14.04.1966
Neðri deild: 69. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það er nú orðið nokkuð langt síðan þetta mál var hér siðast til umr., en tilefni þess, að ég kvaddi mér þá hljóðs, var það, að hæstv. bankamálaráðh. svaraði á þeim fundi nokkrum fsp., sem talsmenn stjórnarandstöðunnar höfðu borið fram undir meðferð málsins. Ég tel sjálfsagt að þakka hæstv. bankamálaráðh. það, að hann leggur það á sig að skýra þetta frv. nánar fyrir þingheimi en gert hefur verið í meðferð þess, því að það er sannarlega engin vanþörf á því. En jafnframt verð ég að lýsa nokkrum vonbrigðum yfir því, hversu fá atriði úr aths. okkar hæstv. ráðh. sá ástæðu til þess að gera að umtalsefni.

Megininntak ræðu hans á síðasta fundi fjallaði um verðbólguna, hver hún mætti mest vera og að meiri verðbólguvöxtur en 10% bæri vott um óstjórn, og geta víst allir hv. alþm. út af fyrir sig tekið undir þau orð af heilum hug. En af fsp. okkar gerði hæstv. ráðh. raunar aðeins eina að umtalsefni, þ.e.a.s. þá, hvernig

Seðlabankinn ætlaði að framkvæma l. að því er viðkemur verðtryggingu sparifjár. Þetta er víssulega eitt aðalatriði frv. og það, sem mestur vafi leikur á um túlkun á, og þess vegna mest ástæða til að svara, það skal ég fúslega viðurkenna og þakka fyrir svarið, svo langt sem það nær. En fleiri atriði voru þó í okkar málflutningi, sem ég tel að ástæða hefði verið til að fara um nokkrum orðum.

Þessar skýringar hæstv. bankamálaráðh. á því, hvernig Seðlabankinn mundi framkvæma verðtryggingu sparifjár, voru þó nokkuð almenns eðlis og raunar lítið annað en staðfesting á því, sem dr. Jóhannes Nordal hafði látið uppi við fjhn., þegar hann kom þangað til viðtals, þ.e.a.s. þetta, sem raunar kemur fram að nokkru leyti af grg., að heimildin mundi verða miðuð við það, að innlánsstofnanir tækju við sparifé til 2—3 ára með 4—5% ársvöxtum, á sama tíma sem vextir af almennu sparifé eða sparifé, sem ekki væri verðtryggt, væru 7—9%. En jafnframt var þó tekið fram mjög skýrt, að þessum kjörum þyrfti að vera hægt að breyta svo að segja samstundis, ef framboð af þessari tegund af sparifé mundi fara það mikið fram úr eftirspurn eftir þeim lánum, sem verðtryggð væru, að þar væri ekki nokkurn veginn eðlilegt samræmi á milli. Þá hefur jafnan verið lögð áherzla á það við meðferð þessa máls, og það gerði hæstv. ráðh. líka, að þessum ákvæðum þyrfti að beita ákaflega varlega, og við framkvæmd málsins yrði haft náið samráð við viðskiptabankana um allt það, sem gert yrði.

Nú er það, eins og kunnugt er, tiltölulega nýtilkomið í meðferð þessa máls, að farið er að ræða um náið samstarf við viðskiptabankana um framkvæmd þessa atriðis. Lengi vel í frv., eins og það var borið fyrst fram og eins og það var borið fram öðru sinni í byrjun þessa þings, var ekki gert ráð fyrir neinni samvinnu við viðskiptabankana. En það er fyrst eftir að ríkisbankarnir, Landsbankinn og Útvegsbankinn sérstaklega, skiluðu sínum umsögnum um þetta frv., sem farið er að tala um það sem sjálfsagðan hlut, að samráð sé haft við viðskiptabankana um þessa framkvæmd, og hv. meiri hl. fjhn. bar fram viðbótartill. við 5. gr. frv., þar sem þetta samráð er tekið inn í frv. Ég vil strax taka það fram, að mér finnst þessi breyting á frv. til mikilla bóta og raunar vandséð, hvernig hægt hefði verið að framkvæma frv., eins og það lá upphaflega fyrir. En mér finnst þó, að þessi athugun og þetta samráð við viðskiptabankana ætti að fara fram áður en Alþ. segir úrslitaorð um lögfestingu þessa frv. heldur en á eftir. Ég tel, að hér sé um svo mikilvægt mál að ræða, að sú málsmeðferð hefði í alla staði verið eðlilegri, að viðskiptabankarnir hefðu verið til kvaddir, áður en alþm. eiga að gera það upp við sig, hvort þeir vilji lögfesta verðtryggingu sparifjárins í þessu formi eða ekki. En einmitt í þá átt gekk sú rökstudda dagskrá, sem við í minni hl. fjhn. gerðum að till. okkar við 2. umr. málsins og hv. stjórnarlið hefur nú fellt. Það tel ég vissulega miður farið.

