14.04.1967
Neðri deild: 66. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

190. mál, girðingalög

Matthías Bjarnason:

Herra forseti: Það var ágætt að fá þessar takmörkuðu upplýsingar hjá hv. form. landbn. Þó að hann sé það ekki nema sem staðgengill, verður maður þó að beina orðum sínum til hans sem formanns n., þar sem hann hefur tekið þau störf að sér. Ég er þrisvar eða fjórum sinnum búinn að biðja hinn reglulega form, um afgreiðslu á þessu máli og sömuleiðis staðgengilinn, sem var hér í pontunni áðan, og út af því, sem hv. þm. sagði, að það hafi orðið að samkomulagi í n. að láta þessi mál öll bíða, þá hefur hv. 5. þm. Norðurl. vestra sagt mér, að hann hafi verið tilbúinn að afgreiða þetta mál fyrir löngu út úr n., og það síðast í morgun, svo að eftir því að dæma hefur ekki verið samkomulag í n. um að jarða þessa hluti, og ég fer fram á það við hv. settan form. landbn., að hann afgreiði þetta mál og það tafarlaust.