13.04.1967
Efri deild: 63. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

173. mál, Skipaútgerð ríkisins

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. og í ræðu frsm. meiri hl. samgmn., hlaut þetta mál þá afgreiðslu í samgmn., að við, sem skipuðum minni hl. og skilum áliti á þskj. 469, óskuðum þess að gera grein, fyrir afstöðu okkar í sérstöku nál. Skipaútgerðin hóf starfsemi sína árið 1929 og hefur nú í nálega fjóra áratugi veitt mjög mikilvæga þjónustu með því að annast áætlunarferðir skipa, sem flytja farþega, póst og vörur meðfram ströndum Íslands. Það hefur ekki verið sett löggjöf um starfsemi stofnunarinnar, en þær reglur, sem hún hefur starfað eftir, hafa mótazt af langri reynslu, og stjórn stofnunarinnar hefur frá upphafi verið þannig fyrir komið, að forstjóri Skipaútgerðarinnar hefur haft á hendi stjórn hennar undir yfirstjórn samgmrn. Þróun hlýtur alltaf að eiga sér stað í samgöngumálum, og þörf er að haga þeirri þjónustu á hverjum tíma í samræmi við þarfir og með hliðsjón eða með tilliti til aukinnar tækni. Þetta hefur hv. Alþ. verið ljóst, og m. a. þess vegna var kosin á hv. Alþ. mþn. til þess að athuga samgöngumálin í landinu á breiðum grundvelli, en sú n. var kosin og hóf störf á árinu 1956. Þetta var 5 manna þingkjörin mþn., og áttu sæti í henni tveir menn á vegum Sjálfstfl., 1. Framsfl.-maður, 1 Alþfl.-maður og 1 Alþb.-maður. Þessi þingkjörna n. skilaði áliti 8. febr. 1958, og í áliti hennar og því frv., sem hún sendi og stóð einhuga að, er kafli um Skipaútgerð ríkisins. Frv., sem samið var af hinni þingkjörnu mþn., hlaut þá meðferð, að samgmn. Nd. Alþ. flutti frv. inn í þingið haustið 1958, og stóð samgmn. Nd. einhuga að flutningi málsins. Þegar til þess kom, að þingið tæki endanlega afstöðu til þess, frv., mæltu fulltrúar Framsfl. og Alþb. með samþykkt þess, en þá bar svo við, að fulltrúar Sjálfstfl. í samgmn. Nd. skiluðu séráliti og lögðu til, að frv. yrði vísað til ríkisstj. En þá hafði nýlega setzt að völdum ríkisstj. Emils Jónssonar, sem mynduð var seint á árinu 1958. Síðan hefur þetta frv. ekki verið hreyft, svo að mér sé kunnugt. Það hefur verið í vörzlu hjá hæstv. ríkisstj. allan þann tíma, sem núv. stjórnarflokkar hafa staðið saman að stjórn landsins.

Það komu fram í áliti mþn., sem ég geri hér nokkuð að umræðuefni í sambandi við þetta frv., ýmsar till., sem ekki voru bundnar í lagafrv. sjálfu, heldur gerðar sem ábending og beinar till. til hæstv. ríkisstj. Mér virðist, að á stjórnartíma núv. stjórnarflokka hafi lítið verið gert með þessar till., sem voru þó bornar fram sameiginlega af fulltrúum allra þingflokka, annað en það, að það var tekið undir þá till. n. og hún framkvæmd að koma upp á vegum Skipaútgerðarinnar sérstöku vöruflutninga- og farþegaskipi, er annaðist fyrst og fremst ferðir milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Það er skipið Herjólfur. En um það gerði mþn. á sinum tíma þessa ábendingu orðrétt:

„Það er álit n., að Vestmannaeyingar þurfi að fá traust og gott skip, 350–400 rúmlesta, til að annast reglubundnar ferðir á milli lands og Eyja. Með slíku skipi er hægt að annast farþega- og vöruflutninga, svo að fullnægjandi sé. Því hefur n. mælt með, að fé verði veitt úr ríkissjóði til að kaupa slíkt skip sem fyrst.“

Þetta var, eins og ég tók fram, framkvæmt, og þessi þjónusta hefur síðan verið veitt með skipinu Herjólfi, og hún hefur vissulega gefið góða raun. En mþn. benti á það fyrir nálega áratug, að þá þegar væri kominn tími til að fara að hugsa um að endurnýja skipakost Skipaútgerðarinnar. En enn þann dag í dag hefur ekki verið unnið að því fyrr en nú fyrir skömmu, að ákveðið hefur verið að láta smíða tvö strandferðaskip, að mig minnir, í stað þeirra, sem sett hafa verið á söluskrá. En vitanlega hefði þurft að gera samning um smíði þessara skipa miklu fyrr. Vegna þess hve það hefur dregizt, verður nú alllangur biðtími þangað til þau koma í þjónustu strandferðanna, og ekki er séð, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér að veita landsbyggðinni fullnægjandi þjónustu á þessu sviði, meðan beðið er eftir hinum nýju skipum.

