10.04.1967
Neðri deild: 62. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

181. mál, hafnalög

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að ítreka það í örfáum orðum, sem raunar kom greinilega fram hjá hæstv. sjútvmrh. í framsöguræðu hans fyrir þessu frv., að þetta frv. til nýrra hafnal. felur í sér miklar breytingar og umbætur í þágu hafnanna og byggðarlaga þeirra. Góð hafnarskilyrði eru frumskilyrði útgerðar og framleiðslu. Stækkandi báta- og skipafloti krefst fullkomnari hafna. Nú er það hins vegar svo, að allmörg byggðarlög í öllum landshlutum eru að sligast undir kostnaði við hafnargerðir sínar, sérstaklega þau þeirra, þar sem aðstaða er erfið frá náttúrunnar hendi og byggja hefur þurft dýra ytri hafnargarða og framkvæma miklar dýpkanir. Með þessu frv. eru í senn gerðar ráðstafanir, sem eiga að hjálpa þessum byggðarlögum og veita aukna aðstoð þeim, sem skemmra eru á veg komin með hafnargerðir sínar. Höfuðumbæturnar, sem þetta frv. hefur í för með sér fyrir hafnirnar, eru þessar:

Í fyrsta lagi er hluti ríkissjóðs af kostnaði hafnargarða hækkaður úr 40% upp í 75%. Sama hækkun verður á hluta ríkissjóðs í dýpkunum á aðalsiglingaleiðum. Þessar framkvæmdir hafa reynzt dýrastar og erfiðastar viðfangs fyrir hin ýmsu byggðarlög. Þess vegna er hækkun ríkissjóðsframlagsins til þeirra mjög þýðingarmikil.

Í öðru lagi er lagt til, að ábyrgðarheimild ríkissjóðs miðist við, að kostnaðarhluti ríkissjóðs og auknar ábyrgðir nemi 90% styrkhæfs kostnaðar þess áfanga, sem lán er tekið til.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir, að gerðar verði framkvæmdaáætlanir um hafnargerðir til fjögurra ára í senn. Skulu slíkar áætlanir endurskoðaðar á tveggja ára fresti. Áætlanir skulu lagðar fyrir Sþ. sem grundvöllur skiptingar þess fjár, sem Alþ. veitir til hafnargerða hverju sinni. Er hér um hið merkasta nýmæli að ræða, sem leiða ætti til aukinnar festu í hafnarframkvæmdum.

Í fjórða lagi er hafnabótasjóður stórefldur, bæði með hækkun framlaga úr ríkissjóði, sérstökum nýjum tekjustofni og 350 millj. kr. lánsheimildum. Sérstaklega leyfi ég mér að vekja athygli á því nýmæli í starfsemi hafnabótasjóðs, að honum er heimilað að styrkja hafnarsjóði, sem eiga við sérstaka fjárhagsörðugleika að stríða, vegna erfiðrar aðstöðu og dýrrar mannvirkjagerðar. Er þetta ákvæði fyrst og fremst sett til hjálpar þeim byggðarlögum, sem eru að sligast undir dýrum hafnarframkvæmdum síðustu ára. Má raunar segja, að endurskoðun hafnal. hafi fyrst og fremst verið gerð í þessu skyni, jafnhliða því, sem reynt er að leysa þörf framtíðarinnar fyrir nýjar, öruggar og fullkomnar hafnir.

Þegar á allt þetta er litið, er það einlæg von mín, að þetta frv. fái skjóta og góða afgr. á þessu þingi, enda þótt það sé seint fram komið af ástæðum, sem hæstv. sjútvmrh. gat um í framsöguræðu sinni. Að sjálfsögðu er þetta frv. ekki alfullkomið frekar en önnur mannanna verk, en í því felast, eins og ég sagði í upphafi, stórfelldar umbætur í þágu hafnanna í öllum landshlutum. Þess vegna vænti ég þess, að um það geti tekizt góð samvinna milli allra þingflokka, sem sýnt hafa mikinn áhuga á því á undanförnum árum, að stuðningur ríkisins við hafnar- og lendingarbætur yrði aukinn, útgerð og siglingum landsmanna til eflingar og hagsbóta.