08.04.1967
Neðri deild: 61. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

105. mál, orkulög

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Í umr. þeim, sem hér fóru fram í gærdag um þetta mál, gerði hæstv. ráðh. nokkrar aths. við það, sem ég hafði hér sagt. Aths. hæstv. ráðh. voru nú að minni vitund býsna einkennilegar, og gat ég nú eiginlega ekkí áttað mig á því, hvernig stóð á því, að hann brást þannig við mínum málflutningi, sem hann gerði. Hann vildi láta líta svo út, að ég hefði ekki lesið það frv., sem hér væri um að ræða, og vitnaði þar ekki í minna en einar þrjár greinar, taldi, að það benti allt til þess, að ég hefði ekki lesið þessar greinar og lagði til, að ég læsi þær betur. Og svo langt gekk hæstv. ráðh. í þessum efnum, að þó að ég hefði í minni ræðu lesið upp viðkomandi greinar hér yfir honum sem öðrum, fór hann enn fram á það, að ég læsi þessar greinar. Hitt verð ég aftur að segja, að málflutningur hæstv. ráðh. varðandi þau atriði, sem hann var nú þar að tala um, um lestur á þessum greinum, var þannig, að það var engu líkara en hann hefði ekki gert sér grein fyrir efni þeirra greina, sem hér var um að ræða í frv., og svo aftur þeirra greina, sem einnig var verið að ræða um úr gildandi raforkulögum. En ég hafði einmitt sýnt fram á það með upplestri úr hvoru tveggja hér, að á þessu var mikill munur, mikill efnismunur. Þær greinar í frv., sem hæstv. ráðh. vitnaði í og lagði til, að ég læsi aftur, voru m. a. 58. og 59. gr. frv., sem fjalla um verkefni rafmagnsveitna ríkisins. En ég hafði einmitt lesið upp úr þessum gr., og þar kemur mjög skýrt fram, að samkv. frv. er það ákveðið sem verkefni rafmagnsveitna ríkisins að annast rekstur rafmagnsveitnanna, standa fyrir framleiðslu á raforku og dreifingu hennar. Það er sem sagt almennt tekið fram í gr., að þetta séu verkefni þessarar ríkisstofnunar, en í gildandi l. er þetta ekki orðað svona, heldur á hinn veginn, að það er skylda, sem er lögð á herðar rafmagnsveitum ríkisins, að afla almenningi í landinu nægrar raforku og sjá atvinnuvegum landsmanna fyrir nægri raforku. Þessi skylda er nú tekin af rafmagnsveitum ríkisins. Þetta er alveg augljóst mál. Og hafi hæstv. ráðh. ekki áttað sig á þessu fyrr en nú, ber honum auðvitað að endurskoða till. sínar. Sé það meining hans að halda við fullkominni skyldu á rafmagnsveitum ríkisins til þess að annast þau verkefni, á vitanlega að breyta orðalagi 58. og 59. gr. frv. En hið rétta er auðvitað það, sem ég sagði, að það er augljóslega unnið að því að breyta um stefnu í þessum efnum frá því, sem áður var. Áður var við það efni miðað, að ríkið tæki þessi verkefni yfir á sig, skylduna í þessum efnum, en nú er hins vegar verið að leggja til að draga úr þessum skyldum ríkisins og gert hreinlega ráð fyrir því, að hér geti aðrir aðilar komið til. Sama var það, sem hæstv. ráðh. sagði hér viðvíkjandi verkefni tækninefndar, sem um getur í 4. gr. frv. Auðvitað var það fullkomlega rétt, sem ég sagði þar um tækninefnd. Allt, sem um hana segir í þessu frv., er að finna í 4. gr. Þar er aðeins sagt, að þetta skuli vera ráðgefandi nefnd um orkumál og síðan skuli um verkefni hennar sett sérstök reglugerð og þar ákveðið, að hverju hún skuli vinna. En hæstv. ráðh. vildi halda því fram, að öll þau verkefni, sem talin eru upp í 2. gr. og talin eru sérstakt hlutverk Orkustofnunar, séu þau verkefni, sem tækninefnd á að fjalla um. En það segir hvergi í þessu frv., það er mesti misskilningur. Það er hvergi minnzt á það. Ef það hefði verið svo, hefði vitanlega orðalagið átt að vera allt annað en er á 4. gr. frv. En annaðhvort er það, að hér er um það að ræða, að frv. sé sérstaklega illa samið eða þá að hæstv. ráðh. hefur hreinlega ekki gert sér grein fyrir því, hvað stendur í hinum einstöku gr. frv.

