14.12.1966
Sameinað þing: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

1. mál, fjárlög 1967

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja eina brtt. við fjárlögin á þskj. 158. Það er til endurbyggingar Saurbæjarkirkju á Rauðasandi vegna tjóns í fárviðri, 350 þús. kr.

Það var 29. jan. s.l. vetur, sem fárviðri geisaði yfir Vestfirði og olli miklu tjóni í ýmsum byggðarlögum, m.a. brotnaði í spón kirkjan í Saurbæ á Rauðasandi. Þarna er um mjög fámennan söfnuð að ræða, sem hefur ekki möguleika á því að endurbyggja kirkjuna án stuðnings. Söfnuðurinn hefur leitað til biskups um stuðning við fjáröflun, en án árangurs. Hann hefur leitað til kirkjumrn., líka án árangurs. Hann hefur leitað til fjvn. nú á þessu þingi, einnig án árangurs. Þá er eftir síðasti aðilinn í þjóðfélaginu, sem getur bjargað málinu við, þ.e. hæstv. Alþ. Þess vegna flyt ég þessa tili. Nú liggur fyrir þessu hæstv. Alþ. stjórnarfrv. um skipun prestakalla og kristnisjóð, einmitt frv., sem hæstv. fjmrh. var að minnast á áðan og vildi kalla sparnaðarfrv. — eða var það ekki? (Gripið fram í.) Já, fækkun embætta. Ég get ekki samþykkt, að það sé hægt að sjá af frv., að það eigi að fækka um eitt einasta embætti, því að það á að skipa nýja presta og án þess að taka til tölu þeirra. Það getur því orðið jafnmikil höfðatalan eftir sem áður. En þó að þeim yrði fækkað, embættismönnum þarna, þá á ekki að spara einn einasta eyri fyrir ríkið. Og það veit ég, að hæstv. fjmrh. samþ. með mér, að þannig er frv. úr garði gert. Það er lofsverður sá áhugi út af fyrir sig, sem kemur fram í því frv., ekki er því að neita, þó að kannske megi deila um það, hvort tilganginum verði að fullu náð með vinnubrögðum, sem þar er ætlað að hafa. En það er ekki nóg, að það sé gróska í guðskristninni í landinu á einum stað í þjóðfélaginu, ef henni fer hrakandi á öðrum, og ég get ekki betur séð en svo geti farið, ef söfnuður hefur enga kirkju og heldur engan prest. Í þessum söfnuði hefur enginn maður haft af klerki né kirkju að segja í tæpt ár, ekki séð klerk eða kirkju í nær því heilt ár. (Gripið fram í.) Nei, það mun ekki hafa verið, en það getur komið fyrir, eins og annars staðar á landinu. Það er þess vegna komið undir Alþ. að þessu sinni, hvort fólkið þarna á að búa við þetta til frambúðar, og atkvgr. um þessa till. sker úr um það. Ég held, að allir hljóti að sjá það, að þessi söfnuður hefur ekki til annarra að leita, úr því sem komið er, og þessi afgreiðsla á till. ræður því úrslitum hvað þetta snertir fyrst um sinn, og þá verður manni náttúrlega á að bera það saman við hið nýja stjórnarfrv., sem liggur fyrir hæstv. Alþ. og sýnir allt annan áhuga.