28.03.1966
Neðri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér um ræðir, er áreiðanlega eitt af þeim erfiðustu málum, sem við ræðum hér á þingi, og að mínu áliti er þetta frv., sem hér er lagt fyrir, mjög hættulegt fyrir okkar efnahagsmál.

Í fyrsta lagi vil ég koma inn á það, að ég held, að þetta frv. sé nokkuð táknrænt fyrir þá aðferð, sem er farin að tíðkast í æ ríkara mæli í sambandi við þær tilraunir, sem við gerum til lausnar á efnahagsmálum, að treysta þar á nokkra sérfræðinga, það oft kannske vel skólalærða menn, sem lítið þekkja hins vegar inn á okkar atvinnulíf. Mér sýnist þetta frv. beinlínis vera búið til af slíkum mönnum. Og ég held, að hv. alþm., sem sjálfir þekkja flestir allvel til um okkar atvinnulif, ættu að athuga þetta frv. mun betur en þegar hefur verið gert. Þá vil ég enn fremur segja það, að ég álit þetta frv. nokkuð táknrænt fyrir þá ríku tilhneigingu, sem orðin er í okkar stjórnarfari að færa vald burt frá Alþingi og frá löggjafarvaldinu og yfir í hendurnar á atvinnustofnunum ríkisins. Það vald, sem Seðlabankanum er gefið með þessu, er vald, sem ella mundi þykja sjálfsagt, að löggjafarvaldið hefði. Frv. er fyrst og fremst heimildarfrv., sem gefur Seðlabankanum mjög víðtækar heimildir, en ákveður hins vegar ekki nákvæmlega, hvað gera skuli um hinar einstöku greinar — við skulum segja t.d. stofnlána og annars slíks, og þetta er mjög hættulegt. Þetta þýðir að gefa einstakri bankastjórn vald, sem Alþingi á raunverulega sjálft að hafa til þess að ákveða nokkurn veginn jafnrétti milli kjósendanna.

Mín skoðun er sú, að þetta frv. sé raunverulega óframkvæmanlegt, og ef er reynt að samþykkja það, mundi það verða til ills og bölvunar. Það verði ekki að neinu leyti til að stöðva verðbólguna, heldur til þess að skapa hér enn þá óðari verðbólgu en fyrir er, því að um leið og farið væri að breyta eftir þessu, lentum við í þeim vandræðum, að þau öfl í þjóðfélaginu, sem ekki láta bjóða sér þetta, sprengja þessa fjötra jafnóðum af sér, og þau sprengja þá ekki af sér öðruvísi en verðbólguhjólið snýst þá enn hraðar en áður, þannig að ef Seðlabankinn og hans stjórn hefur hugsað sér með þessu frv. að stöðva verðbólguna, er þarna farið alveg skakkt að. Þetta verður ekki að neinu leyti til þess. Ég þykist vita, að hugsunin, sem þarna liggur á bak við, sé þessi: Svo framarlega sem stofnlán skulum við segja — eiga að fara að verða með vísitölu, verðtryggð, eins og kallað er, þýðir það að þeirra áliti, seðlabankamanna, að framkvæmdafólkið í landinu verður hræddara við að leggja út í ný fyrirtæki í sjávarútvegi eða öðru slíku. Halda menn nú með þeirri aðstöðu, sem við höfum til að geta aukið aflann t.d. á okkar fiski og slíku, — halda menn virkilega, að okkar útvegsmenn mundu gefast upp við þetta? Við höfum prófað þetta á einu sviði. Við höfum prófað það á því sviði, þar sem þeir verða að taka sín lán út á bátana með gengistryggingu. Þeir eru alveg ósmeykir við það. Þeir hafa lagt jafnt út í það. Sannleikurinn er, að framfaraþráin og framkvæmdaþrótturinn er það mikill í okkar þjóð, að hún leggur út í þessa hluti, byggir sínar verksmiðjur, lætur smíða sína báta án tillits til þess, hvernig þetta verður í framtíðinni. Við erum þarna fyrst og fremst ekki reiknandi fjáraflamenn, heldur atorkumenn, sem fyrst og fremst viljum sjá, að sjálft atvinnulífið sé að blómgast. Hins vegar hugsunarhátturinn, sem liggur á bak við hjá t.d. Seðlabankanum í þessu efni, er hugsunarháttur þeirra hagfræðinga erlendis hjá stóru ríkjunum, sem geta stjórnað efnahagslífi síns lands með mjög nákvæmum bankaráðstöfunum, eins og hækkun og lækkun á vöxtum og öðru þess háttar, og það er hægt alveg í ríkjum eins og Bandaríkjunum, Bretlandi og öðrum slíkum. En það er ekki hægt hérna. Þessir menn, sem núna leggja til, að við förum að samþ. þetta frv., hafa áður verið að reyna að hafa eftirlit og stjórn á okkar fjármálum, t d. með því að hækka og lækka vexti, og það veit hver einasti maður í landinu, að það þýðir ekki neitt, ekki nokkurn skapaðan hlut, það hefur engin áhrif í því efni. Menn minnka ekki lánabeiðnirnar hjá bönkunum, þó að vextirnir séu eitthvað hækkaðir. Það mundi hafa stóráhrif í Bandaríkjunum og Bretlandi, en það hefur engin áhrif á Íslandi. Þess vegna held ég, að þetta frv. og hugsunin, sem á bak við það liggur, sé röng. Þetta frv. mundi vera raunverulega óframkvæmanlegt hérna á Íslandi.

