14.04.1967
Neðri deild: 68. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

181. mál, hafnalög

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Frv. það til hafnalaga, sem hér liggur fyrir, er eitt þeirra frv., sem hefur orðið nokkuð síðbúið, og er ekki nema stutt liðið, síðan það var lagt fram á þinginu, og hefur því verið aðeins skamma stund til athugunar.

Undanfarna þrjá daga hefur sjútvn. þó reynt að gera sér eins glögga grein fyrir efni frv. og tök eru á á þeim skamma tíma, sem til umráða hefur verið. Á tímabili var um það rætt að fresta þessu máli til næsta hausts, með því að ekki fengist tóm til að kanna það nógu vandlega, en að athuguðu máli varð þó niðurstaðan sú í sjútvn. hv. d., að málið skyldi hafa framgang, þó að menn sæju á því nokkra annmarka.

Nefndin starfaði í fyrstu að athugun málsins ásamt sjútvn. háttv. Ed.

Það, sem frv. hefur upp á að bjóða fyrir hafnir landsins í aukinni aðstoð af ríkisins hálfu, var talið vega það þungt, að okkur, sem um þetta mál höfum fjallað, fannst, að við gætum varla réttlætt það að láta dragast öllu lengur en þegar er orðið, að sett verði ný hafnalög.

Þessi l. eru búin að vera lengi í endurskoðun, og því var lýst yfir í þessari hv. d. á síðasta þingi, að endurskoðun þeirra skyldi fara fram á þessu ári, og okkur er kunnugt um, að margir, sem þarna eiga hagsmuna að gæta, hafa bundið talsverðar vonir við þessa endurskoðun. Við teljum þess vegna, að þótt sitt hvað megi e. t. v. út á frv. setja, sé, eins og ég áðan sagði, rétt að láta það hafa framgang, enda er það svo, að oft verður að grípa til þess, að endurskoða fljótlega þau lög, sem sett eru af Alþ., og það getur þá alveg eins gilt um þessa lagasmíð eins og aðra.

Ég vil sem form. sjútvn. þakka meðnefndarmönnum mínum í n. fyrir það, að þeir hafa unnið rösklega að þessu máli með mér, þótt tíminn væri naumur, og við höfum náð samkomulagi um mörg mjög veigamikil atriði, en eins og gengur, þegar þannig er unnið, hafa ekki allir fengið sitt fram. Ég skal þá ekki hafa þennan inngang lengri, en snúa mér að því að ræða lítils háttar um frv., þó aðallega um þær brtt., sem sjútvn. flytur sameiginlega, og gera nokkra grein fyrir þeim.

Ég vil fyrst segja um frv. almennt, að þau nýmæli þess sem ég tel vera mestan ávinning að fyrir hafnirnar, eru m.a. ákvæði 6. gr., þar sem kveðið er svo á, að þátttaka ríkisins í stofnkostnaði hafnargarða eða öldubrjóta geti orðið „allt að 75%“, eins og það er orðað í frv. Í meðferð n. hefur þessu ákvæði verið breytt þannig að orðin „allt að“ eru felld niður, og um ákvæðið um „allt að“ 40% þátttöku ríkisins í stofnkostnaði annarra mannvirkja gildir hið sama.

Í grg. með frv. eru leidd rök að því, að miðað við framkvæmdir að undanförnu sé líklegt, að um 35% þeirra framkvæmda, sem á döfinni verða á næstunni, muni njóta hækkunar ríkisframlagsins úr 40% í 75%.

Annað merkt nýmæli í frv. er ákvæði um það að samdar skuli framkvæmdaáætlanir um hafnargerðir til fjögurra ára, og í því sambandi, að stefnt verði að því, að framlög ríkisins til hafnargerða greiðist jafnóðum og reynt verði að forðast, að framlag ríkisins greiðist nokkuð eftir á eins og átt hefur sér stað undanfarin ár. Þetta stendur þannig af sér, að skuldahali ríkisins til hafnanna mun nú vera um það bil sem svarar einu ári á eftir.

Þriðja nýmælið, sem ég vil nefna í l., eru ákvæðin um hafnabótasjóð. Það er að vísu sumt í þeim ákvæðum, sem áður hefur verið í 1., og verið framkvæmt, en aðalnýmælið er í 3. tölulið 19. gr., þar sem kveðið er svo á, að sjóðnum skuli heimilt að styrkja hafnarsjóði, sem eiga við sérstaka örðugleika að stríða, vegna erfiðrar aðstöðu og dýrrar mannvirkjagerðar.

Þessi þrjú atriði hygg ég að skipti mestu máli fyrir hafnirnar, hvað snertir þá fyrirgreiðslu, sem þær fá frá ríkinu. Við kvöddum á fund okkar í sjútvn. hafnamálastjóra, eins og hann er nefndur í frv., en hann er sá embættismaður, sem við höfum áður kallað vitamálastjóra í daglegu tali, og framkvstj. Sambands ísl. sveitarfélaga og ræddum við þá um frv. Framkvstj. Sambands ísl. sveitarfélaga tók fram, að þar sem hans samband hefði ekki haft tækifæri til að kynna sér málið, gæti hann ekkert um það sagt. Hann tók einnig fram, að hann óskaði þess mjög eindregið fyrir hönd sambandsins, að öll þau mál, sem varða að einhverju leyti samskipti ríkisins og sveitarfélaganna, væru borin undir sveitarstjórnasambandið, áður en þau hlytu afgreiðslu á Alþ. Vitamálastjóri gaf n. ýmsar gagnlegar upplýsingar í sambandi við frv. og ýmsar skýringar á einstökum greinum þess og málinu í heild. Eftir að n. hafði rætt við þessa tvo embættismenn, sneri hún sér að því að fara yfir frvgr. hverja fyrir sig og kanna það, hvaða brtt. nm. hefðu fram að færa. Niðurstaðan af því starfi liggur fyrir á þskj. 515, en þar eru þær brtt., sem öll n. er sammála um. Tveir nm. hafa auk þess, sé ég, flutt nokkrar brtt. á þskj. 516, þ.e.a.s. hv. 5. þm. Norðurl. e. og hv. 4. þm. Reykn. Ég skal þá fara aðeins yfir brtt. nefndarinnar og reyna að útskýra þær, eftir því sem efni standa til.

Fyrsta brtt. er við 1. gr. frv. og er einfaldlega í því fólgin, að í stað „samgmrh.“ í gr. kemur „samgmrn.“, en það er í samræmi við það, sem var í eldri l., og telur n. betur fara á því, miðað við það fyrirkomulag, sem verið hefur á yfirstjórn hafnarmála. Hún hefur verið í höndum ráðh., sem hefur farið með hluta af samgmrn., þ. e. ráðuneytinu er skipt, og hefur verið skipt.

Við 3. gr. hefur n. gert tvær brtt.gr. markar aðallega stefnuna í samskiptum hafnamálastjórnarinnar og sveitarfélaganna, og eftir því sem segir í grg. með frv. um þá grein, er með henni stefnt að því að lögfesta það fyrirkomulag á þessum samskiptum, sem mótazt hefur í framkvæmd. Það er vitað til þess, að í eldri lögum, þ.e.a.s. í 3. gr. 1. nr. 29 1946 sé það skilyrði fyrir styrkveitingu til hafnar, að framkvæmdir séu unnar undir yfirumsjón vitamálastjóra, eða annars trúnaðarmanns samgmrh. Og síðar segir í grg., með leyfi hæstv. forseta: „Enda þótt ekki sé fastara að orði kveðið í gildandi l., hefur framkvæmdin orðið sú, að vita- og hafnamálastjóri og hans starfslið hefur annazt hafnaframkvæmdir í flestum tilfellum, og ráðh. ekki falið yfirumsjón öðrum.“ Með tilliti til þess, sem þarna er yfir lýst sem markmiði þessarar gr., hefur n. orðið sammála um að breyta henni þannig, að 1. málsl. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta: „Hafnamálastofnun ríkisins hefur yfirumsjón með hafnaframkvæmdum, sem styrktar eru skv. l. þessum. Sé um að ræða hafnarframkvæmdir, sem styrktar eru skv. 1. tölul. 6. gr. 1., getur hafnamálastofnunin ákveðið, að hún annist framkvæmdirnar.“ Þarna í síðari málsl. gerir n, ráð fyrir því, að hafnamálastofnunin, eða hafnamálastjóri, geti sjálf tekið ákvörðun um, hvort stofnunin annist þær framkvæmdir, sem styrktar eru með 75% framlagi. Í grg. með frv. er lýst yfir þeirri stefnu í sambandi við þessi mál, en það geti jöfnum höndum átt sér stað, að hafnamálastofnunin annist framkvæmdirnar eða að þær verði boðnar út og sérstökum verkfræðifyrirtækjum falinn undirbúningur og hönnun verkanna. Eftir þessa breyt., sem n. leggur til að þarna verði gerð, telur hún, að síðasta málsgr. 3. gr., sem hljóðar svo: „Heimilt er hafnamálastjóra með samþykki ráðh. að veita bæjar- og sveitarfélagi leyfi til að hafa á hendi eigin hafnarframkvæmdir undir tækni- og fjárhagslegu eftirliti hafnamálastjóra“, megi falla niður, og það leggur n. til í brtt. sinni í b-lið við þessa gr.