Það voru nokkrir fleiri fsp., sem komu fram, sérstaklega í ræðu minni við 2. umr., sem hafa ekki verið gerðar frekar að umtalsefni, en ég tel þó, að skipti miklu máli um það, hvernig til tekst um framkvæmd frv., ef að lögum verður, og ég vil, án þess að ég ætli mér að lengja þessar umr. úr neinu hófi, aðeins með örfáum orðum minna á nokkrar þeirra.

Ég vík þá fyrst að þeim ákvæðum frv., þar sem fjallað er um lán úr fjárfestingarlánasjóðum, en um það fjallar 6. gr. frv. og segir, að opinberar fjárfestingarlánastofnanir skuli hafa heimild til að veita verðtryggð lán af eigin fé sínu og endurlána verðtryggt fé. Lánskjör slíkra lána skulu ákveðin af stjórn stofnunar að fengnu samþykki ráðh, þess, sem stofnunin heyrir undir, svo og Seðlabankans. Ég skil það svo, að með orðinu lánskjör í 6. gr., það verður þá leiðrétt, ef skakkt er, — sé jafnframt átt við verðtrygginguna, þannig að það sé á valdi viðkomandi sjóðsstjórna, hvort verðtrygging verði tekin upp hjá þeim eða ekki, og aths. minar, sem ég mun koma hér með á framfæri á eftir, byggjast á þessum skilningi. Samkv. 6. gr. er þá ákveðið, að fjárfestingarlánastofnanir, sem stofnaðar eru með l., ákveði sjálfar, hvort verðtrygging verði tekin upp á útlánum þaðan eða ekki. En hins vegar á Seðlabankinn samkv. 4. gr. frv. að ákveða það, við hvað skuli miða verðtrygginguna. Ég mundi nú vilja halda, að eðlilegast væri, að það væri Alþ. sjálft, sem ákvæði það í þessu tilfelli, hvaða viðmiðunargrundvöll ætti að hafa um opinber fjárfestingarlán, eins eftir gildistöku þessara laga og jafnan hefur verið gert til þessa.

Eins og rifjað hefur verið upp hér, er verðtrygging hér í gildi á tveimur tegundum lána, þ.e.a.s. lánum húsnæðismálastjórnar, þar er það beint ákveðið í lögum, að viðmiðunin skuli vera kaupgreiðsluvísitala, og svo er verðtrygging á skuldabréfaláni ríkissjóðs, og þar er einnig ákveðið sérstaklega með sérstökum l., við hvað verðmiðunin eigi að miðast. Og ég hefði sem sagt talið, að það væri eðlilegast, að Alþ. afsalaði sér ekki þeim rétti, sem það hingað til hefur haft til þess að ákveða það án afskipta annarra, við hvað eigi að miða, þegar um vísitölubundin lán er að ræða. En setjum nú svo, að ekki sé hægt að fá þetta samþ. hér af hv. stjórnarsinnum. Þá finnst mér í sannleika sagt alger lágmarkskrafa, að þeir alþm., sem vilja samþykkja þetta frv., hafi gert sér grein fyrir því og viti, við hvaða grundvöll eigi að miða, jafnvel þótt þar verði öðrum falin framkvæmdin. Þessir opinberu lánasjóðir eru vitanlega margir og engin ástæða til þess að vera að telja þá alla upp hér eða gera neinar ágizkanir um, hvaða reglur gilda í hverju einstöku tilfelli. Ég skal aðeins nefna örfá dæmi.

Einn af þeim sjóðum, sem undir þetta falla, er fiskveiðasjóður eða sú stofnun, sem tekur við hlutverki hans. Þessi sjóður lánar fyrst og fremst til kaupa á fiskiskipum og til kaupa ú vélum í þau. Það má segja, að það sé eðlilegt, að vísitala framfærslukostnaðar sé kannske ekki sá mælikvarði, sem leggja ber til grundvallar verðtryggingu lána, sem veitt eru í þessu skyni, vegna þess að vitað er, að verð skipa og endursöluverð skipa fer ekki eftir vísitölu framfærslukostnaðar, að engu leyti að því er tekur til erlendra skipa og ekki nema að litlu leyti til byggingarkostnaðar þeirra skipa,sem byggð eru innanlands. En við hvað á þá að miða? Um það er engan staf að finna í grg. eða aths. frv. Við því hefur ekkert svar fengizt við meðferð málsins, hvorki í hv. fjhn. né eftir að hún skilaði málinu í hendur Alþ., — ekkert svar við því, við hvað er hugsað að miða endurgreiðslu verðtryggðra lána, sem notuð eru til skipakaupa.

