18.04.1967
Neðri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (1099)

129. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sverrir Júlíusson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér ekki hljóðs til þess að fara að ræða efnislega um frv., það er ekki heldur svo langt, að það sé erfitt að gera sér glögga grein fyrir því. En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs er sú, að við 1. umr. í Ed. um þetta mál komst hæstv. sjútvmrh. svo að orði, með leyfi hæstv.forseta:

„En upphaflega var þetta gjald til komið vegna þeirra starfa, sem LÍÚ innti af hendi í sambandi við bátagjaldeyriskerfið svonefnda, en hefur síðan staðið óbreytt, þrátt fyrir niðurlagningu þess kerfis. Þótti því eðlilegt, að samtök sjómanna fengju hér sömu hlutdeild að“.

Þjóðviljinn tók þetta upp hinn 22. febrúar og vakti athygli á þessum ummælum ráðh. Ég veit það, að þessi ummæli ráðh. eru ekki til orðin vegna þess, að hann hafi viljað fara hér með rangt mál, heldur vegna þess að embættismennirnir munu ekki hafa gefið honum réttar upplýsingar. Sannleikurinn er sá, að það var 5. júní 1947, sem ákveðið var, að innheimta skyldi útflutningsgjald, er rynni til samtaka útvegsmanna. Það var hv. fjhn., sem hafði með þetta að gera í báðum d., og í grg. þeirri, sem fylgdi því frv., var sagt, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er nýmæli í frv. þessu, að með því er ætlazt til eins og áður segir, að lítill hluti útflutningsgjaldsins renni til heildarsamtaka útvegsmanna hér á landi. Þykir það ekki ótilhlýðilegt, þar sem í fyrsta lagi er um sérstakt gjald útvegsmanna um land allt að ræða, í öðru lagi, þar sem sambandið hefur með höndum síaukin verkefni, bæði vegna útvegsins sjálfs og ríkisvaldsins í heild og í þriðja lagi ekkí sízt vegna þess, að meginþátturinn af starfsemi samtakanna beinist að því að gera útgerðinni kleift að rækja hlutverk sitt í þjóðfélaginu og þar með tryggja afkomu þjóðarinnar allrar.“

Enn fremur sagði frsm. fjhn. í Nd., núv. hæstv. dómsmrh., þessi orð, með leyfi hæstv. forseta: „Eins og frv. þetta ber með sér, er tilgangur þess að fá með þessu fé til starfsemi Landssambands ísl. útvegsmanna, því að eins og vitað er, er starfsemi þess orðin mjög mikil og gerir mikið fyrir útgerðina og þá um leið fyrir þjóðina í heild. Það er því nauðsynlegt, að þessi starfsemi hafi nokkurt fé til umráða, en sá er tilgangur þessa frv.“

Og þá sagði einnig frsm. fjhn. Ed., fyrrv. utanrrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, þessi orð:

„Eina efnisbreytingin er sú, að útflutningsgjaldinu er að mjög óverulegu leyti breytt. En breytingin er sú, að fjhn. lagði til, að Landssamband ísl. útvegsmanna fengi 1/8 af útflutningsgjaldinu. Meiri hl. fjhn. telur þetta eðlilegt og sjálfsagt, þar sem LÍÚ er í forsvari fyrir útvegsmenn. Það hefur unnið mikið þjónustustarf og því sjálfsagt, að það fái stuðning úr ríkissjóði.“

Hann segir „úr ríkissjóði“, en það er vissulega ekki rétt, vegna þess að hér er um skatt á útgerðina að ræða, sem ríkissjóður eða sýslunarmenn ríkisins innheimta og á ekkert skylt við fé ríkissjóðs, enda ekki bókfært þar. Þetta var á sínum tíma 0.125%, en er nú komið niður í 0.048%. Ég vildi vekja athygli á þessu og ekki hvað sízt vegna þess, að það var í rammagrein, sem Þjóðviljinn sló þessu upp og segir: „LÍÚ enn á stórum styrk fyrir starfsemi með bátagjaldeyrinn“. Það fer náttúrlega ekki á milli mála, við hvaða LÍÚ er átt. Það er ekki átt við Líú þann kínverska, heldur Landssamband ísl. útvegsmanna. En ég taldi ástæðu til þess að leiðrétta þetta; til þess að þessu yrði ekki ómótmælt í þskj., því að þessi ákvörðun er tekin þrem árum og 233 dögum áður en bátagjaldeyriskerfið var tekið upp, en það var tekið upp 24. janúar eða skv. ráðuneytisbréfi 24. janúar 1951, og eins og ég sagði áðan, ætla ég ekki að fara að ræða efnislega um frv. Ég veit, að samtök útvegsmanna hafa ekki verið hrifin af því, telja að hér sé farið inn á hæpna braut og hafa talið, að í samningum hafi útvegsmenn gengið inn á afgreiðslu, til ýmissa sjóða sjómannasamtakanna. En eins og ég segi, ég ætla ekki að ræða þessa hlið málsins. Ég vildi gera tilraun til þess að leiðrétta missögn hæstv. sjútvmrh., en ég veit, að hún er ekki til orðin vegna þess að hann hafi viljað halla réttu máli, heldur vegna rangra upplýsinga frá embættismönnum ríkisins.