14.12.1966
Sameinað þing: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

1. mál, fjárlög 1967

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Að höfðu samráði við hæstv. fjmrh. og hv. formann fjvn. hef ég leyft mér að flytja brtt. við fjárlagafrv. á þskj. 161 um nokkuð breytta sundurliðun á gjöldum og tekjum ríkisútvarpsins, á gjöldum og tekjum hljóðvarps og sjónvarps. Ástæðan til þess, að nauðsynlegt er að flytja þessar brtt., er sú, að þegar fjárlagafrv. var samið á sínum tíma, snemma á þessu ári, lágu ekki fyrir allar þær upplýsingar um tekjur og gjöld þeirra stofnana, sem hér er um að ræða, sem nú liggja fyrir. Þetta hefur að sjálfsögðu engin áhrif á niðurstöður fjárl., vegna þess að ríkisútvarpið stendur undir rekstri sínum með eigin tekjum. Hér er eingöngu um að ræða nokkra breytingu á tekjuliðum og gjaldaliðum, sem byggð er á núverandi horfum um rekstur stofnunarinnar á næsta ári. Frekari skýringa held ég, að sé ekki þörf á þessari till. Hún er sem sagt gerð til þess eins, að tölur fjárlagafrv. á næsta ári verði í sem nánustu samræmi við það, sem vitað er nú um tekjur og gjöld ríkisútvarpsins.