Nú skulum við athuga nánar, hvernig þetta yrði í reyndinni, ef þetta yrði samþykkt og bankastjórar hinna ýmsu viðskiptabanka og einræðisherrarnir í Seðlabankanum ættu að fara að breyta eftir þessu. Þá liggur það fyrst og fremst fyrir, að bankastjórar Seðlabankans eiga að ákveða, hvaða stofnlán og slíkt það eru, sem koma undir þetta. Hvernig er stofnlánum háttað hjá okkur núna? Það er ekki nema nokkur hluti af því, sem kemur fram sem lán undir því nafni, raunveruleg stofnlán. Meginið af stofnlánunum eru víxlar, sem eru framlengdir ár eftir ár, víxlar, sem eru framlengdir 10 og 20 ár, en heita alltaf víxlar, en ekki stofnlán. Það er nokkuð af þessum stofnlánum, en það ræður ekki úrslitum í þessu, og þetta átti eingöngu að ná til þeirra stofnlána, sem væru yfir 3 ár, víxlar mundu vera undan teknir, og samt er ekki einu sinni ákveðið, að það eigi að ná til allra stofnlána. Það ættu bankastjórar Seðlabankans að geta ákveðið, að hve miklu leyti þetta næði til fiskveiða, til iðnaðar, fiskiðnaðar og annars, að hve miklu leyti til landbúnaðar og annars slíks. Það út af fyrir sig að gefa nokkrum embættismönnum slíkt vald, það nær náttúrlega ekki nokkurri átt. Alþingi á sjálft að treysta sér til að segja, á hvaða sviði við ætlum að hafa þetta. En svo skulum við nú hugsa okkur einn framkvæmdamann, sem kemur og ætlar að fá lán, og það er búið að ákveða, að stofnlán, t.d. í sambandi við sjávarútveginn, skuli vera verðtryggð, en hins vegar eru víxlarnir náttúrlega óverðtryggðir. Hvað gerir slíkur maður, sem kemur? Hann biður auðvitað um að fá víxillán. Og fyrir bankastjórninni, sem á að svara, liggur nú spurningin, ef sagt er við þennan mann: Þú getur ekki fengið víxillán, þú getur fengið stofnlán, og hann segir: Ég vil ekki stofnláníð, vegna þess að ég get ekki rekið minn rekstur upp á það. Ætlið þið að stöðva reksturinn hjá mér? Hvað halda menn nú, að svarið yrði yfirleitt?

Ef það er ekki beinlínis með þessu frv. miðað að því að reyna að stöðva svo og svo mikið af nýjum fyrirtækjum, hindra, að þau komist upp, er beinlínis verið að ýta því að bankastjórum viðskiptabankanna, að þeir láni mönnum víxillán til að byrja með, eins og þeir hafa gert núna um áratugi. Og ef þeir lána víxillán, þá sleppa slík lán við alla þessa verðtryggingu.

Hugsið ykkur svo þar að auki, að aðstaðan væri þannig, að það kemur einn maður og fær í einum banka víxillán, og hann fer út í framkvæmdir og er náttúrlega búinn að festa það, og það þýðir, að víxillinn verður framlengdur og það koma nýir víxlar og nýir víxlar, en svo fer annar maður í sömu greininni í annan banka og við hann er sagt: Nei, þú verður að taka stofnlán, sem er verðtryggt, — hvað kemur þetta til með að þýða? Það kemur í fyrsta lagi til með að þýða það, að það verður tilviljanakennt, hvernig öll afgreiðsla á þessum hlutum verður. Það verður komið undir því, hvernig bankastjórarnir líta á og jafnvel hvernig kunningskapurinn eða álitið er þarna manna á milli um þetta allt saman. Og í okkar litla þjóðfélagi, þar sem allir þekkja hver annan, er alveg óhugsandi að ætla að framkvæma svona hluti, þannig að það verði nokkurt réttlæti úr því. Ef við ætlum að hafa þarna réttlæti, verðum við að segja: Í þessum greinum skal vera verðtryggt, í hinum skal það ekki vera. Ef við ætlum að segja hins vegar: Seðlabankinn ákveður, hvort það er verðtryggt, hvað snertir sjávarútveg, fiskiðnað, annan iðnað, landbúnað eða annað slíkt eða hvort það er ekki neitt af þessu, þá erum við að skapa slíkt gerræðisástand í atvinnulífinu, að það er gersamlega óþolandi.

Ég er satt að segja einna mest hissa á þeim mönnum, sem sjálfir ætla að fara fram á að fá þetta vald í sínar hendur, vald, sem svo að segja er ómögulegt að framkvæma þannig, að það verði ekki alveg ægileg gagnrýni á þá fyrir, að það sé tilviljanakennt eða jafnvel gerræði í sambandi við það. Eftir að þetta væri samþykkt, væri allt sem héti víxlar alger sérréttindi á Íslandi. Það að fá víxla, sem menn nota þó til að reyna að ráðast í nýjar framkvæmdir, væru sérréttindi, vegna þess að þá væri mönnum gert mögulegt að fara út í þetta. Ef hins vegar væri sagt við menn: Þú verður að taka svona stofnlán, — mundi meginið af þeim mönnum, sem eitthvað hugsa í þessum efnum, varla leggja út í það. Og ef það er ekki meiningin beinlínis að segja með þessu frv.: Við skulum stöðva nýjar framkvæmdir, þá er þetta frv. bara rangt hugsað.

Mér finnst, að þessir hlutir þurfi að koma fram og við þurfum að fá lýsingu á því hjá hæstv. ríkisstj., hvernig hún hugsar sér framkvæmdina á þessu öllu. Við vitum það ósköp vel, ég þekki það ósköp vel t.d. frá Landsbankanum, stærsta bankanum í þessu efni, sem mest hefur einmitt með okkar atvinnulíf að gera, að allir bankastjórarnir þar voru algerlega á móti þessu, og þó að það sé reynt að breyta víssum atriðum til samkomulags, þá er þetta alveg hverfandi lítill hluti af því. Það er almenn vantrú á því, að þetta sé framkvæmanlegt, og ég vil alvarlega vara menn við að fara að reyna að skapa hér aftur í landinu eitthvert sérstakt seðlabankavald, eins og var með visst vald hér í landinu á milli 1930 og 1940. Það væri algerlega rangt og mundi ekki að neinu leyti hjálpa þarna til.

Það, sem hæstv. ríkisstj. ver sig með í sambandi við þetta mál, er, að þetta eigi að vera gert til að stöðva verðbólguna. Hvaða atriði er það í þessu frv., sem ætti að miða að því að stöðva verðbólguna? Ég get ekki séð nema eitt einasta atriðl. sem á að miða að því, og það er þetta atriði, að ef heimildin er notuð og ef þessu er beitt gagnvart öllum stofnlánum og ef það hefur þær afleiðingar, að menn hætta að taka þessi stofnlán og leggja ekki í ný fyrirtæki, skapast stöðnun í landinu, og það er náttúrlega að vissu leyti ráð til að stöðva verðbólguna. Það er að vissu leyti ráð. En þá er bezt að segja það hreint út, að menn ætli að byrja með því að stöðva nýjar framkvæmdir og stöðva einstaklingana í því að leggja út í nýjar framkvæmdir. Það er bezt, að menn horfist strax í augu við það, en segi ekki sem svo: Seðlabankinn hefur heimild til að gera þetta, ef honum svo lízt o.s.frv. — Ef þetta er meiningin, álit ég, að við eigum að fá það alveg hreint fram frá hæstv. ríkisstj.

Ég hef ekki trú á því, að þetta sé meiningin hjá hæstv. ríkisstj. Ég hef ekki trú á því, að hún ætlist til þess, að þetta vald verði notað til þess að stöðva framkvæmdamenn í landinu í því að leggja út í ný fyrirtæki, og ég álít, að hún eigi að lýsa því yfir, ef það er meiningin. Slík stöðnun er vissulega ráð, sem mundi þýða að stöðva verðbólgu. En það hefur ekki verið það, sem við höfum álitið, að við ættum sérstaklega að keppa að, að skapa slíka stöðnun í okkar atvinnulífi, og ef tilraun er gerð til þess, þá er, eins og ég kom að í upphafi míns máls, frá mínu sjónarmiði líklegast, að slíkt mundi ekki verða þolað. Um leið og það verður séð, að Seðlabankinn ætli sér að framkvæma þessi heimildarlög þannig, að atvinnurekendur, sem vilja leggja í nýjar framkvæmdir, finni það, að þeir eigi ekki að fá það með öðru móti en þessum stofnlánum með verðtryggingu, og segi þess vegna: Ég legg ekki í það, — þá er skammt þess að bíða, að bæði atvinnurekendur og verkamenn taki saman höndum og segi: Svona vald viljum við ekki þola yfir okkur. Ef þetta seðlabankavald á að þýða það að skapa stöðnun í staðinn fyrir framfarir í atvinnulífinu, þá vil ég það ekki — Og ég er hræddur um, að Seðlabankinn sé ekki fær um að ráða við þau öfl í þjóðfélaginu, sem mundu rísa upp á móti slíku, því að hagsmunir atvinnurekenda og verkamanna mundu þar víssulega fara saman. Öll hugsunin, sem á bak við þetta liggur, er hugsuð út frá almennum kenningum, sem eiga við í stórum ríkjum, þar sem m.a. er hægt að stjórna fjármálum mikið með vaxtabreytingum og öðru slíku, en á ekki við hérna heima. Þeir sérfræðingar, sem þetta hugsa, munu reka sig á, að þeir ráða ekki við þau öfl í þjóðfélaginu, sem yrðu að líða fyrir þessar ráðstafanir. Og þess vegna mundu þau öfl sprengja þetta af sér. Verkamenn mundu jafnt hækka sitt kaup, atvinnurekendur mundu jafnt leggja í fyrirtæki upp á það að treysta á, að svona lögum yrði breytt, rétt eins og menn halda áfram að byggja enn í dag, þótt það sé búið að setja verðtryggingu á húsnæðislánin, og menn gera sér ekki grein fyrir, hvað sú verðtrygging þýðir. Þessi öfl mundu halda áfram að vinna og kasta þessu oki af sér, bara eins og á, sem rennur til sjávar, brýtur af sér ísinn.

