13.04.1967
Efri deild: 63. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

179. mál, lántaka vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1967

Frsm. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Ég vil nú ekki gera neitt til að koma í veg fyrir það, að hægt sé að ljúka þessum fundi fyrir kl. 4.30, en mig langaði þó að segja örfá orð í tilefni af ræðu hæstv. fjmrh. Það er nú siður, þegar menn koma úr óvæntum áttum og taka vel undir brtt. manna, að þakka fyrir undirtektirnar. Nú hefur hæstv. fjmrh. mælt hér gegn öllum mínum brtt., en það liggur við, að ég hafi samt tilhneigingu til að þakka fyrir undirtektirnar, vegna þess að hann talaði svo hlýlega um þær. En nokkrar aths. langar mig þó til að gera.

Hæstv. fjmrh. sagði í upphafi síns máls, að Alþ. ætti ekki að ákveða það, hvort Seðlabankinn bindi fé eða ekki, til þess skorti Alþ. yfirsýn, sem Seðlabankinn ætti að hafa. Ég verð nú að láta í ljós undrun mína yfir slíkri yfirlýsingu, því að ég veit í fyrsta lagi ekki betur heldur en sú heimild, sem Seðlabankinn hefur til þessara hluta, sé frá Alþ. komin, og í öðru lagi er bara í þessu frv. einu gert ráð fyrir lántökum upp á 200 millj. kr. — ekki þessu frv. nema 125, en svo 75 í sambandi við lánsfjáröflunina — sem eru í eðli sínu teknar af viðskiptabönkunum með ákaflega svipuðum hætti og hafa í rauninni á ýmsan hátt ákaflega svipuð áhrif eins og sparifjárbindingin sjálf. Til þess að ákveða slíkar lántökur get ég ekki betur séð en það þurfi svona ósköp svipaða yfirsýn eins og til þess að ákveða það, hvort binding sparifjárins skuli fara fram eða ekki, og mér fannst þess vegna ekki verulegt hald í þessum ummælum hæstv. fjmrh., en það var mjög athyglisvert, að hann sagði það í sambandi við þetta atriði, að það kynni að reynast rétt að minnka sparifjárbindinguna, og ég hlýt að láta í ljós ánægju mína yfir því, að það skuli þó votta fyrir nokkrum skilningi á því. Mér þótti einnig vænt um það, að hæstv, fjmrh. tók heldur hlýlega undir till. okkar um það, að þessi bréf skyldu vera framtalsskyld, og taldi nauðsynlegt að láta fara fram heildarathugun á þeim reglum, sem settar hafa verið um að undanskilja svona bréf einnig framtalsskyldu. Hins vegar hjó ég eftir því, að hæstv. fjmrh. notaði nú í annað sinn orð, sem hann einnig notaði í vetur einu sinni. Hann talaði um framtalsfrelsi, og mér þykir vera farið að nota orðið frelsi í seinni tíð í ákaflega víðtækri merkingu og held, að menn ættu að vanda sig meira með notkun þess orðs en gert hefur verið um hríð. Ég vildi nú bara skjóta því að hæstv. ráðh. svona í fullri vinsemd.

Í þriðja lagi ætlaði ég aðeins að nefna, að fjmrh. komst svo að orði um þennan yfirdrátt í Seðlabankanum: „og þótt það væri þolað, að stofnað hefði verið til þessa yfirdráttar.“ Þolað af hverjum? Seðlabankastjórn. Já, þetta hlýtur eins og í sambandi við fyrsta atriðið, sem ég nefndi, um hvort Alþ. ætti að skipta sér af sparifjárbindingunni, að vekja til umhugsunar um það, hverjir það eiginlega eru, sem eiga að stjórna efnahagsmálum þessarar þjóðar, þegar hæstv. fjmrh. talar svona. Ég veit ekki betur en gert sé ráð fyrir í Seðlabankalögunum, að það skuli Alþ. og ríkisstj. gera, og ég man ekki betur en þar sé Seðlabankanum sérstaklega tryggður réttur til þess að gera aths. við þær ráðstafanir, sem Alþ. og ríkisstj. gera í efnahagsmálum, til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, en hins vegar sé það auðvitað alveg skýrt, að það er Alþ. og ríkisstj., sem ákveða efnahagsmálastefnur í þessu landi.

Mér þykir nú út af fyrir sig vænt um það, að hæstv. fjmrh. vill alltaf sýna mikla gætni í fjármálum, og þó að við ramman reip hafi verið að draga hjá honum nú um sinn, kemur þessi vilji hans alltaf mjög vel fram, og ég kann vel að meta hann. Ég hef út af fyrir sig ekki neitt við þá skoðun hans að athuga, sem iðulega kemur fram, að það eigi að tryggja greiðsluafgang hjá ríkissjóði, og ég get meira að segja vel fallizt á þá skoðun, að slíkum greiðsluafgangi eigi ekki ævinlega að úthluta, heldur geti í ýmsum tilfellum verið eðlilegt að leggja hann fyrir. En þetta hefði hæstv. ríkisstj. átt að hugsa um svolítið fyrr, á árunum 1964–1965, og ekki nú á árinu 1967 að vilja taka alla þá umframskattlagningu, sem lögð var á þjóðfélagsþegnana á árinu 1966 til þess að leiðrétta þær syndir á einu bretti.

Það voru nokkur fleiri atriði í ræðu hæstv. fjmrh., sem ég hefði nú kannske haft gaman af að ræða við hann, en ég held, að ég láti samt máli mínu lokið í trausti þess, að það gefist e.t.v. önnur tækifæri til þess að ræða um þau atriði, sem voru nú líka sum hver smávægileg.