18.04.1967
Neðri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

178. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Edvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Mál það, sem hér er á ferðinni, virðist sjálfsagt ekki vera stórmál, en það er þó æði þýðingarmikið. Á undanförnum árum hefur stórvirkum vinnuvélum farið ákaflega mikið fjölgandi hér í okkar landi, en þannig hafa ástæður verið, að réttindi þeirra manna, sem fara með þessi miklu tæki, vandasömu til stjórnunar, eru engin í raun og veru. Það eru engar reglugerðir eða lög, sem kveða á um réttindi þeirra til þess að stjórna slíkum tækjum. Það getur í raun og veru hver og einn, sem svo býður við að horfa, tekið að sér stjórn þessara tækja, jafnvel innan um marga aðra menn, sem eru að vinna, og ekki er nokkur efi á því, að einmitt af þessum ástæðum hafa hlotizt slys. Það eru nokkur ár síðan sérstaklega verkamannafélagið Dagsbrún hóf baráttu fyrir því, að settar yrðu reglur um sérréttindi og skyldur þessara manna. Þetta hefur hins vegar gengið æði erfiðlega, einmitt vegna þess að það hefur ekki verið talið, að í l. væri stoð fyrir setningu slíkrar reglugerðar. Öryggismálastjóri hefur haft þetta mál ærið lengi með höndum og samið reglugerð hér að lútandi, en rn. taldi a.m.k. mjög vafasamt, að slíka reglugerð væri hægt að setja án breytingar á l. um öryggisráðstafanir á vinnustöðum. Í samningum verkalýðsfélaganna Við atvinnurekendur 1965 var einmitt sérstakt samkomulag milli verkamannafélagsins Dagsbrúnar og Vinnuveitendasambandsins um það, að þessi samtök beittu sér sameiginlega fyrir. því, að settar yrðu reglur um störf þessara manna. Það dugði þó ekki til, en nú í vetur skrifaði verkamannafélagið Dagsbrún iðnmrn. og óskaði eftir því, að þessi breyting yrði gerð á l. um öryggisráðstafanir á vinnustöðum. Hæstv. iðnmrh. brá fljótt við, og sett var á laggirnar n., sem var skipuð fulltrúum bæði frá verkamannafélaginu Dagsbrún og Vinnuveitendasambandinu, svo og öryggismálastjóra. Nefndin kom sér saman um í öllum atriðum, hvernig þessu skyldi háttað, og reglugerð eða grundvöllur fyrir reglugerð er tilbúinn frá þeirra hálfu. Síðan hefur ríkisstj. flutt þetta frv. hér. Það er nú svo oft, sem við höfum ástæðu til þess að kvarta yfir seinagangi og leiðindum í sambandi við svona mál, en ég sé ástæðu til þess að þakka hæstv. iðnmrh. fyrir viðbrögðin, sem hann hefur viðhaft í þessu máli. Ég vil gjarnan, að það komi eins fram og hitt, sem við höfum oft ástæðu til, að finna að þessum störfum.