15.04.1966
Neðri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forforseti. Vegna þess að ég er nú búinn að halda nokkuð margar ræður um þetta mál í meðförum um það hér, bæði við 1., 2. og nú við þessa 3. umr., skal ég reyna að stytta mál mitt mjög, með því líka að það er mjög líðið á venjulegan fundartíma. En ég leyfi mér að kveðja mér hérna fyrst og fremst hljóðs til þess að flytja hæstv. bankamálaráðh. þakkir mínar fyrir það, að hann í gær svaraði ýmsum þeim fsp., sem ég hafði við fyrri umr. málsins beint til hans, og ég tel það mjög mikilsvert, að sem allra flest atriði þessa máls séu svo greinilega fyrir lögð, að ekki geti leikið minnsti vafi á um túlkun þeirra.

Í sambandi við 6. gr. staðfesti hæstv. ráðh. þann skilning, sem ég hafði látið hér uppi um það, að viðkomandi sjóðsstjórnir ættu sjálfar að ákveða, hvort verðtryggja ætti lán frá þeim eða ekki. Hins vegar vorum við ekki á einu máli um, hvort það væri rétt eða heppilegt, að Alþ. afsalaði sér öllum ákvörðunarrétti um það, hvaða verðmiðunargrundvöll skyldi viðhafa, jafnvel þó að það væri í hendur á svo virðulegri stofnun sem Seðlabanka Íslands. Tel ég, að Alþingi ætti sjálft að hafa þessa ákvörðunarheimild, eins og það hefur til þessa haft í öllum þeim tilfellum, þar sem verðtrygging hefur verið í lög leidd.

Það er að vísu alveg rétt, og ég hafði sjálfur getið þess, sem hæstv. ráðh. gat um í sinni ræðu, að í 4. gr. frv. væru leiðbeiningarákvæði um það, hvaða vísitölu eða viðmiðun skyldi hafa. En ég benti á það hér um daginn, að vísitala framfærslukostnaðar ætti alls ekki við í öllum tilfellum, og nefndi um það nokkur dæmi, og ég er enn, þrátt fyrir þessi svör hæstv. ráðh., algerlega í vafa um það, hvaða viðmiðunargrundvöllur verður viðhafður, t.d. við skipakaup, og mér finnst enn, — þetta er kannske ekki mjög stórt atriði í sambandi við þetta mál. — en mér finnst þó, að það sé atriði, sem menn þurfi að gera sér grein fyrir, og Alþingi ætti ekki að afsala sér því um aldur og ævi að hafa áhrif á það, hvaða grundvöllur hér væri lagður til viðmiðunar. Þá tel ég það mjög mikilsvert, að frá hæstv. ráðh. komi alveg skýr og afdráttarlaus svör um það, að ákvæði 7. gr. beri að túlka þannig, að möguleikar húsbyggjenda til þess að taka lán, bæði úr lífeyrissjóði og frá húsnæðismálastjórn, væru ekki skertir frá því, sem nú er. Ég tel, að þetta sé mjög mikilsvert atriði og mjög gott, að það er nú óumdeilanlega staðfest, að það er skilningur hæstv. ríkisstj. og hæstv. bankamrh., að þetta sé það, sem lesa beri út úr 7. gr.

Hæstv. ráðh. sagði, að mjög væri óheppileg sú till., sem við nokkrir stjórnarandstöðuþm. bárum fram, minni hl. fjhn., að fresta málinu nú milli þinga og láta fara fram athugun á því með fulltrúum allra þingflokkanna og í samráði við Seðlabanka og viðskiptabanka, vegna þess að málið þyrfti að koma strax til afgreiðslu. Jafnframt lét hann í ljós ugg um það, að sú nefndarskipun mundi leiða til þess, að málið fengi litla athugun og litlu meiri athugun en það hefði fengið i fyrrasumar, þegar það lá þó á milli þinga. Ég verð að segja það, að ég tel þennan ótta algerlega ástæðulausan. Ég tel enga ástæðu til að ætla, að þingkjörin n., sem fengi þetta mál til meðferðar, mundi ekki rækja það starf, sem henni væri falið. Þvert á móti tel ég, að við þessa málsmeðferð mundi vinnast það, sem ég hef margoft undirstrikað hér, að málið fengi betri athugun, og sú athugun, sem á að fara fram í samráði við viðskiptabankana, lægi fyrir, áður en hv. alþm. tækju afstöðu til frv., en ekki einhvern tíma síðar, þegar þeir væru búnir að segja sitt síðasta orð og ættu ekki kost á því að leiðrétta frv., nema þá með nýrri lagasetningu. Ég er enn þá þeirrar skoðunar þrátt fyrir það, sem hefur fram komið við þessar umr., og ekkert síður vegna þess, sem hefur komið fram við þessar umr., að það væri rétt málsmeðferð að athuga þetta betur, og ég tel, að það mundi ekkert tapast, en ýmislegt vinnast.

