14.12.1966
Sameinað þing: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

1. mál, fjárlög 1967

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Þrír þingmenn úr stjórnarandstöðunni, tveir hv. þm. Framsfl. og einn hv. þm. Alþb., hafa flutt brtt. við fjárl. um aukna fjárveitingu til vatnsveituframkvæmda í Vestmannaeyjum. Það er ekki nema gott eitt um það að segja, ef þm. vilja sýna vináttu og góðan hug til framkvæmdar ákveðinna mála. En ég hygg þó, að það hefði verið eins vel þegið og kannske betur þegið af Vestmanneyingum, hefði þessi vinarhugur komið í ljós, meðan þessir flokkar höfðu aðstöðu hér á þingi, því að Vestmanneyingar stóðu þá í margs konar framkvæmdum, en fengu því miður allt aðra fyrirgreiðslu en hugur þessara manna virðist standa nú til Vestmanneyinga. Í sambandi við þetta mál, vatnsveituframkvæmdir Vestmanneyinga, þykir mér rétt að gera nokkru ýtarlegri grein fyrir því en hér hefur þó verið gert af öðrum þm., þar sem ég tel, að ég muni vera því máli einna kunnugastur.

Heima í héraði var það ákveðið, þegar þetta mál var komið nokkuð á rekspöl, að vatnsveitan skyldi byggð upp þannig, að stofnæðar skyldu byggðar upp fyrir lánsfé, innanbæjarkerfið aftur fyrir álögur á bæjarbúa með beinum útsvörum. Það má segja, að hér sé um nokkuð tvíþætta framkvæmd að ræða, það er annars vegar stofnæðin, sem skv. lögum getur verið styrkhæf, og hins vegar innanbæjarkerfið, sem engin lög eru fyrir, að geti orðið styrkhæft. Innanbæjarkerfið er áætlað, að kosti um 16 millj. kr., og var í bæjarstjórn gert ráð fyrir, að það yrði framkvæmt á 3 árum og tekinn inn á fjárhagsáætlun bæjarsjóðs í hvert sinn 1/3 af þessari áætluðu upphæð eða um það bil. Stofnæð hins vegar er gert ráð fyrir að kosti um 76 millj. kr., og hafa bæjaryfirvöld ávallt gengið út frá því, að það fé yrði að taka að láni og vatnsveitan yrði að standa undir því, að svo miklu leyti sem ríkissjóður greiddi það ekki sem stofnframlag.

Eins og kom fram hjá hæstv. fjmrh., hefur Efnahagsstofnunin haft með höndum nú undanfarið útreikninga á fjárhagshlið málsins og einnig á framkvæmdahlið þess. Það er gert ráð fyrir, að stofnæðin verði framkvæmd á næstu 4 árum, þ.e. árin 1967–1971, og er þá vatnsveitan að þeim framkvæmdum loknum talin af sérfróðum mönnum nægja fyrir bæjarfélagið, þó að það þróist og vaxi eðlilega, þá muni vatnsveitan fullnægja bæjarfélaginu um allverulega langan tíma. Áætlun Efnahagsstofnunarinnar um fjárhagshlið málsins er byggð á 3 vatnsveitutöxtum. Ef reiknað er með lægsta vatnsveitugjaldinu, sem Efnahagsstofnunin hefur notað, mun þurfa að leggja vatnsveitunni til á næsta ári, árið 1967, tæpar 3 millj. umfram þær lántökur, sem taka þyrfti. Ég vil í sambandi við lántökur geta þess, af því að hv. 4. þm. Sunnl. virtist vera í nokkrum vafa um það, að nokkrar ráðstafanir hefðu verið gerðar til lántöku fyrir það fyrirtæki, þá vil ég geta þess, að aðalkostnaðurinn árið 1967 verður andvirði þeirrar leiðslu, sem lögð verður yfir sundið frá Landeyjasandi út til Vestmannaeyja og samið hefur verið um kaup á frá erlendu fyrirtæki. Það var strax í byrjunarviðræðum við þetta fyrirtæki sett það skilyrði, að þeir útveguðu lán fyrir öllu andvirði leiðslunnar. Samkomulag gat strax orðið um, að þeir útveguðu 5 ára lán með 7–8% vöxtum, en Vestmanneyingar sögðu þá strax, að það væri ekki nægjanlegt, lágmarkstími yrði að vera 10 ár, og er um það orðið samkomulag og staðfest á milli forsvarsmanna bæjarfélagsins og hins erlenda fyrirtækis, að andvirði leiðslunnar verði greitt með 10 ára skuldabréfi, annaðhvort með 7% eða 8% vöxtum, ég man ekki, hvora upphæðina er þar um að ræða. Miðað við þessa áætlun, sem Efnahagsstofnunin hefur gert um framkvæmdahlið málsins og um fjárhagshlið málsins, kemur fram, að það þarf tæpar 3 millj. umfram þau lán, sem þegar hefur verið samið um, umfram þau lán, sem við höfum ástæðu til að ætla, að Efnahagsstofnunin muni standa að með bæjaryfirvöldum í Vestmannaeyjum að útvega, og þá tel ég þá fyrirgreiðslu, sem er á fjárlögum og kemur fram í nál. meiri hl. fjvn. og hér var staðfest af fjmrh. að væri um 3 millj. að ræða, — þá tel ég það eðlilega fyrirgreiðslu. Það er með þessari upphæð séð fyrir því, að hægt er að byggja upp fyrirtækið, þann áfanga þess, sem ákveðið er að ljúka á árinu 1967, með alveg eðlilegum hætti. Það má að sjálfsögðu alltaf deila um það, hvað mikið á að veita í hvert sinn. En ég tel aðalatriðið það, sem fjmrh. hér lýsti yfir og Vestmanneyingum er nú orðið kunnugt að nokkru leyti, að loforð fyrir ríkisábyrgð fékkst árið 1965 fyrir þeim lánum, sem kaupstaðurinn þyrfti að taka vegna þessara framkvæmda, og í öðru lagi hefur verið staðfest, að þetta fyrirtæki verði gert styrkhæft skv. lögum, og nú er fyrsti áfanginn, sem er í fullu samræmi við það, sem Efnahagsstofnunin leggur til að þurfi á næsta ári, tekinn inn á fjárlög fyrir árin 1967, þannig að ætti að liggja alveg ljóst fyrir, að fra kvæmdir gætu orðið eins og til hefur verið ætlazt, bæði af Vestmanneyingum og eins skv. áætlun Efnahagsstofnunarinnar.

Mér þykir rétt við þetta tækifæri, þar sem þetta stóra fyrirtæki og ég segi sérstæða fyrirtæki kemur nú í fyrsta sinn til afgreiðslu hjá hv. Alþingi í sambandi við fjárl., að gera nokkra grein fyrir því í stórum drátt m og aðdraganda þess.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. 4. þm. Sunnl., að Vestmanneyingar hafa, held ég, undirbúið þetta mál mjög vel, þeir hafa kannað þær leiðir, sem fyrir hendi gátu verið til öflunar neyzluvatns, ekki hraðað sé meir en eðlilegt er, og endað á þeirri leið, sem ég vil segja í lengstu lög von, að við mun um komast fram hjá. Upphaflega var það kannað undir leiðsögn og forsjá jarðfræðinga og jarðhitadeildar ríkisins, hjá raforkumálas rifstofunum, kannaður sá möguleiki, hvort vatn væri fáanlegt með jarðborunum úti í Vestmannaeyjum. Þetta var gert á tvennan átt, fyrst með því, að framkvæmdar voru svokallaðar grunnboranir, þar sem farið var nokkuð niður fyrir sjávarmál, og þá með 7 eða 8 borholum þversum yfir eyjarnar, en þetta bar ekki þann árangur, sem vonazt var til og neitt var hægt að byggja á. Á árinu 1964, þrátt fyrir að jarðfræðingar töldu mjög litlar líkur, þá töldu Vestmanneyingar það þó sjálfsagt og töldu sér það skylt að ráðast í mjög kostnaðarsamar boranir, sem voru hinar svokölluðu djúpboranir, og var þá undir forsjá þessara sömu aðila framkvæmd jarðborun á 1565 m dýpi, án því miður nokkurs árangurs. Það var með þessum; aðgerðum talið af sérfræðingum, sem um þetta mál fjalla f.h. ríkisins, alveg gengið úr skugga um það, að vatnsveita í Vestmannaeyjum yrði ekki byggð eftir þeirri leið, að vatn fengist með jarðborunum.