Ég held þess vegna, að það væri mikill misskilningur að fara að láta okkar fræðimenn á þessum vettvangi fara að gera eina tilraunina enn þá með íslenzkan þjóðarbúskap án þess að þekkja inn á þau öfl, sem hafa ráðið þróuninni á Íslandi og koma til með að ráða henni áfram. Ef við ætlum að stöðva verðbólguna, verðum við að taka það mál allt allt öðruvísi. Hæstv. ríkisstj. segir hvað eftir annað, að henni hafi mistekizt að stöðva verðbólguna. Hún heldur því ekki fram, svo að ég hafi tekið eftir, að þetta mál væri neitt óbrigðult ráð til slíks. En ef hún virkilega vill ræða það að stöðva verðbólguna, álít ég, að við eigum að gera það hér á þinginu og reyna að ræða það alveg án tillits til þess, sem menn mundu kannske helzt vilja bara segja fyrir kosningar, ræða það mjög raunhæft hér. Hæstv. ríkisstj. var með hugmyndir, þegar hún tók við völdum, um, hvernig ætti að stöðva verðbólgu í slíku efni. Sú hugmynd var sú, og henni var lýst yfir af hæstv. ríkisstj. hvað eftir annað, að þegar verkamenn hækkuðu sín laun, mættu atvinnurekendur ekki velta þeim kauphækkunum yfir á almenning og þjóðlífið með hækkunum á vörum. Og þarna var ráðið. Það var að hindra, að atvinnurekendur gætu hækkað vörur sínar, afurðir og annað slíkt, í sífellu í samræmi við það, sem kaupgjaldið hækkaði. Þetta var rétt. Og þessa yfirlýsingu þorði hæstv. ríkisstj. aldrei að framkvæma, vegna þess að hún var fangi hugmyndakerfis um svokallaða frjálsa samkeppni og frjálsa verzlun. Hún hélt því fram, að það, sem þyrfti að gera í þjóðfélaginu, væri að afnema verðákvarðanir af hálfu þjóðfélagsins sem heildar, að það ætti að gefa mönnum frjálsan rétt til verðmyndunar, þar með atvinnurekendum og kaupmönnum rétt til þess að hækka, eftir því sem þeim þóknaðist, verðið á sínum vörum. Þetta var í algerri mótsetningu við þá réttu hugmynd að hindra atvinnurekendur og aðra slíka í því að velta kauphækkunum yfir á þjóðfélagið. Hæstv. ríkisstj. var með þessa hugmynd vegna þess, að hún gekk út frá frjálsri samkeppni sem sjálfkrafa hemli á verðmyndun í þjóðfélaginu, sem hún alls ekki er og hefur ekki verið.

