13.04.1967
Efri deild: 63. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Í skattalögunum er svo ákveðið, að draga skuli frá tekjum sjómanna á fiskiskipum fjárhæð, sem nemi 500 kr. á mánuði, miðað við þann tíma, sem þeir eru skráðir á skip, og svari sú upphæð til hlífðarfatakostnaðar þeirra. Í l. um tekjustofna sveitarfélaga er heimild til þess að taka til greina þá frádrætti, sem veittir eru skv. skattal., og er því ekki sérákvæði um þetta efni þar. Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er lagt til að veita sams konar fríðindi öðrum sjómönnum, og þykir það við nánari athugun málsins sanngjarnt og eðlilegt, miðað við kjör þeirra og alla starfsaðstöðu, að þessi réttur nái til allra sjómanna á íslenzkum skipum. Með frv. er gert ráð fyrir, að um sams konar útreikning verði að ræða eða útreikningsreglur varðandi aðra sjómenn, eins og sjómenn á fiskiskipum og sams konar réttur muni þá að sjálfsögðu vera veittur með hliðsjón af ákvæðum tekjustofnal. sveitarfélaga um þetta efni. Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að ræða málið nánar. Það er mjög einfalt í sniðum og auðskilið, en legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.