18.04.1967
Neðri deild: 73. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

179. mál, lántaka vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1967

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Við 2. umr. um þetta mál hér fyrr í dag var felld, að viðhöfðu nafnakalli, brtt. frá mér og tveim öðrum þm. við 3. gr. frv. um að fella niður ráðgerða undanþágu frá framtalsskyldu skuldabréfanna og spariskírteinanna, sem um ræðir í frv. Satt að segja furðar mig mjög á þessari afstöðu þessarar hv. d., því ég get með engu móti séð, hvaða rök hníga að henni. Ekki getur það verið vegna þess, að menn óttist, að skuldabréfin verði síður seljanleg. Ég lýsti fyrr í dag þeim kjörum, sem þau eru boðin út á, og því, hvað vísitöluákvæðin hafa þegar hækkað þau mjög í verði og gert þau aðgengileg í samanburði við sparifjársöfnun í bönkum, ekki sízt þar sem verðtrygging sparifjár, sem hér hefur þó verið samþykkt, virðist ekki ætla að verða framkvæmanleg, a.m.k. ekki alveg á næstunni. Nú, varla getur ráðið þessari afstöðu heldur umhyggja fyrir þeim, sem þurfa að fela fjármuni sína, ég trúi því ekki. Það er einu sinni búið að samþykkja hér möguleika manna til þess að öðlast fyrirgefningu synda, ef svo mætti segja, í sambandi við brot á skattalögunum, og ég sé enga ástæðu til þess að gera það aftur, en auk þess er búið að samþykkja og selja ríkisskuldabréf, sams konar og hér um ræðir, fyrir 250 millj. kr. Ég þykist þvert á móti fullviss um það, að hæstv. fjmrh. a.m.k., og þá væntanlega aðrir ráðherrar og stjórnarsinnar líka, séu fullir af áhuga fyrir því að hafa hendur í hári skattsvikara og herða skattaeftirlitið og koma á betra siðferði í fjármálum, enda sannast sagna engin vanþörf á því. Ég trúi því, sem þessir ágætu menn hafa sagt um það, og er ekki ástæða til annars. Þess vegna hef ég ásamt hv. 1. þm. Norðurl. v. og hv. 5. þm. Austf. viljað freista þess að fá hér nokkra lagfæringu á með því að bera fram skriflega brtt. nú við 3. umr. málsins um það, að skuldabréfin og spariskírteinin skuli skráð á nöfn eigenda. Með því móti væri skattaeftirlitið auðveldað. Úr því að komið hefur í ljós, að hv. meiri hl. vill ekki lögleiða framtalsskyldu, þá er hér farið þess á leit, að nafnskráning verði upp tekin til þess að auðvelda skattaeftirlitið, auk þess sem það er beggja hagur, bæði hins opinbera og þeirra, sem spariskírteinin kaupa og ekkert hafa að fela og engu að leyna.

Ég treysti því, að hæstv. forseti vilji leita afbrigða fyrir þessari till., svo hún geti komið til umræðu og afgreiðslu nú við 3. umr.