18.04.1967
Neðri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1102)

129. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér aðallega hljóðs til þess að skýra hér frá erindi, sem barst til sjútvn. beggja d., til þm. Vestfjarða og til sjútvmrh. í sambandi við þetta mál. Þetta erindi er frá Alþýðusambandi Vestfjarða og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Í sambandi við fyrirhugaða breytingu á lögum um útflutningsgjald af sjávarafurðum, þ. e. að sjómannasamtökin fái sams konar hlutdeild af útflutningsgjaldinu og LÍÚ nú nýtur, teljum vér ástæðu til að vekja athygli yðar á þeirri mikilvægu staðreynd, að Alþýðusamband Vestfjarða hefur allt síðan árið 1952 samið við vestfirzka útvegsmenn um kaup og kjör háseta, matsveina og vélstjóra á Vestfjörðum. Samningar þessir taka til sjómanna á bátum, sem stunda veiðar með línu, þorskanetum, botnvörpudragnót og humarvörpu, og einnig til þeirra, sem stunda síldveiðar. Með tilvísun til þeirrar staðreyndar, að Alþýðusamband Vestfjarða hefur allan umræddan árafjölda algjörlega haft með höndum og borið uppi kostnað og fyrirhöfn af umræddum hagsmuna- og samningamálum vestfirzkra sjómanna; væntum vér þess, að fullt tillit verði tekið til þess við endurskoðun téðra laga og þessum heildarsamtökum vestfirzkra sjómanna verði tryggð hlutfallslega sama aðild og sambærileg hagsmunasamtök sjómanna koma til með að öðlast.

Virðingarfyllst,

f.h. Alþýðusambands Vestfjarða,

Björgvin Sighvatsson.“

Mér þótti rétt að skýra frá þessu erindi í sambandi við afgreiðslu málsins hér. Það er enginn ágreiningur í n. um það, að málið verði afgreitt eins og það liggur fyrir, en eins og kemur fram í 1. gr. frv. þá er gert ráð fyrir, að þeim 0.79% af útflutningsgjaldinu, sem renna eiga til samtaka sjómanna, verði skipt skv. reglum, sem sjútvmrh. setji. Ég vil taka það fram fyrir mitt leyti, að ég greiði frv. atkv. í fullu trausti þess, að sjútvmrh. og aðalsamtök vinnustéttanna, sem fá þennan hundraðshluta af gjaldinu, taki fullt tillit. til framkominna óska Alþýðusambands Vestfjarða, þegar þessu gjaldi verður skipt. Mér er einnig kunnugt um, að það mun í höfuðdráttum liggja fyrir, hvernig gjaldinu eigi að skipta milli Alþýðusambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Sjómannasambands Íslands.

Herra forseti. Þetta var aðalerindi mitt í ræðustólinn, en í tilefni af þeirri skriflegu brtt., sem hv. 5. þm. Austf. lýsti hér áðan, vil ég aðeins upplýsa það, að það mál, sem sú till. fjallar um, var alls ekki rætt í sjútvn. d., þegar hún afgreiddi þetta mál, og hafa nefndarmenn ekki haft tækifæri til að kynna sér þá till. Ég verð nú að segja, að mér finnst það vera nokkuð mikið í ráðizt, að ætla sér með einu pennastriki að breyta 8% gjaldinu í 4%, eins og hv. 5. þm. Austf. leggur til, án þess að gera þá á nokkurn hátt grein fyrir, hvernig eigi að sjá fyrir þeim hlutum, sem þetta gjald stendur undir. Það fer, eins og hv. alþm. er kunnugt, til greiðslu á vátryggingariðgjöldum fiskiskipa, það rennur til Fiskveiðasjóðs Íslands, til Fiskimálasjóðs, til rannsóknastofnana sjávarútvegsins, til byggingar haf- og fiskirannsóknaskipa og svo loks til Landssambands íslenzkra útvegsmanna, og nú til samtaka sjómanna, ef þetta frv. verður samþ. Mér er að vísu ljóst, að verðfall á síldarlýsi og síldarmjöli hlýtur að skapa mikla örðugleika, og það má vel vera, að það þurfi að taka mál þetta í heild til endurskoðunar, þegar að því kemur að ákveða síldarverð fyrir sumarvertíðina, en að samþykkja þessa till. hv. 5. þm. Austf., út af fyrir sig, sé ég ekki að þjóni neinum tilgangi, því að ég álít, að málið í heild, þ.e.a.s. það vandamál, sem stafar af verðlækkuninni, mundi eftir sem áður vera óleyst. Ég legg því til, fyrir mitt leyti, að þessi till. verði felld.