15.04.1966
Neðri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hafði nú hugsað mér að beina orðum mínum nokkuð til hæstv. viðskmrh. í sambandi við umr., sem hér höfðu farið fram um þetta mál í gærdag, og kann heldur illa við það, ef hæstv. ráðh. getur ekki verið viðstaddur, og vildi ég þó ekki tefja neitt fyrir afgreiðslu málsins. Ég vildi nú spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forseta, hvort ekki væri líklegt, að hæstv. ráðh. mundi sýna sig hér við umr. (Forseti: Því miður verð ég að upplýsa hv. þm. um það, að hæstv. viðskmrh. getur ekki verið við umr. í kvöld.) Það var leiðinlegt að heyra, þar sem þetta er mál. sem hann flytur hér og hefur verið að halda hér ræður um og gaf vissulega tilefni til þess, að við hann yrði rætt. Því miður sé ég, að það vantar einnig hér ritstjóra Alþýðublaðsins, sem á sæti hér í þd., en ég hefði vel getað haft það þannig, eins og sagt er, að hafi gerzt hjá einum góðum manni, að ég hefði getað dembt þessu yfir hann, sem ég ætlaði að segja, í fullu trausti á það, að hann hefði þá flutt hæstv. ráðh. það, sem ég vildi segja. En þennan hv. þm. vantar hér líka, og verð ég þá líklega að beina máli mínu til þeirra fáu sjálfstæðismanna, sem hér eru, því að það er víst enginn til þess að taka við þessu, sem ég vildi segja, fyrir hönd Alþfl.

Í umr. um þetta mál í gær gerði ég nokkra tilraun til þess að reyna að fá nokkrar efnisumr. um þetta mál. og ég drap þar á nokkur meginatriði, sem efni frv. fjallar um. Hæstv. viðskmrh. hafði lýst því yfir, að að því væri stefnt með þessu frv. að draga úr fjárfestingarlánum og einnig væri að því stefnt að reyna að hamla gegn vexti dýrtíðarinnar. Ég lagði þá hér fram fsp. um það, hvaða tegundir af fjárfestingarlánum það væru, sem ætlunin væri að draga úr með ákvæðum þessa frv., og síðan vék ég einnig nokkuð að því, hversu líklegt það væri, að ákvæði frv. gætu áorkað einhverju í þá átt að draga úr verðbólgunni. En þó að ég færi hér fram á það við hæstv. viðskmrh. að ræða málið nánar á þessum grundvelli, vék hann sér undan því, þegar hann kom hér upp í ræðustólinn á eftir. Og hann ræddi að mínum dómi aðeins aukaatriði málsins, þau, sem segja má, að út af fyrir sig standi enginn ágreiningur um, eins og t.d., að það sé réttlátt að bæta sparifjáreigendum upp það tjón, sem þeir verða fyrir í vaxandi verðbólgu. Út af fyrir sig eru allir sammála um, að slíkt væri æskilegt. Eða þá það, að hæstv. ráðh. talaði mikið um, að það væri nauðsynlegt að koma í veg fyrir, að lántakendur gætu rakað til sín verðbólgugróða í síhækkandi verðlagi. Ég hafði lýst því mjög greinilega yfir í ræðu minni, að ég er sammála þessu líka. Ég vil gjarnan koma í veg fyrir það, að aðilar geti rakað að sér verðbólgugróða. En það var sem sagt alveg ljóst, að hæstv. viðskmrh. óskaði ekki eftir því að ræða þessi meginefnisatriði málsins, en fór sem sagt út í hin atriðin, sem eru minni háttar, og ég þykist hafa sýnt fram á í minni ræðu, að sé verulega líklegt, að hæstv. ráðh. fái náð þessum ágæta tilgangi sínum með lagasetningu í þessa átt, sem frv. stefnir í.

