08.04.1967
Neðri deild: 61. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

105. mál, orkulög

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það virðist nú vera þannig, að þó að farið sé að líða á þingtímann, sé talið, að þingið hafi rúman tíma, fyrst hægt er að eyða löngum tíma eða taka tíma, til að ræða þetta mál frá öðrum málum, sem eru óneitanlega miklu stærri og meira aðkallandi. Hér í þessari d. hafa verið lögð fram á þessu þingi fjöldamörg merk mál, sem liggja í nefndum og hafa ekki fengizt afgreidd þaðan, og væri óneitanlega miklu ríkari ástæða til þess að ræða þau en þetta mál, sem hér liggur fyrir. Ég gæti talið upp fjöldamörg mál, sem fyrir þessari d. liggja, en eru látin liggja í salti á meðan mál, sem eru miklu minna aðkallandi eins og þetta, sem hér liggur fyrir, eru látin sitja í fyrirrúmi. Ég álít, að hæstv. forseti hefði átt að ganga ríkar eftir því við ýmsar nefndir hér í þinginu en gert hefur verið, að þær litu eftir þessum málum, og það hefði verið meira aðkallandi en að halda sérstakan laugardagsfund til þess að koma þessu máli áleiðis.

Ég vil fyrst segja það um þetta frv., að ég álít, að hér sé ekki um neitt stórmál að ræða né að aðkallandi sé að breyta þeim raforkulögum, sem nú eru í gildi og sem ýmsir merkir menn telja sig hafa átt mikinn þátt í og telja, að þeir eigi heiður skilið fyrir það. Ég álít, að þau rök séu það fullkomin og fullnægjandi, að það sé þess vegna engin ástæða til þess að vera að hraða þessu frv., sem hér liggur fyrir, og þess vegna mætti vel gilda um það eins og marga slíka lagabálka, að rétt væri að láta það fá athugun á tveimur þingum. En sem sagt, það er nú lagt það ofurkapp á að koma þessu máli fram, að það er efnt til sérstaks laugardagsfundar til að ræða um það, meðan fjöldamörg miklu meira aðkallandi mál eru látin liggja í salti. Þó er það tekið fram í grg, þessa frv., sem er alveg rétt, að hér sé ekki um neinar róttækar breytingar að ræða og þar af leiðandi ekki neinar aðkallandi breytingar að ræða. Og þess vegna mætti þetta mál eins og ýmis slík mál, stórir lagabálkar vel bíða nánari athugunar á næsta þingi. Það er ágætt, að það hefði þá verið lagt fram á þessu þingi og menn gætu kynnt sér efni þess, en samt fengist betri aðstaða til þess að íhuga það fyrir næsta þing.

Mér sýnist annars fljótt á litið, að þegar sleppt er ýmsum minni breytingum, þá séu það tvö meginatriði, sem felast í þessu frv. Annað atriðið er það, að stefnt er að því að þenja út embættismannakerfið, skipta upp stofnun, sem nú starfar sem ein heild, í fleiri einingar. Óhjákvæmilega hlýtur þetta að leiða til þess, að þessi starfræksla eða þessi þjónusta verður miklu dýrari en nú er. Þetta sýnist mér, að sé annað aðalatriði frv. Og ég held, að það sé einmitt þetta atriði, sem veldur því, að hæstv. ríkisstj. leggur svona gífurlega fá þetta afgreitt fyrir kosningar og til þess að hún geti raðað í hinar nýju stöður og ný embætti fyrir kosningar. Af þeim ástæðum má þetta mál ekki dragast til næsta þings, til þess að fá ýtarlegri og betri athugun. Nei, það verður að leggja allt kapp á að afgreiða það fyrir kosningarnar vegna þess, að ekki er víst að núverandi ríkisstj. muni fara með völd eftir kosningarnar og þess vegna verður að ráðstafa hinum nýju embættum skv. þessu frv. fyrir kosningar. Ég mun koma nokkuð nánar að þessu atriði síðar, en víkja áður að því, sem mér sýnist að sé annað aðalatriði þessa frv. og það er þáttur í þeirri stefnu að draga alltaf meira og meira vald úr höndum Alþ. í hendur embættismanna. Hér á t.d. að leggja niður raforkuráð, sem hefur haft talsvert mikil völd og þingið hefur kosið, en kjósa svo eiginlega algjörlega valdalausa n. í staðinn.

