15.04.1967
Neðri deild: 70. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

173. mál, Skipaútgerð ríkisins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér hefur því miður ekki gefizt tími til þess enn þá í því annríki, sem verið hefur nú síðan þetta frv. kom fram, að kynna mér það nákvæmlega og þó sérstaklega ekki þá grg. og fskj., sem frv. fylgja, en mér sýnist, að í þeim muni felast mikill fróðleikur um starfsemi Skipaútgerðarinnar á undanförnum árum, sem að sjálfsögðu væri æskilegt, að þm. gætu kynnt sér nú, þegar lagt er til, að sett verði sérstök lög um þetta ríkisfyrirtæki, Skipaútgerðina. En ég vil leyfa mér, af því að þetta mál er fram komið, hvernig svo sem því reiðir af, að minna á það, að á öndverðu þingi fluttum við 4 þm. úr Framsfl. í Sþ. á þskj. 24 till. til þál. um kosningu mþn. til þess að gera till. um endurnýjun strandferðaskipaflotans og skipulagningu strandferðanna. Fyrsti flm. og frsm. þessa máls var hv. 2. þm. Austf., en meðflm. hans voru auk mín hv. 3. þm. Vestf. og hv. 6. þm. Sunnl. Þessi till. var til meðferðar og til 1. umr. í Sþ., að ég ætla í nóvembermánuði, og var þá vísað til hv. fjvn. Hv. 1. flm. málsins, sem ekki mun vera staddur hér á þessari stundu a.m.k., flutti þá um það ýtarlega framsöguræðu. Ég vildi leyfa mér að beina því til hæstv. samgmrh. í sambandi við meðferð þessa frv., sem hér liggur fyrir, hvort harm mundi ekki vilja beita sér fyrir því, að þessi till. fengi afgreiðslu í þinginu, ef unnt er, og hún ætti náttúrlega ekki síður að geta fengið afgreiðslu heldur en lagafrv. og er nú búin að vera til meðferðar síðan í októbermánuði í þinginu. Þetta mál, strandferðirnar, er ákaflega brennandi áhugamál alls þora almennings víða um land, þar sem menn einkum hafa not af strandferðunum. Og áhyggjur manna út af framvindu þeirra mála eru mjög miklar. Ég minnist þess, að ég var s.l. sumar staddur á fundi, sem boðað var til af þeirri mönnum, sem vinna að svonefndri Norðurlandsáætlun, fulltrúum sveitarstjórna o. fl., á einum stað á Norðurlandi, og þar var eiginlega á þeim fundi meira rætt um þetta mál heldur en nokkur önnur, sem þar voru til meðferðar. Og er það aðeins einn vottur þess, sem ég nefndi áðan, að menn hafa áhyggjur út af framvindu þessara mála, bæði út af því, hvað komi í staðinn fyrir þau skip, sem eru að ganga úr sér og jafnvel hafa verið seld, og eins út af því, hvernig skipulag strandferðanna verði á komandi árum. Ég teldi ákaflega mikilsvert, að Alþ. setti nú niður fulltrúa sína, sem auðvitað ættu að vera skipulagðir a.m.k. að verulegu leyti eða kosnir úr hópi landsbyggðarmanna, sem búsettir eru hér og þar um landið og sérstaklega í þeim héruðum, sem þurfa á strandferðunum að halda, sérfróðum mönnum á sviði siglinga, að Alþ. fæli slíkum trúnaðarmönnum sínum að gera það nú upp við sig, hvernig eigi að leysa þessi mál. Og ég teldi það meira virði frá sjónarmiði okkar, sem mest þurfum á strandferðum að halda, að þessi till. næði fram að ganga heldur en það frv., sem hér liggur fyrir, þótt það út af fyrir sig komi vel til greina að setja lög uni Skipaútgerð ríkisins. Þess vegna er ég nú að bera fram þessa ósk við hæstv. ráðh. Ég skal ekki ræða um frv. sjálft að öðru leyti. Hv. 1. þm. Austf. hefur rætt nokkuð um eitt atriði þess, sem ágreiningur var um í hv. Ed., þ.e.a.s. skipun stjórnar fyrir Skipaútgerðina. Ég skal ekki vera margorður um það, en ég er þess sinnis, eins og hv. 1. þm. Austf. var í ræðu sinni áðan, að slík stjórn ætti fremur að verða kjörin af Alþ. Mér finnst nú sérstök ástæða til þess, að Alþ. hafi töluverð áhrif á rekstur þessarar stofnunar, sem er alveg sérstaklega lífsnauðsynlegt þjónustufyrirtæki fyrir landsbyggðina, en hér á Alþ. eiga sæti fulltrúar hinna einstöku héraða í landinu. Og þó að siglingafróðir menn og aðrir sérfræðingar séu nauðsynlegir og dýrmætir á þessu sviði eins og öðrum, er, hitt ekki síður nauðsynlegt og jafnvel enn fremur að kynna sér reynsluna og þarfirnar,. þarfir landsmanna hér og þar í landinu á þessu sviði.