Ef við ætlum að hafa hemil á verðmynduninni í þjóðfélaginu, er það ekki hægt nema með opinberum ráðstöfunum, og það vil ég segja, svo óvinsælt sem það er, og mér er ósköp vel ljóst, að tveir stærstu flokkar þingsins, bæði Sjálfstfl. og Framsfl., eru þar á gersamlega andstæðri skoðun, að það er óhugsandi í litlu landi eins og Íslandi að láta frjálsa samkeppni svokallaða eiga að ráða verðmyndunarkerfinu, — alveg gersamlega óhugsandi. Og það er jafnvitlaust, hvort sem það er Sjálfstfl. eða Framsfl., sem heldur því fram. Eina ráðið til þess að hafa hemil á þessari verðmyndun er opinbert verðlagseftirlit, svo óvinsælt sem það er og leiðinlegt í allri framkvæmd. Í svona litlu landi er það eini möguleikinn. Ef við værum í Danmörku eða Englandi, mundum við geta notað hitt. Þá mundum við geta séð það, að 3—4 stór fyrirtæki, sem rísa upp í verzluninni, drepa þau smáu. Þar mundi verða harðvítug samkeppni. Ef við hefðum hérna í Reykjavík 2—3 stór magasín eins og þau gerast í London eða Kaupmannahöfn, mundum við geta séð það sama, og þá mundum við geta séð kannske smákaupmennina við Laugaveginn fara á hausinn hvern á fætur öðrum. Þar gæti hið frjálsa verðmyndunarkerfi notið sín, vegna þess að þar eru það stórir aðilar og harðvítugir, sem berjast, fólk nýtur verðlækkunarinnar, sem verður f sambandi við það. En það gerist ekki hér á Íslandi. Hér gerist ekki einu sinni svo mikið með frjálsri samkeppni, að menn fái almennilegt úrval af vörum. Það er ekki til hérna. Það er eins og hver önnur blekking, þegar verið er að halda því fram í blöðunum. Þeir, sem hafa efni á að kaupa eitthvað, fara til útlanda til að gera það. Hér er ekkert úrval, af því að enginn af kaupmönnunum hérna eða slíkum hefur efni á að kaupa neitt inn, sem heitir úrval. eða liggja með það og draslast svo með vörur svona 1—2 árum eftir að þær hafa komið á markaðinn erlendis, af því að þeir tíma ekki og hafa ekki peninga til þess að kaupa í tíma og vilja ekki kaupa inn vörur, sem eyðileggja gamla móðinn í þeim vörum, sem fyrir liggja. Það er alveg eins og með Seðlabankann. Það er ekki hugsað út frá smæð okkar þjóðfélags, hvernig hugmyndir, sem erlendis geta haft sín áhrif, verka þar. Ef hæstv. ríkisstj. hefði staðið við þá hugmynd sína að leyfa atvinnurekendum aldrei að velta kauphækkunum yfir í verðlagið, ef það hefði verið staðið við það, var hægt að halda verðbólgunni í skefjum, vegna þess að það þýddi, að þá höfðum við þann spora á atvinnurekendur til framfara, sem við þurfum að hafa í hverju þjóðfélagi. Það þýddi, að hver atvinnurekandi vissi, að um leið og hann hafði samið við verkalýðsfélögin um kauphækkun, varð hann að gera ráðstafanir til þess að spara þannig í sínum rekstri, gera sinn rekstur það hagkvæmari, m.a. gera hann það stærri og hagfelldari, að það væri eitthvert vit í honum. Þá var hann knúinn í sífellu til þess að skapa framfarir hjá sér í tækni, og það er þessi spori, sem hefur vantað. Það hefur vantað þennan spora á íslenzka atvinnurekendastétt. Hún hefur komið sér undan þessum spora með verðbólgunni. Verðbólgan hefur verið hennar aðferð til þess að sleppa við að skapa þá hagkvæmni og þær framfarir í sínu atvinnulífi, sem óhjákvæmilegar eru. Á einu sviði hefur framförin haldið þarna áfram af fullum krafti. Það er á því sviði, þar sem aldrei er tekið tillit til þess, og það er hvað bátana snertir. En þegar í land kemur, er eins og við kunnum ekki neitt í þessum efnum. Þarna verður að byrja, ef á að stöðva verðbólguna. Þetta sá hæstv. ríkisstj., þegar hún tók við völdum, en þetta hefur hún aldrei þorað að framkvæma, vegna þess að sú stétt, sem hún styðst við, er fyrst og fremst verzlunarstéttin. Og það eru hagsmunir þeirrar stéttar, verzlunarauðvaldsins í Reykjavík, sem ráða hennar framkvæmdum. Og í þessum efnum hefur hæstv. ríkisstj. allan tímann verið veik, þó að hún væri klofin í þessum efnum, vegna þess að Sjálfstfl. hefur verið algerlega inni á þessu, að þetta allt saman eigi að vera frjálst, sem sé verðbólgan á að halda áfram af fullum krafti og ríkisstj. hefur vitað, að Framsfl. hefur staðið með þessu líka. Alþfl. hefur verið á móti þessu, eins og yfirlýsingar hæstv. viðskmrh. bera vitni um, en sú stefna hans hefur aldrei verið framkvæmd, kannske meðfram vegna þess, að ef átti að ganga langt fram í að framkvæma þetta, var e.t.v. Framsfl. reiðubúinn til að mynda stjórn með Sjálfstfl. um það, stjórn verzlunarauðvaldsins einu sinni enn þá, eins og 1950—1956, einmitt þá stjórn, sem er langóheppilegust fyrir Ísland, vegna þess að það, sem gerir okkur erfiðast með alla þessa hluti, eru þau ríku áhrif, sem verzlunarauðvaldið hefur í okkar þjóðfélagi, og þau of litlu áhrif, sem annars vegar verkalýðshreyfingin og hins vegar atvinnurekendurnir í sjávarútvegi og iðnaði hafa.

Ég segi þetta nú bara til þess, að við ræðum alveg hreinskilnislega okkar á milli þær hagfræðilegu og pólitísku orsakir til þess, að verðbólgan er látin halda áfram. Enda sér það hver maður, sem athugar þetta frv., að ef þetta frv. ætti að verða að lögum og ef á að framkvæma það með þeim heimildum, sem Seðlabankinn fær, á hverjum kemur þetta frv. þá til með að bitna? Það kemur til með að bitna á atvinnurekendunum, á atvinnurekendum í sjávarútvegi og iðnaði, en það kemur ekki til með að bitna á verzlunarauðvaldinu, vegna þess að það eru fyrst og fremst víxlarnir, sem verzlunarauðvaldið fær að láni, og lánin til þess hafa aukizt og stundum meira en öll lán til sjávarútvegsins og iðnaðarins samanlagt, af því að það er einkaréttindastéttin á Íslandi, sú stétt, sem stendur á bak við alla pólitík ríkisstj., sem raunverulega stjórnar verðbólgunni í landinu.