Hæstv. ráðh. tók aths. mínum þannig, að hann sagði, að með l. um Landsvirkjun hefði einmitt sú stefna verið mótuð, sem ég hefði hér í mínum málflutningi að verulegu leyti verið að tala fyrir, þ.e.a.s. að stefnt skyldi að því að koma upp stórum orkuverum, sem gengið væri beinlínis út frá, að næðu fyrr eða síðar til landsins alls. Þetta er vitanlega alveg reginmisskilningur hjá hæstv. ráðh. Í þessum efnum er ekki um það að ræða, að Landsvirkjunarlögin marki neina nýja stefnu. Alveg ótvírætt er það hins vegar stefnumarkandi í raforkul. frá 1946, að þá átti að því að stefna, að ríkið tæki þessi mál í sínar hendur og miðaði að því að leysa raforkumál landsmanna sem mest á hinn hagkvæmasta hátt með samvirkjun. En l. um Landsvirkjun viku nokkuð frá þessari almennu stefnu að því leyti til, að þar var ekki um að ræða algera forustu ríkisins, heldur var ákveðið, að að því mannvirki, sem þar var fjallað um, skyldu tveir aðilar standa, þ.e.a.s. Reykjavíkurborg annars vegar og ríkið hins vegar. Þetta var í eðli sínu frávik frá meginstefnu raforkul. frá 1946. En þó að með l. um Landsvirkjun væri ákveðið að ráðast í stórvirkjun í Þjórsá, var ekki verið að taka upp neina nýja stefnu. Hefði verið ráðizt í Búrfellsvirkjun samkv. þeim áætlunum, sem lágu fyrir, þegar l. um Landsvirkjun voru ákveðin í fullu samræmi við raforkul., hefði vitanlega ríkið átt að hafa algera forustu um þessa framkvæmd og verða eigandi að þessu nýja mannvirki og sjá um rekstur þess. Sú eina nýja stefna, sem þarna kom því fram, var þetta frávik frá því, að ríkið hefði þessa forustu og svo það að taka upp þennan hátt að deila þessu hlutverki á milli Reykjavíkurborgar og ríkisins, sem auðvitað var óeðlilegt. Það var ekkert eðlilegt, að Reykjavíkurborg skyldi vera helmingsaðili að framleiðslu á raforku og dreifingu á henni hér um allt Suðvesturland. Vissulega var Reykjavíkurborg hér stór aðili að, en það var með öllu óeðlilegt, að Reykjavíkurborg færi að taka að sér sérstaklega það verkefni að standa í forsvari í sambandi við lausn á raforkumálum alls Suðvesturlandsins. Það, sem eðlilegt var í þeim efnum, var auðvitað, að ríkið annaðist þetta. En hæstv. ríkisstj. var nú á þeirri skoðun, að það færi betur á því, að yfirstjórn Landsvirkjunarinnar væri í höndum Reykjavíkurborgar og ríkisins heldur en aðeins í höndum ríkisins, og eins og ég sagði hér í minni ræðu í gær, er enginn vafi á því, að pólitískar ástæður lágu til þess, að þetta fyrirkomulag var tekið upp. En það er í rauninni leiðinlegt í sambandi við jafnmikilvægt mál og hér er um að ræða, stefnuna í raforkumálum, að raforkumálaráðh. skuli ekki fást til þess að ræða þetta mál efnislega og á eðlilegan hátt. Ég ræddi hér um það í minni ræðu í gær og sýndi fram á það alveg ljóslega, að með þessu frv. er verið að víkja í ýmsum grundvallaratriðum frá þeirri stefnu í raforkumálum landsins, sem upp var tekin með setningu raforkulaganna árið 1946. Með þeim l. var hreinlega gengið út frá því, að ríkið eitt ætti að annast byggingu meiri háttar raforkuvera í landinu og dreifingu raforkunnar um aðalorkuveitulínur, og það ætti að stefna að því, að ríkið annaðist lausn á þessum þýðingarmiklu málum. En það fer auðvitað ekkert á milli mála, að skv. þessu frv., sem hér liggur fyrir, er verið að gera ráð fyrir því, að raforkumálaráðh., hver sem hann er á hinum einstöku tímum, geti veitt hér öðrum aðilum leyfi til þess að koma upp raforkuverum og reka þau. Þetta er vitanlega gífurlega mikið frávik frá þeirri stefnu, sem hér hafði verið mörkuð. Hæstv. raforkumálaráðh. hefur ekki reynt á nokkurn hátt að færa hér fram rök fyrir því, hvað það er, sem kallar á þessa breytingu, hvað það er, sem rökstyður það að taka upp þessi vinnubrögð aftur. Hann hefur ekki viljað ræða það á neinn hátt. Í hvaða tilfellum er það, sem hann vill gera ráð fyrir því, að það sé rétt, að ráðh. hafi heimild til þess, án þess að leita til Alþ., að heimila einstökum aðilum í landinu að koma upp raforkuverum, sem geta framleitt allt upp í 2000 kw.? Í hvaða tilfellum er það, sem slíkt ætti að teljast hagkvæmt og rétt að fara inn á þá stefnu? Ef hann getur ekki nefnt nein tilfelli, sem hann hefur í huga, — til hvers þá að vera að breyta gildandi l. um þetta og gera ráð fyrir þessu?

Þá vildi hæstv. raforkumálaráðh. láta líta svo út í því, sem hann sagði hér, að það væri misskilningur, að þetta frv. fæli í rauninni í sér neina meginstefnubreytingu í raforkumálum landsins, og það væri líka misskilningur, að hér væri um nokkurt vantraust á raforkumálaskrifstofuna að ræða eða á núv. raforkumálastjóra. Og hann lét orð liggja að því, að raforkumálastjóri hefði verið með í samningu þessa frv. og hann væri í rauninni ekki svo mikið á móti því. Á þeim fundi eða fundum, sem raforkumálastjóri mætti í fjhn., kom það m. a. fram hjá honum, að hann taldi sig fyrst og fremst höfund raforkulaganna frá 1946. Hann sagðist hafa átt meginþátt í því að leggja til það efni, sem í þann lagabálk hefði verið sett, og hann sagði einmitt, að sín meginstefna í raforkumálum landsins kæmi fram í þeirri löggjöf. Og hann lýsti því svo enn fremur yfir, að hann væri andvígur ýmsum ákvæðum í þessu frv., og einnig lýsti hann því yfir, að hann hefði ekki staðið að því að semja þetta frv., enda kemur það skýrt fram í grg. frv., að það voru til kvaddir aðrir menn en hann í þá n., sem átti að semja frv. Hann hafði hins vegar af skiljanlegum ástæðum rætt talsvert við þá n., sem vann að því að semja frv., og látið ýmis sjónarmið sín koma fram. Að sumu leyti hafði n. tekið upp hans ábendingar og í öðrum tilfellum ekki. Og í sumum þeim atriðum, sem raforkumálastjóri sagðist hafa lagt mesta áherzlu á og þar sem nefndin varð við óskum hans, brást aftur hæstv. ráðh. svo við, að áður en hann lagði frv. fyrir Alþ. tók hann þessi meginatriði, sem raforkumálastjóri hafði lagt til við nefndina, að tekin yrðu inn í frumvarpið, út úr frumvarpinu aftur. Þetta kom allt saman mjög skýrt fram í þeirri n., sem fjallaði um málið, m. a. þær þrjár greinar, sem raforkumálastjóri lagði til, að teknar yrðu upp eða þrír nýir liðir í 71. gr. frv., en þessir liðir fjalla einmitt um það, sem ég gerði hér nokkuð að umtalsefni í gær, þeir fjalla um möguleika orkumálastjóra eða núv. raforkumálastjóra til þess að geta haldið uppi með eðlilegum hætti rannsóknarstörfum að orkumálum og vinnu í sambandi við undirbúning að framkvæmdum í þessum efnum. En raforkumálastjóri benti einmitt sérstaklega á það, að það væri mjög mikilvægt fyrir stofnunina að geta ráðið yfir fjármagni raforkumálasjóðs eða orkumálasjóðs til þess að standa undir slíkum rannsóknarkostnaði og undirbúningskostnaði, en hann væri ekki að öllu leyti bundinn við þær fjárveitingar, sem ákveðnar hefðu verið í þessu skyni fyrir hvert einstakt ár, vegna þess að það vill auðvitað oft koma fyrir, þegar unnið er að undirbúningi eða stórframkvæmdum, að það koma beinlínis upp á óvæntan hátt verkefni, sem þarf að halda áfram athugun á og kostnað leiðir af, en eftir því sem gert er ráð fyrir í þessu frv., væri ekki möguleiki fyrir orkumálastjóra að ráða sér starfsmenn til þess að halda slíkum verkefnum áfram, og hann yrði að bíða eftir því, að næst yrðu samin fjárlög og fjárveitingavaldið hefði samþ. nýja fjárveitingu í þessu skyni. Sem sagt, meiri hl. þeirra manna, sem sömdu þetta frv., hafði fallizt á þetta sjónarmið raforkumálastjóra og tekið inn þessar till. hans í þau drög að frv., sem n. lagði fyrir ráðh., en ráðh. hafði aftur fellt þessi ákvæði út. Og þó að einstakir nm. í fjhn. hafi nú óskað eftir því, að þessi ákvæði yrðu tekin inn í frv. aftur, hefur hæstv. ráðh. ekki viljað á það fallast. Það er því vitanlega algerlega villandi, þegar hæstv. raforkumálaráðh. talar þannig um þetta mál hér í d., að hann vill láta líta svo út, að raforkumálastjóri sé í rauninni höfundur að þessu frv., hann standi með þessum breytingum, sem hér er um að ræða. Það er auðvitað algerlega villandi frá skýrt. Ég hef svo sagt það hér í þessum umr., að ég tel auðvitað engan vafa vera á því, að flutningur þessa frv. í þeim búningi, sem það er, er auðvitað hin mesta vantraustsyfirlýsing á raforkumálaskrifstofuna og stjórnendur hennar og alveg sérstakt vantraust á raforkumálastjóra. Það er ómögulegt að túlka þetta á annan veg.

Það vakti svo athygli mína líka í málflutningi hæstv. ráðh., hvernig hann reynir að því litla leyti, sem hann hefur nú uppi tilburði í þá átt, hvernig hann reynir að réttlæta ýmis ákvæði í þessu frv., sem stefna til breytinga frá því, sem verið hefur. T. d. það ákvæði, þar sem gert er ráð fyrir því, að ráðh. geti heimilað einstökum aðilum að ráðast í virkjunarframkvæmdir allt að 2000 kw. án þess að leitað sé til Alþ., þá rökstyður ráðh. þetta á þann veg, að þetta geri nú ekki mikið til, þó að ráðh, fái þessa heimild, því að líklega verði nú í flestum tilfellum þeir aðilar, sem fái slíka heimild ráðh., hvort sem er að koma til Alþ. og leita þar eftir t.d. ríkisábyrgðum fyrir lánum og öðru slíku, svo að þeir geti ráðizt í framkvæmdirnar. Til hvers þá að vera að breyta þessu? Til hvers þá að vera að breyta l. frá 1946, sem gerðu ráð fyrir því, að Alþ. hefði valdið í sínum höndum og ákvæði það eitt, hvort aðrir ættu að standa að virkjunarframkvæmdum en ríkið sjálft? En ráðh. vill sem sagt fá í hendurnar heimild til þess að geta hleypt hér öðrum að í sambandi við virkjunarframkvæmdir, en reynir þó að afsaka málið á þann veg, að í rauninni breyti þetta engu. Þetta er áfram í höndum Alþ. Auðvitað ætti ráðh. að tefla fram einhverjum rökum fyrir því, vegna hvers hann er að breyta ákvæðunum frá gildandi ráforkul. Af hverju er hann að skapa þessa heimild? Til hvers? Hvað er hann að leysa?