Þá gerði mþn. till. um það, að komið yrði upp vörugeymsluhúsum á fjórum stöðum á landinu, t.d. einu í hverjum landsfjórðungi, og hugðist með því létta á Skipaútgerðinni og gera um leið vörudreifinguna um landið hagfelldari heldur en nú er, en af því mundi leiða minni rekstrarhalla hjá stofnuninni heldur en verið hefur undanfarið ár. Um þetta sagði mþn. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

N. hefur mjög rætt, hvernig unnt væri að gera hér breytingar á, þ.e.a.s. um hallann hjá Skipaútgerðinni, og virðist henni, að ef reist væru vörugeymsluhús á fjórum stöðum, t.d. eitt í hverjum fjórðungi, væri unnt að beina flutningi þungavarnings meira í nágrenni viðtökustaðarins, án þess að millilandaskip þyrftu að eyða of miklum tíma í strandsiglingar eða ódrýgja lestarrými. Mundi þá stórum létta á Skipaútgerð ríkisins.“

Mér er kunnugt um, að undir þessa till. hafi verið tekið hjá hæstv. ríkisstj. eða nokkur viðleitni höfð uppi um það að breyta og bæta rekstraraðstöðu Skipaútgerðarinnar á þennan hátt.

Einnig gerði mþn. till. um ýmis fleiri atriði, m. a. um bætta aðstöðu hér í Rvík með byggingu vörugeymsluhúss, um athugun á því að veita Skipaútgerðinni takmarkað sérleyfi til flutninga á vissum stöðum, um tilslökun á hafnargjöldum, sem mundi að vissu leyti verða tilfærsla, þannig að hafnirnar þyrftu á einhverjum stuðningi að halda í þess stað, og enn fremur var bent á breytingar á framkvæmdum um álagningu söluskatts í sambandi við starfsemi Skipaútgerðarinnar. En þó að hæstv. ríkisstj. og núv. stjórnarflokkar hafi ekki, svo mér sé kunnugt, tekið undir þessar till. eða haft uppi viðleitni til þess að framkvæma þær, þó að þær væru á engan hátt gerðar af stjórnarandstöðunni, heldur sameiginlega af mþn., skipaðri mönnum úr öllum flokkum, hefur á þessum tíma verið fjallað um málefni Skipaútgerðarinnar á ýmsan annan hátt. Það er kunnugt, að það voru uppi till. um það á sínum tíma að leggja stofnunina niður, og þær till. fengu allmikið fylgi, a.m.k. hjá öðrum stjórnarflokknum. Og þótt lítið hafi verið gert með till. hinnar þingkjörnu n., hafa nú á undanförnum árum verið kvaddir til erlendir sérfræðingar til þess að athuga um málefni Skipaútgerðarinnar. En ég er nú ekki kunnugur þeirra till. í einstökum atriðum og skal ekki gera þær að umræðuefni í sambandi við þetta mál, en mér skilst þó, að niðurstaðan sé sú, að lítill árangur hafi enn orðið af þeim uppástungum, sem þar komu fram. Meðan þessu hefur farið fram um málefni Skipaútgerðarinnar allt síðan í ársbyrjun 1959, hefur mjög verið haft á orði hér á hv. Alþ., að hallinn á rekstri Skipaútgerðarinnar væri geigvænlegur. Það er rétt, að það hefur á undanförnum árum verið nokkur halli á rekstri Skipaútgerðarinnar. Það er gefið yfirlit yfir það atriði í grg. með þessu frv., og þar kemur í ljós, að á tímabilinu frá 1957–1965 hefur hallinn eða beinar greiðslur úr ríkissjóði skv. ríkisreikningi verið lægst 10.6 millj. á ári og hæst 42 millj. kr. á ári. Vissulega er hér um nokkurt fé að ræða, og það er auðvitað sjálfsagt að mínum dómi og okkar, sem stöndum að minni hl. álitinu í þessu máli, að gætt sé fullrar hagsýni um starfsemi þessarar ríkisstofnunar, sem hér er um að ræða, eigi síður heldur en á öðrum sviðum. Og ber þá að sjálfsögðu að hafa í huga á hverjum tíma, hvað hægt er að gera til þess að koma rekstrinum í það horf, að hallinn verði sem minnstur. Þetta vil ég út af fyrir sig leggja áherzlu á. En hitt vil ég jafnframt láta koma hér fram, að ég tel ekki, að hv. þm. né aðrir megi mikla um of fyrir sér þessar greiðslur, sem inntar hafa verið af hendi úr ríkissjóði beint til Skipaútgerðarinnar, heldur beri að gera sér grein fyrir því, hvers eðlis þær eru og hvert hlutverk þessarar ríkisstofnunar raunverulega er. Skipaútgerðin er ekki stofnuð til þess að vera gróðafyrirtæki, og það er ekki aðalhlutverk hennar að haga starfseminni þannig, að hún skili hagnaði. Skipaútgerðin er fyrst og fremst þjónustufyrirtæki. Til hennar er stofnað og rekstri hennar haldið uppi í þeim tilgangi að veita landsbyggðinni nauðsynlega, óhjákvæmilega þjónustu með vörudreifingu. Og sú þjónusta verður enn þá brýnni vegna þess skipulags — ja, eða skipulagsleysis, hvort sem menn vilja kalla það, að meginhlutinn af þungavörunni, sem flutt er til landsins, er lagður upp hér á hafnarbakkanum í Rvík í stað þess að dreifa innflutningi þungavörunnar á vissar hafnir í landsfjórðungunum og reisa þar vörugeymsluhús eins og mþn. gerði till. um á sínum tíma.