Alþ. hefur haft áður í hendi sinni að fjalla um byggingu allra rafveitna, sem eru stærri en 100 hestöfl, má ég segja. En nú á stórlega að rýmka þessa heimild. Það er orðið ákaflega mikið einkenni á okkar stjórnarstefnu á undanförnum árum að skerða vald Alþ. og auka embættismannavaldið í landinu. Þetta álít ég ákaflega varhugaverða og hættulega stefnu. En að sjálfsögðu þarf að vera til embættismannavald í landinu og verður alltaf að vera, en ég held, að því fylgi margvísleg hætta að gera það mjög sterkt, og löggjafarvaldið þurfi mjög að gæta sín og hafa hæfilegt aðhald að því, sem hinar opinberu stofnanir sýsla.

Ég kem þá aftur að því, sem ég tel vera fyrra meginatriði þessa frv., það er að þenja út embættismannakerfið. Ég held, að það sé kominn tími til þess, að þm. fari að átta sig á því, hvort kostnaðurinn við embættismannahald alls konar og ýmsan slíkan rekstur sé ekki orðinn það mikill, að það eigi frekar að sporna við fótum og reyna að færa reksturinn saman, — færa opinberan rekstur saman en að þenja hann út. Ég held, að það sé mjög athyglisvert fyrir okkur í því sambandi að gera nokkurn samanburð í tilefni af því, að hér á Alþ. í dag var lagt fram yfirlit um tekjur og gjöld ríkissjóðs á s.l. ári. Af þessu yfirliti má mikið læra um það, hvernig kostnaðurinn við embættismannahaldið og ríkisreksturinn hefur stórkostlega vaxið á undanförnum árum. Það er t.d. fróðlegt að bera þetta yfirlit saman við rekstrarreikning ríkisins frá 1958. Ég ætla aðeins að nefna nokkur dæmi um, hver þenslan hefur orðið í þessum efnum.

Árið 1958 var t.d. kostnaður við æðstu stjórn ríkisins, þ. e. forsetaembættið, 1.1 millj. kr. eða kannske réttara sagt, 1,2 millj. kr. Skv. yfirlitinu, sem lagt var fram í dag, hefur þessi kostnaður orðið 3–3.3 millj. kr. á s.l. ári, þessi kostnaður hefur m. ö. o. næstum því þrefaldazt. Um kostnað við Alþ. gildir nokkuð svipað. Árið 1958 er kostnaðurinn við Alþ. 8 millj kr. Mér sýnist að á s.l. ári hafi hann orðið 32 á þessum tíma. Og þá kem ég að stjórnarráðinu. Kostnaðurinn við það varð árið 1958 14 millj. kr., en á s.l. ári hefur hann orðið 49 millj. kr. Það er ekki mjög fjarri því, að hann hafi fjórfaldazt á þessum 8 árum. Þá kem ég að utanríkisþjónustunni. Hún kostaði árið 1958 skv. rekstrarreikningi ríkissjóðs tæpar 11 millj. kr., en á s.l. ári hefur kostnaðurinn við hana skv. yfirliti, sem lagt var fram í dag, orðið 45 millj. kr. Kostnaðurinn við utanríkisþjónustuna hefur m. ö. o. næstum því fjórfaldazt á þessum átta árum.