Þá hafði ég bent einnig á það hér eins og fleiri, að með þessu frv. væri enn verið að skerða áhrifavald Alþ. í því að hafa áhrif á það, hvernig staðið er að framkvæmdum í raforkumálum landsins með því, að það orkumálaráð, sem nefnt er í þessu frv., þó að það eigi að kjósast af Alþ. er það alveg ótvírætt, að valdsvið þessa orkuráðs er miklu takmarkaðra heldur en valdsvið raforkuráðs, sem verið hefur. En hæstv. ráðh. vill ekki viðurkenna þetta. Hann neitar þar auðvitað alveg tvímælalaust staðreyndum og segir svona, að bezt sé fyrir menn að lesa lagagreinarnar betur. En þó að það sé lesið yfir hæstv. ráðh., hvað um þetta segir, virðist það ekkert duga. Í 53. gr. raforkul. frá 1946 eru talin upp í 14 töluliðum verkefni, sem raforkumálaráð á að láta sig skipta, atriði, sem ýmist eiga að leggjast fyrir raforkuráð til umsagnar og athugunar eða sem raforkumálaráð, þ. e. hið þingkjörna ráð, hefur fullt valdsvið til þess að fá allar upplýsingar um og fylgjast með. Það kann vel að vera, að í framkvæmdinni hafi verið stigið yfir ýmislegt af þessu og það hafi ekki allt komið til framkvæmda. En hvað um það, l. gerðu ráð fyrir því, og sú þingkjörna nefnd, sem þarna átti hlut að máli, hafði aðstöðu til þess að fylgjast með þessu, hún hafði lagalega stöðu til þess að láta þessi mál sig skipta. En það er alveg augljóst, að skv. frv. hefur orkumálaráð nálega engin verkefni, eða eins og hæstv. ráðh: sagði hér í sínu máli, það er í rauninni aðeins ætlazt til þess, að orkumálaráð fái að úthluta eða gera till. til ráðh. öllu heldur um úthlutun á því fjármagni, sem á að ganga á hverju ári til lagningar á raforkulínum um sveitir landsins. En gert er svo hins vegar ráð fyrir því, að það verði Alþ., sem ákveður það fyrir hvert einstakt ár, hve mikið fé á að renna til slíkra framkvæmda. Verkefni þessarar þingkjörnu n., þessa orkuráðs, verða því að teljast sáralítil og miklu minni en gert var ráð fyrir í raforkul., að verkefni raforkumálaráðs væru. Það er eins og hér hefur verið sagt af öðrum, að ef hæstv. ráðh. væri raunverulega á því, að rétt væri, að hið nýja orkuráð fengi sama verkefni og raforkuráð hefur haft, ætti hann vitanlega að styðja till., sem liggur hér fyrir um breytingu í þá átt. Það, sem hér skiptir mestu máli í sambandi við þetta mál, er það að gera sér grein fyrir því, að hverju er verið að stefna í raforkumálum landsins. Er það æskileg stefna, að aðilarnir, sem standa fyrir virkjunarframkvæmdum í landinu og dreifingu raforku, verði margir og þar af leiðandi fremur smáir, eða er hitt æskilegra, að að því verði stefnt, að það verði einn aðili fyrst og fremst, sem á að leysa þau þýðingarmiklu verkefni að afla þjóðinni nægilegrar raforku á sem hagkvæmastan hátt? Ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um það, að það er langtum heppilegra, að að því verði stefnt, að það verði einn aðili, sem hefur á hendi þetta mikla verkefni, og þá getur ekki verið um neinn annan eðlilegan aðila að ræða en ríkið, og það er því íslenzka ríkið, sem á að standa fyrir því að reisa orkuverin og sjá um aðaldreifilínurnar og vinna að því að tengja saman öll orkuveitusvæði landsins og skapa þannig grundvöll að því, að hægt sé að virkja á hagkvæmastan hátt hverju sinni. Að þessu á að stefna, en þá vitanlega með því að sjá um, að ríkið hafi á hendi forustu í þessum efnum og taki þá auðvitað á sig skyldurnar í sambandi við lausn á þessum málum. En hitt er röng stefna að hverfa frá því, sem ráðgert var með raforkul. frá 1946, og ætla sér að fara að koma upp mörgum aðilum eða efna til þess, að upp rísi margir aðilar, sem eiga að leysa raforkuþarfir landsmanna. En þetta frv., sem hér liggur fyrir, miðar alveg tvímælalaust að því að draga úr forustuhlutverki ríkisins og dreifa þessu framkvæmdavaldi. Frv. miðar að því að leysa upp að verulegu leyti raforkumálaskrifstofu ríkisins, sem var orðin sú miðstöð, sem hafði á hendi fyrir hönd ríkisins framkvæmdir í þessum efnum. Hana á að leysa upp í margar smærri einingar og í rauninni að skilja svo við raforkumálaskrifstofuna, að hún verði aðeins einhver rannsóknardeild með mjög takmörkuð fjárráð. Það atriði, sem snýr að sérstökum forstjóra fyrir rafmagnsveitum ríkisins, er, eins og ég hef bent hér á áður, algert aukaatriði þessa máls. Í gildandi raforkulögum var beinlínis gert ráð fyrir því, að ráða mætti sérstakan framkvæmdastjóra, rekstrarframkvæmdastjóra fyrir rafmagnsveitur ríkisins, og þannig var því háttað um margra ára skeið. Núverandi forstjóri hinnar miklu Landsvirkjunar var einmitt framkvæmdastjóri rafmagnsveitna ríkisins, en svo, þegar hann fór úr því starfi og núverandi ráðh. vildi ráða nýjan mann í starfið, fannst ráðh, nauðsynlegt að kljúfa þennan hluta frá raforkumálaskrifstofu ríkisins, kljúfa þennan þáttinn frá og gera þennan nýja forstjóra fyrir rafmagnsveitum ríkisins að sjálfstæðum forstjóra, sem heyrði beint undir raforkumálaráðh., en mátti ekki heyra áfram undir raforkumálastjóra, eins og áður var. Það var vitanlega engin nauðsyn, sem kallaði til þessarar lagabreytingar, sem hér er gert ráð fyrir. Þó að ráðh. hefði nú viljað endilega gera þennan forstjóratitil svolítið hærri og meiri en þann, sem fyrir var, er engin nauðsyn að ætla að rífa upp raforkulög landsins á þann hátt, sem gert er með þessu frv., og taka hér upp stefnubreytingu varðandi raforkumál landsins í meiri háttar atriðum.

Ég hlýt svo að vekja athygli á því enn einu sinni, að það er í rauninni alveg furðulegt, þegar jafnmikilvægt mál liggur hér fyrir þinginu eins og þetta, að hæstv. raforkumálaráðh. skuli ekki gera neina tilraun til þess að rökstyðja þær breytingar frá gildandi l., sem felast í frv. og hvað það sé, sem raunverulega kallar á þessar breytingar. Ég held, að hér sé verið að stíga skref aftur á bak í áttina til þess fyrirkomulags, sem var á lausn raforkumálanna í landinu fyrir árið 1946, en þá var ástandið einmitt þannig, eins og ég hef vikið að áður, að á hverju þingi komu fram beiðnir frá mörgum bæjar- og sveitarfélögum eða mörgum aðilum héðan og þaðan af landinu um aðstoð frá ríkinu, til þess að þessir aðilar gætu leyst sín raforkumál hver fyrir sig. Þetta gamla skipulag leiddi til þess, að raforkuverin í landinu urðu mörg og smá og ríkið þurfti nú hlaupa undir bagga og veita þeim beinan fjárstuðning í mjög mörgum tilfellum. Og ég minni enn þá á það, að þegar raforkul. voru sett árið 1946, voru það menn úr öllum flokkum hér á Alþ., sem tóku höndum saman um það, að breyta um stefnu frá þessu gamla fyrirkomulagi og marka þá stefnu, að unnið skyldi að lausn raforkumála landsmanna með öðrum hætti, og þá var sú leið valin, að það skyldi fyrst og fremst vera verkefni ríkisins að leysa þessi mál, og þá var því slegið föstu í löggjöfinni, að ríkið hefði einkarétt á því að reisa raforkuver og selja raforku í heildsölu, en aðeins gert ráð fyrir því um tíma, að þeir, sem fyrir voru með raforkuver, gætu fengið rétt til þess að reka þau og til þess að fullvirkja þau fallvötn, sem þeir voru byrjaðir að virkja, en þó gert ráð fyrir því, að ríkið yrði hlutdeildaraðili í þessum fyrirtækjum og síðar yrði að því stefnt, að ríkið yfirtæki orkumálin þannig sem heild. Ég efast ekkert um það, að hæstv. raforkumálaráðh. hefur gert sér grein fyrir því, að þessi mál voru svona og svona, og svona hefur þetta gengið til, en það vekur undrun mína, að hann skuli vera á því nú að ætla að hverfa að meira eða minna