15.04.1967
Neðri deild: 69. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

179. mál, lántaka vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég hef gert hér á Alþ. grein fyrir framkvæmdaáætluninni fyrir árið 1967 og mun því ekki ræða það mál frekar í sambandi við þetta frv. En frv. er um að fá lántökuheimildir samþykktar vegna þessarar framkvæmdaáætlunar. Ég get verið stuttorður um skýringar á einstökum liðum frv. Varðandi efnið í heild vísa ég til grg. minnar um framkvæmdaáætlunina, og til efnislegra útskýringa á frv. sjálfu vísa ég til grg. og þeirrar töflu, sem þar með fylgir varðandi skiptingu á því fé, sem leitað er heimildar til að taka, og hvernig því verði ráðstafað: Í fáum orðum sagt eru heimildir þær, sem beðið er um í þessu frv., 6 að tölu. Það er í fyrsta lagi heimild til þess að gefa út innanlands spariskírteinalán, 125 millj. kr., og er gerð grein fyrir því í 4. gr. frv., hvernig því fé eigi síðan að verja. Í öðru lagi er leitað heimildar til að taka lán, allt að 12.5 millj. kr. vegna framkvæmdar á Vestfjarðaáætlun, en þetta en 3. ár samgönguáætlunar Vestfjarða. Í þriðja lagi er leitað heimildar til að taka lán vegna flugmála, raforkumála og landshafna, sem eru til viðbótar þeim spariskírteinalánum, sem ætlunin er að veita til þessara framkvæmda. Í fjórða lagi er leitað eftir heimild til þess að ráðstafa greiðsluafgangi ársins 1966, 27 millj. kr. til vegagerðar, og hefur verið gerð grein fyrir skiptingu þess fjár í umr. hér á Alþ. um vegáætlun, og 26 millj. kr. samtals til bygginga við menntaskólana og viðbyggingar Landsspítalans, en þetta eru hvort tveggja framkvæmdir, sem eru kostaðar algerlega af ríkisfé og því eðlilegt að nota greiðsluafgang til þeirra framkvæmda, að svo miklu leyti sem hægt er að nota hann til framkvæmda á þessu ári.

Í fimmta lagi er beðið um heimild til þess að halda áfram kaupum fasteigna hér í miðbænum í framhaldi af því, sem Alþ. samþykkti með fjárlögum, en þá var frá því skýrt, hvaða eignir væri talið nauðsynlegt að kaupa, til þess að fengist það athafnasvæði, sem að var stefnt að fá hér í miðbænum. Efnislega lýsti Alþ. samþykki sínu við þá stefnu þá, en það hefur tekizt samkomulag með þeim fyrirvara, að samþykki Alþ. fáist til að kaupa umræddar eignir, sem nefndar eru í 9. gr. frv., og er lagt til, að Alþ. veiti heimild sína til þess, að þessar eignir verði keyptar. Þá er í sjötta lagi leitað eftir heimild Alþ. til þess að kaupa hús á Laugarvatni vegna sameiginlegra afnota skólanna þar. Það eru mjög eindregin tilmæli frá forráðamönnum á Laugarvatni, að þetta hús verði keypt, og í bili er brýn nauðsyn að fá þarna húsnæði vegna mötuneytis starfsmanna, sem þar vinna að framkvæmdum, og eftir athugun þeirra aðila, sem hafa með þessi mál að gera, hafa þeir allir lagt til, að þessi ráðstöfun verði gerð. Hins vegar vantar heimild til slíkra fjárráðstafana, og er því leitað heimildar í þessu frv. um það efni. Í töflunum, sem með fylgja, er að finna nákvæma sundurliðun á því, hvernig fé þetta verður notað til hinna einstöku framkvæmda, en eins og hv. þdm. er kunnugt og ég gerði grein fyrir í framsöguræðu minni um framkvæmdaáætlun, er framkvæmdaáætluninni tvískipt. Annars vegar eru framkvæmdir á vegum ríkisins, og til þeirra er ætlað að afla fjár með þessu frv. Hins vegar er um fjáröflun til fjárfestingarlánasjóðanna að ræða, en lausn þess máls hefur verið falin Framkvæmdasjóði ríkisins.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjhn.