17.04.1967
Efri deild: 71. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

105. mál, orkulög

Frsm. 1. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e. og ég, sem skipum minni hl. fjhn., teljum, að á þessu frv. þurfi að gera ýmsar breytingar, sem við leggjum til á þskj. 526. Með þessum l. á m.a. að nema úr gildi raforkulögin frá 1946. Þau fólu m.a. í sér einkarétt ríkisins til að reisa og reka raforkuver, sem voru yfir 100 hestöfl, og þau komu þeirri skipan á yfirstjórn raforkumálanna í landinu, sem síðan hefur verið, eða rúmlega tvo áratugi.

Raforkumálastjóri var, undir yfirstjórn ráðh. að sjálfsögðu, yfirmaður raforkumálastofnunarinnar, en hlutar af henni voru rafmagnsveitur ríkisins og héraðsrafmagnsveitur ríkisins, sem eru heildsöluaðili og smásöluaðili á raforku í landinu, og enn fremur rafmagnseftirlit ríkisins. Auk þess hafði raforkumálastjóri fleiri hlutverkum að gegna. Þannig gerði VII. kafli raforkulaganna ráð fyrir því, að raforkumálastjóri væri aðalráðunautur ríkisstj. í raforkumálum og enn fremur, að hann annaðist rannsóknir á skilyrðum til hagnýtingar á orkulindum landsins, svo sem fallvötnum og jarðhitasvæðum, til raforkuvinnslu og hann rannsakaði og gerði till. um heildartilhögun á raforkuveitum til almenningsþarfa.

Ég er þeirrar skoðunar, að það kerfi, sem þá var komið upp fyrir yfirstjórn raforkumálanna í landinu, hafi verið hentugt og það sem miður kann að hafa farið í þessum málum, sé því að kenna, að það stjórnarkerfi, sem lög gera ráð fyrir, hafi ekki verið gott. Þó að ég segi þetta, þá er það auðvitað sízt ætlun mín að gefa það í skyn, að margt hafi miður farið í raforkumálum hér á undanförnum áratugum, þvert á móti vildi ég segja, að margt hefur verið vel gert, þó að sjálfsögðu upp og ofan eins og alls staðar annars staðar.

Fyrir tveimur árum var hér á hv. Alþ. til meðferðar frv. um Landsvirkjun. Í því frv. kom í ljós, að það var ætlun hæstv. ríkisstj. að fela Landsvirkjun ýmis hlutverk, sem samkvæmt gildandi l. hefðu eðlilega heyrt undir raforkumálastjóra, og má þá fyrst og fremst nefna, að í því frv, eins og það var lagt fyrir Alþ. var gert ráð fyrir því, að Landsvirkjun annaðist áætlunargerð um nýjar rafstöðvar og aðalorkuveitur á orkuveitusvæði sínu. Það var að því stefnt, að Landsvirkjun næði með tímanum til landsins alls eins og nafn hennar bendir til og hugsun flestra mun hafa verið, að þá féllu þarna á sviði rannsóknanna undir Landsvirkjunina mikil hlutverk, sem áður höfðu heyrt undir raforkumálastjóra. Við töldum, sem þá skipuðum minni hl. í fjhn., þeir sömu og nú, hv. 1. þm. Norðurl. e. og ég, að þetta væri ekki til hagsbóta að búta þannig í sundur hlutverk raforkumálastofnunarinnar og lögðum til, til að bæta nokkuð úr, að það yrði tekið fram í 1., að Landsvirkjun skyldi annast þetta rannsóknarhlutverk í samvinnu við raforkumálastjóra. Og á þessi sjónarmið okkar féllst hv. Alþ. og samþykkti brtt, frá minni hl., þessa og aðra til, sem ekki skiptir nú máli í þessu sambandi, en einnig var til bóta á frv., og var það að sjálfsögðu nokkur ávinningur. Þegar Landsvirkjunarfrv. var til umræðu, þá var það ljóst, að m.a. vegna þess, að það yrði að l., væri nauðsynlegt, að fram færi endurskoðun á raforkul., og það kom þess vegna ekki á óvart, þó að lagt væri fram á þessu þingi frv. um orkumál eins og það, sem hér liggur fyrir, þó að efni þessa frv. væri mér a.m.k. nokkur vonbrigði, því að þetta frv. felur í sér frekari upplausnaraðgerðir á þeirri yfirstjórn raforkumálanna, sem komið var á 1946 og síðan hefur verið við lýði. Frv. gerir ráð fyrir því, að afnuminn sé einkaréttur ríkisins til þess að reisa og reka raforkuver, þó að þurfi skv. þessu frv. ýmist leyfi Alþ. eða ráðh. til slíks.

Og í öðru lagi gerir frv. ráð fyrir því að kljúfa raforkumálastofnunina á þann hátt, sem ég hlýt að álíta, að orki tvímælis. Af því veigamikla hlutverki, sem raforkumálastofnuninni var ætlað með raforkulögunum frá 1946, er nú næsta lítið eftir í þessu frv. Hlutverk Orkustofnunar er skilgreint í 2. gr. þess, og er þar fyrst og fremst um að ræða ráðgjafarstörf fyrir hæstv. ríkisstj., ýmsar skýrslugerðir og athuganir, sem því eru tengdar. Og það er ekki gert endasleppt við stofnunina að taka af henni það, sem hún hefur um fjallað, því að í sérstökum kafla, sem fjallar um orkusjóð, sem kemur í stað raforkusjóðs og jarðhitasjóðs, er gert ráð fyrir því, að orkusjóður skuli vera í vörzlu Seðlabanka Íslands, sem hafi á hendi daglegan rekstur hans og bókhald, ársuppgjör og skýrslugerð. Ég hlýt að vekja athygli á því í þessu sambandi, að ég tel það næsta hæpið, að það samrýmist hlutverki Seðlabankans eins og það er skilgreint í seðlabankalögunum frá 1961, að vera afgreiðslustofnun fyrir sjóð af þessu tagi. Það er hlutverk Seðlabankans fyrst og fremst að hafa viðskipti við aðrar bankastofnanir og peningastofnanir í landinu og auk þess ríkissjóð, en þessi sjóður hlýtur óhjákvæmilega að hafa dags daglega viðskipti við fjölda marga einstaklinga í landinu og þá ekki sízt bændur um allt land. Ég skal að vísu ekkert fullyrða um það, að þetta samræmist ekki l. um Seðlabanka Íslands í bókstaflegri merkingu, en hitt þykir mér ljóst, að það muni ekki hafa verið ætlunin, þegar Seðlabankinn var stofnaður og lög um hann sett, að hann annaðist hlutverk af þessu tagi. Ég óttast það, að þetta frv. hafi í för með sér þær breytingar á stjórn orkumála eða raforkumála í landinu, að það rísi upp og vaxi í rauninni upp nýjar stofnanir eða a.m.k. í þessu sambandi ný ríkisstofnun. Rafmagnsveitur ríkisins, sem hafa fram til þessa verið hluti af raforkumálastofnuninni, eiga að lifa sínu sjálfstæða lífi, og ég óttast, að það muni hvorki verða til bóta í stjórnarstörfunum sjálfum, rekstri þessara stofnana né heldur til sparnaðar fyrir ríkissjóð og þjóðina. Þessarar tilhneigingar til þess að kljúfa stofnanir niður verður allvíða vart og er sjaldan til bóta. Það má minna á svona í leiðinni, að ríkið rekur nú 5 skipaútgerðir, 4 við hlið Skipaútgerðar ríkisins. Eina á vegum vitamálastjóraembættisins og aðra á vegum Landhelgisgæzlunnar, þriðju á vegum síldarverksmiðjanna og fjórðu á vegum Sementsverksmiðju ríkisins og kannske fleiri, þó að ég muni það ekki í svip. Og slíkt niðurbrot á stofnunum ríkisins er að mínum dómi sjaldan til bóta. Ég óttast líka, að það geti farið með þetta eins og þegar átti að fara að spara með breytingunni á skattamálunum í landinu og stofnun skattstjóraembættanna, að við rekum okkur á, áður en langir tímar líða, að þessi breyting á yfirstjórn raforkumálanna eigi eftir að kosta eitthvað. Þessi tvö atriði, sem ég hef núna nefnt, annars vegar afnám einkaréttarins og hins vegar þessa meginbreytingu á stjórn raforkumálanna, þessi tvö atriði vildi ég drepa á í þessum umr. Í brtt. okkar felst það, að við viljum halda einkarétti ríkisins til að reisa og reka orkuver, þó að við viljum hækka nokkuð stærðarmörkin, sem um er að ræða, raunar aðeins lítið, úr 100 hestöflum í 100 kw., þannig að við leggjum til, að þessi einkaréttarákvæði, sem nú eru í l., verði ekki afnumin.

Að því er lýtur að hinu atriðinu, þá höfum við ekki gert brtt., sem snerta það beinlínis, en brtt. okkar um það að auka valdsvið orkuráðs, eru þó m.a. til þess hugsaðar að styrkja samstarf og samhæfingu á þessu sviði. En þessar eru meginbrtt. okkar. Sú fyrsta, að haldið verði einkaréttarákvæðinu, og önnur um það, að orkuráð fái svipáð hlutverk eins og raforkuráð hefur nú, og gera brtt, okkar ráð fyrir því, að gildandi lagaákvæði um það séu tekin inn í þetta frv. Flestar aðrar brtt. eru svo til samræmis við þetta, þannig að gert er ráð fyrir því, að orkuráð fái ýmislegt til umsagnar og komi við sögu á ýmsum sviðum eins og þar er gerð grein fyrir. Auk þessa er svo ein brtt. um það, að veita megi bændum, sem einn eða fleiri saman reisa vatnsaflsstöðvar til heimilisnota utan þessa svæðis, sem héraðsratmagnsveitum er ætlað að ná til í náinni framtíð, lán, sem nemi allt að 4/5 hlutum stofnkostnaðar, þar sem í frv. er gert ráð fyrir 2/3 stofnkostnaðar. Hugsun okkar, sem að baki þessarar till. liggur, er sú, að ekki sé eðlilegt að veita meiri, tiltölulega meiri lán til þess að koma upp mótorrafstöðvum d einstökum heimilum heldur en til þeirra bænda, sem taka sig saman um að reisa vatnsaflsstöðvar utan þeirra svæða, sem héraðsrafmagnsveitunum er ætlað að né til í náinni framtíð. En það er gert ráð fyrir í frv., að lán til að koma upp mótorrafstöðvum nemi allt að 4/5 stofnkostnaðar rafstöðvarinnar.

Þá er að lokum till. um, að við frv. bætist ákvæði til bráðabirgða, sem fela í sér lagaákvörðun um það, að á árunum 1967–1969 skuli leggja rafmagnslínur frá rafmagnsveitum ríkisins til allra heimila, sem ekki hafa áður fengið rafmagn frá samveitum eða sérstökum vatnsaflsstöðvum, þar sem meðallínulengd milli býla, þegar ekki eru reiknaðar með svokallaðar millibyggðalínur, er 2 km eða minni. Skal framkvæmdum skipt sem jafnast á árin. Enn fremur gera þessi ákvæði til bráðabirgða ráð fyrir því, að rafmagnsveitustjóri skuli gera kostnaðaráætlanir um raflínulagnir frá rafmagnsveitum ríkisins um þær byggðir, þar sem meðallínulengd milli býla er 2–2½ km og 2½ km og einnig geri hann tillögur um uppsetningu dísilstöðva til rafmagnsframleiðslu á þeim heimilum, sem eru svo mjög afskekkt, að ekki þykir fært að leiða til þeirra raflínur frá samveitum og hafa ekki hagstæð skilyrði til vatnsaflsvirkjunar. Séu till. við það miðaðar, að notendur slíkra stöðva njóti ekki minni stuðnings af opinberri hálfu en þeir, sem fá rafmagn frá samveitum. Áætlanir þessar og till. verði gerðar og lagðar fyrir Alþ. ekki síðar en 1. nóv. í haust.

Það munu hafa verið um s.l. áramót um 3800 sveitaheimili, sem hafa rafmagn frá samveitum eða sérstökum vatnsaflsstöðvum. Má ætla, að tala þeirra heimila, sem hafa hvorugt þetta, sé nálægt 1500, sennilegt er talið, að um það bil helmingur þeirra býla sé á svæðum, þar sem meðallínulengd milli býla er 2 km eða minni, og yrði þessi till. okkar samþ., mætti gera ráð fyrir því, að þau fengju rafmagn frá samveitum á árunum 1967–1969.

Það hefur margoft komið fram við ýmis tækifæri hér á hv. Alþ., að svo víðtækur áhugi er meðal þm. fyrir því, að rafvæðingu dreifbýlisins verði hraðað, að gera má ráð fyrir því, að mikill meiri hluti á Alþ. og jafnvel langflestir alþm. muni hafa áhuga á því máli. Í umr. í þessari hv. d. kom það skýrt fram hjá hæstv. raforkumálaráðh. einhvern tíma í vetur, að hann taldi að rafvæðingu, — ég þori nú ekki að segja, að ég fari rétt með orðalag — en að rafvæðingu dreifbýlisins yrði lokið á árinu 1970. Ég held, að það sé full ástæða til þess, að hv. Alþ. lögfesti vilja sinn í þessum efnum, og í því skyni er þessi brtt. flutt. Verði þær brtt., sem ég hef gert grein fyrir nú, samþykktar, þá tel ég svo mikið unnið, að samþykkja beri þetta frv., þó að ég komist ekki hjá því að telja það gallað í ýmsum atriðum, eins og ég hef hér nefnt. En með þeim breyt., sem við gerum ráð fyrir, felur það þó í sér hluti, sem við teljum, að réttlæti samþykkt þess.