13.04.1967
Efri deild: 63. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

178. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um það, að ráðh. verði heimilað að kveða svo á með reglugerð, að réttindi til stjórnar stórvirkra vinnuvéla skuli bundin við ákveðna starfsreynslu eða nám. Hæstv. ráðh. gerði við 1. umr. málsins grein fyrir tildrögum frv., og vísa ég til þess og að öðru leyti til athugasemda, sem því fylgja, sérstaklega þess, að heimild vantar í l., til þess að reglugerð verði sett um það efni, sem frv. fjallar um. Iðnn. hefur athugað frv. og leggur einróma til, að það verði samþ. eins og fram kemur í nál. Einn nm., hv. 2. þm. Reykv., var ekki viðstaddur á fundi n., þegar hún afgr. málið.