14.12.1966
Sameinað þing: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

1. mál, fjárlög 1967

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Við höfum, 4 af 5 þm. Austf., leyft okkur að bera fram á þskj. 137 brtt. við 16. gr. fjárl., að veittar verði 500 þús. kr. til að gera laxastiga í Lagarfoss á Fljótsdalshéraði. Það væri e.t.v. ástæða til að fara nokkrum orðum um þetta mál, þar sem ég geri ráð fyrir, að fjöldinn af hv. þm. sé þessu málefni lítt kunnugur.

Vatnasvæði Fljótsdalshéraðs mun vera eitt allra stærsta vatnakerfi landsins. Aðaluppistaða þess er Jökulsá á Brú annars vegar, sem fellur um vesturhluta Héraðs, og hins vegar Lagarfljót, sem fellur um austurhluta þess. Báðar þessar ár eru mikil vatnsföll, eins og flestum er kunnugt. Vatnasvæði Lagarfljóts mun vera út af fyrir sig eitt með allra stærstu vatnasvæðum landsins og nær yfir nálægt 2900 km2 svæði. En laxastigi í Lagarfossi opnar möguleika fyrir fiskrækt, lax og silungs, um þetta geysivíðlenda vatnakerfi. Upptökuá Lagarfljóts er, eins og mönnum er kunnugt, Jökulsá í Fljótsdal, sem kemur undan Vatnajökli og myndar síðan Lagarfljótið, eftir að Kelduá í Fljótsdal kemur saman við Jökulsá. Síðan fellur Lagarfljót um allar byggðir Austur-og Miðhéraðs eða um 87 km vegalengd til sjávar. Lagarfoss verður til í Lagarfljóti undan Kirkjubæ í Hróarstungu, og er hann um 8 m hár. En frá Lagarfossi til sjávar eru nálægt 27 km. Engar teljandi bergvatnsár falla í Lagarfljót neðan við foss, aðeins lækir, en frá sjó og upp að Lagarfossi gengur þó nokkur silungur, sem veiddur er frá ýmsum bæjum neðan við fossinn, og undir fossinum er þó nokkur laxveiði, en sá lax er tekinn í net undir fossinum frá bæ, sem er austanverðu fljótsins. Lagarfljót sjálft er talið fremur snautt af smádýralífi, sem hentar til fæðu lax og silungs, en er öruggur fiskvegur áleiðis til bergvatnsánna ofan við Lagarfoss, sem bjóða ríkulega fiskafæðu og gnægð hrygningarstöðva og eru auk þess í fögru umhverfi skemmtilegra stangveiðiáa. Helztu bergvatnsárnar, sem nefna má og falla í Lagarfljót ofan við Lagarfoss, eru auk Kelduár, sem ég gat um, Gilsá, Grímsá, Eyvindará og Rangá, auk margra fleiri meiri og minni vatnsmikilla lækja. En Lagarfoss stendur nú í vegi fyrir nýtingu allra þeirra miklu möguleika, sem fiskræktin býður í hinu mikla og víðlenda vatnasvæði Lagarfljóts.

Það hefur lengi verið áhugi um Fljótsdalshérað fyrir fiskrækt. 1932 var stofnað Fiskræktarfélag Fljótsdalshéraðs, og mun það hafa náð yfir hin fyrrnefndu tvö vatnasvæði héraðsins, enda hafa Lagarfljót og Jökulsá á Brú um langt skeið haft sameiginlegan ós til sjávar, og í Jökulsá falla nokkrar bergvatnsár, t.d. Kelduá og Laxá, þar sem dálítil sílungsveiði er, og þar hefur einnig orðið vart við lax. 1932 réðst fiskræktarfélagið í að láta gera laxastiga í Lagarfoss og gekkst jafnframt fyrir því, að hafið var lax- og silungsklak. Og á næstu árum var allmikið keypt af laxaseiðum og þeim sleppt í bergvatnsárnar fyrir ofan foss. Þessar miklu og kostnaðarsömu framkvæmdir báru því miður engan teljandi árangur, sökum þess að í ljós kom, að hinn byggði laxastigi í Lagarfossi reyndist ónothæfur. Hafa sérfræðingar talið, að hann hafi verið mjög ófullkominn og skakkt staðsettur í fossinum. Telja því sérfróðir menn í þessum efnum, að byggja verði nýjan laxastiga, sem þeir áætla að kosta muni með núverandi verðlagi um eða yfir 2 millj. kr. Er það meira fé en Héraðsbúar telja sér fært að leggja fram til þessara hluta, ekki sízt eftir það mikla áfall, sem þeir urðu fyrir, að áðurnefnt framlag til byggingar laxastiga og fiskræktar varð til einskis. Það er svo einnig að lita á, að jafnhliða byggingu laxastigans verður Fiskræktarfélag Fljótsdalshéraðs að leggja fram vegna seiðakaupa til fiskræktar vatnasvæðis Lagarfljóts fram undir 2 millj. kr., og er það ærið fjárfrekt verkefni fyrir Fiskræktarfélagið, þótt ekki komi til þar að auki stofnframlag vegna laxastigans. Mín skoðun er sú, að ríkið ætti að leggja fram allt fé vegna byggingar laxastigans, og teldi ég það eðlilegt með tilliti til þess, sem á undan er gengið í þessu máli, og líka með tilliti til þess, hversu framkvæmdir eru mikilvægar fyrir alla íbúa Fljótsdalshéraðs, og hefur einnig allmikla þjóðhagslega þýðingu.

Það er nú mikið skrifað og skrafað um nauðsyn þess að auka ferðamannastraum hingað erlendis frá, bæði vegna kynningargildis og eins vegna öflunar gjaldeyris. Fróðir menn í þessum málum leggja áherzlu á, að gera verði það, sem hægt er, til að auka aðdráttarafl landsins og áhuga erlendra manna að sækja landið heim. Benda þeir á mikilvægi þess að búa sportveiðimönnum aukin skilyrði til veiða sem víðast um landið. Er augljóst, hversu aukin skilyrði mundu skapast fyrir tugi manna, ef stangveiðimöguleikar yrðu fyrir hendi í hinum skemmtilegu bergvatnsám í hinu fagra og víðáttumikla umhverfi vatnakerfis Lagarfljóts. Fiskrækt á Héraði hefur því merkilega þjóðhagslega þýðingu.

Það er þó ekki svo, að við fjórmenningarnir sjáum okkur fært að þessu sinni að gera till. um, að ríkið eitt leggi nú fram fé til byggingar laxastigans. Till. okkar um sérframlag 1967 nemur aðeins milli 1/4 og 1/5 hluta af áætluðu kostnaðarverði laxastigans. Sést bezt á því, hve hófleg till. okkar er, að samkv. l. nr. 53 frá 1957 er gert ráð fyrir, að ríkið leggi fram allt að 1/3 af kostnaði við fiskeldi tilheyrandi laxastiga og í önnur slík verkefni. Á fjárl. fyrir árið 1967 er gert ráð fyrir 700 þús. kr. til stuðnings þessum málum, eða minni fjárhæð en nemur 1/3 af þessari framkvæmd einni. Nú er mér og öðrum það fullkunnugt, að fyrir fjvn. lágu margar beiðnir um framlög til fiskræktar samkv. lögunum frá 1957. Eru margar þær beiðnir svo mikilvægar og aðkallandi, að óvarlegt er að gera ráð fyrir, að til laxastigans í Lagarfossi fáist nema brot af þeim rúmlega 700 þús., sem lögum samkv. er heimilað til þessarar framkvæmdar. Við flm. væntum því góðra undirtekta hv. Alþ. um samþykkt þessarar till.