Sá halli, sem greiddur er beint skv. fjárl. ríkisins, hefur þau áhrif, að það er hægt að hafa innflutningsgjöldin lægri heldur en ella mundi. Hann dregur úr — þessar greiðslur hafa þau áhrif að draga úr mismuninum á vöruverði hér í Rvík, þar sem aðalþungavaran er lögð á land, annars vegar og hins vegar á höfnum úti um land, þar sem fólkið, sem lifir og starfar og heldur uppi nauðsynlegum atvinnurekstri úti á landsbyggðinni, verður að hafa sín viðskipti. Þessar greiðslur eru í eðli sínu eins konar verðjöfnun, og þær eru alveg hliðstæðar niðurgreiðslum á vöruverði.

Nú er það svo, að hallinn hjá Skipaútgerðinni er vissulega nokkur. Á fjárl. þessa árs er gert ráð fyrir því, að greiddar verði úr ríkissjóði til Skipaútgerðarinnar 29 millj. kr. En í fjárl. þessa árs er gert ráð fyrir því, að til niðurgreiðslu á vöruverði fari hvorki meira né minna en 708 millj. kr. Og þess eru dæmi, og þau eru ekki langt undan, að hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið niðurgreiðslur á vöruverði án samráðs við Alþ., eða hún hefur ákveðið breytingar á niðurgreiðslum á vöruverði án samráðs við Alþ., sem nema hærri upphæðum heldur en þessi halli, sem greiddur er til Skipaútgerðarinnar.

