13.04.1967
Efri deild: 63. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

179. mál, lántaka vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1967

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta mál til meðferðar, en eins og nál. þau, sem útbýtt hefur verið, bera með sér, hefur hún ekki náð samstöðu um málið, þannig að við 4, sem stöndum að meiri hl. nál. á þskj. 463, leggjum til, að það verði samþ. óbreytt, en 3 aðrir hv. nm. hafa skilað séráliti og vilja samþ. frv. með mjög verulegum breytingum.

Ég vil aðeins leyfa mér að fara örfáum orðum um þessar brtt. og gera grein fyrir því, hvers vegna við, sem í meiri hl. erum, teljum okkur ekki geta samþ. þær. Áður en ég kem samt að þeim brtt., sem verulegu máli skipta, vildi ég aðeins minnast á brtt. við 3. gr. frv., en hv. minni hl. vill að falli niður orðin: „að bréfin verði undanþegin framtalsskyldu.“ Það má í fyrsta lagi á það benda, að slíkt mundi tvímælalaust torvelda mjög sölu bréfanna og þar með þá tekjuöflun, sem hér er gert ráð fyrir, og það þarf auðvitað ekki nánari skýringar við. Í öðru lagi vildi ég fyrir mitt leyti leyfa mér að minna á það, sem ég hef stundum áður drepið á, þegar till. þessa efnis hafa verið til meðferðar í hv. d., að ég tel, að það sé nokkuð út í bláinn að samþ., að um framtalsskyldu skuli vera að ræða, án þess að ákvæði séu þá um viðurlög við því, að þessi skuldabréf væru ekki talin fram. Mér er ekki kunnugt um það, að undantekning sé frá því, að það fer alltaf saman, að eignir og tekjur, sem ekki eru skattskyldar, eru heldur ekki framtalsskyldur, og ástæðan til þess, að svo er, er auðvitað sú, að ef það ætti að gera vissar eignir eða tekjur framtalsskyldar, án þess að þær væru skattskyldar, þyrfti auðvitað að setja einhver viðurlög við slíku. Ef fara á inn á þá braut, sem ég út af fyrir sig tek ekki sérstaklega afstöðu til, þá verður að hugsa þetta mál, áður en slíkt er samþ. En ég fjölyrði annars ekki um þetta.

Þá kem ég að þeim brtt., sem ég tel öllu meira máli skipta. Það virðist svo sem hv. stjórnarandstæðingar, sem að þessu nál. standa, hafi fundið gullnámu, sem hægt sé að ganga í til þess að sækja peninga, bæði þá peninga, sem þarf til þeirrar framkvæmdaáætlunar, sem hér er um að ræða, og til annars. Hver er þessi gullnáma? Það er auðvitað Seðlabankinn, eins og ég kem að. En mér dettur í hug í þessu sambandi, hvort hér muni vera um að ræða lausnina á þeirri getraun, sem annað höfuðmálgagn stjórnarandstöðunnar, dagblaðið Tíminn, hefur undanfarna mánuði skemmt lesendum sínum með, með því að leggja fyrir þá, nefnilega í hverju „hin leiðin“, sem svo hefur verið nefnd, er fólgin, en e.t.v. er það í þessu, sem lausnina á þeirri gátu er að finna. Annars er það annarra heldur en mín að fella úrskurð í þessu efni. Það er Seðlabankinn, sem hv. stjórnarandstæðingar ætla skv. till. sínum að bera hér hita og þunga dagsins. Það á að leysa þann vanda, sem útboð skuldabréfanna e.t.v. að einhverju leyti geta skapað viðskiptabönkum og sparisjóðum, vegna þess að hluti af því fé, sem varið kann að vera til kaupa á þessum skuldabréfum, verður e.t.v. tekinn út úr þessum lánastofnunum, með því að afnema heimild Seðlabankans, sem notuð hefur verið að undanförnu, til þess að binda hluta af sparifjáraukningu banka, sparisjóða og innlánsstofnana. Í öðru lagi vilja hv. stjórnarandstæðingar ganga miklu lengra í því efni að ráðstafa greiðsluafgangi ársins 1966 til þess að standa straum af þeim framkvæmdum, sem skv. þessu frv. á að afla fjár til. Mér skilst við lauslega athugun, að þeir vilji bæta 120 millj., eða raunar nokkurn veginn því, sem heimildin nemur, við þær 53 millj., sem frv. gerir ráð fyrir, að teknar verði af greiðsluafgangi ársins 1966. Auðvitað þýðir þetta ekki annað en að peningarnir eru einnig sóttir í Seðlabankann. Hver á að vera allsherjarlausn þessara vandamála? Mér kemur nú í hug í þessu sambandi, að í sjálfu sér eru þessar till, í fullu samræmi við málflutning hv. stjórnarandstöðu, eins og hann hefur verið að undanförnu. Ég heyrði, að það voru fleiri en einn þeirra hv. stjórnarandstæðinga, sem í fyrrakvöld tóku þátt í eldhúsumr., sem héldu því fram, að ein af meginorsökum dýrtíðarvaxtanna væri sá mikli tekjuafgangur, sem hefði verið á fjárl. á s. l. ári. Nú á að vera þannig komið, að þessi greiðsluafgangur á fjárl. á að vera ein aðalorsök dýrtíðarinnar. Hér er um nýtt sjónarmið að ræða, sem okkur, hagfræðingunum a.m.k., kemur ákaflega einkennilega fyrir sjónir, og á það má minna í þessu sambandi, að ég man ekki betur en að um áramótin 1965–1966, þegar verið var að afgreiða fjárlög fyrir árið 1966 og fyrir lá, að verulegur greiðsluhalli hefði orðið bæði á árinu 1964 og einnig, þó að hann væri minni, á árinu 1965, þá teldu hv. framsóknarmenn, að þessi greiðsluhalli sýndi, að það væri orðið svo mikið öngþveiti í fjármálum, að þeir vildu alls ekki taka neinn þátt í því að afgreiða fjárlögin. Þeir fluttu aðeins eina brtt. við fjárlögin, en tóku að öðru leyti lítt eða ekki þátt í afgreiðslu þeirra. Þá átti það að vera hallinn, sem, skapaði öngþveitið, nú á aðalorsök dýrtíðaraukningarinnar að vera sú, hvað það hafi verið mikill greiðsluafgangur á fjárlögum.

