17.04.1967
Efri deild: 71. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (1165)

105. mál, orkulög

Frsm. meiri hl. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til orkulaga, sem komið er frá hv. Nd., hefur verið athugað í fjhn. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það er nú. Nál. meiri hl. hefur verið lagt fram á þskj. 558. Lagafrumvarp þetta er samið að tilhlutan hæstv. raforkumálaráðh., Ingólfs Jónssonar af sérstakri n., sem í voru Jón Sigurðsson deildarstjóri, Valgarð Thoroddsen verkfræðingur og Gísli Jónsson rafveitustjóri. N. til ráðuneytis voru m.a. Jakob Gíslason raforkumálastjóri og Eiríkur Briem, forstjóri Landsvirkjunar. L. þessum er ætlað að koma í stað raforkul. frá 1946, en inn í þau eru einnig felld lagaákvæði um jarðhita og jarðboranir ríkisins. Lög þessi gera ráð fyrir, að raforkuráð ríkisins verði lagt niður, en í stað þess komi orkuráð fimm manna, kosið af Sþ. til fjögurra ára í senn. Orkuráðinu til ráðuneytis verður tæknin. 7 manna, tilnefnd af þeim aðilum, sem mestra hagsmuna hafa að gæta varðandi orkumál. Gert er ráð fyrir í frv. að sameina raforkusjóð og jarðhitasjóð, og er það í samræmi við þá aðra sameiningu raforku- og jarðhitamálefna, sem er gert ráð fyrir í frv. Orkuráð fer með stjórn orkusjóðs, en vörzlu sjóðsins annast Seðlabankinn. Frv. þetta gerir ráð fyrir mörgum breytingum á fyrri lögum um raforku og jarðhita. Er að vænta, að þessi lagasetning verði til þess, að enn meiri kraftur verði nú lagður á virkjanir vatnsafls og jarðhita. Með 1. þessum er gert ráð fyrir, að einkaréttur ríkisins sé afnuminn til rafvirkjana upp í 2000 kw. Ber að fagna þessu ákvæði, enda er það í samræmi við stefnu hæstv. ríkisstj. um meira frjálsræði á sem flestum sviðum.

Eins og tekið er fram í grg., þá gerði hv. Nd. breytingar á frv., m.a. eftir óskum Tæknifræðingafélags Íslands og Félags löggiltra rafvirkjameistara. En skv. því er fellt niður, að rafmagnseftirlitsstjóri og rafmagnsveitustjóri ríkisins þurfi að vera verkfræðingar. Einnig er breytt ákvæðum um löggildingu.

Það kom fram í viðræðum, sem n. átti við Jakob Gíslason raforkumálastjóra, að með þeirri samræmingu, sem hér er ráðgerð á vatnsorku og jarðhita, skapast möguleiki til samstillingar á þessum mikilvægu orkulindum, þannig að t.d. raforkan getur notazt meira til upphitunar húsa en nú er. Meðal þeirra verkefna, sem orkumálastofnuninni er falið með lagafrv. þessu, eru rannsóknir á nýtingu orkulinda landsins. Þess verður að vænta, að einmitt upphitun húsa með raforku, þar sem jarðhiti er ekki fyrir hendi, verði eitt af fyrstu verkefnum orkumálastofnunarinnar á sviði rannsókna. En einmitt á þessu sviði erum við Íslendingar furðu langt á eftir t.d. Norðmönnum, en þar í landi er raforka notuð nú til upphitunar húsa í mjög stórum stíl.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mál mitt, en meiri hl. fjhn. leggur til, að þetta frv. verði samþykkt óbreytt.