15.04.1966
Neðri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (983)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð í tilefni af ræðu hv. 3. landsk. þm., sem var að ljúka máli sínu. Orðum hans er ávallt veitt sérstök athygli hér í hv. deild, m. a. vegna þess, að hann er formaður stærsta verkalýðsfélags landsins, og því sjálfsagt að hlusta vandlega eftir því, sem hann hefur að segja um jafnmikilvæg atriði fyrir launakjör í landinu og hér er um að ræða. Þess vegna vildi ég segja nokkur orð í tilefni af þeim ummælum hans, að hann í fyrsta lagi teldi verkalýðshreyfinguna hafa samið af sér í samningunum 1964 að þessu leyti, sem hér er um að ræða, og svo hitt, að hann telji þetta frv. muni verða húsbyggjendum nú og framvegis til óhagræðis, ef ekki til beins tjóns, og sérstaklega bitna á þeim smáu í þjóðfélaginu, en ekki á hinum stóru eða hinum ríkari.

Um þessi atriði vildi ég segja þetta: Ég, eins og ég hef tekið fram áður, er því algjörlega ósammála, að verkalýðshreyfingin hafi að nokkru leyti samið af sér í því samkomulagi, sem gert var um þessi efni sumarið 1964. Hitt er annað mál, að það fyrirkomulag, sem þá var tekið upp á þessu sviði, má ekki vera bundið við það svið eitt, sem þá var gert samkomulag um. Auðvitað er það rétt, að þetta samkomulag veldur því, að tiltekinn hópur húsbyggjenda verður að greiða meira fyrir þau lán, sem þeir fá úr opinberum sjóði, en ella mundi eiga sér stað og áður var. Það, sem lántakendur hjá húsnæðismálastjórn skv. þessu samkomulagi greiða til viðbótar því, sem áður var gert og ella hefði verið gert, eru vísitöluuppbæturnar á lánin.

En var þetta að semja af sér? Svarið við því hlýtur að vera fólgið í því að athuga, hver fær vísitöluuppbæturnar. Ef þær rynnu í vasa einhverra, sem ekki ættu þær skilið, ef þær rynnu í vasa einhverra, sem segja mætti um, að væri ranglátt að fengju þær, þá mætti segja, að verkalýðshreyfingin hefði samið af sér við þetta tækifæri. En allir vitum við hv. alþm., hvert vísitöluuppbæturnar renna. Þær renna í húsnæðismálasjóðinn til þess að tryggja óskert verðgildi hans. Hver einasta króna, sem lántakendur greiða í vísitöluuppbætur á lán sín, rennur til annarra húsbyggjenda samtímis, en þó einkum síðar. Aðrir húsbyggjendur fá hverja einustu krónu, sem vísitölugreiðendurnir greiða á þau lán, sem þeir fá. Það, sem hér er því í raun og veru að gerast, er það, að þeir, sem nú taka húsnæðismálalán með vísitöluuppbót, eru að auðvelda öðrum mönnum síðar að fá lán, sem þeir annars mundu ekki fá. Ef einmitt er gert ráð fyrir því, að það séu hinir smáu, sem fyrst og fremst fái lán úr húsnæðismálasjóðnum, þá er einmitt verið að hjálpa hinum smáu um lán, sem þeir ella hefðu ekki fengið. Þetta var það skynsamlega, þetta var það víðsýna sjónarmið, sem mér finnst vera mjög þakkarvert af hálfu verkalýðshreyfingarinnar í þessum samningum, að gera sér grein fyrir því, að það er ekki nóg að hugsa eingöngu um þá, sem fá lánin í dag eða á þessu ári, það þarf líka að hugsa um hina, sem koma til með að sækja um lán á næsta ári og næstu árin. En það gefur auga leið, það þarf ekki að skýra frekar, að auðvitað munu margir fá lán á næsta ári og næstu árum vegna þessa samningsákvæðis, en hefðu ekki fengið það, ef um það hefði ekki verið að ræða.

Hér er því í raun og veru um það að ræða, að nútíma húsbyggjendur eru að greiða fyrir framtíðarhúsbyggjendum, og það er fyllsta réttlætismál. Svo má auðvitað líka varpa fram þeirri spurningu, — ég tel í sjálfu sér alveg eðlilegt, að henni sé varpað fram, — hvort þeim húsbyggjendum, sem nú fá lán skv. þessu samkomulagi, séu með því lagðar óeðlilega þungar byrðar á herðar. Eru þeim lagðar óeðlilega þungar byrðar á herðar með því að þurfa að greiða vísitöluuppbætur af sínum lánum? Það væri rétt, ef ekki væru vísitöluuppbætur greiddar á laun. Þá væri auðvitað ranglátt að láta húsbyggjendur greiða vísitöluuppbætur á lán, sem þeir taka. En einmitt í sömu samningunum var verið að breyta grundvallaratriðum um þetta efni gagnvart verkalýðshreyfingunni. Þá var samið um að afnema bann gegn greiðslu vísitöluuppbótar á laun og þar með tryggja öll um launþegum vísitöluuppbætur á laun sín. Að öðrum kosti hefði þetta auðvitað verið ranglátt. En hvernig er hægt að staðhæfa, að það sé ranglátt, að launþegar, sem verið er að tryggja fullar, 100% vísitöluuppbætur á laun, greiði sams konar vísitöluuppbót á þann hluta árlegra útgjalda sinna, sem fer til þess að greiða niður lán, sem eru fengin úr opinberum sjóðum? Það er þó aldrei nema nokkur hluti, 10, 20, 30%, af tekjum launþeganna, sem eru að fullu verðbættar, sem fer til þess að greiða niður lán til húsnæðis, og fyrst sama vísitalan gildir um hvort tveggja, verður með engu móti staðhæft, — ég verð að lýsa mig alveg ósammála hv. 3. landsk. þm. í þessu efni, — að hér sé um nokkurt félagslegt ranglæti að ræða, hvað þá aukningu á félagslegu ranglæti, sem fyrir hefur verið.