Ég benti alveg sérstaklega á það í ræðu minni, að afleiðingarnar af því að samþ. þetta frv. mundu verða þær, að ýmsir lántakendur, sem raunverulega fá ekki í sínar hendur neinn verðbólgugróða, mundu verða skattlagðir allþunglega samkv. ákvæðum frv., með því að þeir yrðu að greiða aukaálag á afborganir og vexti af lánum sínum og þannig mundu útgjöld þessara aðila margra hverra aukast frá því, sem verið hefur, án þess að þeir hafi fengið í sínar hendur nokkurn raunverulegan verðbólgugróða. Sem dæmi um þetta nefndi ég m. a. þá, sem taka lán til þess að byggja sér íbúð. Þeir, sem taka sér lán til þess að byggja yfir sig íbúð og selja íbúðina ekki, heldur búa í henni, fá vitanlega ekki í sínar hendur neinn verðbólgugróða. En þeir verða að borga allmiklar viðbótarálögur í gegnum vísitöluákvæðin af þeim lánum, sem þeir taka vegna sinna byggingarframkvæmda. Á þennan hátt er verið að skattleggja þessa aðila, og af þessu verða ákveðnar afleiðingar, eins og ég benti á. Um leið og hin almennu íbúðalán verða á þennan hátt dýrari, koma upp kröfur hjá þeim, sem taka þessi lán og verða að standa undir lánunum, um það, að þeir verði að hækka sínar tekjur, það verða afleiðingarnar. M.ö.o.: það má búast við því, að þetta verki hreinlega í þessum tilfellum til þess að auka við dýrtíðina.

Ég tók einnig dæmi um fleiri en íbúðabyggjendur. Ég tók líka dæmi úr atvinnulífinu. Þeir, sem taka lán vegna framkvæmda sinna og verða, ef þetta frv. yrði gert að lögum, að borga verulegt álag á afborganir af lánunum og vaxtagreiðslur af lánunum, þeirra útgjöld vitanlega aukast, og ef þar er um að ræða aðila, sem fær ekki í sínar hendur neinn verðbólgugróða, af því að hann selur ekki eign sína, heldur starfar með hana með eðlilegum hætti, verður þetta til þess að auka á útgjöld viðkomandi aðila, og það er hætt við því, að það muni segja til sín. Ef hér væri um að ræða verzlun eða annað slíkt fyrirtæki, er enginn vafi á því, að verzlunin mundi velta þessum auknu álögum út í verðlagið. Ef hins vegar um væri að ræða framleiðslufyrirtæki, sem kannske berst í bökkum, er hætt við því, að það muni leita til ríkisins um aukinn stuðning.

En um þetta vildi hæstv. viðskmrh. ekki ræða, heldur ræddi um þessar aukagreinar, sem ég var að minnast á. En svo bregður við, að þegar hæstv. viðskmrh. vill ekki ræða þetta, kemur blað hans í morgun, Alþýðublaðið, og segir frá þessum umr. á alleinkennilegan hátt. Það hefur yfirskrift yfir þeirri frásögn, þar sem það skýrir frá þessum umr.: „Lúðvík vill setja verðhækkunarskatt á íbúðir.“ Og síðan er því lýst í skýru máli, að Lúðvik vilji nú endilega koma miklum skatti á íbúðabyggjendur í landinu og koma í veg fyrir, að menn geti komið sér upp íbúðum. Og dæmi er tekið um það, og m.a. er sagt: Hefði nú t.d. maður byggt sér íbúð, sem kostað hefði 500 þús. kr., en svo hefði þessi íbúð reynzt manninum of lítil, þegar tímar liðu fram, og hann hefði selt íbúðina, þá gat hann selt íbúðina á 800 þús. vegna verðbólgunnar. Þá hefur Lúðvík lagt til, eftir frásögn blaðsins, að þessi maður yrði skattlagður um 300 þús. kr. og þar með yrði lokað fyrir það, að hann gæti eignazt íbúð. En til þess að gera þetta allt saman nægilega vel úr garði, þegar búið er að skýra frá þessum nýja skatti Lúðvíks, verðhækkunarskatti á íbúðir, er sagt, rétt í blálokin orðrétt á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Í umr. sagði Gylfi Þ. Gíslason, að yrði frv. ekki samþ., hlyti vísitala að verða tekin af íbúðarlánum til samræmis.“

