06.04.1967
Efri deild: 57. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

173. mál, Skipaútgerð ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Svo sem fram kemur í skýrslu, sem birt er sem fskj. með frv. þessu um Skipaútgerð ríkisins, skipaði samgmrn. hinn 28. apríl 1965 fjóra menn í n. til að rannsaka rekstur Skipaútgerðar ríkisins og athuga möguleika til að koma honum á hagkvæmari grundvöll, eins og sagt var í skipunarbréfi nm. Í n. áttu sæti: Árni Vilhjálmsson prófessor, Matthías Bjarnason alþm., Pétur Péturssón forstjóri og Birgir Finnsson alþm., sem jafnframt var skipaður form. n.

Lokaálit n. barst rn. um s.l. áramót. Skýrsla n. ásamt áliti, sem prentað er með frv., varpar allskýru ljósi á ástand og horfur í málefnum samgangna á sjó hér við land og þær gjörbreytingar á rekstri, sem hafa átt sér stað í samgöngumálum okkar almennt á s.l. úrum. Þá kemur og einnig fram hin brýna nauðsyn á endurnýjun skipastólsins ásamt því að breyta afgreiðsluháttum við lestun og losun skipanna með tilkomu nýrrar tækni um borð í skipunum sjálfum. Höfuðniðurstöður eru þær, að verulega megi draga úr rekstrarhalla þeim, sem verið hefur hjá Skipaútgerð ríkisins undanfarin ár, og þá einkum með tvennum hætti:

Í fyrsta lagi að endurnýja skipastólinn til samræmis við breyttar aðstæður og breyttan tækniútbúnað skipanna.

Í öðru lagi að bæta aðstöðuna við aðalvöruafgreiðslu stofnunarinnar í Rvík, og hefur n. þá einkum í huga sérstaka flutningapalla við upp- og útskipun. N. kemst þó einnig að þeirri niðurstöðu, að hér sé um svo mikla og fjárfreka endurbót að ræða, að næsta vonlítið er talið, að aðrir aðilar en ríkið sjálft leysi það á viðunandi hátt. Í framhaldi þessarar niðurstöðu telur n. að starfrækja beri áfram Skipaútgerð ríkisins, og gerir tillögu um frv. til l. því til staðfestingar, sem hér er til umræðu. Í frv. er lagt til, að sérstök stjórnarnefnd þriggja manna verði sett yfir stofnunina, og í 4. gr. frv, er afmarkað starfssvið hennar. Stjórnarnefndarskipan sú, sem frv. gerir ráð fyrir, er nánari staðfesting á því fyrirkomulagi, sem verið hefur hjá Skipaútgerðinni nú í rúmt ár, eða frá 15. marz 1966. Þá voru skipaðir til bráðabirgða í stjórnarnefnd Guðjón F. Teitsson forstjóri, Gunnar Vagnsson, fulltrúi í samgmrn., og Höskuldur Jónsson, fulltrúi í fjmrn.

Samgmrn. og fjmrn. eru þau ráðuneyti stjórnarráðsins, sem mest samskipti hafa við Skipaútgerðina, og þótti því eðlilegt að tengja stjórn hennar ráðuneytunum með þessum hætti. Samstarfið í stjórninni á þeim tíma, sem liðinn er, hefur reynzt hið bezta, og er þar nú unnið af kappi að útboðslýsingum að smíði tveggja nýrra skipa skv. ákvörðun ríkisstj., sem stjórnarnefndinni var tilkynnt með bréfi dags. 7. nóv. 1966.

Opinberlega hefur verið að því fundið í nokkrum dagblöðum, hvað undirbúningur þessi hafi tekið langan tíma. Að gefnu þessu tilefni óskaði rn. eftir því, að stjórnarnefnd Skipaútgerðarinnar gerði grein fyrir því, hvað undirbúningsstarfi þessu liði. Með bréfi dags. 1. apríl s.l. svaraði forstjóri útgerðarinnar, Guðjón F. Teitsson, sem er jafnframt form. stjórnarinnar, þessari ósk rn. mjög ýtarlega og lýsti öllum stigum þessa undirbúningsstarfs. Telur forstjórinn í bréfi sínu, að á allra næstu dögum muni berast nýjar fyrirkomulagsteikningar af skipunum, en áður hefur verið lögð mikil vinna af stjórninni og tæknilegum ráðgjöfum hennar í athugasemdir og tillögugerð varðandi allan búnað skipanna. Tæknilegir ráðgjafar stjórnarinnar eru þeir Hjálmar R. Bárðarson skipaskoðunarstjóri og Guðmundur Pétursson, vélstjóri og umsjónarmaður. Í lok bréfsins til rn. segir forstjóri Skipaútgerðarinnar svo, með leyfi hæstv.forseta:

„Ýmsir kunna að álíta, að umrædd undirbúningsvinna hafi verið og sé með of miklum silagangi, en í því sambandi skal bent á, að hér er verið að undirbúa smíði á vönduðum skipum af nýrri gerð, sem eiga væntanlega að uppfylla margþættar þarfir fjölda landsmanna á næstu 20 árum, og virðist því þýðingarmeira, að undirbúningur sé góður en það, hvort hin nýju skip koma nokkrum mánuðum fyrr en ella. Hefur á liðnum mánuðum frá því að umræddur undirbúningur hófst margt þokazt áleiðis í þessu móli, sem frá voru sjónarmiði er mjög mikilvægt, bæði með tilliti til stofnkostnaðar og síðan rekstrarkostnaðar.“

Þannig hljóða lokaorð forstjóra Skipaútgerðarinnar í svari hans við fyrirspurn rn., sem ég áður nefndi. Ég tel svo persónulega ekki þörf á því, nema sérstakt tilefni gefist til, að rekja að öðru leyti skýrslur og einstakar till. n., þar sem hv. þdm. hefur gefizt kostur ú að kynna sér efni nál. í þinghléinu. Ég vona, að hv. þdm. geti orðið mér sammála um það, að það sé vart vansalaust, að um jafnveigamikið þjónustufyrirtæki og Skipaútgerðin er skuli ekki vera til neitt ákvæði í lögum og heldur ekki nein reglugerðarákvæði. Lagasetning þessi ætti að geta orðið stofnuninni sem slíkri styrkur í starfi, ekki sízt þegar hafðar eru í huga þær nauðsynlegu breytingar og umbætur, sem nú er að unnið af stjórnarnefndinni og verða munu verkefni stofnunarinnar í nánustu framtíð.

Tilraun hefur áður verið gerð, eða árið 1952, til að setja lög um Skipaútgerð ríkisins, en frv. það náði ekki fram að ganga. Það er von mín, að nú takist betur til. Rétt er að taka það fram, að frv. hefur verið borið undir stjórnarnefnd Skipaútgerðarinnar og hún samþykkt að mæla með framgangi þess.

Herra forseti, ég legg svo til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgmn.