í heimildarformi og því allt í óvissu um, hvað yrði heimilað og með hvaða skilyrðum. Ákvæði 5. gr., sem leyfir Seðlabankanum að heimila verðtryggingu innstæðufjár til skemmri tíma en 3 ára, sbr. og ummæli í aths. við frv., freistar þó til þeirrar ályktunar, að hér sé um það að ræða að koma á almennri verðtryggingu sparifjár, sem allir eigi kost á, sem fáanlegir séu til að binda innstæðuna í þann lágmarkstíma innan 3 ára markanna, sem Seðlabankinn segir til um. Enginn vafi leikur á því, að almenningur hefur lagt þann skilning í frv., að hér sé ætlunin að koma á slíkri almennri úrlausn.

Þá kemur til athugunar, hvaða getu viðskiptabankarnir hafa til að leysa það hlutverk, sem þeim væri þarna lagt á herðar. Til glöggvunar má nefna nokkrar tölur úr reikningi Landsbankans.“ — Ég sleppi nú því, en svo heldur áfram: „Hversu mikinn hundraðshluta af sparifénu mundu eigendur óska eftir að fá verðtryggðan? Þessu er ekki hægt að svara nema með ágizkunum, því að auk hinnar almennu óvissu um undirtektir almennings um alla fjárbindingu, er ekkert vitað um það, hvaða skilyrði Seðlabankinn mundi setja fyrir þeim heimildum, sem hann kynni að veita. Ef sparifjáreigendur gætu fengið verðtrygginguna sér að meinfangalausu, mundu þeir að sjálfsögðu vilja verðtryggja 100%. En eftir því sem tímalengd bindingarinnar eykst, má ætla, að dragi úr ásókninni, en eins og getið var að framan, ákveður Seðlabankinn lágmarkstíma bindingarinnar, og er greinilega gert ráð fyrir, að hann verði lægri en 3 ár. Þá hljóta vextirnir að hafa áhrif á eftirspurn eftir verðtryggingunni.“

Svo heldur Landsbankinn áfram að reyna að gera sér grein fyrir því, hversu mikið af innstæðufé sínu hann gæti með góðu móti lánað út með verðtryggingu, og kemst að þeirri niðurstöðu, að það sé mjög lítið og nánast ekkert annað en sá hluti af lánum bankans, sem þegar er í útlánum til langs tíma, en það eru 635 millj. af um 3800 millj., sem bankinn hefur bundið við útlán. „Oss virðist því,“ segir hér, „að tölurnar hér að framan sýni það ótvírætt, að Landsbankanum væri alls ekki unnt að breyta svo miklu af lánum sínum í verðtryggð lán, að það fengi staðið undir almennri verðtryggingu á því sparifé, sem hann varðveitir.

Röksemdafærslunni hér að framan kynni að verða mætt með því, að gert sé ráð fyrir verðbindingu á miklu hærri hundraðshluta sparifjárins en aðstandendur frv. hafi í huga. Hér sé, eins og oft hefur verið tekið fram, aðeins um heimild að ræða og komi ekki til mála, að Seðlabankinn færi að veita rýmri heimildir en svo, að viðskiptabankarnir gætu framkvæmt þær án þess að lenda út í öngþveiti. Hér hefur málið verið rætt út frá því sjónarmiði, að gera ætti tilraun til einhvers í áttina til almennrar verðtryggingar sparifjár, og þar væri viðskiptabönkunum vissulega ofætlun að standa undir þeim kvöðum, sem á þá væru lagðar. En þótt hundraðshluti verðtryggingarinnar væri lækkaður margfaldlega miðað við það, sem hér hefur verið gert ráð fyrir, t.d. í 10% af sparifénu, væri hann enn langsamlega of stór fyrir viðskiptabankana til að taka hann að sér, án þess að lánakerfi þeirra færi úr skorðum. Jafnvel þótt farið væri niður í verðtryggingu á aðeins 5% sparifjárins, væri þetta álitleg fjárhæð, 120 millj. kr. fyrir Landsbankann samkv. reikningum s.l. áramót. Ef þátttaka bankans í væntanlegu láni til framkvæmdaáætlunarinnar væri verðtryggð, væri hér kannske komið að því verðtryggingarhlutfalli af útlánum, sem viðráðanlegt væri, en þá yrði að gera ráð fyrir því, að bankinn notaði ekki væntanlega heimild til verðtryggingar á eigin fé. En hvernig ætti að skammta sparifjáreigendum svo smávægilega verðtryggingu? Væri ekki hætta á, að þeir þættust aðeins fá reykinn af réttunum miðað við það, sem þeir búast við af þessari lagasetningu?