Það má segja, að nokkuð svipað gildi um jarðir í sveitum. Verðgildi sveitajarða til búskapar fer ekki, — það er alveg rétt, — það fer ekki fyrst og fremst eftir vísitölu framfærslukostnaðar. En eftir hverju fer það? Hvaða grundvöllur er hugsaður í þessum tilfellum?

Iðnlánasjóður verður einn af þeim sjóðum, sem falla undir þetta ákvæði, þegar það er orðið að lögum. Hann lánar til kaupa á vélum og byggingar húsnæðis til iðnaðarrekstrar. Vísitala framfærslukostnaðar hefur ekki nein úrslitaáhrif á endursöluverð t.d. iðnaðarvéla, það er alveg rétt. En hvaða grundvöll á að miða við?

Ég held, að þessar spurningar séu svo áleitnar, þegar menn fara að gera sér grein fyrir framkvæmd frv., þegar það er orðið að l., að það sé tæplega forsvaranlegt fyrir hv. alþm. að samþykkja lög, sem ekki liggur fyrir nánar en í mínum huga gerir enn þá um það, hvernig verði í framkvæmd.

Ein af þeim fsp. eða aths., sem ég lét í ljós, þegar ég ræddi þetta frv. hér síðast, var um það, hvernig skilja bæri 7. gr. frv. Í 7. gr. frv. er talað um það, að viðurkenndir lífeyrissjóðir elgi að hafa heimild til þess að ávaxta sjóði sína í verðtryggðum lánum, og segir um þá framkvæmd, að lánin eigi að vera tryggð með veði í íbúðarhúsum og með sömu kjörum og íbúðalán Húsnæðismálastofnunar ríkisins við veðdeild Landsbankans eru á hverjum tíma. Nú er algerlega lagt í hendur viðkomandi lífeyrissjóðsstjórna, hvort þeir taka upp verðtryggingu hjá sér. En ég tel. að þetta ákvæði jafngildi þó því, að þessi verðtrygging verði tekin upp í flestum, ef ekki öllum lífeyrissjóðum, strax og ákvæðin verða að lögum, vegna þess að þeir, sem eru forstöðumenn sjóðanna, munu eflaust telja það skyldu sína að sjá til þess, að þeir rýrni ekki vegna verðbólgunnar í höndunum á þeim og þarna hafi þeim verið gefið tækifæri til þess að sjá við þeim leka. En þá kemur sú spurning, sem ég hef áður borið hér fram, og hún er þessi: Þýða þessi orð í 7. gr.: „með sömu kjörum og íbúðalán Húsnæðismálastofnunar“ — þýða þau, að það skuli einnig taka til veðréttarins? Taka kjörin einnig til veðréttarins? Svar við þessari spurningu hefur ákaflega mikla þýðingu fyrir alla þá, sem eru að byggja, vegna þess að eins og kunnugt er, lánar Húsnæðismálastofnun eða veðdeild fyrir hennar hönd ekki nema út á 1. veðrétt. Ef þessi orð þýða nákvæmlega sömu skilyrði einnig að því er snertir veðið, þýðir það í framkvæmd, að þessi lán rekast á. Og þess vegna er það, að þeir, sem hafa fengið húsnæðismálalán, geta ekki vegna veðréttanna fengið lífeyrissjóðslán líka, en eins og byggingarkostnaður er nú orðinn, er það í mörgum tilfellum alger forsenda þess, að menn geti byggt, að þeir fái bæði þessi lán að öllu eða einhverju leyti, eins og tíðkazt hefur til þessa.

Það voru nokkrar fleiri spurningar, sem ég bar fram, en þær voru kannske minni háttar, og ég vil reyna að endurtaka sem minnst af því, sem ég hef áður sagt, og skal þess vegna láta þessar spurningar nægja.

Ég vil svo að lokum aðeins segja það, að það hefur komið fram í aths. með frv. og mjög greinilega í ræðu hæstv. bankamálaráðh., að tilgangurinn með þessari lagasetningu væri fyrst og fremst sá að vinna gegn verðbólguvexti, sem hann, hæstv. ráðh., ásamt okkur fleirum telur að sé of mikill. En ég hef haldið því fram og geri enn, að til þess að ná þeim tilgangi þurfi verðtryggingin að vera talsvert almenn. Ég held, að til þess að ráða niðurlögum verðbólgunnar sé ekki nóg, að verðtrygging verði tekin upp á útlán lífeyrissjóðanna, fjárfestingarlánasjóðanna og tryggingafélaganna, eins og vitað er, að verður fyrsta skrefið í framkvæmd þessara l., eða eins og látið hefur verið að liggja, að yrði fyrsta skrefið við framkvæmd þessara l. Ef allt spariféð eða langsamlega meiri hl. þess á eftir sem áður að vera óverðtryggður, er ég hræddur um, að þetta vopn verði haldlítið í baráttunni við verðbólguna. Spariféð í bönkunum er núna einhvers staðar um 7700 millj. kr. Ef það á að verulegu leyti að halda áfram að verða óverðtryggt, ef það á að verðtryggjast með kannske 5% eða 10%, sem er það hæsta, sem Landsbankinn hefur áætlað að hægt væri að verðtryggja í sinni umsögn, eru óverðtryggðar eftir sem áður einhvers staðar á milli 6 og 7 þús. millj. kr., og ég er ákaflega hræddur um, að verðtrygging á útlánum fjárfestingarlánasjóða, lífeyrissjóða og tryggingafélaga, jafnvel þó að húsnæðismálalánin yrðu látin fylgja þarna með, yrði ófullnægjandi aðgerð í baráttunni við verðbólguna.

Verðtryggingu húsnæðislána hefur nokkuð borið hér á góma í sambandi við afgreiðslu þessa frv. af mjög eðlilegum ástæðum. Ég hef haldið því fram, síðan byrjað var að ræða þetta mál hér, að það gæti ekki staðizt til langframa, að húsnæðismálalánin ein væru verðtryggð, og þarf raunar tæpast að rökstyðja það. Húsbyggjendur eru þeir, sem kannske hvað sízt geta einir staðið undir þeim verðhækkunum, sem af verðbólgunni stafa, auk þess sem það fyrirkomulag hlýtur óhjákvæmilega að leiða til stórkostlegra kaupkröfugerða og þannig víxlverkana, sem margsinnis hafa verið raktar hér á Alþ, og allir alþm. eru kunnugir. Það gleður mig þess vegna mjög að heyra það, sem hæstv. ráðh. sagði hér í síðustu ræðu sinni, að hann væri þessu algerlega sammála. Að vísu mundi sjálfsagt verðtrygging lífeyrissjóðanna, sem þó lendir mest á þeim sömu mönnum og hafa húsnæðismálalánin og opinbera fjárfestingarlánasjóði, draga eitthvað úr þessu misræmi, en til þess að verða verulegt tæki til þess að ráða við verðbólgu, er það eindregin mín skoðun, að verðtryggingin verði að vera mjög almenn. Það hefur hins vegar verið sagt margsinnis hér, að það væri mjög á huldu með það, hvort hægt væri að taka upp almenna verðtryggingu. M.a. liggur það ekki fyrir, hvort bankarnir geta fengið markað fyrir verðtryggð lán í jafnríkum mæli og framboð af sparifé mundi verða, ef kjörin væru hagstæð.

Margt annað er einnig óljóst í sambandi við þetta frv. Ég er því enn þá á sömu skoðun og ég var síðast, þegar ég talaði um þetta mál, að það hefði átt að fresta lögfestingu þessa frv., það hefði átt að samþykkja þá rökst, dagskrá, sem við í minni hl. lögðum hér fram, sem eins og kunnugt er lagði það til að málinu yrði nú frestað og skipuð yrði mþn., sem hefði náið samráð við Seðlabanka og viðskiptabanka, til þess að endurskoða þetta frv. og til þess að gera það fyllra og nákvæmara og leggja þær niðurstöður fyrir næsta þing. Ég tel miklu eðlilegri málsmeðferð, að það hefði legið fyrir Alþ. fyrir fram, hvaða niðurstöðu samvinnunefnd Seðlabankans og viðskiptabankanna kemst að í þessu efni, en það verði fyrst farið að skoða það, þegar frv. er orðið að lögum.

Ég tel, að hér sé um svo mikilsvert mál að ræða, eins og ég hef margsinnis lýst, og mál, sem raunar er mjög mikil þörf á að koma í framkvæmd, að sú töf, sem af þessari málsmeðferð hefði stafað, hefði ekkert haft að segja. Hins vegar hefði sá ávinningur, sem þannig hefði getað fengizt, getað orðið málinu til mikils liðs og hagræðis. Ég skal svo ekki, herra forseti, lengja þessar umr. meira að svo stöddu.