18.04.1967
Neðri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

183. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég tel það nú miður farið þegar verið er að ræða mál eins og þetta, að þá skuli fjmrh. ekki vera viðstaddur til að svara fyrirspurnum, sem fram kunna að koma, eins og t.d. varðandi það atriði, sem reifað var hér áðan. Mér finnst í framhaldi af því rétt að geta þess, að BSRB mun hafa tekið þá afstöðu til þessa máls, að það strandaði ekki á því, ef þessir aðilar, sem um var rætt, fengju sérstakan samningsrétt, heldur myndi það fallast á það fyrir sitt leyti, ef ríkisstj. gerði það, svo að það er eingöngu ríkisstj., sem hefur úrslitavaldið í þessum efnum, og stendur ekki neitt á öðrum samtökum opinberra starfsmanna. Ég sé nú, að forsrh. er hér viðstaddur, og hann gæti sennilega, varðandi þetta atriði, alveg eins svarað af hálfu ríkisstj., eins og fjmrh.

Mér finnst rétt, fyrst farið er að ræða þetta mál á annað borð, að láta þá skoðun í ljós, að ég hefði talið heppilegt, að önnur breyt. og víðtækari væri hér til umr. á l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna heldur en sú, sem við erum að ræða nú, þó að hún sé vafalaust réttmæt, svo langt sem hún nær. Ég álít, að það sé eðlilegt fyrirkomulag á þessum málum, að opinberir starfsmenn sitji við sama borð og aðrar launastéttir í þessum efnum, þ. e. að opinberir starfsmenn fái fullan samningsrétt. Á nýloknu flokksþingi framsóknarm. kom þetta mál m. a. til umr., og þar var einróma samþykkt, að það væri talið eðlilegt, að opinberir starfsmenn nytu í þessum efnum sömu réttinda og aðrar launastéttir, þ. e. að þeir hefðu fullan samningsrétt. Ég sé ekki neina ástæðu, sem réttlætir það, að opinberir starfsmenn njóti ekki sömu réttinda í þessum efnum og aðrar launastéttir. Ég held, að það sé ekki hægt að halda því fram með neinum rökum, að opinberir starfsmenn væru líklegir til þess að halda með meiri ósanngirni á þessum rétti en aðrar hliðstæðar stéttir, nema síður sé. Við búum í þjóðfélagi, þar sem við teljum rétt að stefna að auknu jafnræði og jafnrétti, og það stangast vissulega alveg á við þá stefnu að láta fjölmennan hóp launamanna, eins og opinbera starfsmenn, búa við allt önnur kjör í þessum efnum heldur en stéttir, sem eru hliðstæðar, þ.e.a.s. aðrar launastéttir. Þetta er líka að komast á í nágrannalöndum okkar meira og meira, að opinberir starfsmenn njóti sömu réttinda og aðrar launastéttir. Í Noregi hafa nýlega verið samþ. lög, sem veita opinberum starfsmönnum fullan samningsrétt, og í Svíþjóð hafa einnig nýlega verið samþ. lög, sem ganga í sömu átt. Í báðum þessum löndum er að vísu gert ráð fyrir því, eins og í samþykkt okkar á flokksþingi framsóknarmanna, að um þær stéttir, sem vinna alveg sérstök þjónustustörf í þágu þjóðfélagsins, gildi sérreglur, og ég held, að það sé ekkert því til fyrirstöðu, að opinberir starfsmenn hér fallist á það, alveg eins og gert hefur verið í Noregi og Svíþjóð.

Ég tel, að það hefði verið heppilegt og réttlátt, að það frv., sem hér lægi fyrir, fjallaði um þetta efni, þ. e. að veita opinberum starfsmönnum fullan samningsrétt, og ég hefði talið æskilegt, að það hefði verið hægt að bera fram brtt., sem gengi í þá átt. Nú mun hins vegar hafa verið samið um það fyrirfram milli ríkisstj. og opinberra starfsmanna annars vegar og þingflokkanna hins vegar, að þetta frv. gengi fram, án þess að nokkrar breyt. yrðu á því gerðar, og það er vegna þess samkomulags, sem ég hef ekki talið rétt að flytja brtt., sem gengi í þá átt, sem ég hef nú verið að tala um. Þessi lög, kjarasamningalögin, munu nú vera til athugunar hjá sérstakri n., og ég vildi leggja áherzlu á það, að störfum hennar yrði hraðað sem mest. Ég hygg, að í þessari n. eigi sæti fulltrúar frá ríkisstj. og samtökum opinb. starfsm., og ég vildi, þar sem ekki er hægt að koma breyt. á í sambandi við þetta frv. eða flytja brtt. við það, leggja áherzlu á, að ríkisstj. gerði sitt til þess, að störf þessarar n, gætu gengið greiðlega og að það lægi ekki síðar fyrir en á næsta þingi, að gerð yrði breyt. á kjarasamningalögunum, er veitti opinberum starfsm. fullan samningsrétt til jafns við aðrar stéttir. Ég held, að það þurfi ekki að rekja það fyrir hv. þingheimi, að þau kjarasamningalög, sem nú eru í gildi, hafa verið mjög misnotuð gagnvart opinb. starfsm. Það eru ákvæði um það í l., að opinb. starfsm. eigi að hljóta launahækkanir til samræmis við aðrar stéttir, en þeir úrskurðir, sem Kjaradómur hefur fellt, hafa hvað eftir annað gengið gegn þessari meginreglu í l. Þetta hefur að sjálfsögðu skapað óánægju með þessi l. hjá opinb. starfsm., og þeir hafa þess vegna hvað eftir annað látið þá ósk uppi, að þeir vilji fá þeim breytt.

Ég tel það alveg víst, að jafnvel þó að reynt væri að sporna eitthvað gegn því, að opinb. starfsm. fái fullan samningsrétt, þá muni það ganga fram fyrr en seinna og því sé í alla staði eðlilegast og heppilegast, að sú breyt. verði gerð sem fyrst. Það hefur yfirleitt farið þannig, að við hér á landi höfum fylgt þeim félagslegu umbótum, sem hafa verið gerðar í nágrannalöndum okkar, og ég tel alveg víst, að það verði eins niðurstaðan hér í þessum efnum fyrr en síðar, að við fylgjum fordæmi Svía og Norðmanna í því að veita opinb. starfsm, fullan samningsrétt. Ég skal svo ekki lengja þessar umr. meira, en ég vil að lokum láta það uppi, að ég tel það ákaflega óheppilegt, að viðkomandi ráðh. séu ekki viðstaddir, þegar verið er að ræða þau mál, sem heyra undir þeirra rn., m. a. til þess að svara þeim fyrirspurnum, sem fram kunna að koma og snerta þeirra verkahring, og ég vildi þess vegna beina þeim tilmælum til forseta, að fresta þessari umr., þangað til viðkomandi ráðh. gæti mætt hér til að svara þeirri fyrirspurn, sem fram hefur verið borin.