leyti til gamla fyrirkomulagsins og deila þessu upp í margar einingar. Með því að ákveða það, að ríkið taki þessi verkefni í sínar hendur, er vitanlega ekkert um það sagt, hvar ráðizt verður í virkjanir hverju sinni. Það á aðeins að fara eftir því, sem hagstæðast er. Vitanlega kemur til þess og yrði um það að ræða, að reist yrðu raforkuver líklega í öllum fjórðungum landsins, því að alls staðar eru til miklir möguleikar í þessum efnum, en það er eins og ég sagði hér í umr. í gær, það er vitanlega ekkert aðalatriði, þegar ráðizt verður í virkjun t.d. Lagarfoss á Austurlandi, að sú raforka verði einvörðungu handa Austfirðingum. Sú orka, sem þar er framleiðanleg, má gjarnan flytjast til annarra landshluta til hagnýtingar þar, alveg eins og raforka frá öðrum landshlutum á að flytjast austur, eftir því sem haganlegast og hagkvæmast er á hverjum tíma. Þær þjóðir, sem eru miklu stærri en við, hafa talið sér nauðsynlegt að taka einmitt upp þá stefnu í raforkumálum, sem hér var mörkuð með raforkul. frá 1946, þ. e. a. s. að gera ráð fyrir því, að það sé viðkomandi ríki fyrst og fremst, sem á að leysa raforkumálín. Því er það jafnt í auðvaldslöndum eða kapítalískum löndum sem hinum sósíalísku löndum, að um það er að ræða, að raforkumálin séu rekin fyrst og fremst af ríkisheildinni. Þessi mál eru þess eðlis, að það er miklum mun hagkvæmara fyrir þjóðarheildina að hafa þennan hátt á. En ef aðilarnir eru margir, koma upp svo margvísleg vandamál varðandi samtengingu og samrekstur mismunandi orkuvera, að það er mjög erfitt að koma því við. Því held ég, að það eigi að halda sig við þá stefnu, sem mörkuð var með raforkul. frá 1946, og það sé óheillaspor, sem markað er með þessu frv., þar sem beinlínis er að því stefnt að deila þessu upp á meðal margra aðila.

Ég minntist lítillega á það hér í umr. í gær, hvernig þetta gæti komið út, hættur í sambandi við þær heimildir, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., og benti á það, að þó að hér væri nú ekki um heimildir að ræða fyrir því, að byggð yrðu raforkuver nema upp að 2000 kw., er það alveg augljóst mál, að í okkar tiltölulega dreifðu byggð og þar sem er um jafnmarga smáa staði að ræða, mundi vel geta komið til þess í mörgum tilfellum, að einstakir staðir óskuðu eftir því að reisa orkuver, sem væru í kringum 2000 kw. að stærð, en slíkt orkuver samsvarar mjög ríflegri notkun hjá um 4000 manna bæ. Og ég er mjög hræddur um það, að ef raforkumálaráðh. fær heimild til þess að veita leyfi til slíkra framkvæmda, kunni svo að fara, bæði hjá núv. hæstv. raforkumálaráðh. og öðrum, sem kynnu að vera í hans embætti, að þeir létu undan beiðnum einstakra aðila, sem vildu taka sig út úr og reisa slík mannvirki, og heimiluðu þeim að reisa slík orkuver, en það gæti þá orðið til þess, að viðkomandi svæði, allmikið svæði, jafnvel heill landsfjórðungur ætti í erfiðleikum með að fá sín raforkumál leyst, eftir að búið væri að taka kannske kjarnann af svæðinu út úr. Og það er einmitt það, sem menn höfðu í huga með setningu raforkulaganna frá 1946, þegar ríkinu var áskilin hér einkaréttaraðstaða til framkvæmda í þessum efnum, þá var við það miðað, að reynt yrði að leysa raforkumálin á hinn hagkvæmasta hátt, en smástöðvafyrirkomulagið yrði lagt niður. En það þýðir eflaust ekki að ræða þessi mál öllu meira en gert hefur verið. Hæstv. ráðh. virðist ekki hafa mikinn áhuga á að ræða málið. Hann leggur það aðeins hér fram, og honum er mjög brátt að reyna að koma málinu í gegn, og ég býst við því, að það sé þegar búið að negla nægilega marga til þess að samþykkja þetta og það sé því í rauninni ósköp þýðingarlítið að ætla að ræða hér öllu lengur en gert hefur verið svona efnislega um málið.