Ef það er í raun og veru hugmynd einhverra af hæstv. ráðh., að þetta eigi að vera till. til þess að stöðva verðbólguna, vildi ég mjög óska eftir því, að þetta mál yrði rætt frá því sjónarmiði og við heyrðum þær hugmyndir, sem hæstv. ríkisstj. hefur um, hvernig eigi að framkvæma þetta. Ég kann bókstaflega ekki við, að Alþ. afgreiði þannig einræðislög, að það sé sagt við einhvern embættismann í þjóðfélaginu: Þú mátt gera hvað sem þú vilt, þ.e.a.s.: eitthvert jafnrétti og eitthvert öryggi verða mennirnir í okkar þjóðfélagi að hafa, líka atvinnurekendur.

Hér hefur verið minnzt í sambandi við svona mál á ríki, sem hafa reynt þetta, og ég vildi óska eftir, að það yrði upplýst hérna, hver reynsla Finnlands sé af þessum málum, og hæstv. ráðh. segi okkur um þá reynslu. Við þekkjum það ekki mjög nákvæmlega, en þá hugmynd hef ég um það, að Finnar sjái eftir því að hafa lagt út í þetta og vildu hafa verið lausir við það að hafa nokkurn tíma þurft út í það að leggja, því að það er vitanlegt, að þegar búið er að gera svona hlut, er miklu erfiðara að eiga við þetta á eftir. Það er rétt eins og með lánin til íbúðabygginganna. Ég er með frv., sem er á dagskrá núna líka, um það mál. Þegar búið er að framkvæma í 1—2 ár, án þess að fólkið hafi nokkra hugmynd um, hvað er að gerast, hefur undirskrifað án þess að vita nokkurn skapaðan hlut, hvað það er að undirskrifa, er miklu erfiðara að kippa þessu í lag á eftir. Það þarf margs konar ráðstafanir til þess og vill oft verða þannig, að menn, sem hafa þó tekið lánin á einhverjum ákveðnum tíma, eru mjög þrælslega bundnir og erfitt að losa þá úr því, og þegar svona verðtryggð lán eru afnumin á eftir, verða þeir fyrir ýmsu óréttlæti. Og ég er hræddur um, að þannig mundi það verða með þetta líka. Það er alveg gefið, að ef svona frv. yrði samþ., yrði það afnumið eftir skamman tíma. En það verður hins vegar búið að fá nokkra menn, sem ekkert hugsa út í, hvað þeir eru að gera, en vilja bara reyna að fá peninginn og leggja út í fyrirtækið, án þess að gera sér ljóst, hvernig það eigi að borga sig. Þá er búið að setja þá í mjög slæma klemmu. Og ég vil minna menn á, að það hefur verið oft undarlega lítil forsjálni í slíkum efnum hér á Íslandi, og ég býst við, að þm. þekki dæmi þess, að t.d. Framkvæmdabankinn, sem sjálfur hefur átt að gera áætlun um, hvernig ætti að ganga í íslenzkum þjóðarbúskap, hafi lánað mönnum fé til þess að koma hér upp verksmiðjum og síðan hafi 2—3 árum seinna verið gerðar ráðstafanir, sem þýddu að gefa frjálst það, sem þessar verksmiðjur áttu að framleiða, og verksmiðjurnar farið á hausinn, sem sé ekki nokkur áætlun eða fyrirhyggja og hugsun verið í málunum.

Svona er ekki hægt að leika sér með efnahagslíf. Menn verða að hugsa um stefnu í efnahagslífi nokkur ár fram í tímann, ekki fara eftir duttlungum einhverra og einhverra sérfræðinga, sem þó eru ekki neinir sérfræðingar. Það, sem sérfræðingar eiga að gera gagnvart Alþ. og ríkisstj., er að leggja á borðið, hvað mæli með og hvað mæli á móti ákveðnum atriðum, hvaða afleiðingar geti hlotizt af þessum ráðstöfunum, góðar og illar eða erfiðar. Það er það, sem sérfræðingar eiga að gera. Þeir eiga ekki að koma og segja við hæstv. ríkisstj. eða Alþ.: Þetta vald vil ég fá og ég vil fá að prófa mig áfram með þetta. — Það er algerlega rangt og nær ekki nokkurri átt. Og ég vildi óska eftir, að hér yrði Alþ. gefin nánari skýrsla um það, hvernig þetta hefur reynzt í Finnlandi. Ég veit ekki, hve mikið hefur legið fyrir hv. fjhn. í þeim efnum, en ég held, að sú reynsla sé ekki góð. Ég vildi þess vegna mjög eindregið óska eftir því, að það yrðu gefnar upplýsingar um það, jafnhliða því sem hæstv. ríkisstj. segði okkur, hvernig hún hugsar sér framkvæmdina á þessu.