Og síðan gerir Landsbankinn grein fyrir niðurstöðum sínum og segir: Niðurstaðan af þessum athugunum er sú, að vér hljótum að ráða frá samþykkt þeirra ákvæða, er varða viðskiptabankana og verðbindingu sparifjár. Samþykkt þessara ákvæða, þótt aðeins sé í heimildarformi, getur aðeins vakið tálvonir um úrlausnir eftir ófærum leiðum og dregið athyglina frá aðalatriðinu, að til er ein örugg leið til verðtryggingar á sparifé, sem sé að forðast það, sem verðrýrnuninni veldur, sjálfa verðbólguna.“ Og þetta er undirstrikað í áliti Landsbankans.

Ég skal ekki fullyrða um það, hvort hér er of sterkt að orði kveðið um möguleika á því að verðtryggja sparifé eða ekki. En ég bendi á það, að samþykkt þessa frv. mundi í fyrstunni aðeins leiða af sér verðtryggingu á fjárfestingarlánum, en samkv. því, sem lýst hefur verið yfir, ætti verðtrygging sparifjárins að bíða og athugast betur. Ég er hræddur um, að sú framkvæmd mundi ekki leiða til þeirrar niðurstöðu, sem allir eru sammála um að þurfi að koma út úr verðtryggingu, þ.e. þess að lækka verðbólguna.

Það er vitanlega alveg augljóst mál, að verðtrygging getur ekki staðið ein til langframa á lánum til íbúðarhúsnæðis. Ég vil segja, að sú byrði komi helzt niður á þeim, sem lakast eru staddir til þess að mæta henni, og hún leiði til verðbólguaukningar, þar sem vitað mál er, að þeir, sem verða að standa undir verðtryggðum lánum, þurfa að gera hærri kaupkröfur til þess að afla þeirra tekna, sem nauðsynlegar eru til þess að mæta auknum lánabyrðum af þessum sökum. Að því leyti til er sjálfsagt rétt að gera annað tveggja: fella þá verðtryggingu niður, láta hana bíða, þangað til verðtrygging verður tekin almennt upp, ef það telst fært, eða setja verðtryggingu á fleiri tegundir fjárfestingarlána, en þá kemur þessi hætta, ef spariféð verður útundan, að verðbólgan minnki ekki, heldur vaxi fremur af þessum orsökum.

Það eru fleiri atriði í þessu frv., sem þarf að athuga. Það má kannske segja, að það sé eðlilegt, að ekki sé hægt að lögákveða lánstíma og bindingartíma annars vegar og vaxtakjör á hinum mismunandi tegundum lána hins vegar. En þó hygg ég, að það væri mjög æskilegt fyrir hv. Alþ. að hafa einhverja hugmynd um, í hverju ákvæði þessi eru fólgin, áður en gengið er frá samþykkt laganna.

Í sambandi við fjárfestingarlánasjóðina vil ég segja, að það væri eðlilegt, og ég tel það sjálfsagt fyrir Alþ., að það ákveði, við hvaða grundvöll á að miða verðtrygginguna, en það sé ekki látið laust og óbundið. Samkv. frv., þ.e. að því er mig minnir 6. gr., er það falið stjórn viðkomandi stofnunar með samþykki ráðh. og Seðlabanka að ákveða þann viðmiðunargrundvöll, sem upp elgi að taka í hverju tilfelli. En ég bendi á, að í þeim tilfellum, þegar verðtrygging hefur verið leyfð á fjárskuldbindingum hér á Alþ., hefur ævinlega verið ákveðið af Alþ. sjálfu, við hvaða vísitölu eða viðmiðunargrundvöll verðtryggingin eigi að miðast, og ég teldi eðlilegra, að svo væri enn.