Já, það svo sem fer ekkert á milli mála, að þeir, sem lesa þessa klausu, verða varir við eitt. Lúðvik leggur þar til, að íbúðareigendur í landinu verði skattlagðir stórkostlega og það verði komið í veg fyrir það, að þeir geti eignazt íbúðir, en svo bætt við í lokin: En Gylfi vill jafnvel létta af vísitölukvöðinni, sem verið hefur, en ekkert frekar sagt, um hvað frv. var. Þar hafa menn það. Þeir, sem lesa Alþýðublaðið, segja að sjálfsögðu: Mikill dánumaður er hann Gylfi, hann vill létta af þessum óþægilegu kvöðum, sem hafa verið settar á íbúðalánin. En Lúðvík vill magna skattinn frá því, sem hann er.

Ég hlýt nú að spyrja um það: Hvort er heldur, að hér sé á ferðinni slíkur grautarhaus, sem á umr. hefur hlýtt hér, að hann hafi ekki skilið upp né niður í því, sem hér var sagt, og viti ekkert, um hvað málið er, sem er hér til umr., — eða hefur viðkomandi aðili alla þessa miklu tækni til þess að halla réttu máli og hann sé hér aðeins að sýna, á hvers konar kostum hann getur leikið í þeim efnum að falsa rétta frásögn? Sannleikurinn er nefnilega sá, að það hefði verið fullkomlega rétt að skipta hér um nöfn í fyrirsögninni og segja í staðinn fyrir Lúðvík: „Gylfi vill setja verðhækkunarskatt á íbúðir.“ Það er hið sanna. Um það hafa umr. staðið. Hér er verið að leggja til að leggja ákveðinn skatt í formi vísitöluuppbóta á lán, og það er búið að margbenda á það í umr., að þessi skattur muni verða ærið þungur fyrir þá, sem þessi lán taka, m. a. til þess að byggja sér íbúðir. Það er þegar búið að ganga nokkuð inn á þessa braut, en til viðbótar kemur svo hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, og leggur til, að allir lífeyrissjóðir í landinu fái sjálfkrafa heimild til þess að leggja á svona skatt, eins og þegar er kominn á húsnæðismálalánin, á lánin úr lífeyrissjóðunum til þeirra, sem eru að byggja sér íbúðir, og reyndar á að leggja slíkan skatt á ýmsa fleiri. En svona málflutningur er í rauninni ágætt dæmi um það, hvernig vissir aðilar leika sér að því að snúa við staðreyndum, því að það er eins og ég segi, það er bara um tvennt að ræða, annaðhvort er hér um slíkan grautarhausshátt að ræða, að viðkomandi aðili, sem þetta skrifar, hefur ekkert skilið í þeim umr., sem hér fóru fram, og ekkert kynnt sér það mál, sem hér er til umr., eða þá að það er vísvitandi verið að segja hér rangt frá.

