15.04.1967
Neðri deild: 70. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

173. mál, Skipaútgerð ríkisins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil ekki, að frv. um strandferðir eða um Skipaútgerð ríkisins fari svo hér í gegnum 1. umr. í þessari d., að ekki verði einhverjar umr. um þetta mikilsverða mál, þ.e.a.s. strandferðirnar.

Og satt að segja hefði verið ástæða til þess, að þau málefni hefðu verið meira rædd á þessu Alþ. en orðið hefur, en það hefur nú farið svo, að önnur mál hafa upp tekið svo hugi manna og dagskrárnar, að strandferðirnar hafa orðið út undan í umr.

Ég vil í sambandi við þetta láta í ljós megna óánægju með þá þróun, sem orðið hefur í strandferðunum undanfarin ár, því að strandferðunum hefur stórhrakað og það svo, að orðið hefur nú þegar til stórtjóns, bæði fyrir einstaklinga og atvinnurekstur víðs vegar um landið. Í rauninni eru þetta orðnar rytjur einar, sem eftir eru af strandferðunum, samanborið við það, sem var, þegar bezt var fyrir þeim séð. Og þau undur hafa gerzt vegna þeirrar vanrækslu, sem orðið hefur í því að afla nýrra skipa til strandferðanna, að gömlu, úreltu skipin hafa verið seld, án þess að önnur ný hafi verið til taks að taka við þeirra hlutverki, og hefur eymdin gengið svo langt í framkvæmd þessara mála af hendi hæstv. ríkisstj., að gripið hefur verið til þess úrræðis að leigja erlent skip til þess að halda uppi nokkrum hluta af því, sem lafir af strandferðunum. Og við Íslendingar höfum nú upplifað það á ný, að með ströndum fram gengur erlent skip með erlendum skipstjórnarmanni, og mundi margur hafa álitið, að slíkt ættu menn ekki eftir að lifa. Er þetta ekki sagt til þess að álasa þeim manni, sem þar á hlut að máli, langt í frá, en það sýnir bara þann ómyndarskap, sem í þessum málum hefur verið, að annað eins skuli hafa skeð.

Þegar það kom í ljós, að hæstv. ríkisstj. hafði hugsað sér að selja eitthvað af strandferðaskipunum, án þess að önnur ný væru komin til að taka við, brá mörgum hastarlega í brún og m. a. sumum þm. Austf. og áreiðanlega víðar að af landinu, og urðu um það lítils háttar umr. og fsp. til hæstv. ríkisstj., þegar þetta var augljóst.

Og þá lýsti hæstv. samgmrh. eða ráðh., sem hefur þessi mál með höndum, því yfir alveg skýrt og skorinort, að þó að skipin yrðu seld, yrði ekki dregið úr strandferðaþjónustunni. Það er skýrt í þingtíðindunum, að þessi yfirlýsing kom fram, og þótti mönnum þó betra en ekki, að hún kom fram. En við þetta hefur ekki verið staðið. Strandferðum hefur hrakað eftir að hæstv. ráðh. gaf þessa yfirlýsingu, ferðum hefur fækkað, og þjónustan hefur versnað, og það er leiðinlegt að þurfa að segja það, að við þetta hefur ekki verið staðið, og af sjálfu leiðir, að óánægja er mjög megn út af þessu víðs vegar um landið, og tjón hefur orðið mikið í þessu sambandi, og mun þurfa að leita ærið langt aftur í tímann til þess að finna hliðstætt ástand í strandferðum eins og verið hefur nú um skeið, þrátt fyrir þessar yfirlýsingar hæstv. ráðh.

Þetta verður að segja í sambandi við þessi málefni, þegar þau ber á góma hér, því að þetta er ekki hægt að láta óátalið.

Nú er hér frv., sem hefur að geyma það ákvæði með öðrum fleirum, að það skuli vera sérstök stjórn, sem stýrir Skipaútgerð ríkisins. Okkur er sagt, að það hafi nú þegar starfað eins konar stjórnarnefnd eða stjórn fyrir þessu fyrirtæki, þó að það sé ekki ráðgert í l., að svo sé gert. Nú getur það sjálfsagt verið álitamál, hvort það eigi að leggja út í það eða hafa þá skipan á að hafa sérstaka stjórn fyrir einstökum greinum ríkisrekstursins, og ef út á þá braut á að leggja, kemur margt til skoðunar í því sambandi, t. d, eins og það, hvort á að kjósa sérstaka stjórn yfir vegamál, sem er ákaflega stórfelld grein í ríkisbúskapnum og margbrotin.

Hingað til hefur það ekki verið gert, heldur hefur vegamálastjóri verið yfir þeirri grein og heyrt beint undir ráðh. alveg eins og forstöðumaður strandferða var áður, þegar ekki var stjórn yfir þessari grein, og að l. gerir hann það enn, þó að þessi stjórnarnefnd hafi starfað um skeið.

Við getum nefnt í þessu sambandi t.d. hafnamálin og vitamálin, sem er mjög stórkostlegur þáttur. Þá kemur það auðvitað ekki síður til álita að setja sérstaka stjórn yfir þennan málaflokk, og vita- og hafnamálastjóri yrði þá framkvstj. þeirrar stjórnar, eins og hugsað er í sambandi við Skipaútgerð ríkisins. Og þannig mælti lengi telja einstaka þætti ríkisrekstursins, hvort það eigi að skipa þessum málum stjórnir eða ekki. Hér er því um æði þýðingarmikið mál að ræða, bæði að gera sér grein fyrir því, hvort þetta er hagfellt, hvort hagfelldara er að dreifa þannig ábyrgðinni á stjórn og framkvstj. eða hvort það á að vera eins og verið hefur, að framkvstj. beri ábyrgð á þessu gagnvart ráðh. Hér er um mjög stórfellt atriði að ræða, ekki sízt það, hvernig ábyrgðin á framkvæmdinni á að verða, til þess að mestar líkur séu fyrir því, að rösklega sé að þessum málum unnið.

Um þetta eru sjálfsagt mjög deildar meiningar, og í okkar stjórnskipun yfirleitt og framkvæmd hennar hefur þetta verið haft þannig, að það hafa ekki verið stjórnir yfir starfsgreinum. Það er t.d. ekki sérstök stjórn yfir Áfengisverzlun ríkisins. Það er ekki sérstök stjórn yfir Innkaupastofnun ríkisins, og þannig mætti endalaust telja. Það er yfir höfuð ekki það skipulag haft, og geri ég ráð fyrir því, að þar hafi tvennt komið til. Annars vegar, að þeim, sem hafa gengið frá þessum mélum fram að þessu hefur fundizt, að það mundi vera sterkara að hafa ekki stjórnir, heldur framkvstj., sem bæri ábyrgð fyrir ráðh., sem sé að dreifa ekki ábyrgðinni. Hitt hefur vafalaust einnig komið til, að menn hafa séð, að ef það ætti að hafa stjórnir fyrir öllum þessum greinum, ekki bara þeim, sem ég hef nefnt, heldur mýmörgum öðrum greinum, fylgdi því stórfelldur kostnaður, og mönnum hefur sjálfsagt vaxið í augum öll sú gífurlega mannafjölgun, sem yrði í starfrækslukerfinu við slíkt. Hér er ekki um neitt smámál að ræða, því að mér hefur t.d. verið sagt það úr Ed., að það hafi komið fram þar í sambandi við nefndarstörfin að þessu máli, að hæstv. ríkisstj. hafi ákveðið þessum tveimur mönnum, sem hafa starfað undanfarið. sem stjórn ásamt forstjóranum fyrir Skipaútgerð ríkisins, hálf forstjóralaun hvorum um sig, og að því er mér skilst einhver kostnaðarhlunnindi að auki. Hér er þess vegna ekki um neitt smámál að ræða kostnaðarlega séð. Náttúrlega er þetta hneyksli að ákveða slíkar þóknanir fyrir aukastarf af þessu tagi, alveg rakið hneyksli. En jafnvel þó að svona hneyksli endurtaki sig ekki í hverri einustu grein, yrði þetta dýrt spaug. En ætti þetta að útfærast í ríkiskerfinu, mundi það jafngilda því, að hverjir tveir stjórnarnefndarmenn yrðu til jafns við einn nýjan forstjóra. Ef þetta væri útfært í allri ríkisstarfrækslunni, þýddi það sama sem að fjölga forstjórunum um 50%. En við skulum nú segja, að þetta hneyksli endurtaki sig ekki í hverri grein, þá er þetta samt sem áður ákaflega mikið kostnaðaratriði og mikil spurning, hvort út í þetta á að leggja, hvort taka á upp þessa stefnu. Þetta þarf að mínu viti að skoða vandlega.

En svo er eitt í þessu, sem er verulegt prinsip-atriði líka, og það er, hvort það á, ef til kemur, að hafa stjórnskipaðar stjórnir eða þingkjörnar stjórnir. Og ég verð að segja, að ei það á að hafa stjórnir fyrir stofnunum af þessu tagi, finnst mér miklu eðlilegra, að það séu þingkjörnar stjórnir en stjórnskipaðar. Það mætti gera ráð fyrir því, ef þingið kysi þessar stjórnir, að þá yrði betri aðstaða fyrir Alþingi að fylgjast með í þessum stofnunum, og þá kæmu þar ný áhrif inn við slíkar kosningar í stjórninni. Þess vegna mundi ég vilja beina því til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, ef ofan á verður á annað borð að samþykkja frv., að athuga vel, hvort ekki væri skynsamlegt að hafa þingkjörna stjórn fyrir þessu fyrirtæki, ef á að hafa þarna sérstaka stjórn. Ég veit, að það er mikið að gera, og ég skal því ekki segja nokkurt aukaorð, sem gæti orðið til þess að tefja. En ég taldi nauðsynlegt, að þessar aths. kæmu fram, bæði varðandi sjálfar strandferðirnar og eins til .þess að vekja menn til umhugsunar um þá stefnu, sem tekin er upp með þessu frv., ef að lögum yrði.