Það má halda þessari upptalningu áfram, sem sýnir, hversu gífurleg þessi útþensla hefur orðið. Ég kem næst að dómsmálunum. Árið 1958 hefur kostnaðurinn við þau orðið 58.4 millj. kr., en á s.l. ári hefur kostnaðurinn við þau dómsmálin, orðið 220 millj. kr. skv. þessu bráðabirgðayfirliti eða rösklega fjórfaldazt. Og þó eru ekki öll kurl komin til grafar, því að þetta yfirlit virðist aðeins ná til desemberloka. Þá er komið að innheimtu tolla og skatta. Kostnaðurinn við það á árinu 1958 var tæpar 24 millj. kr., en hefur orðið á s.l. ári og þó aðeins til desemberloka 96 millj. kr. Kostnaður við innheimtu tolla og skatta virðist m. ö. o. hafa rösklega fjórfaldazt á þessu tímabili. Það er kannske ekki úr vegi að rifja þetta upp, vegna þess að hæstv. viðskmrh. er hér viðstaddur, og mig minnir að það hafi verið eitt af aðalloforðum Alþfl. fyrir hinar frægu haustkosningar 1959 að draga úr kostnaði við innheimtu skatta og tolla, sérstaklega við innheimtu skattanna. Voru þá í Alþýðublaðinu birtir miklir útreikningar um það, hve skattheimtan væri dýr, en það sést nú á þessu, að það er betra að leggja heilræðin en að halda þau. Því að í stað þess, að hér hafi orðið nokkur sparnaður við skattheimtuna, þá hefur hún fjórfaldazt á þessu 8 ára tímabili.

Ég held, að það megi alveg fullyrða það, þó að það sé ekki rétt. að gera eins náinn samanburð í sambandi við embættismannahaldið á öðrum greinum ríkisrekstrarkerfisins en þeim, sem ég hef nú nefnt, að þá hafi niðurstaðan orðið sú á þessu 8 ára tímabili frá 1958 til 1966, að kostnaðurinn við embættismannahaldið hefur í mörgum tilfellum þre-, fjór- og fimmfaldazt. Þetta stafar að sjálfsögðu nokkuð af því, að laun hafa hækkað verulega á þessu tímabili vegna dýrtíðarþróunarinnar í landinu, en þó hins vegar ekki síður vegna þess, að embættismannakerfið hefur stórkostlega þanizt út. Það hefur verið bætt við nýjum störfum og nýjum embættum og nýjum stofnunum. Sumt hefur verið eðlilegt og leitt af þeirri þróun, sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu á þessum tíma. Það hefur þurft að auka hina opinberu starfrækslu vegna fólksfjölda og aukinna viðskipta o.s.frv., en með margt gildir það tvímælalaust, að stjórnarflokkarnir hafa þurft að koma nýjum mönnum að í ýmis embætti, og: þess vegna hafa störfin verið búin til. Ég held, að menn hljóti að gera sér það ljóst, að ef þannig verður áframhald á þessu, að kostnaður við embættismannahald ríkisins eykst miklu meira en annar kostnaður í. þjóðfélaginu, þá hefur það voðann fólginn í sér. Og þess vegna ætti það að vera annað, sem væri keppt að núna síðustu daga þingsins, annað en það að búa til ný embætti og nýjar stöður og nýjar stofnanir, eins og — þetta frv. vissulega gerir ráð fyrir. Það væri miklu frekar ástæða til þess að vinna að samfærslu og sameiningu í þessum efnum og reyna að gera embættiskerfið ódýrara á þann hátt. Með þessu frv:, sem hér liggur fyrir, er alveg stefnt í öfuga átt, hvað snertir starfskerfið sjálft. Það hefur verið stefnt í þá átt að færa þetta enn þá meira út en verið hefur og gera þennan rekstur miklu dýrari en hann hefur verið hingað til. Ég held, að þm. hefðu gott af því að bera saman, eins og ég hef nú gert, embættiskostnaðinn á undanförnum árum og hver hann er í dag og gera sér ljósa grein fyrir því, hversu stórfelld aukning hefur hér orðið. Og það virðist eiginlega vera svo, að eftir því sem meira er talað um hagsýslu í störfum ríkisins eða stofnunum ríkisins og eftir því sem bætt er við fleiri hagsýslustjórnum og hagsýslumönnum, þá þenst kerfið enn þá meira út. Ég sé ekki betur en einn af þeim mönnum, sem hafi samið þetta frv., þar sem stefnt er til útfærslu á ríkisbákninu, sé hinn nýskipaði hagsýslustjóri ríkisins. Ég hygg, að það sé Jón Sigurðsson, sem hafi verið formaður þessarar n. Ef þetta er misskilningur hjá mér, þá leiðrétti ég það að sjálfsögðu og biðst þá afsökunar á því, ef ég kann að hafa hann fyrir rangri sök, en mér sýnist, að eins og skýrt er frá starfstitli hans þarna í grg., þá sé hér um sama manninn að ræða.

