18.04.1967
Neðri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

179. mál, lántaka vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég geri nú ráð fyrir því kannske, að hv. 3. þm. Vestf. afsaki það, þó að ég hafi ekki í höfðinu allar tölur sundurliðaðar, ekki einu sinni í sambandi við Vestfjarðaáætlun, en ég hélt hins vegar, að hv. þm. væri það kunnugt — þetta er þriðja árið, sem tekið er fé að láni hjá Viðreisnarsjóðnum í sambandi við samgöngumál Vestfjarða, og það er ákveðið að úthluta því með nákvæmlega sama hætti, þessu fé, eins og áður hefur verið gert. Það er ekkert launungarmál, hvernig það er gert. Varðandi vegina er þetta inni í lántökukafla vegáætlunar, og það hefur verið reiknað með því, að það yrði unnið í samræmi við vegáætlun að þessum vegum og hins vegar gengið út frá því, að þetta lánsfé yrði til ráðstöfunar þennan tiltekna árafjölda frá Viðreisnarsjóðnum. Og það er ósköp auðvelt fyrir hv. þm. að fá upplýsingar um það, hvernig það skiptist á einstaka vegi. Um flugvellina er það að segja líka að þetta er ákveðið hvert ár á framkvæmdaáætlun flugvallagerða. Ég veit ekki, hvort er nákvæmlega búið að deila því niður í ár eða ekki, en það er auðvelt fyrir hv. þm. að fylgjast með því, og vegáætlun Vestfjarða er vissulega raunveruleiki, þannig að enda þótt ég ætli ekki að fara að nota tímann hér til þess að ræða um framkvæmdaáætlun almennt, er það margrætt mál og öllum hv. þm. vitanlegt, ekki sízt væntanlega hv. þm. Vestfjarða, að varðandi framkvæmdaáætlun Vestfjarða hefur vegáætlunin verið framkvæmd á þennan hátt og eftir ákveðnum till. með aðstoð Viðreisnarsjóðsins að þessu leyti og svo þeim fjárveitingum, sem fyrir hendi hafa verið hverju sinni frá Alþ. eftir öðrum leiðum að öðru leyti. Framkvæmdaáætlun Vestfjarða sem heildarmál. Að því hefur verið unnið, og það hefur verið upplýst hér, held ég, oftar en einu sinni í Alþ., að það liggur fyrir viss rammaáætlun, sem þarf að fylla út í varðandi atvinnuvegina á Vestfjörðum og félags- og menningarmál. Því er ekki enn lokið. Samgönguáætlunargerðinni hefur verið lokið, og ég hygg, að það hafi sézt mörg merki þess, að unnið hafi verið að þeim málum með jákvæðum árangri.

Ég ætla ekki að fara að orðlengja mikið út af ræðu hv. 11. þm. Reykv., sem flutti hér hógværa ræðu eins og hans var von og vísa. En það liggur auðvitað í augum uppi, að hvað sem við álítum um fjárhagserfiðleika í þjóðfélaginu almennt, verður eins og hann sagði auðvitað að velja og hafna, og ég hef ekki heyrt enn þá neina gagnrýni á því, að það sé nauðsynlegt að vinna að öllum þeim opinberu framkvæmdum, sem gert er ráð fyrir í þessari framkvæmdaáætlun, og meira að segja hafa menn talið, að þar væri fremur of, skammt gengið heldur en hitt, og það er í rauninni sama, hvaða leið er valin til fjáröflunar í þessu skyni, hún hlýtur að koma einhvers staðar við menn. Það er alveg rétt, að sala spariskírteina hefur áhrif á bankakerfið að töluverðu leyti. Þó er ástæða til að halda, að nokkuð af spariskírteinum hafi alltaf selzt og þar hafi verið um aukinn sparnað að ræða einmitt vegna þess, hve þarna er um góð kjör að ræða, þannig að fólk, sem ekki hefur kært sig um að taka þá lægri vexti, sem hv. þm. upplýsti réttilega, að bankarnir hafi möguleika til að greiða, hafi aukið sparnað sinn með því að kaupa þessi skírteini, sem nú hafa verið verðtryggð. En staðreynd málsins er sú, að ef við viljum vinna að þessum framkvæmdum — það er sjónarmið út af fyrir sig að segja, að við eigum að fresta þeim — verður aldrei komizt fram hjá því, að sparnaðurinn verður skertur að þessu leyti, hvort sem við veljum spariskírteinaleiðina eða lántökuleiðina, að svo miklu leyti sem við förum þá ekki yfir í erlend lán, og það vitanlega, hygg ég nú, að allir hv. þdm. séu mér sammála um, verður að gerast með hófi og verður nú fyrst og fremst að miðast þá við eflingu útflutningsframleiðslunnar. En að öðru leyti, hvort sem farin er skattálagningarleið, spariskírteinaleið eða tekið af bundnu fé, hefur þetta í rauninni allt sömu áhrif, að þessir peningar verða ekki notaðir til annarra þarfa, þannig að hér er deilt um keisarans skegg, ef svo má segja, hvaða úrræði eru fengin, nema menn því aðeins vilji segja, að við eigum ekki að gera þetta, jafnvel þótt við notum af greiðsluafgangi, þá yrði þar um að ræða takmörkun á fjármagni eftir öðrum leiðum, sem yrðu til úthlutunar. Það veit ég, að hv. þm., sem er bankastjóri og þaulkunnugur fjármálakerfinu, er mér sammála um.

Ég get svo ekki stillt mig um að segja það að lokum varðandi till. um hina stóru lántöku í framleiðnisjóðinn, að þótt ég sé honum alveg sammála um, að það sé æskilegt að vinna að framleiðnimálunum, og það hefur verið gert með ýmsum hætti, þá er ég ósköp hræddur um, að þar yrði einnig um að ræða skerðingu á ráðstöfunarfé bankakerfisins, því að naumast er það hugmynd flm., að slíkt fé ætti alltaf að takast með erlendu láni, enda er ég nú ekki viss um, að slíkt lán fengist, þannig að við sjáum bara á þessari hugmynd, að þarna er um gott og þarft mál að ræða út af fyrir sig. Við verðum þarna eins og annars staðar að velja á milli hvað við eigum að ganga langt til þess að ráðstafa því fé, sem við höfum til ráðstöfunar hverju sinni, og getum auðvitað ekki ráðstafa,ð sömu krónunni nema einu sinni. Ég vildi svo aðeins vekja athygli á því varðandi framleiðnisjóðinn, að ég tel, að að öðru leyti sé það mál, sem ekki eigi að blanda saman við þetta frv., sem við erum með hér, lántöku vegna framkvæmdaáætlunar. Þetta er allt annars eðlis og auk þess, eftir að framkvæmdasjóður ríkisins er tekinn til starfa, er það á hans valdi innan þess ramma, sem hann telur mögulegt að afla fjár, að afla fjár til stofnsjóða atvinnuveganna, og ég mundi nú álíta, að heppilegast væri, að hann hefði í sínum höndum framleiðniaukningarmál hverrar atvinnugreinar fyrir sig.

Ég ætla svo ekki, herra forseti, að lengja þessar umr. meira, þó að vitanlega hefði verið hægt að ræða um mörg atriði, en læt þetta nægja.