Það, sem Vestmanneyingar gerðu sér lengi vel mjög miklar vonir um til að leysa þetta mál, var, að hægt væri að vinna neyzluvatn úr sjó. Það var um 5 eða 6 ára skeið fylgzt mjög náið af trúnaðarmanni kaupstaðarins, þáverandi bæjarverkfræðingi, með allri framþróun, sem varð í þessu máli, sérstaklega þó hjá þeirri deild ráðuneytisins í Washington, sem þessi mál heyra undir þar. Bæjarstjórn fékk árlega og stundum oft á ári allýtarlega skýrslu um þessi mál og þróun, sem á þeim varð, og vonuðum við lengi vel, að að því mundi koma, að stökkbreyting yrði í þessum málum, þannig að með til þess að gera litlum kostnaði yrði hægt að vinna neyzluvatn úr sjó. Það hefur aftur því miður sýnt sig, að þó að þetta sé gert víða um heim í mjög stórum stíl, miklu stærri stil en um er að ræða fyrir Vestmanneyinga, þá er þessi framleiðsla svo dýr, að hún verður mun dýrari, bæði í rekstri og upp undir það eins dýr í stofni og um leiðslur frá meginlandinu sé að ræða, þannig að eftir — ég vil segja 5–6 ára athugun var horfið frá þessari hugmynd og hún reyndist okkur því miður ekki raunhæf.

Þegar kom að því að undirbúa tæknilega þá hlið málsins að leggja leiðslur frá landi út til Eyja, þá kom það í ljós, að hliðstæða fyrir slíkri lögn var hvergi til, ekki einu sinni á Íslandi, hún var hvergi til í Evrópu. Norðmenn höfðu að vísu á undanförnum árum gert nokkuð að því að leggja vatnsleiðslur í sjó, en það var eingöngu um leiðslur innanskerja við Noregsstrendur að ræða. Leiðslur, sem þarf að koma yfir til að koma vatni út til Vestmannaeyja, eru fyrir opnu hafi, þar sem fyrir liggur, að ölduhæð getur orðið allt að 15 ml Þessi aðstaða er hvergi þekkt í Evrópu, þannig að engin hliðstæða er til og engin reynsla til að byggja á hjá öðrum þjóðum um þetta atriði. Vestmanneyingar voru komnir mjög vel á veg með að semja við norskt fyrirtæki um að leggja óvarða plastleiðslu yfir sundið. Þeir voru að vísu alltaf nokkuð uggandi um, að þetta mundi, þó að tækist að leggja það, ekki halda til frambúðar. Þegar þetta mál var komið mjög langt, komið í umræður um samninga við það norska fyrirtæki um greiðslu fyrir verkið, barst bæjarstjórninni tilboð og sýnishorn af leiðslu frá bandarísku fyrirtæki, sem um nokkurt skeið hafði framleitt leiðslur, sem sérfræðingar töldu að ættu og mundu duga þá leið, sem fyrirhugað var að leggja leiðsluna út til Eyja. Það er raunverulega ekki um vatnsleiðslu að ræða, heldur miklu frekar um holan neðansjávarkapal, sem þó þolir mikinn þrýsting innan frá og er mun sterkari en venjulegur neðansjávarkapall. En því miður reyndist verð á þessari vöru frá Bandaríkjunum svo hátt, að óhugsandi var að byggja vatnsveituna á því, Vestmanneyingar yrðu að taka á sig svo mikil útgjöld, bæði í sambandi við uppbygginguna og án efa í sambandi við niðurgreiðslu á lánum í sambandi við það, að þetta var talið varla framkvæmanlegt. Við komumst þá, vil ég segja, kannske af tilviljun í samband við umboðsmann eða sölumann frá danska fyrirtækinu N.K.T. (Nordisk Kabel Tovfabrik), sem Vestmanneyingum var að góðu kunnugt, eftir að það hafði lagt rafstrengina á milli lands og Eyja. Þá komumst við í samband við fulltrúa þess fyrirtækis og lögðum okkar áætlun fyrir hann og óskuðum eftir að fá að vita, hvort þetta fyrirtæki, sem er eitt af heimsþekktum fyrirtækjum í framleiðslu á köplum, bæði neðansjávarköplum og jarðköplum, hvort þetta fyrirtæki mundi geta leyst þetta mál okkar, bæði tæknilega og einnig á þann hátt, að það væri fjárhagslega viðráðanlegt. Eftir mjög ýtarlegar viðræður við verkfræðinga og forsvarsmenn þessa fyrirtækis, sem bæði bæjaryfirvöld og tæknilegur ráðunautur bæjarins áttu við þá aðila, voru þeir tilbúnir að gera á sinn kostnað tilraunir við framleiðslu á slíkri leiðslu. Það hefur tekið þá nokkra mánuði, ég vil segja 6–8 mánuði, að komast að niðurstöðu um það, að þeir gætu framleitt slíka leiðslu tæknilega séð, sem hefði það þol, bæði þrýstingsþol innan frá og eins þann styrkleika til að verjast áföllum utan frá, sem áskilið var frá hendi Vestmanneyinga. Verðið virtist einnig, sem betur fer, vera allt annað og mun lægra en frá hinu bandaríska fyrirtæki, og hygg ég, að það stafi fyrst og fremst af því, að bandaríska fyrirtækið taldi það mikið verk að koma leiðslunni í heilu lagi hingað upp til Íslands og ganga frá lagningu á henni. Það vill aftur svo til, að hið danska fyrirtæki á mjög hentugt skip til þessara hluta, þannig að það getur skilað leiðslunni í þrennu lagi, hverjum parti 41/2 km að lengd, og komið með hana í einu lagi á skipi hingað til landsins, og eru samningar um það, og ég vil segja, að þeir samningar eru komnir alveg á lokastig. Virðist, sem betur fer, ekkert geta komið í veg fyrir það lengur, og þá munu þeir geta skilað leiðslunni í júnímánuði næsta sumar.

