10.04.1967
Neðri deild: 62. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

181. mál, hafnalög

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta til nýrra hafnalaga hefur átt sér alllangan aðdraganda, svo sem greint er frá í upphafi aths. þeirra sem frv. fylgja. Á síðasta Alþ. lýsti ég því yfir að gefnu tilefni, að á næsta þingi mundi lagt fram endurskoðað frv. til hafnalaga. N. sú, sem endurskoðunina hafði með höndum, var skipuð á s.l. sumri og skilaði hún áliti upp úr miðjum síðasta mánuði. N. vann vel og varð sammála um þær niðurstöður, sem í frv. felast. N. skipuðu þeir Aðalsteinn Júlíusson vita- og hafnamálastjóri, sem jafnframt var skipaður formaður, alþm. Benedikt Gröndal og Sigurður Bjarnason og ráðuneytisstj. samgmrn. og fjmrn., Brynjólfur Ingólfsson og Guðlaugur Þorvaldsson. Með n. starfaði allan starfstímann Halldór Matthíasson, skrifstofustjóri vitamálaskrifstofunnar.

Svo sem frá er greint í aths. með frv., yfirfór n. frv. það, er atvinnutækjanefnd, sem starfaði m.a. að sama verkefni á árunum 1958–1961, hafði samið og eru ýmis ákvæði þess frv. tekin óbreytt í þetta frv. ásamt köflum úr grg. og rökstuðningi. Þá var eftir föngum reynt að afla upplýsinga frá nágrannalöndum okkar, einkum Norðurlöndum, um það, hvernig málum þessum væri þar háttað, ef verða mætti til eftirbreytni hér.

Er í aths. nokkuð skýrt frá þeim upplýsingum, sem fengust um þessi mál, og mun mörgum þykja fróðlegt að sjá m.a., hvernig tekna er aflað til hafnaframkvæmda í öðrum löndum og um eignarrétt á höfnum.

Eðlilega beindist athugun n. þegar frá upphafi fyrst og fremst að því að kanna fjárhagsástand hafnanna og leita leiða til að bæta það og treysta, en fjárhagsgrundvöllur hafnanna hefur um árabil verið veikari en æskilegt væri og er nú svo komið, að vart verður lengur frestað að taka þessi mál til rækilegrar endurskoðunar, ef þeim á ekki að verða siglt í strand. N. tilfærir sem dæmi um hið almenna ástand þessara mála athugun sína á 64 höfnum og skýrir frá því, að þar hafi byggingarkostnaður numið tæpum 700 millj. kr. á 25 ára tímabili, frá 1940 til 1965. Væri þessi upphæð reiknuð á verðlagi ársins 1965, næmi hún 1762 millj. kr. Föst byggingarlán þessara sömu hafna námu þá, þ. e. í árslok 1965, liðlega 250 millj. kr. og árlegur kostnaður við þau lán um 37 millj. kr. Annar árlegur rekstrarkostnaður þessara hafna nam árið 1965 25 millj. kr., en heildartekjur um 60 millj. kr. Hér er m. ö. o. ekkert fé afgangs af rekstrartekjum til greiðslu lausaskulda og ekkert hægt að leggja til hliðar til að mæta áföllum eða til nauðsynlegra nýrri framkvæmda. Þó ber þess að geta, að þetta er meðaltal og innan þessa 64 hafna hóps er afkoman mjög mismunandi. Þessu til frekari skýringar nægir að benda á niðurstöður n. í aths. neðst á bls.7 og efst á bls. 8 í hinu prentaða frv. Það hefur lengi verið skoðun þeirra manna, sem mest hafa um hafnarmál okkar fjallað og um stuðning ríkisins við hafnaframkvæmdir sveitarfélaga, að eðlilegt væri, að hundraðshluti framlags ríkisins væri mismunandi, eftir því hvort um væri að ræða ytri mannvirki, svo sem skjólgarða og öldubrjóta, sem ekki gefa neinar tekjur í hafnarsjóð einar út af fyrir sig, og hins vegar innri mannvirki, svo sem viðlegukanta, bryggjur o. þ. h., sem alls staðar þarf að byggja og sem tekjur hafnarinnar byggjast á. Niðurstöður n. virðast benda til þess, að ýmsar þær hafnir, sem eiga dýrust ytri mannvirki, eigi mest í vök að verjast fjárhagslega og því sé rétt að taka upp hærri styrkprósentu fyrir ytri mannvirki eins og n. leggur til. Skal nú vikið almennt að nokkrum helztu nýmælum frv.