Ég hefði talið ástæðu til að víkja að þessum atriðum og rifja upp þessa sögu í stórum dráttum í sambandi við þetta frv., en vitanlega mætti fylla mjög mikið upp í þessa mynd, ef ég vildi verja tíma til þess. En nú, þegar frv. mþn., þar sem var lagt til að setja lagaákvæði um Skipaútgerðina m. a., hefur verið í vörzlu hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkanna í 8 ár, nú á allra síðustu dögum þessa Alþ. og þegar komið er alveg að lokum kjörtímabils þm., vaknar allt í einu að því er virðist mikill áhugi hjá stjórnarflokkunum fyrir því að koma nú fram löggjöf um Skipaútgerðina. Út af fyrir sig er ég ekki á móti því, og það er í samræmi við það, sem ég hef greint frá, að till. voru gerðar um á sínum tíma, að ákveða stöðu þessarar ríkisstofnunar með sérstakri löggjöf. En það skiptir vitanlega meginmáli í þessu sambandi, hvað í því frv. er efnislega séð, sem á að lögfesta. Og þá vaknar spurningin: Er þá eitthvað í þessu frv., sem örugglega bætir aðstöðu þeirra, sem njóta þjónustu Skipaútgerðarinnar, frá því, sem verið hefur og nú er? Eru í þessu frv. t.d. ákveðin ný fjárframlög eða ný skipakaup eða eitthvað því um líkt? Það fæ ég nú ekki fundið í þessu frv., en hitt er jafnskylt að taka fram, að það er heldur ekkert í þessu frv., sem miðar að því að draga úr þeirri starfsemi, sem nú er. Er þetta frv. þá flutt til þess að draga úr kostnaði við stjórn fyrirtækisins? Ekki hef ég nú komið auga á það, því að forstjóri Skipaútgerðarinnar á að halda stöðu sinni áfram skv. frv. Ráðh. skipar forstjóra í embætti og setur honum erindisbréf, segir í 3. gr. frv. Hann heldur vitanlega sínum launum skv. l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna. En til viðbótar þessu á svo að skipa stjórnarnefndarmenn, væntanlega þrjá, því að því er haldið opnu, að forstjórinn sé ekki einn af nm., og það kom fram hjá frsm. meiri hl., að með þessu ætti að lögleiða þá bráðabirgðaskipan, sem nú væri komin á á þessu sviði að tilhlutan ríkisstj. Ég hef það fyrir satt, að þeir tveir menn, sem settir hafa verið til bráðabirgða til þess að starfa með forstjóra Skipaútgerðarinnar, fái hvor um sig forstjóralaun í þóknun, þannig að stjórnarkostnaður hefur þá vaxið sem þessu nemur. Í þessu frv. er ekkert ákveðið um það, hver kostnaður verður í sambandi við þá stjórnarnefnd, sem á að skipa, en miðað við það, sem ég tel sannast um þetta mál, má ekki gera sér vonir um, að af þessu leiði nú sparnað við stjórn fyrirtækisins. En að mínum dómi er þetta þó ekki aðalatriði, heldur efnisatriði 4. gr. frv. að öðru leyti. Þar segir, að ráðh. skipi form. stjórnarnefndar Skipaútgerðarinnar og með honum í stjórnarnefndina tvo menn, annan skv. tilnefningu fjmrh. Gildir skipun stjórnarnefndarinnar til fjögurra ára í senn, og skal ráðh. ákveða laun hennar.

Nú sýnist mér sjálfsagt, þegar fjallað er um frv, sem þetta, að taka tillit til þess, sem almennt hefur átt sér stað eða hefur verið ákveðið um stjórn ríkisstofnana, því að við erum vitanlega ekki að fjalla um lagafrv. sem þetta með tilliti til einstakra manna, heldur erum við fyrst og fremst hér sem löggjafar, sem erum að setja reglur, sem eiga að gilda væntanlega um alllanga framtíð um þessa ríkisstofnun, og einnig ef í þessum reglum felast nýmæli, geta þær orðið fordæmi á öðrum sviðum. Af þessu finnst mér eðlilegt, að litið sé til þess, hvernig farið er með stjórn sambærilegra og annarra ríkisstofnana í þjóðfélaginu.

Þegar ég hef reynt að gera mér grein fyrir því, virðist mér, að það megi flokka ríkisstofnanir að þessu leyti í tvo flokka. Í annan flokkinn koma stofnanir, þar sem stjórninni er þannig fyrir komið, að forstjóri ber ábyrgð á rekstri stofnunarinnar og er yfirmaður hennar, undir yfirstjórn rn. Stofnanir af þessu tagi eru t.d. Vegamálaskrifstofan, Póstur og sími og Innkaupastofnun ríkisins, sem á að gegna því hlutverki að kaupa í heildsölu fyrir líklega nálega allar ríkisstofnanir efnivöru og hlýtur að velta milljónatugum, jafnvel hundruðum milljóna á ári, þó að hún kannske hafi ekki mjög mikið í stofnfé, stofnkostnað. Þessum stofnunum er stjórnað þannig og fyrir því er löng reynsla, allt frá því að þær voru settar á laggir hér í þessu þjóðfélagi, að forstjóri ber ábyrgð á rekstri þeirra og heyrir beint undir yfirstjórn rn. Landssmiðjan kemur í þennan flokk.