En um ríkisstj. er það að segja og til þess bendir sú málsmeðferð, sem þetta frv. á að hafa hér í d., að hún virðist síður en svo hafa komið auga á þá öfugþróun, sem hér á sér stað. Því ef hún hefði gert sér grein fyrir henni þá mundi hún ekki með laugardagsfundum seinustu þingvikurnar vera að reyna að knýja þetta mál fram, á meðan fjöldamörg önnur miklu meira aðkallandi mál eru látin liggja í salti.

Ég vildi nú beina því til hæstv. raforkumálaráðh., ef hann er hér einhvers staðar nálægur, hvort hann sem gamall og a.m.k. áður fyrr ráðsettur sveitamaður, vildi ekki taka til endurskoðunar þá stefnu, sem felst í þessu frv. og ég hef verið nú að víkja sérstaklega að, þá útþenslu á embættismannakerfinu, sem það fjallar um. Ég vil í þessu sambandi minna á hann á það, að nú man hann illa eftir þeim kenningum, sem í eina tíð var haldið uppi af þeim mönnum, sem höfðu forustu í Sjálfstfl. eða sem þá að vísu kallaði sig Íhaldsflokk, mönnum eins og Jóni Þorlákssyni, Jóni Magnússyni og Magnúsi Guðmundssyni. Þessir menn héldu því fram, að það ætti að reyna að halda embættisrekstrinum innan viðráðanlegra takmarka fyrir ríkið og frekar að reyna að draga úr því, ef hægt væri, en hið gagnstæða. Og það má fullkomlega viðurkenna, að þeir fylgdu þessari stefnu, a.m.k. að mjög verulegu leyti, þegar þeir höfðu stjórnina með höndum. En nú eru auðsjáanlega komnir nýir menn og nýir húsbændur í Sjálfstfl., a. m. k. hvað þetta snertir. Þó að flokkurinn sé enn Íhaldsflokkur á mörgum sviðum, eins og t.d. sýnir sig í því, að hann vill halda í frelsi einkabrasksins og spákaupmennskunnar, láta þetta tvennt hafa sem frjálsastar hendur, hann er vissulega áfram Íhaldsflokkur hvað það snertir, þá er hann sannarlega hættur að vera Íhaldsflokkur, hvað það snertir að halda uppi nokkrum sparnaði í rekstri ríkisins. Og það gerðu ýmsir sér vonir um, þegar núverandi fjmrh. tók við fjármálastjórninni, að nú mundi kannske einhver breyting verða í þessum efnum og hann að einhverju leyti, tilheyra hinum gamla skóla í Sjálfstfl. Mér finnst leiðinlegt að þurfa að segja það, en ég fæ ekki betur séð en þær vonir í sambandi við hann hafi algjörlega brugðizt. Ég held, að þenslan í ríkiskerfinu hafi einmitt aldrei verið öllu meiri og stórfelldari en núna tvö seinustu árin. Um það bera ríkisreikningarnir alveg ótvírætt vitni og ekki sízt það yfirlit, bráðabirgðayfirlit um tekjur og gjöld ríkisins árið 1966, sem var lagt fram í dag og þm. hafa nú til athugunar, og sem ber það með sér eins og ég áðan lýsti, að embættiskostnaður ríkisins hefur á mörgum sviðum þrefaldazt, en á miklu fleiri sviðum fjórfaldazt og fimmfaldazt frá því, sem var á árinu 1958. Þetta er svo alvarleg þróun, að menn þurfa að stinga hér fótum við. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því, að á næstu árum þarf ríkið að halda uppi stórfelldum og margháttuðum framkvæmdum. Við þurfum að byggja mikið af skólum, við þurfum að byggja spítala, við þurfum að leggja vegi, byggja hafnir o.s.frv. En ekkert af þessu tekst okkur — eða lítið af þessu, — nema okkur takist að halda embættismannabákninu, ríkisbákninu, meira í skefjum en átt hefur sér stað á undanförnum árum. Og við sjáum líka, hver þróunin er í þessum efnum. Á sama tíma og kostnaðurinn við embættismannahaldið er alltaf að stóraukast, þá er verið að smáminnka alltaf framlögin til hinna verklegri framkvæmda, sem ríkið heldur uppi. Þessi framlög voru skorin niður, minnkuð, miðað við það, sem áður var, þegar við afgreiddum fjárlögin á s.l. hausti eða rétt fyrir jólin í vetur, en það hefur ekki þótt nóg. Síðan hafa verið sett lög á Alþ., sem hafa lækkað þessi framlög um 10%, lækkað framlög til skóla, spítala, hafnargerða og annarra slíkra framkvæmda um 10%. En á meðan þetta á sér stað og meðan ríkisstj. vinnur að þessu, þá er hún seinustu þingdagana að berjast við það að koma í gegn frv., sem óhjákvæmilega mun