Ég nenni nú annars ekki, enda er ekki ástæða til þess, að vera að elta ólar við slíkt, en það er aðeins eitt atriði, sem ég vildi að síðustu leyfa mér að gera örstutta athugasemd við. Í nál. hv. minni hluta er talað um það, að ekki sé meiri ástæða til þess að greiða, eins og það er orðað, óreiðuskuld við Seðlabankann heldur en aðrar óreiðuskuldir ríkissjóðs, sem þeir kalla því nafni. Ég get nú ekki annað séð en hér sé um algerlega ósambærilega hluti að ræða. Ég tel, að það sé fyllilega réttmætt að tala um yfirdráttarskuld ríkissjóðs á hlaupareikningi hans í Seðlabankanum sem óreiðuskuld. Hér er um lántöku að ræða, sem engin heimild er að jafnaði til fyrir hjá fjárveitingavaldinu. Annað mál er það, að til þessarar leiðar er gripið sem neyðarráðstöfunar, ef ekki hefur verið séð fyrir nægilegri tekjuöflun ríkissjóði til handa til þess að standa undir lögboðnum útgjöldum sínum, frekar heldur en að stofna til þess, að ríkissj. beinlínis kæmist í greiðsluþrot. Þessi leið er þá heldur valin, , og það út af fyrir sig hefur ekki verið gagnrýnt. Hér er því vissulega með verulegum rétti hægt að tala um óreiðuskuld.

En allt öðru máli gegnir, eftir því sem ég veit bezt, um þær skuldir, sem hér eru gerðar að umtalsefni í nál. hv. minni hluta, þar sem talað er um framkvæmdir til vega, hafna, skóla, sjúkrahúsa o.s.frv. Mér kæmi það nú að vísu á óvart, ef um það væri að ræða, að ríkissj. hefði ekki staðið við lögmætar skuldbindingar sínar. Það væri þá einkennilegt, af þeir aðilar, sem slíka peninga ættu að fá, hefðust ekki á einhvern hátt handa til þess að leita réttar síns með málshöfðun á hendur ríkissj. eða öðru slíku. Ég veit a.m.k. ekki til annars en að við slíkar lögbundnar skuldbindingar ríkissj., þar sem fastar reglur gilda um, að honum beri að greiða til skóla, sjúkrahúsa o.s.frv., hafi verið staðið. Hitt er svo annað mál, að af tæknilegum og öðrum ástæðum má vera, að slíkar greiðslur séu stundum eitthvað á eftir. Og í öðru lagi getur ástæðan til þessa halla, sem hér er talað um, blátt áfram verið sú, að í sérstökum lögum er ríkissj. heimilað að greiða ákveðinn hluta af kostnaði við tilteknar framkvæmdir, en það að öðru leyti bundið því skilyrði, að fjárveiting sé fyrir hendi hverju sinni, þannig að þó að slíkar heimildir hafi ekki verið notaðar að fullu, vegna þess að fjárveiting hefur ekki verið fyrir hendi, þá finnst mér fráleitt að tala um það sem óreiðuskuld.

Annars veit ég, að hæstv. fjmrh., sem þessum málum er auðvitað kunnugri en ég í einstökum atriðum, mun gera frekari leiðréttingar að lokinni framsögu hv. minni hluta, ef hann telur sérstakt tilefni til í sjálfu sér væri ástæða til að segja margt frekar um þá fráleitu fjármálastefnu, sem lýsir sér í þeim till., sem hv. minni hluti hefur lagt hér fram, en ég læt þó staðar numið að sinni.

Herra forseti. Samkvæmt þessu leggur meiri hluti n. til, að frv. verði samþ. óbreytt.