Svo er aftur annar flokkur ríkisstofnana, þar sem stjórninni hefur verið þannig fyrir komið, að Alþ. kýs hlutfallskosningu í Sþ. stjórnarnefndarmenn, fleiri eða færri, sem hafa stjórn stofnunarinnar með höndum, undir yfirstjórn rn. að sjálfsögðu, og síðan starfar framkvæmdastjóri við þessar stofnanir í samráði við og eftir fyrirmælum hinnar þingkjörnu n. Stofnanir, sem koma í þennan flokk, eru t.d. Sementsverksmiðja ríkisins og Áburðarverksmiðja ríkisins, að því er hlutdeild ríkisins tekur til, og Síldarverksmiðjur ríkisins, svo að dæmi séu nefnd. En nú ber svo við í þessu frv., að Skipaútgerðin á eftirleiðis að vera í hvorugum þessum flokki ríkisstofnana, heldur á að taka hér upp alveg nýja skipan mála og láta ráðherra skipa forstjóra, og ásamt honum þrjá stjórnarnefndarmenn. Ég veit ekki, hvort það á að líta svo á, að hér sé byrjað á framkvæmd einhverrar nýrrar stefnu, sem ríkisstj. hyggist nú fylgja eftirleiðis, ef hún hefur valdaaðstöðu. En mér virðist, að það bendi ekkert til þess, m. a. vegna þess að nú á þessum fundi vorum, við að fjalla um frv., sem snertir mjög aðra ríkisstofnun, raforkumálastofnunina. Þar hefur verið þingkjörin n., raforkuráð, sem hefur haft vald til þess skv. l. að hafa afskipti af vissum þáttum þeirrar stofnunar. Nú er í frv., sem verið var að fjalla um á þessum fundi fyrir nokkrum mínútum, lagt til að draga úr — að þrengja verksvið raforkuráðs og draga úr valdi þess hjá raforkumálastofnuninni, svo að mér sýnist, að hér sé ekki nein ný heildarstefna á ferðum, heldur einungis sé um það að ræða, hvað hæstv. ríkisstj. eða kannske einstökum ráðh. kann að þykja hagkvæmt í þann og þann svipinn, eitt um þessa stofnun og annað um hina. Ég get ekki á þetta fallizt, og við, sem skipum minni hl. í samgmn., að löggjöf sé byggð upp á þennan hátt.

Hins vegar get ég út af fyrir sig fallizt á það, að Skipaútgerðin sé þarna færð milli flokka, þannig að stjórn hennar annist stjórnarnefnd, en ég tel alveg sjálfsagt, að sú stjórnarnefnd sé þingkjörin, eins og gert er um Sementsverksmiðjuna og aðrar þær stofnanir, sem ég hef nefnt dæmi um. Við, sem skipum minni hl., berum fram á sérstöku þskj. brtt. við 4. gr. frv., þar sem við leggjum til, að sú gr. verði umorðuð, og í stað þess, að ráðh. skipi stjórnarnm., kjósi Alþ. þá með hlutfallskosningu. Samgmrh. skipi síðan einn þeirra formann, og því er haldið, sem er í frv., að ráðh. ákveði laun stjórnarnm.

2. mgr. 4. gr. höfum við einnig látið prenta upp í brtt. okkar og gert á henni smávægis lagfæringu, sem ég vil leyfa mér að benda á, og hvað sem öðru líður um efnisatriði málsins tel ég eiginlega furðu gegna, ef meiri hl. fellst ekki á þá lagfæringu. Í frv., eins og það er orðað, segir, að verkefni stjórnarn. sé að taka, undir yfirstjórn rn., sameiginlegar ákvarðanir um öll meiri háttar mál, er varða rekstur Skipaútgerðarinnar, og síðan eru talin upp nokkur einstök atriði, og í lok mgr. segir: „svo og önnur þau mál, sem n. telur, að eigi falli undir dagleg störf forstjórans“: Þessi orð leggjum við til, að falli niður. Það er í fyrsta lagi vegna þess, að störf forstjórans eru víðtækari en svo, að það séu eingöngu dagleg störf. Og í öðru lagi vegna þess, að ef ágreiningur kemur upp um það, hvort n. beri eða hún hafi rétt til að hafa afskipti af tilteknu atriði í starfsemi stofnunarinnar, er það alls kostar óeðlilegt, að n., sem er annar aðili, hafí um það sjálfdæmi, hvort hún á að hafa afskipti af því atriði eða ekki. Þess vegna leggjum við til, að þetta falli niður.

Við gerum þessa brtt., og við, sem skipum minni hl., teljum hana varða svo miklu, að verði hún felld, mun afstaða okkar til málsins í heild markast af því þannig, að við sjáum okkur ekki fært að fylgja þessu frv., ef brtt. verður felld.