17.04.1967
Efri deild: 71. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

105. mál, orkulög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að þetta er nú komið á síðasta stig, og það er ekki langur tími, sem Alþingi á eftir að sitja í þetta sinn og jafnvel þótt menn hefðu áhuga fyrir að gera vissar breyt., þá er erfitt um vik að þessu sinni. Ég mælti aldrei gegn því áðan, að það gæti verið eðlilegt að hækka þetta lánshlutfall, ég aðeins minnti á, hverju væri haldið fram til réttlætingar því, að lánshlutfallið til einkastöðvanna, vatnsaflsstöðvanna, væri minna en til mótorstöðvanna. Það væri, að sagt er af þeim fróðu mönnum, að undir mörgum kringumstæðum væri virkjað kw. ódýrara, kannske hafa þeir meint tiltölulega ódýrara, — en í mótorstöðvunum og rekstrarkostnaðurinn miklu minni, því að það er nú vitað, að ef vel tekst með vatnsaflsstöðvarnar, þá endast þær ótrúlega lengi og borga sig að því leyti vel, en þetta er vitanlega alltaf matsatriði, og vitanlega getur það vel komið til greina, þó að síðar verði, að hækka þetta lánshlutfall, ég mundi segja eins og hv. síðasti ræðumaður, það kæmi vitanlega vel til greina eftir nánari athugun, að það þætti sanngjarnt að hafa eitthvert óafturkræft framlag. Ég vil ekkert fullyrða um það, en það er ekki í þessu frv. og ekki nema eðlilegt, að menn heyri rökin fyrir því, hvers vegna lánshlutfallið var minna til þessara stöðva en til mótorstöðvanna. Svo er eftir að kanna það, hvort þessi rök eru haldgóð og rétt, ég ber ekki ábyrgð á því. Það hlýtur að vera hægt að fá úr því skorið hjá kunnáttumönnum. Það er með lögfestingu framkvæmdanna, sem hv. frsm. var að tala um hér áðan, það er út af fyrir sig vitanlega nokkurs virði, ef hægt væri að lögfesta og ákveða með lögum framkvæmdahraða, en venjulega er það nú fjármagnið, sem ræður, og þrátt fyrir góðan vilja allra þm. finnst mönnum eðlilegt, að það sé ákveðið með fjárlögum hverju sinni, hversu hratt er farið í þessu. Og það hefur ekki enn þótt ástæða til þess að lögfesta beinlínis ákvæði um framkvæmdirnar vegna þess að framkvæmdahraðinn ákveðst af því fjármagni, sem varið er til framkvæmdanna. Þá er það orkusjóðurinn og daglegur rekstur. Það er alveg rétt, að hér í 70. gr. er sagt „hefur á hendi daglegan rekstur“, en daglegur rekstur orkusjóðs er ekki til, vegna þess að orkusjóðurinn starfar allt öðruvísi en venjulegur sparisjóður eða banki. Ef við tökum t.d. lán úr orkusjóði til mótorrafstöðva, þá er það áreiðanlega ekki oftar en tvisvar á ári, sem þær lánveitingar eru ákveðnar af orkuráði og ráðh., tvisvar á ári, þannig að það er ekki um neinn daglegan rekstur á þessum sjóði að ræða eins og öðrum sjóðum, það eru kannske nokkrar færslur, nokkrum sinnum á ári. Lánin verða afgreidd í Seðlabankanum, geri ég ráð fyrir, og það eru fastir gjalddagar, sennilega einu sinni ári, þannig að það er náttúrlega ekki hægt að tala um daglegan rekstur í þessu efni.

Ég held, að það sé svo ekki fleira, sem ég hef að segja í sambandi við það, sem hv. ræðumenn hafa talað um, og get ég þess vegna látið máli mínu lokið: