17.04.1967
Efri deild: 71. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

105. mál, orkulög

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Hér er til umr. stórt mál og margþætt, og væri auðvelt að halda um það langa ræðu, en það er ekki ætlun mín, þó að ég kveðji mér hljóðs, að gera það eða tala um frv. almennt, enda hefur frsm. minni hl. fjhn. gert skýra grein fyrir afstöðu minni hl. n. og Framsfl. til þessa máls. Hér liggja fyrir allmargar brtt, frá minni hl. fjhn. Margar þeirra voru áður fluttar í hv. Nd. og náðu ekki samþ. Það er vitanlega von mín, að þessi hv. d. taki Nd. fram í því efni að líta með fyllri skilningi á þessar brtt. yfirleitt en Nd. gerði, en þó tel ég mig nú ekki hafa neina vissu fyrir því, að svo muni skipast, en ég ætla að leyfa mér að taka undir og árétta orð hv. frsm. minni hl., sérstaklega um eina þessa brtt. Það er um 11. brtt. við 71. gr., þar sem fjallað er um lánveitingar til vatnsaflsstöðva, sem einstakir bændur eða fleiri saman koma upp. Í frv. er gert ráð fyrir að lána 2/3 hluta stofnkostnaðar þessara stöðva, en minni hl. fjhn. leggur til, að þetta verði fært upp í 4/5 hluta stofnkostnaðar. Ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. talaði ekki ósanngjarnlega um þessa till. eða með neinni stífni, þó að hann hins vegar héti ekki neinu um stuðning við hana. Ég vil láta það koma hér fram, að ég tel mig hafa nokkurn kunnugleika á aðstöðu manna á ýmsum stöðum, m.a. í Skaftafellssýslu, sem eru þannig settir, að þeir geta ekki vænzt að komast undir samveitukerfið, en hafá skilyrði, að sönnu misjafnlega góð, til þess að reisa einkarafstöðvar. Þannig svæði eru til í Suðurlandskjördæmi. Ég hygg eftir viðtali við menn á raforkumálaskrifstofunni, að t.d. byggðarlagið austan við Fossnúpinn, Fljótshverfið, muni vart mega vænta þess, að samveitan verði látin ná heim á þá bæi, og það eru til byggðarlög, sem svona er ástatt um í því kjördæmi, sem ég er fulltrúi fyrir. Það er alveg hiklaust skoðun mín og ég tel mig mæla þar af nokkrum kunnugleika á ástæðum þessara manna, að hv. Alþ. þurfi að gera þeirra hlut betri á þessu sviði en hann er nú og betri en stefnt er að með þessu frv. Þegar lína er lögð frá samveitum um sveitir eða byggðarlög, sem ekki mega kallast þéttbýl, þá mun það vera staðreynd, að ríkið leggi beint fram allmikið fé í stofnkostnaðinn sem óendurkræft framlag vegna línulagnanna. Ég teldi vel koma til greina, að það ákvæði yrði sett inn í raforkulögin, að eitthvert óafturkræft framlag kæmi til þeirra, sem geta ekki komizt á samveitusvæði, og ráðast í það á eigin spýtur að raflýsa, með því að reisa einkarafstöðvar. En nú veit ég, að þetta mál er komið á síðasta stig, og það er dálítið erfitt að fara að byggja upp nýja till. nú, eins og málið liggur fyrir, og þess vegna vildi ég vekja sérstaka athygli á þessu atriði, taka undir og árétta það, sem hv. frsm. minni hl. sagði um þetta, og ég vildi beina því til hæstv. ráðh. og beinlínis mælast til þess, að við gengjum svo langt í sambandi við afgreiðslu þessa frv. nú að sameinast um það að samþ. till. minni hl. Ég er ekki þar með að segja, að þetta þurfi ekki að koma til nánari skoðunar síðar, en þetta væri spor í áttina, ef við sameinumst nú um það að samþ. þessa tiltölulega litlu og hóflegu brtt. Það yrði áreiðanlega uppörvun fyrir þá, sem vita, að þeir geta ekki komizt inn á samveitusvæði, og eiga það fyrir höndum að reyna að afla sér raforku með eigin framtaki. Ég veit, að hæstv. ráðh. á ekki atkvæðisrétt í þessari hv. d., en ég tel mig vita, að ef hann beitti sér fyrir því hér við dm. almennt, að þeir sameinuðust um þessa tiltölulega mjög hógværu brtt., þá mundi það hafa mikilvæg áhrif.