hafa aukinn embættismannakostnað í för með sér, því að það leiðir af sjálfu sér eins og hefur verið rakið mjög greinilega í þeim ræðum, sem hafa verið haldnar hér á undan, að kostnaður við framkvæmd og stjórn orkumálanna hlýtur að verða miklu meiri með þeirri breyt., sem hér á að gera en hann er nú. Það er verið að stofna til nýrra embætta og leysa þessa stofnun, sem nú er fyrir, upp í fleiri einingar, og það hlýtur óhjákvæmilega að hafa í för með sér eins og hér hefur mjög rækilega verið rakið, að kostnaðurinn við þessa starfrækslu hlýtur að vaxa, að embættiskostnaðurinn við þessa starfrækslu hlýtur að vaxa. Og það er af þeim ástæðum, sem ég sá sérstaka ástæðu til þess að kveðja mér hljóðs í sambandi við þetta mál. Ég get viðurkennt, að það sé kominn tími til þess að einhverju leyti að endurskoða raforkulögin, sem voru mjög vel samin á sínum tíma, um það fjölluðu margir ágætir menn. En ég sé ekki, að sú endurskoðun eða athugun sé svo aðkallandi, að það þurfi endilega að drífa hana í gegn núna fyrir þinglokin. Ég álít, að þetta mál megi vel bíða til næsta þings og það mundi þá fá vandaðri athugun en við getum látið það fá að þessu sinni, og sérstaklega tel ég það mikilvægt, að ef málið næði ekki fram að ganga nú, yrði það til þess að menn endurskoðuðu þá stefnu, sem í frv. felst, að leysa raforkumálaskrifstofuna upp í fleiri einingar og gera reksturinn dýrari. Það mundi einnig þykja eðlileg niðurstaða að sameina þessa starfsemi enn betur en að leysa hana upp. En þm. verða að gera sér grein fyrir því, að það er fullkomið alvörumál. Ríkisbáknið hefur verið að vaxa hratt seinustu árin. Eins og ég áðan sagði, þá þarf ríkið að halda uppi stórfelldum framkvæmdum á næstu árum, ef vel á að vera og fullnægja því, sem nauðsynlegt og aðkallandi er. En jafnframt verða menn að gera sér grein fyrir því, að það er alveg komið í hámark, sem hægt er að leggja á almenning í landinu í sköttum og tolli, og er löngu komið í hámark í þeim efnum. Við getum ekki byggt vonir okkar um auknar framkvæmdir ríkisins á því, að skattana og tollana sé hægt að hækka. Við getum ekki byggt þessar vonir á öðru en því, að okkur takist að halda embættismannakerfinu meira í skefjum en átt hefur sér stað á undanförnum árum. Ég tel rétt í þessu sambandi að taka það fram, að ég álít, að opinberir starfsmenn eigi að vera vel launaðir og margir þeirra séu allt of illa launaðir í dag, en til þess að hægt sé að framkvæma þá stefnu, að hafa opinbera starfsmenn sæmilega launaða og tryggja ríkinu sæmilegan starfskraft, verður að reyna að halda embættismannakerfinu sem mest innan hóflegra takmarka, en ekki búa til nýjar stofnanir og bæta við nýjum embættismönnum, oft á tíðum að þarflausu, vegna þess að það þarf að koma einhverjum góðum flokksmanni á spena. En það finnst mér einmitt leiðinlegt dæmi um það atriði, að núna seinustu þingdagana sé unnið að því að knýja þetta mál fram, fyrst og fremst vegna þess, að stjórnin vill koma því fram fyrir kosningar að geta búið til nokkur ný embætti — og veitt nokkur ný embætti — og af þeim ástæðum má þetta mál ekki bíða til næsta þings og hljóta á þann hátt betri athugun. Mér finnst rétt, fyrst ég er farinn að ræða um þetta mál á annað borð, að víkja einnig nokkru ýtarlegar að því, sem mér sýnist vera önnur aðalstefna í þessu frv., en þar á ég við það, að hér er stefnt að því, eins og gert hefur verið á svo mörgum öðrum sviðum á undanförnum árum, að draga vald úr höndum Alþ. og færa það yfir til ríkisstjórnar og embættismanna. Ég held, að af mörgu ískyggilegu, sem hefur verið að gerast í okkar þjóðfélagi síðustu árin, þá sé þessi öfugþróun kannske eitt það allra ískyggilegasta. Ég nefni aðeins í þessu sambandi það, sem er stærst og alvarlegast, en það er það bankavald, sem verið er að byggja upp í landinu og á að vera eins konar einokunarkerfi fyrir þá ríkisstj., sem fer með völd á hverjum tíma.