Í skýrslu, sem gefin var hér í framsögu fyrir n., var sagt, að einn seðlabankastjórinn, Jóhannes Nordal. hafi komið á fund fjhn. og hann hafi sagt þar frá því, að hann hugsaði sér þetta framkvæmt í fyrsta lagi við lífeyrissjóðina, í öðru lagi við ýmsa stofnlánasjóði. Ég man ekki nákvæmlega, hvort þeir voru tilteknir, hvaða stofnlánasjóðir það voru. Þriðja atriðinu náði ég ekki. Fjórða atriðið var um spariféð. Þarna kemur strax, þegar minnzt er á lífeyrissjóðina. Það er áður búið með sérstökum lagabreytingum að verðtryggja eða vísitölutryggja lánin frá húsnæðismálastjórn. Nú á að taka lífeyrissjóðina þarna inn í. M.ö.o.: það er byrjað á því, að það á að verðtryggja öll þau lán, sem veitt eru til íbúðabygginga. Það er ekki látið nægja, að húsnæðismálastjórnarlánin verði verðtryggð, heldur á að knýja alla lífeyrissjóði til að verðtryggja sín lán líka. Hvað þýðir verðtrygging á lífeyrissjóðslánunum? Það þýðir að gera þorranum af fólki ómögulegt að byggja. Við skulum alveg horfast í augu við, að það er stundum eins og enginn þori að tala um þá kosti, sem eru víð verðbólgu, annar en ég hér í deildinni. Og ég held, að það sé mjög óraunsætt. Ég er jafnmikið reiðubúinn eins og aðrir til að vinna að því að stöðva verðbólguna, en ég geri mér alveg ljóst, hvaða kostir hafa verið við hana með hennar miklu meiri ókostum og hennar mikla óréttlæti. Verðbólgan hefur verið ákaflega harðvítugur spori í því að koma hér upp nýjum fyrirtækjum. Vitleysan hefur hins vegar legið í því, hvað óskipulögð þau fyrirtæki hafa verið. En eitt er í sambandi við lífeyrissjóðina alveg ótvírætt, og það er það ástand, sem nú ríkir á Íslandi, að 80–90% t.d. af launafólki, þar með töldum meira að segja hafnarverkamönnum eða ófaglærðum verkamönnum, eigi sínar eigin íbúðir. Það ástand hefði verið óhugsandi án þeirrar verðbólgu, sem geisað hefur nú þessi 20 ár, þ.e.a.s. menn hefðu ekki unnið sér fyrir þessum íbúðum og staðið undir því af sínum launum einum saman. Það, sem hefur hjálpað þeim með það, er þessi verðbólga, og af því að ég veit, að það eru ýmsir flokkar hér, m.a. stjórnarflokkar, sem hafa haft það á stefnuskrá sinni, að menn eigi að eignast hver sína eigin íbúð, vil ég, að mönnum sé alveg ljóst, að menn hverfa burt frá slíkri stefnu, ef menn fara inn á það að ætla að verðtryggja fyrst og fremst öll lán til íbúðabygginga, nema menn gerbreytti alveg um lánastefnu í sambandi við það. Það að ætla mönnum, eins og undanfarið hefur verið gert, að borga upp sínar íbúðir á 25 árum er óhugsandi án þeirrar verðbólgu, sem verið hefur. Hitt aftur á móti er rétt, ef verðbólga er stöðvuð og menn fá lán til, við skulum segja, 40—70 ára með 2% vöxtum, þá mundu menn rísa undir því. En að láta sér detta í hug að ætla að verðtryggja lán úr lífeyrissjóði, þegar vextirnir eru frá 4—6% og þegar á að borga lánið upp á 25 árum, það er sama sem að banna mönnum að eignast íbúðir. Þetta eru hlutir, sem Alþ. sérstaklega þarf að gera sér ljóst, þegar það er að gera svona ráðstafanir.

