19.04.1966
Efri deild: 66. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal reyna með örfáum orðum að svara þeirri fsp., sem hv. 9. þm. Reykv. beindi til mín, og vonast til þess að þurfa ekki að gefa með því tilefni til frekari umr. um málið.

Hann spurði, hvers vegna sett hafi verið lagaákvæði um verðtrygginguna á húsnæðislánunum 1964, sem tryggja það, að þau hafa verið framkvæmd og eru framkvæmd, en gert ráð fyrir heimildarákvæði hér, sem engin trygging er fyrir að muni verða framkvæmd. Ástæður fyrir því, að sett voru lagaákvæði um tryggingu húsnæðislána 1964, voru beinlínis þær, að þetta atriði var einn þáttur í júnísamkomulaginu svonefnda 1964. Það var beinlínis eitt af samkomulagsatriðunum milli ríkisstj., vinnuveitenda og verkalýðssamtaka, að slík verðtrygging á húsnæðislánum skyldi tekin upp. Af hálfu verkalýðsforustunnar hefur því verið haldið fram, að þetta hafi verið gert í fullu trausti á vissar ráðstafanir ríkisstj., vissa stefnu hennar, og skal ég að sjálfsögðu ekki andmæla neinu, sem af þeirra hálfu hefur verið sagt um þetta efni. En tilgangurinn með því að verðtryggja húsnæðislánin 1964 var augljós. Ástæðan til, að samkomulag gat náðst um þetta, var nú, að allir aðilar voru sammála um mikilvæg þjóðfélagsleg markmið í þessum efnum. Megintilgangurinn var náttúrlega ekkí sá, eins og stundum er látið í veðri vaka, að leggja sérstakar byrðar á lántakendurna eða þá, sem öfluðu sér húsnæðis með aðstoð húsnæðislánasjóðsins. Megintilgangurinn var að varðveita verðgildi sjóðsins. Auðvitað var ástæða til þess, að verkalýðshreyfingin féllst á, að þetta yrði einn líður samkomulagsins, sú, að verkalýðshreyfingin taldi, eins og ríkisstj. og atvinnurekendur féllust á, að það væri mjög mikilvægt þjóðfélagslegt markmið að tryggja þennan mikilvæga sjóð, húsnæðislánasjóðinn, gegn verðfalli vegna verðbólgunnar. Ef ekkert slíkt væri gert, mundu menn horfa fram á það aðgerðalausir, að húsnæðislánasjóðurinn rýrnaði að verðgildi ár frá ári og yrði þannig smám saman óhæfari og óhæfari til þess að aðstoða húsbyggjendur eins og honum var ætlað að gera. Þetta voru auðvitað ástæðurnar fyrir því, að verkalýðshreyfingin féllst á þetta ákvæði. Nákvæmlega sama ástæða var fyrir því, að ríkisstj. fagnaði því mjög, að þetta ákvæði væri tekið inn í samningana. Hitt er svo annað mál, að ef á að tryggja verðgildi sjóðsins, ef hann á að geta haldið áfram að lána nokkurn veginn óbreytta upphæð árlega þrátt fyrir hækkandi verðlag, verður einhver að borga það. Er eðlilegra, að nokkur annar borgaði en einmitt þeir, sem lánin fengju í dag og mundu að öðrum kosti njóta verðbólguhagnaðar af lánunum? Það eina, sem gerist í þessum málum, er, að þeir, sem fengið hafa lán hjá húsnæðismálastjórninni síðan 1964, hafa fallizt á að taka ekki verðbólgugróða í sinn vasa, heldur skilja verðbólgugróðann eftir í húsnæðislánasjóðnum, til þess að hann geti framvegis veitt væntanlegum húsbyggjendum sömu fyrirgreiðslu og þeir sjálfir hafa fengið. Það, sem hér er um að ræða, — og það er verulega lofsverð víðsýni af hálfu samningamanna verkalýðshreyfingarinnar í júnísamkomulaginu 1964, — er, að gerðar eru ráðstafanir til þess, að þeir, sem fá lán nú, afsali sér verðbólgugróða, sem aðrir fengu áður, í þágu komandi kynslóða, í þágu væntanlegra húsbyggjenda. Auðvitað skildu þeir, sem þarna héldu á málum fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar, það, sem ég sagði í ræðu minni áðan, að það er ekki verið að íþyngja lántakendum og húsbyggjendum með þessu ákvæði. Það hvarflaði ekki að mér eitt andartak, að hinir ágætu fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar, sem í þessum samningum tóku þátt, hefðu samþykkt þetta, ef hægt hefði verið með nokkrum minnstu rökum að sýna fram á, að þetta væri byrði fyrir lántakendur. Það er ekki byrði, af því að í sömu samningum var þeim tryggð 100% uppbót á kaupgjaldið. Þeir afsala sér einungis óréttmætum verðbólgugróða, sem að vísu lántakendur áður höfðu getað fengið, en hefðu auðvitað aldrei átt að fá. Og þeir, sem fá að njóta hans, eru ekki ríkissjóður eða þjóðfélagið í heild, heldur húsbyggjendur framtíðarinnar.

Ég var þessum samningum fyllilega sammála og vildi mega óska þess, að sá skynsami andi, sem þarna sveif yfir vötnunum, megi svífa áfram yfir þessum sömu vötnum. En þá spyr hv. þm., og sú spurning er alveg eðlileg og skynsamleg: Hvers vegna eru þá ekki líka sett alveg ótvíræð lagaákvæði núna, fyrst þau voru sett til staðfestingar á samningsákvæðunum 1964? Munurinn er sá, að þar var samið um tiltekið atriði, um verðtryggingu á alveg tilteknu sviði, sem alveg vandalaust var að setja mjög einföld lagaákvæði um, enda voru þau og eru einföld bæði í setningu og framkvæmd. Hér er hins vegar um það að ræða að gera þetta kerfi allt almennt. Nú eiga verðtryggingarákvæði að ná til ótal sviða, ótal tegunda af lánum, sem tryggð eru með veði í ótal tegundum af eignum. Þá var nú fyrst enginn ágreiningur um, við hvaða vísitölu skyldi miðað. Það var ákveðið að miða við vísitölu framfærslukostnaðar. Svo var því breytt. Það kom upp óánægja með þetta af hálfu verkalýðshreyfingarinnar og heldur óskað eftir kaupgjaldsvísitölunni. Því var breytt með öðrum lögum, gott ef ekki var með brbl., ég man það nú ekki, en því var breytt með lögum. Jafnvel um slík grundvallaratriði geta komið í ljós siðar skoðanir, sem menn vilja taka tillit til, eða atriði, sem þarf að athuga nánar. Og þegar þetta getur jafnvel komið upp um jafnmikil grundvallaratriði og við hvaða vísitölu skuli miðað, þá má geta nærri, hversu mörg vafaatriði geta komið upp, þegar verið er að framkvæma þetta sem heildarkerfi, eins og gert er ráð fyrir í þessum lögum, bæði að því er snertir vísitölu og ótalmarga aðra hluti. Það er af þessum sökum, að maður treystir sér ekki til þess að kveða í einstökum atriðum á um öll þau ótal atriði, sem nauðsynlegt er að taka afstöðu til, þegar kerfið verður gert almennt. Þess vegna er þetta haft í heimildarformi, og mér finnst einmitt, að reynslan af þessari einföldu lagasetningu til staðfestingar samkomulaginu 1964 leiði í ljós, hversu hyggilegt þetta getur verið. Það hefði verið betra þá að ákveða vísitöluna ekki, heldur hafa það heimildarákvæði, hver vísitalan skyldi vera. Þá hefði ný lagabreyting ekki verið nauðsynleg, heldur samkomulag milli ríkisstj. og verkalýðshreyfingarinnar, sem samkomulagið gerði, svo að mér finnst einmitt tveggja ára reynsla af þessari einföldu lagasetningu, sem þó var gerð til staðfestingar gerðu samkomulagi, sýna að það er óhyggilegt að rígskorða þetta með löggjöf, það er betra, að hér sé um heimildarákvæði að ræða, sem síðan megi laga í hendi sér, eftir því sem reynslan bendir til.

Varðandi það að síðustu, að engin trygging sé fyrir því, að þessi ákvörðun verði raunveru lega framkvæmd, er það að segja, að náttúrlega mega menn ekki hafa svo mikið vantraust á ríkisstj. þrátt fyrir allt að ætla henni það, að hún beri fram og berjist fyrir samþykkt laga, sem veita ríkisstofnun heimildir, og ætli sér síðan ekki að framkvæma þær. Auðvitað liggur það að baki flutningi þessa frv., þótt í heimildarformi sé, að ríkisstj. telur bráðnauðsynlegt, að lagaákvæðunum verði framfylgt, að kerfið verði tekið upp, en heimildin er eingöngu vegna þess, að hún vill geta lært af reynslunni við framkvæmdina.