Eins og ég hafði hér nokkuð komið inn á, var sannleikur málsins sá, að ég var að vara við því að fara inn á þá braut að skattleggja íbúðarhúsalán. En hæstv. viðskmrh. svaraði því til: Það verður að skattleggja íbúðarhúsalánin eins og önnur lán, til þess að hægt sé að bæta sparifjáreigendum upp þann skaða, sem þeir verða fyrir í verðbólgunni. — Ég benti á það, að raunverulega er um verðbólgugróða að ræða, þar sem þannig stendur á, að lántakandi notar lánið til þess að eignast fasteign, fasteignin hækkar í verði og hann notar fasteignina til sölumeðferðar til þess að hagnast á henni. Þetta á sér stað m.a. hjá bröskurum í þessari grein með fasteignir, þeir hagnast drjúgan á þennan hátt. Dæmið, sem Alþýðublaðið tekur um íbúðareigandann, yrði vitanlega aldrei af neinum manni flokkað undir það, að þar væri um verðbólgugróða að ræða. Þar er aðeins um það að ræða, að íbúðareigandi skiptir um íbúð, og slíkt yrði vitanlega aldrei flokkað undir neinn verðbólgugróða og er alger tilbúningur þess, sem hefur skrifað klausuna í Alþýðublaðið. En á það má svo einnig benda, að fyrirkomulag, sem ég benti á, að væri vitanlega auðvelt að hafa til þess að koma í veg fyrir, að þeir, sem raunverulega vildu ná sér í verðbólgugróða gegnum lántöku, gætu hagnazt, það væri einmitt að beita þeim ákvæðum, sem við höfum haft í lögum alilangan tíma í sambandi við lánveitingar úr verkamannabústaðakerfinu. Þar hafa þessi ákvæði verið í gildi, að lántakandinn fær ekki að selja þá eign, sem hann hefur fengið fyrir þetta lán, á þann hátt, að hann nái í verðbólgugróða út á lántökuna. Hann getur vitanlega fengið sinn eðlilega hagnað af því, sem hann hefur sjálfur lagt í íbúðina, en hitt er bannað.

Það, sem hæstv. viðskmrh. vék sér alveg undan að ræða í sambandi við þetta mál, en auðvitað er alveg meginatriði, er það, að þegar hann segir, að það sé nauðsynlegt að bæta sparifjáreigendum upp það tjón, sem þeir verða fyrir í vaxandi verðbólgu, verður hann að gera sér grein fyrir því, hver á að borga þetta tjón. Hvaðan eiga peningarnir að koma? Og er það viljinn að ná i þessa peninga til þess að bæta sparifjáreigendum upp það tjón, sem þeir verða fyrir í verðbólgunni, á þann hátt að hækka raunverulega almennan húsaleigukostnað í landinu? Telja menn það réttmætt, telja menn það rétt? Það er auðvitað mesti misskilningur hjá hæstv. viðskmrh., þegar hann lætur orð að því liggja, að sparifjáreigendur í landinu séu hinir mörgu, smáu, fátæku í landinu. Það er rétt, það eru vitanlega talsvert margir, sem eiga sparifé. En í sparifé landsmanna, því fé, sem lánað er út af lánastofnunum, þar er einnig um ýmsa aðra aðila að ræða og þá mjög stóra, sem aldrei geta flokkazt undir hina mörgu og smáu. Ég hygg, að t.d. bankarnir í landinu eigi nú orðið í eigin fé hartnær 1 milljarð. Þetta fé er vitanlega talið með í sambandi við hin almennu útlán, enda er gert ráð fyrir því í frv., að bankarnir fái heimild til þess að lána út þetta fé með vísitöluálagi.

Það hefur verið nokkuð talað um einn sjóð að undanförnu, einn af hinum stærri sjóðum, atvinnuleysistryggingasjóð, sem lánar út mikið fé. Hann mun þegar eiga á milli 700 og 800 millj. kr. Og þannig væri hægt að nefna marga aðra sjóði, sem eiga fjármagn í útlánum, og það er vitanlega verið að gera ráð fyrir því að láta þessa aðila hagnast frá því, sem verið hefur, eða forða þeim frá því, að þeir tapi í verðbólgunni.

