13.04.1967
Efri deild: 63. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

173. mál, Skipaútgerð ríkisins

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég ætla að segja hér í sambandi við þær breyt., sem felast í till. minni hl. á þskj. 470, aðrar en þær, sem ég nefndi í minni fyrri ræðu, þ.e.a.s. aðrar breyt. en ágreiningsefni um það, hvort stjórnarnefnd Skipaútgerðarinnar skuli vera skipuð af ráðh. eða þingkjörin.

Í brtt. minni hl., í 2. mgr., kemur fram, að þar er fellt niður ákvæðið um það, að verkefni stjórnarnefndarinnar sé að annast um ráðningu starfsfólks og umboðsmanna. En það verður að telja eðlilegt, að stjórnarnefnd eða stjórn atvinnufyrirtækis hafi meiri og minni íhlutunarrétt eða ákvörðunarrétt um þau málefni, því að vísu getur ráðning starfsmanna verið mismunandi þýðingarmikil, eftir því um hvaða starfsmenn er að ræða, hvort það eru skipstjórar, skrifstofustjórar eða skrifstofufólk, sem er lægra sett. En meiri hl. n. álítur, að það sé rétt, að þetta standi áfram sem eitt af verkefnum stjórnarnefndarinnar, að annast ráðningu starfsfólks og umboðsmanna.

Síðara atriðið, þar sem segir í 4. gr. lagafrv.: „svo og önnur þau mál, sem n. (þ. e. stjn.) telur, að eigi falli undir dagleg störf forstjóra“ er líka fellt niður í till. minni hl. Ég skal játa það, að þetta orðalag er kannske nokkuð klaufalegt, sérstaklega að vera að hafa þarna orðið „dagleg“. Það færi betur á því, að stæði „sem n. telur, að eigi falli undir störf forstjórans“. Skv. þessu á n. eiginlega að úrskurða, ef ágreiningur verður á milli hennar og forstjórans um valdmörk þessara tveggja aðila. Þá er ekkert óeðlilegt við það, að n., sem er yfir forstjóra, úrskurði það, enda lít ég svo á, að ef ágreiningur verður milli forstjóra Skipaútgerðarinnar og stjórnarnefndarinnar, þar sem báðir þessir aðilar eru undir yfirstjórn ráðh., þá hljóti ráðh. að skera úr.