Ég ætla ekki að fara að gerast aðili að þeim miklu umr., sem orðið hafa hér um afleiðingar þessa frv. fyrir þá, sem byggja hús og hafa tekið lán hjá Húsnæðismálastofnun, en ég vil undirstrika það, sem kom fram hjá hæstv. bankamrh. síðast hér áðan, að það er ósanngjarnt og getur tæplega staðizt til nokkurrar frambúðar, að þeir einir, sem taka lán til að byggja eigin íbúðarhúsnæði, séu þeir, sem standa undir vísitölukvöðum af sínum lánum. Um þetta virðast nú allir sammála. Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að réttlæting vísitölubótanna væri ekki hvað sízt sú, að þær gengju til þess að efla húsnæðismálasjóðinn, til þess að gera hann færari um að standa undir útlánum en hann annars mundi verða. Þetta er vissulega alveg rétt og á við um alla fjárfestingarlánasjóði. En hlýtur ekki afleiðingin einmitt af þessu fyrirkomulagi að vera sú, að sá sjóður, sem nýtur vísitöluuppbóta á útlán sín, ætti að geta og hlýtur að verða að hækka útlánin út á hverja einstaka íbúð, og gerir ekki þetta fyrirkomulag einmitt mögulegt fyrir Húsnæðismálastofnunina að hækka nú þegar lánin út á hverja íbúð fyrir sig, a.m.k. sem vísitöluhækkun nemur? Lánin hafa nú verið óbreytt í hartnær 2 ár eða síðan í júní 1964, og allir vita þó, að mikil vísitöluhækkun hefur orðið á því tímabili, og ég vil vænta þess, að þær auknu tekjur, sem Húsnæðismálastofnunin hefur einmitt af þessu vísitöluákvæði, geti verkað til þess að hækka lánin, og það verði á því sem allra minnstur dráttur.

Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að vísitölubætur á íbúðarhúsnæðislán væru eðlilegar og samningar verkalýðsfélaganna hefðu verið eðlilegir og réttlátir, vegna þess að jafnframt vísitöluuppbótum á lán hefðu verið teknar upp vísitöluuppbætur á laun. Það er auðvitað alveg hárrétt, að án vísitöluuppbóta á laun væri hitt óhugsandi. En ég er hræddur um, að vísitölubæturnar á laun gangi til annars og verði að ganga til annars hjá flestum en til að standa undir hækkuðum lánum, ekki sízt þegar það er haft í huga, hver hlutur húsnæðiskostnaðarins er í vísitölunni, en eins og kunnugt er, hefur vísitalan árum saman verið reiknuð á þann hátt, að húsnæðiskostnaðurinn þar er reiknaður of lágt, talinn nú, að því er ég má segja, 12 900 kr. á ári, og hefur hækkað á undanförnum mörgum árum um aðeins örfá stig á ári. Ég er því hræddur um, að sú dýrtíðaraukning, sem veldur launaaukningu, stafi fyrst og fremst af öðrum ástæðum en hækkuðum húsnæðiskostnaði, og sú hækkun á húsnæðiskostnaðinum, sem verður m. a. vegna vísitöluuppbóta eða ákvæða á húsnæðislánum, sé þar afgangs.

Annars var það, sem kom mér til að kveðja mér hljóðs að síðustu við þessar umr., ekki þetta, sem ég hef nú sagt, heldur sú yfirlýsing, sem hæstv. ráðh. gaf í gærkvöld í ræðu sinni, sem hann hélt þá, þar sem hann sagði, að það hefði alltaf verið tilætlunin að láta verðtryggingu sparifjár koma jafnhliða verðbindingu á útlánum, en aldrei á undan. Þetta tel ég mjög mikilvæga yfirlýsingu, og satt að segja kemur hún mér algerlega á óvart, vegna þess að undir meðferð málsins hjá fjhn. þessarar hv. d. stóð ég a.m.k. persónulega og að ég held meðnefndarmenn mínir flestir í þeirri trú, að skýringar eða túlkun dr. Jóhannesar Nordals seðlabankastjóra á því, hvernig framkvæma ætti þetta frv., hefði verið sú, að f fyrsta lagi ætti að taka upp verðtryggingu hjá lífeyrissjóðum og tryggingafélögum, í öðru lagi hjá opinberum fjárfestingarlánastofnunum samkv. 6. gr., en ekki fyrr en í þriðja lagi og smátt og smátt, eftir því sem það sýndi sig að eiga við, hjá bönkum og innlánsstofnunum. Út frá þessu sjónarmiði er margt af því, sem ég hef hér sagt og látið frá mér fara, túlkað, og ég hygg, að það séu fleiri, sem hafi skilið málið á þennan hátt, og augljóst er raunar, að þeir, sem hafa flutt brtt. á þskj. 447, hafa skilið þetta mál á þennan veg, því að annars væri brtt. þeirra óþörf, eins og hæstv. ráðh. sagði. En ég vil mjög undirstrika það, að ég tel, að þetta sé til mikilla bóta og breyti raunar málinu verulega, þegar nú hefur fengizt skýlaus yfirlýsing hæstv. bankamálaráðh. um það, að þessar aðgerðir eigi allar að fara fram jafnhliða. Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs til að fagna þessari yfirlýsingu og til að undirstrika það og til að fá því þá mótmælt, ef þetta væri ekki réttur skilningur, að það væri þetta, sem vekti fyrir hæstv. ríkisstj., og það væri misskilningur, sem við ýmsir í fjhn. Nd. stóðum í og höfum staðið í, að dr. Jóhannes Nordal hafi sagt okkur, að fyrst ætti að taka upp verðtryggingu hjá lifeyrissjóðum og tryggingafélögum, í öðru lagi ætti að taka upp verðtryggingu hjá opinberum fjárfestingarlánastofnunum, en ekki fyrr en í þriðja lagi og þá smátt og smátt, eftir því sem aðstæður leyfðu, að taka verðtrygginguna upp hjá bönkum og öðrum innlánsstofnunum.