Hitt er svo annað mál. og ég skal gjarnan enn á ný endurtaka það, að ég tel samt ekki koma til mála, að þetta fyrirkomulag gildi um húsnæðislánin ein. Það er ein af ástæðunum fyrir því, sem ég tel margundirstrikað í þessum umr., að nauðsynlegt er að setja þessi almennu ákvæði, sem geri slíka verðtryggingu í lánasamningum og á sparifé miklu algengari en nú á sér stað. Það verður að ná til annarra aðila í þjóðfélaginu en bara þeirra, sem fá lán úr húsnæðismálasjóði til þess að koma upp yfir sig íbúð.

Ég er líka ósammála hv. 3. landsk. þm., þegar hann segir, að samþykkt þessa frv. muni verða til þess að íþyngja hinum smáu og létta undir með hinum stóru. Ég er þveröfugrar skoðunar. Hver mundi verða höfuðafleiðingin af samþykkt þessa frv.? Hún mundi verða sú, að í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því, að sparifjáreigendur eigi kost á verðbótum á sparifé sitt. Er það í þágu hinna stóru í þjóðfélaginu eða hinna smáu? Erum við ekki sammála um það, við hv. 3. landsk. þm., að ef við verndum sparifjáreigendurna, séum við einmitt að vernda hina smáu? Höfuðranglætið, .sem nú á sér stað vegna verðbólgunnar, er, að sparifjáreigendur, hinir smáu í þjóðfélaginu, eru rændir arði af þjóðfélagslega góðri starfsemi sinni, sparnaðinum, þeir eru rændir hluta af arði af þessari starfsemi sinni vegna verðbólgunnar. Það er annar megintilgangur frv. að tryggja það, að réttur skuli hlutur sparifjáreigenda. Þetta hlýtur að teljast spor í rétta átt, þetta hlýtur að teljast í þágu hinna smáu í þjóðfélaginu, hinna minni máttar, en ekki hinna ríku eða stóru.

Hinn meginþáttur frv. er svo sá að láta einmitt fleiri en húsbyggjendur verða að borga vísitöluuppbætur á þau lán, sem þeir fá til framkvæmda. Og hverjir eru aðrir en húsbyggjendur, sem fá lán til framkvæmda? Það eru atvinnurekendur fyrst og fremst. Hverjir festa fé í þessu þjóðfélagi aðallega aðrir en húsbyggjendur? Það eru atvinnurekendur í öllum stéttum, í öllum starfsgreinum. Þeir sleppa núna við greiðslu allra verðlagsuppbóta af þeim lánum, sem þeir fá, en festa í framkvæmdum, sem hækka í verði. Þetta er ranglætið, sem helzt, ef ekkert gerist meira, miðað við það, sem skeður nú í dag. Þeir, sem fá lán til að byggja íbúðir, eiga núna að greiða vísitöluuppbætur á sín lán, en þeir, sem fá lán úr sameiginlegum sjóðum landsmanna, úr bönkum og fjárfestingarlánastofnunum, og festa þau í fyrirtækjum, í verksmiðjum, í verzlunarhúsum, í lóðum, í skipum, í iðnaðarvélum og öllu mögulegu því um líku, þeir fá lánin og fá að eignast verðbólgugróðann. Það er þetta hastarlega þjóðfélagslega ranglæti, sem við höfum horft upp á undanfarin ár, horfum upp á í dag, en verðum að stemma stigu við. Þennan verðbólgugróða, sem þeir hafa fengið, en eiga ekki að fá framvegis, á ekki að taka í ríkissjóð. Hann á að taka í þágu sparifjáreigendanna. Og þess vegna mundi ég segja: Réttlætið, sem hér er verið að vinna að, er tvíþætt: Annars vegar að koma í veg fyrir það, að menn stingi í vasa sinn gróða, sem þeir hafa ekki að neinu leyti átt þátt í að skapa, heldur er verðbólgugróði, spákaupmennskugróði, tilviljunarkenndur gróði í öllu falli, það er tekinn af mönnum sá möguleiki að stinga slíkum gróða í vasa sinn. Hins vegar er þessi fjármagnsmyndun, þessar tekjur, látin til hinna smáu í þjóðfélaginu, til sparifjáreigendanna, sem hafa orðið að sæta sérstökum órétti á undanförnum árum og áratugum. Þess vegna verð ég að segja, að ég er hv. 3. þm. Reykv. í grundvallaratriðum ósammála um þetta efni.

Ég vil svo undirstrika að síðustu, að ég tel þetta frv. einmitt stefna að því marki, sem hann hefur lýst yfir að sé nauðsynlegt og æskilegt og jafnvel sjálfsagt. Hann hefur undirstrikað í ræðu sinni, — um það erum við algerlega sammála, — að nauðsynlegt sé að rétta hlut hinna smáu í þjóðfélaginu, að rétta hlut sparifjáreigendanna og láta það ekki viðgangast, að húsbyggjendur einir greiði vísitöluuppbætur á lán sín. Einmitt þetta er höfuðtilgangur frv., svo að ég tel, að með því að berjast fyrir samþykkt frv. séum ég og aðrir stjórnarliðar einmitt að stuðla að því, að markmið hans náist.