Frv. gerir ráð fyrir þeirri meginbreytingu á framkvæmdum við hafnargerðir, að unnið verði samkv. fjögurra ára áætlun og fjárveitingar Alþ. séu í samræmi við þá áætlun. Stuðlar þetta að betri nýtingu fjárveitinga og ætti jafnframt að tryggja, að þeim yrði hagað í samræmi við áætlaðar framkvæmdir. Þá er eins og ég drap á áður gert ráð fyrir, að hlutur ríkissjóðs í ytri mannvirkjum og dýpkunum aukist úr 40 í 75%, en þessar framkvæmdir eru hinar kostnaðarsömustu og verða, ef hagkvæmt á að vera, að framkvæmast í sem allra stærstum áföngum. Kostnaðaraukning ríkissjóðs vegna þessarar hækkunar verður 10–15% af heildarframkvæmdum hvers árs frá kostnaði samkv. núgildandi l. eða 10–15 millj. kr. á ári, um svipaðar framkvæmdir verður að ræða og undanfarin ár. Í frv. eru löggiltar hafnir ekki taldar upp eins og í gildandi l., heldur tekin upp sú hugmynd atvinnutækjanefndar, að sleppa upptalningunni og taka upp í staðinn þá reglu, að fyrsta fjárveiting Alþ. til hafnar teljist jafngilda viljayfirlýsingu Alþ. um styrkhæfni hafnarinnar almennt. Með þessu er því á engan hátt verið að rýra áhrif Alþ. frá því, sem nú er. Vísast um þetta atriði til skýringa við 7. tölul. 5. gr. á bls. 10. Þá er lagt til, að ríkið eða hafnamálastofnun þess annist allar hafnargerðir, þ. e. hafi umsjón og yfirstjórn allra hafnarbygginga á svipaðan hátt og raunverulega hefur verið unnið að þessum málum undanfarin ár. Þetta fyrirkomulag hindrar þó engan veginn útboð framkvæmda eða það, að einstök sveitarfélög annist sínar framkvæmdir sjálf og vísast um þetta atriði til nánari skýringa, sem eru í aths. frv. við 3. gr., neðst á bls. 9. Mörg ákvæði gildandi l. eru gerð skýrari í frv., einkum skilyrði fyrir ríkisstyrk, skyldur um viðhald mannvirkja, skýrslugerð o. fl.

Frv. felur í sér mikla breytingu á l. um hafnabótasjóð, en þau eru felld inn í frv. þetta. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn fái fasta, árlega tekjuliði, 8 millj. kr. úr ríkissjóði og auk þess að því er áætlað er 12 millj. kr. árlega með nýju gjaldi, sem lagt er á skip. Auk þess er lagt til, að hafnabótasjóður fái verulega lántökuheimild. Sjóðnum er ætlað að verða bæði lána- og styrktarsjóður fyrir hafnargerðirnar og jafnframt að greiða skuldahala þann, sem fyrir hefur safnazt og létta þar með af sveitarfélögum miklum aukakostnaði af bráðabirgðalánum, sem þau hafa orðið að taka vegna þessa skuldahala. Það er kunnara en frá þurfi að greinar hver gjörbylting hefur á orðið um stærðir og fjölda fiskiskipa landsmanna á síðasta áratug, þótt ekki verði lengra til jafnað. Þessar ástæður einar kalla á stórlega aukið hafnarrými og gera margar eldri áætlanir, þótt framsýni þætti þar gæta, að mörgu leyti úreltar. Eins og ég vék að, er afkoma margra hafna þannig, að miðað við núgildandi ákvæði um þátttöku ríkissjóðs í byggingarkostnaði og greiðslumáta ríkishlutans, er þeim algerlega um megn að standa undir fjármögnunarkostnaði þeirra mannvirkja, sem þegar eru fyrir hendi, auk rekstrarkostnaðar. Og því hafa þessar hafnir ekki neinn fjárhagslegan grundvöll til nauðsynlegrar stækkunar og aukningar mannvirkja. Breyttar reglur um prósenthluta ríkissjóðs eiga að auðvelda nýjar og nauðsynlegar framkvæmdir og eyðing framlagsskuldahala ríkissjóðs, sem gert er ráð fyrir, að ljúki innan fjögurra ára, mun stórlétta greiðsluafkomu margra þessara hafna.