Það er svo önnur saga, að til þessa aukna bankavalds, sem ríkisstj. hefur verið að byggja upp, má að miklu leyti rekja þann efnahagslega ófarnað, sem þjóðin býr við í dag, og hversu lítinn árangur góðærið hefur raunverulega borið til að bæta afkomu atvinnuveganna og launafólks í landinu. Það er sú ranga efnahagsstefna, sem þessi þáttur embættismannakerfisins hefur fylgt, að sjálfsögðu að fyrirmælum ríkisstj., sem veldur mjög miklu um það, hvernig nú er komið í okkar efnahagsmálum. Af þessum ástæðum teldi ég það líka vel ráðið, að þetta mál væri látið bíða til næsta þings og fái þá frekari endurskoðun, vegna þess að ég er ekki viss um það, þó að hér hafi verið fluttar brtt. í þá átt, að ríkisstj. sé búin að opna augun fyrir því, hve hættuleg öfugþróun er hér á ferðinni. Það væri kannske frekar von til þess, að hún og hennar flokkar gerðu það eftir kosningar, sérstaklega ef svo færi, að þeim lánaðist ekki að halda þingmeirihlutanum, sem ég verð nú að telja reyndar mjög ólíklegt. Það væri ærin ástæða til þess að ræða miklu frekar um þetta efni, og e. t. v. gefst líka tækifæri til þess síðar, en ég vil að síðustu beina því til hæstv. raforkumálaráðh., að hann hugsi sig um, áður en hann drífur þessa aukningu í embættismannakerfinu fram, og hugsi að þessu leyti a.m.k. einu sinni eins og íhaldsmenn gerðu í gamla daga, en það skal ég játa og hef alltaf viðurkennt, að það, sem mér hefur fundizt vera skást í íhaldsstefnunni, er það, að hún hefur yfirleitt verið varfærin í þeim efnum að auka embættismannakerfið í þjóðfélaginu. Eins og ég sagði áðan, eru komnir alveg nýir menn og ný stefna í þessum efnum í Sjálfstfl., svoleiðis að hann á ekkert skylt við hinn gamla Íhaldsflokk að þessu leyti, því miður.