Ég fyrir mitt leyti hef ekki á móti því, að það sé reynt að koma í veg fyrir það, að sparifé, hvort það er heldur sparifé bankanna eða sjóða eða tiltölulega fátækra einstaklinga, — að reynt verði að koma í veg fyrir það, að þetta fé rýrni í verðbólgunni. En ég hef bara bent á það, nákvæmlega eins og bankastjórar Landsbankans bentu á í bréfi sínu til fjhn. þessarar d. í umsögn sinni um þetta frv., að ég álít, að rétta leiðin til þess að koma í veg fyrir það, að fé þessara aðila rýrni í verðbólgunni, sé að snúa sér að vandamáli verðbólgunnar sjálfrar, reyna að stöðva óðaverðbólguna, sem hér er í gangi hjá okkur. En þær ráðstafanir, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., miða ekki að því að stöðva verðhækkanirnar. Þær geta gengið áfram eftir sem áður. En hinu verða menn aftur að gera sér grein fyrir, að verðtrygging á fjárskuldbindingum eða á lánum er mjög erfið viðfangs, þar sem um er að ræða æðandi dýrtíð. Þá skapast margvísleg og mikil vandamál. og ég vildi gera tilraun til þess að fá hér inn í umr. einmitt álit hæstv. viðskmrh. á því, hvernig hann ætlaði sér að glíma við þau vandamál. sem upp kæmu, ef þetta yrði reynt i framkvæmd, hvernig hann ætlaði að fara að því að leysa vandamál hinna fjölmörgu íbúðabyggjenda í landinu, þegar þeir fá á sig aukin útgjöld, hvernig hann ætlaði að fara að því að mæta nýjum útgjaldavandamálum ýmiss konar fyrirtækja, hvernig hann ætlaði að koma í veg fyrir það, að verzlunin í landinu, að því leyti sem hún yrði að borga þessar auknu álögur, velti því ekki af sér út í verðlagið. Hvernig ætlar hann að koma i veg fyrir þetta? Um þetta fékkst hæstv. viðskmrh. ekki til að ræða.

Hæstv. viðskmrh. sagði hins vegar, að það væri ætlunin, strax eftir að frv. þetta yrði að lögum, að láta þessar vísitöluuppbætur ná til sparifjárins í landinu eða gefa sparifjáreigendum strax kost á því að leggja fé sitt inn til geymslu með þessum kjörum. Nú vitum við það, að þar er ekki aðeins um að ræða það fé, sem safnast hjá sparifjáreigendum í landinu, frá því að þetta frv. er gert að lögum. Það er ekki aðeins um það fé að ræða, heldur geta sparifjáreigendur, sem eiga þær innstæður, sem standa nú í lánastofnunum landsins, vitanlega tekið út þetta fé og breytt því á tiltölulega mjög skömmum tíma í vísitölutryggð innlán. Þetta þýðir vitanlega, eins og bankarnir í landinu hafa bent á; að þarna skapast mikil útgjöld, sem ganga til verðuppbóta á þessu sparifé. Og einhvers staðar verður að fá peningana í þessi nýju útgjöld. M.ö.o.: bankarnir verða strax að gera ráðstafanir til þess að koma útlánum sínum einnig undir vísitöluákvæði. Og viðskiptabankarnir bentu á það, að þeim mundi vera um megn að koma nægilega miklu af sínum lánum undir vísitöluákvæði og þeir mundu ekki geta staðið undir auknum útgjöldum af því sparifé, sem inn til þeirra kæmi og síðan ætti að verðtryggja, þeir bentu á, að þetta mundu þeir ekki geta, vegna þess að viðskiptabankarnir lána tiltölulega mjög lítið út af fjárfestingarlánum og þeir hafa því ekki aðstöðu til þess að stofna til útlána, sem gefa þeim auknar tekjur eftir þessari leið, en þeir taka hins vegar á móti meiri hlutanum af sparifé landsmanna á hverju ári og þyrftu því að standa undir auknum útgjöldum af þessum innlögum. Bankarnir hafa bent á það, að þeir mundu ekki geta staðið undir þessum nýju útgjöldum, nema þá með þeim hætti, eins og bankarnir segja, að þeir drægju stórlega að sér með veitingu rekstrarlána og tækju upp á því að lána meira og meira af fjárfestingarlánum. En auðvitað vita allir, að slíkt væri ekki æskilegt, heldur þvert á móti stórhættulegt. Þegar viðskiptabankarnir bentu á þetta, svaraði stjórn Seðlabankans því, að leiðin út úr þessu yrði sú, að viðskiptabankarnir yrðu að breyta verulegum hluta af þeim lánum, sem þeir hefðu þegar stofnað til, til ýmiss konar atvinnurekstrar í lengri lán, 5—8 ára lán og koma þeim einnig undir vísitöluákvæðin, jafnvel þó að þarna væri um rekstrarlán að ræða, eins og Seðlabankinn orðaði það. Ég held, að þetta geti ekki leitt til annars en þess, að þeir aðilar, sem fyrir slíku yrðu, t.d. verzlunarfyrirtæki, mundu reikna með auknum útgjöldum hjá sér af lánum og hækka sína álagningu, þar sem álagningin er frjáls í langflestum tilfellum; og þetta mundi beinlínis leiða til hækkandi verðlags í landinu.

Þegar þessi mál eru rædd og óskað er eftir umsögn hæstv. viðskmrh., sem talar hér fyrir þessu frv., um þessi atriði, skýtur hann sér algerlega fram hjá þessu, og þá veit hann, að það er ekki aðeins ég, sem hef bent á þetta. Á þetta hafa m. a. bent viðskiptabankar landsins. En eina svarið, sem kemur frá hæstv. viðskmrh., er þetta: Það er sanngjarnt að bæta sparifjáreigendum upp það tjón, sem þeir verða fyrir í verðbólgunni, og það á að koma í veg fyrir það, að óeðlilegur verðbólgugróði safnist á hendur þeirra, sem lán taka í bönkunum. — Slík svör sem þessi frá hendi hæstv. viðskmrh. bera vitni um það að mínum dómi, að hann vill ekki horfast í sugu við þann vanda, sem hann verður þó fyrr eða síðar að standa frammi fyrir í sambandi við framkvæmd á þessu máli.

Röksemdir eins og þær frá hæstv. viðskmrh. í sambandi við þetta vísitöluálag, sem mundi koma fram á íbúðalánum, að segja, að það skipti engu máli, þó að þeir, sem taka sér lán til íbúðahúsabygginga, þurfi að borga verulegt álag á afborganir og vexti af þessum lánum, vegna þess að þetta aukna álag renni aftur til íbúðarhúsalánakerfisins og aðrir lántakendur muni njóta góðs af þessum auknu greiðslum húsbyggjenda, — slíkar röksemdir eru auðvitað alveg fráleitar og ekki sæmandi hæstv. viðskmrh. Alveg á nákvæmlega sama hátt hefði ráðh. getað sagt: Húsbyggjendur ættu ekki að vera að tala um það, hvort þeir borga heldur 8% vexti af þessum lánum sínum eða 20% vexti, það skiptir engu máli, vextirnir renna í húsnæðismálasjóðinn góða, og þar með hefur hann meira fé á milli handa og getur lánað fleiri aðilum út til íbúðabygginga. — En slíkir háir vextir af íbúðalánunum eða aukaálag á umsamda vexti og umsamdar afborganir leiðir vitanlega til aukinna útgjalda íbúðarhúsaeigenda, og það eru þessi auknu útgjöld, sem gilda í lífi viðkomandi manna, og þeir munu gera kröfur um það að fá kaup hækkað til þess að vega upp þessi auknu útgjöld, hvað sem liður því, að það sé verið að byggja upp einhvern ágætan sjóð fyrir framtíðina. Svona röksemdir vitanlega duga engan veginn.

