15.04.1967
Neðri deild: 70. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

173. mál, Skipaútgerð ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti; Það er nú ekki ástæða til þess fyrir mig að lengja þessar umr. frá því, sem þegar er orðið. Ég komst þó ekki hjá því að standa hér upp þó ekki væri til annars en bera af mér þær sakir, sem hv. 1. þm. Austf. bar mér á brýn, þ. e, að ég hefði svikið þær yfirlýsingar, sem gefnar voru hér á Alþ. s.l. vetur um það, að þrátt fyrir fyrirætlanir, sem þá lágu í loftinu um sölu á skipum Skipaútgerðarinnar og breytingar á annarri starfsemi stofnunarinnar, mundi ekki dregið úr þeirri þjónustu, sem rækt hefði verið, og stæði ekki til að gera það, heldur auka hana og bæta. Ég endurtek þessa yfirlýsingu hér og hef ummæli þriggja stjórnarmanna, þ. á m. forstjóra Skipaútgerðarinnar, fyrir mér í því, þegar ég segi, að við þetta hafi verið staðið. Tvisvar sinnum hef ég séð ástæðu til að kalla þessa stjórnarnefnd fyrir mig vegna blaðaskrifa um, að þessari þjónustu hafi hrakað svo stórlega, og nú síðast, að ég hygg fyrir um það bil mánuði síðan, til þess að inna eftir því, hvort við þetta væri ekki staðið, eins og upphaflega hefði verið lofað af þeirra hálfu og ég túlka hér á Alþ. Og þeim bar öllum saman um það, að þjónusta strandferðaskipanna væri sízt lakari nú heldur en hún hefði verið. Hins vegar hefðu ýmsar breytingar á starfsemi skipanna og skipaferðunum orsakað það, að staða þeirra fjárhagslega væri einnig jafnframt miklu betri. Það fer heldur illa saman, að á sama tíma og verið er að álasa ríkjandi ríkisstj. fyrir það, að hún sé með úrelt skip í þessari þjónustu, er deilt á það, að notuð séu þau tækifæri, sem bezt gefast til þess að losna við þessi skip, sem allir viðurkenna, að eru orðin úrelt, til þess að skapa grundvöll undir endurnýjun þessa flota. Þetta var gert, og að beztu og fróðustu manna yfirsýn var talið eðlilegt að nota þau tækifæri, sem gáfust til sölu á Heklu og síðar Skjaldbreið. Hefði ekki það óhapp komið fyrir, sem enginn gat séð fyrir, um rekstur Herðubreiðar, þá hefði burðartonnafjöldi flotans nú verið mun meiri heldur en alls þess úrelta flota, sem hv. þm. sætti sig mjög vel við, meðan hann sat í fjmrh.stól og gerði engar tilraunir í þá átt, að endurnýjun færi fram á þessum flota.

Ég ítreka því þessa yfirlýsingu mína frá síðastliðnum vetri hér alveg kalt og rólega og tel, að við hana hafi verið staðið. Um hitt atriðið, hvort eðlilegt sé, að einstakar stofnanir séu settar undir sérstaka stjórn, má að sjálfsögðu deila og geta verið eðlilega skiptar skoðanir í þeim efnum og sitt sýnzt hverjum. En ég hygg, að það fari þó ekki á milli mála, að þegar um er að ræða jafnvíðtækt þjónustufyrirtæki og Skipaútgerðin er, sem kemur til með um ókomin ár að þurfa töluvert á ríkisaðstöð að halda í mismunandi mæli eftir árferði eins og gengur, þá sé eðlilegt, að stjórnvöld hafi þar verulega hönd í bagga og æskilegt, að náið samband sé á milli þeirra rn., sem um þessi mál fjalla mest, og sú aðferð var viðhöfð, eins og ég gat um í mínum frumorðum, að till. þeirrar mþn., sem áliti skilaði skömmu áður en þetta frv. var flutt, að kveðja til sinn manninn úr hvoru rn., og ég vil taka það skýrt fram hér, að þessi ráðstöfun hefur gefízt mjög vel og samstarf þessara þriggja manna verið með ágætum. Fram kom sú till. í Ed., að þetta skyldi vera þingkjörin stjórn. Það mundi sjálfsagt í framkvæmd þýða það, að þetta yrði 7 manna stjórn, ef hún ætti að vera eitthvað í líkingu við þær þn., sem hér hafa verið kjörnar. Hv. 1. þm. Austf. blöskruðu mjög þær launagreiðslur, sem upplýst var um í Ed., að þessum tveimur mönnum væru greiddar. Það skal tekið fram, að þeir eru nánast á daglegum fundum og fylgjast með daglegum rekstri stofnunarinnar, og mér skilst, að það sé í þágu allra þeirra, sem þar vinna. Allir hv. þm. geta svo hins vegar gizkað á, hvort 7 manna stjórn mundi geta annað slíkum störfum eða væri til þess fær, þegar um stóran hóp er að ræða, og þá jafnframt, hvort launagreiðslur til þessara 7 manna yrðu hógværari eða minni heldur en þarna er um að ræða. Ég tel því vægast sagt hæpið, að sú ráðstöfun yrði til bóta í þessu efni.

Það er, eins og ég áðan sagði, verið að undirbúa smíði tveggja nýrra skipa, sem eiga að vera af fullkomnustu gerð, og það stendur til jafnframt að lagfæra lestunar- og losunarskilyrði á aðalhöfnum, þá fyrst og fremst þeirri, sem mest veltur á og lengstur tími fer í lestun og losun á, þ.e.a.s. Reykjavík, og bæta skilyrði stofnunarinnar þar. Það er höfuðástæðan til þess, að ég álít — og ríkisstj. í heild að eðlilegt sé, að sérstök stjórn sé stofnuninni kosin, sem sjái um framkvæmd þeirrar nýbreytni, sem þarna er fyrirhuguð.

Að öðru leyti vil ég ekki tefja tíma hv. þdm. frekar en orðið er; því að ég veit; að það liggja hér mörg önnur mál fyrir, sem liggur á að afgreiða. En ég held, að þegar mönnum hefur gefízt tími til að skoða skýrslur n. og niðurstöður hennar af þeirri skýrslu, verði ekki um ýkjamikinn skoðanamun að ræða okkar í milli um framtíðarúrlausn í þessum efnum.