Í þessu sambandi vil ég einnig benda á, að hafnabótasjóði er samkv. 3. tölul. 19. gr. frv. ætlað að styrkja þær hafnir, sem hafa erfiða aðstöðu vegna dýrrar mannvirkjagerðar. Er þessi hugmynd sýnd nánar á fskj. l með frv., bls. 16. sbr. útgreiðslur í 4. og 5. lið þar. Þessi heimild mundi aðallega verða notuð til þess að styrkja þær hafnir, sem nýlega hafa lokið dýrum ytri mannvirkjum með 40% þátttöku ríkissjóðs í stað 75% sem frv. gerir ráð fyrir. Eins og ég vék áður að, er lagt til í frv., að framkvæmdaáætlanir um hafnargerðir verði gerðar til fjögurra ára í senn og verði árlegar fjárveitingar í sem mestu samræmi við þá áætlun, þannig að komizt verði hjá skuldamyndun ríkissjóðs við hafnargerðirnar. Þessi ráðstöfun mundi stórum bæta framkvæmdaaðstöðu í hafnargerðum frá því, sem nú er, auk þess sem kleift ætti að verða að nýta til fullnustu þá möguleika, sem fyrir hendi eru til hafnargerða á hverjum tíma, bæði fjárhagslega og tæknilega, og beina framkvæmdum á þá staði, þar sem þörfin er brýnust. Jafnframt má ætla, að nýting tækja og mannafla verði mun betri en nú er, þegar oft er ekki vitað með vissu um framkvæmdir fyrr en að þeim er komið á því ári, er vinna skal.

Varðandi fjárhagshlið framkvæmdanna gerir frv. einnig ráð fyrir, að samgmrn. verði heimilað að eiga frumkvæði að því að samræma gjaldskrár hinna einstöku hafna, jafnvel án þess að sérstakar beiðnir um það liggi fyrir. Hafnargjöld eru í dag mjög mismunandi, jafnvel á sömu landsvæðum. Til þessa mismunar má án efa rekja að nokkru hina misjöfnu afkomu einstakra hafna á sömu landsvæðum og að því er virðist við mjög hliðstæða aðstöðu til tekna. Þá eru einnig gjaldskrár hafna óþarflega flóknar, gjaldategundum og flokkum mætti að skaðlausu fækka. Verður þetta allt athugað, ef frv. nær fram að ganga.

Eins og greint er frá í aths. á bls. 9, ræddi n. nokkuð mál hinna svokölluðu landshafna, bæði till. atvinnutækjanefndar um að ríkisstj. væri heimilað að selja viðkomandi sveitarfélögum landshafnirnar, sem þá voru tvær, á 3/5 af stofnkostnaðarverði, og einnig kom sú skoðun fram í n., að eðlilegt væri, að 1–2 landshafnir væru í hverjum landsfjórðungi, og voru þessar báðar hugmyndir ræddar ýtarlega, en ákveðið að leggja ekki til, að breytt yrði frá núgildandi l. um landshafnir eða þeim fjölgað.

Ég tel ekki þörf á því að lengja framsöguræðu mína nú með því að rekja efni einstakra gr. frv., svo skilmerkilega sem grein er fyrir þeim gerð og nýmælum þessa frv. í aths. og fskj. með því. Mér er ljóst, að tiltölulega skammur tími er til loka Alþ. og æskilegt hefði verið, að frv. þetta hefði komið fyrr fram. Mþn., sem frv. samdi, lauk þó ekki endanlega störfum fyrr en rétt fyrir páskaleyfi þm. og reyndist ekki unnt vegna anna í prentsmiðju að útbýta frv. fyrir páskaleyfi. Af þeim ástæðum var sá kostur valinn að senda hv. þm. það sem handrit og trúnaðarmál, en það var póstlagt laugardaginn 1. apríl s.l., þ. e. 5 dögum fyrir samkomudag Alþ. eftir páskaleyfi. Það er von mín, að sá háttur, sem hér var á hafður, hafi auðveldað hv. alþm. að gera sér grein fyrir meginefni frv. og geti þar af leiðandi e.t.v. stytt umr. um það nú. Mér er einnig fullkomlega ljóst, að forsenda þess, að málið nái fram að ganga nú, er sú, að hv. alþm. meti þær efnislegu breytingar, sem frv. hefur í för með sér, til verulegra bóta. Forsenda þess, að málið nái fram að ganga, er því að sjálfsögðu sú, að sem mestur einhugur skapist um það til skjótrar afgreiðslu. Þá vil ég enn fremur benda á, að mjög mörg meginatriði frv. eru nátengd samningu og setningu fjárl. og því ekki hyggilegt, ef menn meta svo, að málið ætti að ná fram að ganga, að fresta afgreiðslu þess, ef það er vilji Alþ., að fjárhagsatriði þessi komi raunverulega til framkvæmda á árinu 1968. En fjárlagafrv. er venjulega undirbúið og samið sumarið fyrir samkomudag Alþ. og væri æskilegt, að þá væri ákveðið, hvort gera eigi ráð fyrir svo veigamiklum atriðum, sem frv. felur í sér og skipta máli varðandi fjárlög.

Herra forseti. Það er till. mín, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn. og væri æskilegt, að sjútvn. beggja d. hefðu samstöðu um athugun málsins, ef það er mat n. að mæla með samþykkt frv.