Þá vék hæstv. viðskmrh. að því, að hann játaði það, að slíkt vísitöluálag kæmi eingöngu á lán, sem tekin væru til íbúðarhúsabygginga, það væri út af fyrir sig ósanngjarnt, það viðurkenndi ráðh. En hann virtist vilja gera þetta sanngjarnt með því að koma hliðstæðum álögum á miklu fleiri aðila. En hæstv. ráðh. kemst þó ekki fram hjá því, að þetta frv. er þannig byggt upp, að það er fyrst og fremst gengið út frá því, að öll íbúðarhúsalán í landinu lendi undir þessi ákvæði. Í fyrsta lagi eru lánin frá húsnæðismálastjórn þegar komin undir þessi ákvæði, og síðan er gert ráð fyrir því, að lífeyrissjóðirnir, sem starfandi eru í landinu, fái sjálfir heimild til að taka upp þetta sama fyrirkomulag. Þar með er búið að tryggja það samkv. frv., að svo að segja öll lán, sem ganga til íbúðabygginga, skuli háð þessum kvöðum. En það er hins vegar ekki að finna í þessu frv. neitt um, að það sé öruggt, að t.d. lán til verzlunarinnar á landinu verði háð þessum skilmálum, ekkert. Það yrði alveg undir ákvörðunarvaldi Seðlabankans og viðskiptabankanna, hvort það yrði gert eða ekki. Og ef lánin til verzlunarinnar yrðu látin bera þessar kvaðir, hvaða trygging er þá fyrir því, að verzlunin velti ekki af sér þessum nýju álögum út í verðlagið og þeim, sem fást við verzlun, megi í léttu rúmi liggja út af fyrir sig, hvort þessar álögur falla á þau lán eða ekki? Hér eru engar skorður reistar gegn slíku sem þessu, — engar. En frá hinu virðist vera gengið alltryggilega, að íbúðabyggjendur skuli verða að borga þetta aukna álag.

Í umsögnum viðskiptabankanna um þetta frv. kemur greinilega fram, að þeir benda á marga annmarka við að reyna að fara þessa leið, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Þeir benda á, að það sé veruleg hætta á því, að sparifjáreigendur í landinu verði látnir búa við mismunandi kjör í þessum efnum, af því að því er í rauninni slegið föstu fyrir fram, að það sé alveg óframkvæmanlegt að verðtryggja allt sparifé í landinu. A.m.k. segir Seðlabankinn það í sínu bréfi, að það sé með öllu útilokað að færast slíkt í fang. En þá er, eins og viðskiptabankarnir benda á, hætt við því, að útkoman verði sú, að sumir sparifjáreigendur geti komið sínu sparifé undir þessi ákvæði og vísitölutryggt sig, en aðrir sparifjáreigendur í landinu eigi ekki þess kost. Þá væri búið að loka fyrir það, ef ásóknin verður meiri en að einhverju vissu marki. Það er því mjög hætt við því, að þessar reglur verði til þess að skapa misrétti á milli hinna einstöku sparifjáreigenda í landinu. Bankarnir benda líka á það, að það er mjög hætt við því, að það skapist misrétti í sambandi við lánveitingarnar líka, vegna þess að það er ekki gert ráð fyrir því, að öll útlán bankanna verði með þessum ákvæðum, og það virðist vera, að það eigi að framkvæma það eftir fyrirskipunum frá Seðlabankanum og eftir ákvörðun viðskiptabankanna, hvort þessi lántakandinn eða hinn á að fá lán með þessum sérstöku kjörum eða hvort þeir geti fengið lán, sem séu ekki vísitölubundin. Á þennan hátt er verulega hætt við því, að það geti skapazt mikið misrétti á milli hinna einstöku lántakenda og það geti skapazt mjög mismunandi aðstaða þeirra á milli í sambandi við þeirra rekstur eða þeirra aðstöðu. Annar viðskiptabankinn undirstrikar í sínu bréfi, að hann telji, að það sé með öllu fráleitt að tala um það að setja vísitöluákvæði á rekstrarlán. Ef lánin séu raunverulega bundin í rekstri á einn eða annan hátt, telur sá viðskiptabanki það með öllu fráleitt að hugsa sér að taka upp vísitöluákvæði á slíkum lánum, af því að það muni beinlínis verða til þess að auka við verðbólguvöxtinn í landinu. En sami banki og einnig hinn viðskiptabankinn bendir hins vegar á það, að ef eigi að nokkru marki að verðuppbæta sparifé, verði viðskiptabankarnir einmitt til þess að skapa sér tekjur til að standa undir slíkum bótum að fara inn á þá braut að breyta ýmsum rekstrarlánum í vísitölubundin lán, sem þeir telja hættulegt.

Bankarnir undirstrika það, að þeir telja mjög mikla óvissu í sambandi við framkvæmd á löggjöf sem þessari, og því lögðu báðir aðalviðskiptabankar þjóðarinnar til, að málið næði ekki fram að ganga á þessu þingi, það yrði látið bíða. En nú kemur í ljós, að hæstv. ríkisstj. virðist leggja áherzlu á það, að þetta mál, eins og það er undirbúið, nái fram að ganga, hvað sem öllu öðru liður. Ríkisstj. hefur heyrt, að forustumenn verkalýðssamtakanna í landinu, sem hér hafa talað um þetta mál, eru andvígir frv., eins og það liggur fyrir, mjög andvígir og telja, að framkvæmd á því mundi leiða af sér mikil vandkvæði. Ríkisstj. hefur þegar heyrt andstöðu bankanna í landinu, og hún verður auðvitað að viðurkenna það, að hún hefur ekki getað fært fram gild rök fyrir því, hvernig eigi að bregðast við þeim vanda, sem upp hlýtur að koma, ef á að framkvæma þau ákvæði, sem i frv. eru. En samt vill hún endilega drífa þetta mál í gegn á þessu þingi. Hver er ástæðan? Hvað liggur á bak við? Er þetta kannske eitt af þeim málum, sem ríkisstj. vill reka hér í gegn og láta svo þessar víðtæku lagaheimildir liggja á borðinu hjá sér, þegar hún fer að semja við launþegasamtökin á komandi sumri? Er kannske meiningin að benda á það, að ef verkalýðshreyfingin vilji falla frá þessari kröfunni eða hinni kröfunni í sambandi við launamál, gæti ríkisstj. vel hugsað sér að láta þetta mál óframkvæmt? Er ætlunin e.t.v. þessi? Mér finnst margt benda til þess. Ríkisstj. hefur leikið ekki ósvipað áður. En ég held, að það sé ekki líklegt, að mál eins og þetta geti orðið að miklum gjaldeyrisverðmætum í höndunum á hæstv. ríkisstj. í sambandi við þessa komandi samninga. Ég held, að henni sé óhætt að gera sér grein fyrir því nú þegar.

Ég skal ekkí lengja þessar umr. öllu meira. Ég sé, að hæstv. ríkisstj. leggur ekki mikla áherzlu á að vera hér við þessar umr., hún vill ekki ræða efni málsins. Hún vill hins vegar reka málið í gegn, og auðvitað fer það í gegn. Hún ræður yfir nægilega mörgum handleggjum hér í þd., og í gegn skal það fara, hvort sem hún mætir hér til þess að tala fyrir málinu eða ekki, svo að það þýðir kannske ekki ýkjamikið fyrir mig eða aðra að standa hér í pontunni og ræða þetta mál efnislega. En e.t.v. verður þessi ræða mín ekki síður en hin í gær efni í nýja Alþýðublaðsgrein um árásir þær, sem ég hef í hyggju á íbúðarhúsaeigendur í landinu, en hinn ágæta vilja ríkisstj. um það að létta álögum af húsbyggjendum.