Ég ætla ekkert að fara að orðlengja um þörf Vestmanneyinga fyrir þessa framkvæmd. Þetta mál hefur að sjálfsögðu verið mikið rætt innanbæjar í kaupstaðnum, nokkuð komið til umræðu hér á Alþingi, bæði hjá hv. 4, þm. Sunnl. áðan og reyndar áður. En ég hygg, að öllum sé ljóst, að í dag er ekki hægt að reka kaupstað af þessari stærð, 5 þús. manna kaupstað, án þess að það sé fyrir hendi nægjanlegt neyzluvatn og það vatn, sem til iðnaðar þarf. Þetta hefur að vísu verið fram að þessu gert í Vestmannaeyjum. Þó að við höfum orðið kannske eitthvað að líða fyrir það, þá hefur þó rekstur bæjarfélagsins gengið með eðlilegum hætti, íbúum hefur fjölgað þar ekki síður en annars staðar og meira en sums staðar annars staðar utan þéttbýlisins hérna við Faxaflóa. En þetta er auðvitað það, sem koma verður fyrir yngri kynslóð, og ég vil segja, að við getum verið mjög ánægð með það, sem þarna búum, að við sjáum nú loksins fram á það, að þetta mál verður leyst að nokkru leyti þegar á næsta sumri og endanleg lausn verður komin eftir til þess að gera stutt árabil.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði hér áðan, að miðað við niðurstöður og áætlanir Efnahagsstofnunarinnar tel ég, að fyrirgreiðsla fjárveitingavaldsins í sambandi við þetta verk sé með eðlilegum hætti, þar sem það liggur alveg ljóst fyrir, að þessi framkvæmd getur gengið með þeim hraða og þann hluta hennar, sem ákveðið var að vinna á næsta ári, er hægt að framkvæma, miðað við þær áætlanir, sem gerðar hafa verið, og miðað við það, sem Vestmanneyingar hafa á undanförnum árum stefnt að.