Í sambandi við lífeyrissjóði hafa vaknað spurningar, sem ég minnist ekki, að hafi verið svarað við meðferð málsins. Það segir í gr., þar sem fjallað er um lífeyrissjóði, 7. gr.:

„Viðurkenndum lífeyrissjóðum skal heimilt að ávaxta sjóði sína í verðtryggðum lánum, tryggðum með veði í íbúðarhúsum og með sömu kjörum og íbúðalán Húsnæðismálastofnunar ríkisins við veðdeild Landsbankans eru á hverjum tíma.“

Nú er það vitað mál, að Húsnæðismálastofnun ríkisins lánar aðeins út á 1. veðrétt í íbúðarhúsnæði. Ef lífeyrissjóðirnir eiga að vera alveg sambærilegir við Húsnæðismálastofnun og fara alveg eftir sömu kjörum, rekst þetta á. Þá útilokar það, að þeir, sem eru í lífeyrissjóðum og eiga rétt á lánum þaðan, geti fengið lán þar, ef þeir hafa áður fengið lán frá Húsnæðismálastofnun, vegna þess að veðrétturinn samrýmist ekki. Ég spurði um túlkun á þessu atriði við 1. umr. málsins. Ég hef ekki heyrt því svarað enn. Þetta er að vísu framkvæmdaratriði, en þetta er töluvert atriði fyrir þá, sem byggja vonir sinar um það að koma sér upp húsnæði á því að geta fengið húsnæðismálalán og hafa í tilskilinn tíma greitt iðgjald til lífeyrissjóða.

Í sambandi við tryggingafélögin vakna líka spurningar. Ég hef t.d. áður varpað fram spurningu f sambandi við 2. mgr. 7. gr. Þar segir, að Seðlabankinn geti heimilað líftryggingafélögum að veita lán með verðtryggingu, enda njóti eigendur líftryggingasamninga alls hags af þeim verðbótum, sem um kann að verða að ræða. Ég hef áður spurt um það, hvers vegna þetta er einungis miðað við líftryggingafélög. Ég hef fengið það svar, að það sé vegna þess, að þau ein hafi fjármagn undir höndum, sem miðað sé við sömu skilyrði, þ.e.a.s. verðtryggt fjármagn, en það er grundvallarforsenda samkv. frv. En ég vil leyfa mér að benda á, að þau félög, sem ekki hafa líftryggingadeildir, skaðatryggingafélög, lenda oft í þeirri aðstöðu, að þau innheimta náttúrlega iðgjöldin fyrir fram, en gera tjónin upp miklu síðar en slysin eða óhöppin verða, og dæmi er um það, að það líði ár á milli, ef mikill ágreiningur er um úrskurð vandamálsins. Og þegar úrskurðurinn fellur, er hann að síðustu miðaður við það verðlag, sem gildir, þegar hann er kveðinn upp. Á þessu tímabili hefur tryggingafélagið orðið fyrir miklum skakkaföllum af þessum ástæðum. Ég veit, að það þykir ekki við eiga að hafa samúð með tryggingafélögum. Það er almenn skoðun, að það sé allt í lagi, þau græði svo mikið, að það þurfi ekki að taka neitt sérstakt tillit til þeirra. En réttlætis mættu þau njóta, og ég bendi enn á þetta, ef ske kynni, að það yrði athugað síðar.

Enn þá eru margar umr, eftir um þetta mál, enn þá er hægt að taka þetta til athugunar. Jafnvel þó að hy. meiri hl. Alþ. vilji ekki fallast á þá frestun, sem við í minni hl. leggjum til í þessu máli, þá eru ýmsar umr. eftir um málið samt, og þess vegna kem ég fram þessum aths., sem ég tel að ekki hafi verið svarað til fulls enn þá.

Ég vil ekki tefja tímann um of um þetta mál, en ég tel, að hér sé stórt mál til umr. og það sé ekki óvirðing við þingið, þó að ég geti um þessi atriði, sem mér eru efst í huga í sambandi við þetta mál. Viðskiptabankarnir fjórir hafa sent umsagnir um frv. Það er alveg rétt, sem frsm. meiri hl., hv. 6. landsk., sagði hér áðan, að tveir bankanna a.m.k. lýsa sig meðmælta hugsuninni, sem í frv. kemur fram. Þó er það svo, að báðir hafa þeir aths. fram að færa. Báðir koma þeir auga á atriði í frv., sem betur mættu fara og auðvelt væri að laga. En ríkisbankarnir tveir, sem sent hafa umsagnir, ganga lengra en þessir tveir einkabankar, sem ég áðan nefndi. Þeir ganga svo langt, að þeir gera það að till. sinni, að frv. verði frestað og athugun verði látin fara fram á efni þess milli þinga. Ég vil leyfa mér að rökstyðja það, sem ég nú hef sagt, með örstuttri tilvitnun til umsagna þessara banka. Landsbankinn segir, með leyfi forseta:

„Um frv. að öðru leyti óskum vér, eins og segir í upphafi þessarar umsagnar, ekki að fara út í fræðilegar rökræður á einstökum atriðum, en viljum beina því til fjhn. og Alþ., hvort ekki væri réttast, að málið í heild væri athugað milli þinga af nefnd manna með sérþekkingu á þessu sviði og gengið frá nýjum till., m.a. á grundvelli þeirrar reynslu, sem fengizt hefur erlendis af löggjöf í þessa átt.“

Ég vil geta þess í sambandi við umsögn Landsbankans, að hún er undirskrifuð af öllum bankastjórum Landsbankans: Pétri Benediktssyni, Svanbirni Frímannssyni og Jóni Axel Péturssyni.

Útvegsbankaumsögnin er dags. 5. marz. Henni lýkur svona, með leyfi forseta:

„Vér teljum því rétt með tilvísun til framanritaðs að leggja til, að málið í heild verði nú athugað á milli þinga í sérstakri nefnd, er hafi náið samráð við bankana, og n., ef hún telur ástæðu til, gangi frá nýjum till., þar sem m.a. verði tekið tillit til vandamála viðskiptabankanna og innlánsstofnana yfirleitt, þeirra sem að framan eru rakin.“

Þegar þessar umsagnir höfðu borizt og báðir þessir stóru ríkisbankar höfðu eindregið lagt til, að frv. yrði athugað betur, barst fjhn. aftur grg. frá Seðlabanka. Um þetta atriði segir í þeirri grg., með leyfi forseta:

„Bankastjórn Seðlabankans vill taka fram, að hún telur frekari athugun þessara mála milli þinga ástæðulausa. Seðlabankinn hefur að undanförnu kynnt sér eftir föngum reynslu annarra þjóða af verðtryggingu, og er frv. byggt á grundvelli þeirra upplýsinga, sem þannig liggja fyrir. Þau framkvæmdaatriði, sem leysa þarf úr varðandi verðtryggingu innan bankakerfisins, verða þar að auki ekki nema að litlu leyti leyst á grundvelli reynslu annarra þjóða, t.d. Finna.“

Og svo tala þeir um, að það verði okkar eigin reynsla miðuð við okkar eigin staðhætti, sem hér verði að skera úr. Það er út af fyrir sig mikið rétt í því, að við höfum fengið alveg nægilega reynslu af því að flytja inn erlendar hagfræðikenningar og framkvæma þær ómeltar, og það er vissulega tími til þess kominn, að við förum að athuga okkar gang í því efni. En ég vitna aftur til umsagnar bankastjóra. Útvegsbankans í tilefni af því, sem Seðlabankinn og hv. frsm. meiri hl. sagði um þá löngu athugun, sem frv. hefði þegar fengið hér. En bankastjórar Útvegsbankans, þeir Jóhannes Elíasson og Finnbogi R. Valdimarsson, segja um þetta, með leyfi forseta:

„Frv. það, sem nú liggur fyrir Alþ., var einnig flutt á Alþ. í fyrra, en var þá ekki afgreitt, að því er talið var til þess að nánari athugun málsins gæti farið fram, áður en Alþ. það, sem nú situr, kæmi saman. Oss er ekki kunnugt um, að nein athugun hafi farið fram á þessu tímabili. A.m.k. hefur enginn haft forgöngu um slíka athugun í samráði við viðskiptabankana.“

Það er fyrst eftir að ríkisbankarnir senda sínar umsagnir, sem farið er að tala um það, að það þurfi að hafa samráð við viðskiptabankana um þetta mál. Og í framhaldi af því kemur svo sú brtt., sem lögð hefur verið fram á þskj. 351 um þetta efni, um það, að viðskmrh. skipi n., sem í skuli sitja fulltrúar viðskiptabankanna, og Seðlabankinn eigi að hafa samráð við hana, þ.e. nefndina, um notkun þeirrar heimildar, sem í gr. þessari felst honum til handa. Ég vil segja það, að ég tel þessa brtt. mjög til bóta. En ég tel, að miðað við eðli málsins væri réttara, að þessi athugun færi fram í samráði við viðskiptabankana, áður en frv. verður að lögum og hv. Alþ. hefði fyrir framan sig niðurstöður þessarar n., þegar það tekur ákvörðun um það, hvernig eigi að ákveða lagasetningu um verðtryggingu fjárskuldbindinga, og það er einmitt þetta, sem till. okkar í minni hl. til rökstuddrar dagskrár gerir ráð fyrir. Það er ekkert annað, sem farið er fram á í henni, en það, að málinu verði nú frestað.

Þetta er mikilsvert mál. Það er nauðsynlegt að fá það fram. En þetta er búið að bíða lengi, og við sjáum ekki, að sá tími, sem líður, þangað til þessi athugun getur legið fyrir, milli þinga, ráði úrslitum um það, hvort verðtryggingin komi að gagni eða ekki. Þess vegna er farið fram á það, að málinu sé nú frestað og það sé skipuð í þetta mþn., sem hafi samráð við Seðlabankann og viðskiptabankana um það, hvernig verðtryggingunni eiga að vera hagað. Og ég vil segja það, að ég tel, að Alþ. hefði betur athugað, hvað það er að gera, ef það féllist á þetta. Munurinn á þessu og því, sem hv. meiri hl. leggur til og hæstv. ríkisstj., er aðeins sá, að við leggjum áherzlu á það, að niðurstaða athugunar viðskiptabankanna og Seðlabankans á frv. liggi fyrir, áður en það verður samþ., en hér er gert ráð fyrir og lagt til að samþykkja frv. fyrst og athuga svo á eftir, hvernig eigi að framkvæma það. Ég tel það ekki skynsamleg vinnubrögð.

Í grg. Seðlabankans segir, að við getum ekki nema að litlu leyti haft hliðsjón af því, sem erlendis gerist, og það, sem framkvæmt hefur verið erlendis í verðtryggingarátt, hafi verið rækilega athugað og það hafi legið fyrir, þegar frv. var samið. Í því sambandi er vitnað til Finnlands og Ísraels. En ég veit ekki betur en Svíar hafi í mörg ár haft í gangi n. til þess að athuga verðtryggingarmálin hjá sér. Væri ekki ráð að kynna sér, á hvaða stigi verðtryggingarmálin eru þar, áður en við samþykkjum þetta frv.? Það er að vísu rétt, að ástæður í efnahagslífinu eru nokkuð aðrar í Svíþjóð en hér, og ég geri ekki ráð fyrir, að við getum notað okkur reynslu þeirra að óathuguðu máli. En eins og ég áðan sagði hefur sænska ríkisstj. í mörg ár haft sína færustu sérfræðinga bundna við það að athuga, hvernig verðtryggingu yrði fyrir komið hjá þeim, og ég veit ekki, e.t.v. hefur það legið fyrir hjá Seðlabanka, hvernig ástand þeirra mála er þar nú. En hitt veit ég, að hv. fjhn hefur ekki haft þær niðurstöður undir höndum, eins og hún þó hafði grg. um framkvæmd verðtryggingarinnar í Finnlandi, og ég hygg, að ef Seðlabankinn hefði haft aðgang að niðurstöðum sænsku rannsóknarinnar, hefði fjhn. átt að fá að sjá þær, því að vissulega gat þar ekki verið um neitt leyndarplagg að ræða.

Ég skal, herra forseti, ekki lengja þetta mál meira að þessu sinni. Ég legg áherzlu á það, að okkur í minni hl. er ljóst, hversu mikils virði það væri fyrir efnahagslífið, ef hægt væri að taka upp verðtryggingu á sparifé og öðrum fjárskuldbindingum, og við viljum hvorki spara tíma okkar né annað til þess að leita að þeim heppilegustu leiðum, sem til greina koma í því efni. En jafnframt legg ég áherzlu á það, að við í minni hl. teljum, að frv., eins og það er nú úr garði gert, þyrfti að vera fyllra og ákveðnara í ýmsum mikilsverðum greinum, og þess vegna er það till. okkar, að frv. verði afgreitt með svo hljóðandi rökst. dagskrá:

„Þar sem d. telur nauðsynlegt, að þetta mikilsverða mál fái rækilegri athugun en þegar hefur farið fram og löggjöf um verðtryggingu, ef sett verður, feli í sér skýrari ákvæði um reglugerð, er farið skuli eftir við framkvæmd l., og í trausti þess, að ríkisstj. skipi 5 manna n., 4 eftir tilnefningu þingflokkanna og einn án tilnefningar, til að athuga málið og gera till, um það fyrir næsta þing, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég vænti þess enn, að hv. Alþ. eða hv. d. geti fallizt á þessa málsmeðferð, og lýk máli mínu að svo stöddu.