Alþingi hefur á undanförnum 40 árum tekið mjög veigamiklar ákvarðanir og nákvæmar í sambandi við íbúðabyggingar. Alveg frá því að verkamannabústaðirnir eru settir, er það sett í lög að veita mönnum lán til 42—70 ára fyrir 2% vexti og það á fátæktartímum Íslands. Ef menn ætla að stöðva verðbólguna, verða menn um leið að fara yfir í þá gömlu reglu, sem þar gilti, og það alveg hiklaust og ótvírætt um leið. Að ætla að segja við seðlabankastjórn: Þér gefst heimild til þess að skylda alla lífeyrissjóði til að verðtryggja öll sín lán, — það þýðir m.ö.o. að taka valdið af öllum starfsmönnum og launafólki í landinu um að ráða sínum eigin sjóðum, hvernig eigi að lána úr þeim og hvernig þeir eigi að hjálpa sjálfum sér, heldur skuldbinda þá með ráðstöfunum Seðlabankans til þess að gera raunverulega nokkurn veginn ókleift að fá lán úr þessu eða standa undir þeim, ef menn þá fá þau. Ég veit ósköp vel, að það er hægt að koma svona hlutum í gegn, það er hægt að píska svona hluti gegnum Alþ., það er hægt að láta Seðlabankann framkvæma þetta og það er hægt að láta fólk fara að undirskrifa þetta. Og fólk kemur kannske ekki fyrr en 3–4—5—6 árum seinna og segir: Hver ósköp voru þetta, sem ég var að undirskrifa? — Talið þið við fólk, sem er að borga B-lánin, ef það hefur ekki getað flýtt sér að borga þau upp, frá gömlu húsnæðismálastofnuninni. Fólk veit ekkert, hvað það er að undirskrifa, eða þá að það treystir t.d. á hæstv. ríkisstj., að hún ætli að stöðva verðbólguna, og svo stendur það allt í einu frammi fyrir því, hve gífurlega þessi lán vaxa. Ég skal bara minna á sem dæmi, að 280 þús. kr. lán, sem menn taka í dag hjá húsnæðismálastjórn, mundi með sömu verðbólgu og gilt hefur undanfarin 20 ár þýða það, að síðasta afborgunin eftir 25 ár, 1991, væri 199 þús. kr., þ.e.a.s. tæp 200 þús. af 280 þús. kr. láni. Þá væru menn búnir að borga líklega á 3. millj.

Það verður ekki með neinum hundakúnstum, meira að segja þótt Seðlabankinn framkvæmi þær, sem verðbólgan verður stöðvuð. Það er hægt að gera mönnum lífið leitt og húsbyggjendum lífið erfitt og annað slíkt. En ef á að stöðva sjálfa verðbólguna, er það þjóðfélagslegt átak, sem verður að gerast á kostnað þeirra, sem mest hafa á henni grætt. Og mér finnst það ekki spá góðu, að það, sem bankastjóri Seðlabankans skuli byrja á að telja upp, séu lífeyrissjóðslánin, einmitt þau lánin til húsbygginga, íbúðabygginga, sem ekki er búið að binda.

Ég var að gera — við skulum segja: þær getsakir, að menn hefðu ætlað gagnvart atvinnurekstrinum að beita þessu, og það eru taldir þarna sem nr. 2 stofnlánasjóðirnir, og það má vel vera, að það sé meiningin líka. En sem sé, fyrst og fremst á þetta að þýða bann gagnvart almenningi að halda áfram. Þetta held ég, að við ættum að fá nánari upplýsingar um. Er meiningin að brjóta nú við blað og gerbreyta um stefnu og stöðva það, að launafólk í landinu geti eignazt eigin íbúðir? Ég vonast eftir, að hæstv. ríkisstj. svari því. Það dugir ekki að þvo hendur sínar og segja: Seðlabankinn ræður því. — Það erum við, sem ráðum, hvaða vald Seðlabankanum er gefið. Og það er viðkunnanlegra, að við segjum það þá hérna, að Seðlabankinn hafi þá heimild til þess að verðtryggja lánin úr lífeyrissjóðunum o.s.frv.

Hvað það snertir, sem oft er notað sem siðferðileg forsenda fyrir svona lögum, sem sé sparifjártrygginguna, það virðist mér nú ekki vera mjög áþreifanlegt í þessu sambandi, og allir bankastjórarnir við viðskiptabankana sáu mjög mikil vandkvæði á allri þeirri framkvæmd. Það er vafalaust hægt á svipaðan máta og hæstv. ríkisstj. hefur gert með sínum útboðum á bréfum að ná nokkru fé þannig, en það er ekki nema ofurlítill, rétt hverfandi partur af sparifénu. Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, einmitt þegar svona mál er á dagskránni, að við þm. getum fengið nokkrar upplýsingar um, hvað menn virkilega hugsi sér með þessu, lýsingu á því valdi sem Seðlabankanum sé ætlað að nota sér, — því hlýtur hæstv. ríkisstj. að vera búin að gera sér grein fyrir, — og afleiðingunum af þeirri valdbeitingu, þar með hættunni á misbeitingu þess valds og þar með hættunni á, að með því að beita því sé stöðvað svo og svo mikið af því, sem við höfum annars á undanförnum árum verið sérstaklega stoltir af, þar með þeim mikla dugnaði, sem almenningur hefur sýnt í því að koma sér upp þaki yfir höfuðið, sem ég get ekki séð annað en yrði að mjög miklu leyti stöðvað með þessum ráðstöfunum, nema gripið sé til allt annarra ráða. Ég skal viðurkenna það, að það er hægt að halda því áfram, þótt verðbólga sé stöðvuð, ef gerbreytt er um lánapólitíkina um leið, og það er meira en lánapólitíkin, sem þá þyrfti að breyta um, ekki aðeins lækka vextina og lengja tímann. Í svona litlu þjóðfélagi er það fleira, sem þarf að breytast um leið, og það skal ég ekki fara hér inn á, en það er sjálf meðferðin á utanríkisverzluninni. En ég vil leyfa mér að vona, að sérstaklega hæstv. viðskmrh. skýri þessa hluti betur fyrir okkur.