Við 4. gr. frv. gerir n. brtt., en í þeirri gr. eru talin upp þau mannvirki, sem falla undir það að geta fengið ríkisstyrk skv. l. Nokkur atriði, sem áður voru í eldri l., höfðu verið felld niður í frv., þ. á m. þurrkvíar, verbúðir og hafnarkranar. N. leggur til, að aftur verði tekið upp í upptalninguna í þessari gr. „þurrkvíar“ og „hafnarkranar“. Tveir nm., sem flytja brtt. á þskj. 516, vilja ganga þarna lengra en aðrir nm., eins og sést af brtt. þeirra við þessa gr., en um það atriði varð ekki samkomulag í n.

Þá kem ég að 5. gr. Þar leggur n. fyrst til, að 5. tölul. verði breytt, en hann hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „að hafnarsjóður hafi skuldbundið sig til þess að annast á sinn kostnað venjulegt viðhald hafnarmannvirkja, eins og nauðsyn ber til að dómi hafnamálastjóra. Sé viðhald vanrækt, getur hafnamálastj. látið framkvæma það á kostnað hafnarsjóðs.“ Þarna leggur n. til, að orðin „eins og nauðsyn ber til“ o.s.frv. verði felld niður úr gr. Það kom fram, bæði hjá framkvstj. Sambands ísl. sveitarfélaga og þeim mönnum í sjútvn., sem kunnugir eru sveitarstjórnarmálum, að þeim fundust ýmis ákvæði frv. um samskipti hafnamálastj. og sveitarfélaganna vera óþarflega ströng, m.a. þetta ákvæði. Með tilliti til þessa flytur n. þessa brtt. Einnig leggur hún til, að síðari málsgr. 5. gr.: „Óheimilt er að leita eftir láni erlendis til hafnargerða, nema að fengnu leyfi ráðuneytisins“ falli niður. Þetta ákvæði telur n. óþarft. Það munu vera nægilega skýr ákvæði um þetta atriði í öðrum l. Í stað þess leggur n. til, að þarna komi inn 8. tölul., sem hljóði á þessa leið: „Heimilt er þó að veita ríkisábyrgð vegna hafnarframkvæmda, þótt eigi sé veittur til þeirra styrkur úr ríkissjóði.“ Það sem n. á við með þessu er það, að eina höfn landsins, sem ekki hefur notið styrks úr ríkissjóði, þ.e.a.s. Reykjavíkurhöfn, geti átt kost á því að fá ríkisábyrgð, enda þótt hún njóti ekki ríkisstyrks til sinna hafnarframkvæmda. Nefndinni barst um þetta erindi frá hafnarstj. í Rvík. og varð hún sammála um að verða við óskum hans að þessu leyti, þannig að það er opnaður þarna möguleiki til þess, að Reykjavíkurhöfn geti fengið ríkisábyrgð, þótt hún njóti ekki ríkisstyrks. Og þá gildir að sjálfsögðu hið sama um aðrar hafnir, sem eins kynni að standa á um í framtíðinni.

Þá kem ég að 6. gr., sem fjallar um það, hver skuli vera hlutur ríkissjóðs af stofnkostnaði hafnargerða. Þar leggur n. til, að orðin „allt að“ í 1. tölul. falli niður, þannig að kostnaðarhluti ríkissjóðs sé bundinn við 75%. Síðan stendur í frvgr., eins og hún var upphaflega á eftir orðinu „öldubrjótar“: „að svo miklu leyti sem þeir nýtast ekki til viðlegu“. Þessu snýr n. í raun og veru alveg við, af því að hún telur, að hafnargarðar og öldubrjótar eigi að fá fullt 75% framlag, enda þótt þeir séu að einhverju leyti notaðir til viðlegu. Orðalagið þar næst á eftir, þar sem rætt er um dýpkanir á aðalsiglingaleið og á hafnarsvæði, gerir n. örlítið skýrara en það er í frv. Það kom fram í upplýsingum hafnamálastjóra, að ætlun hans, eða n. sem samdi frv., með þessu orðalagi er auðvitað sú, að dýpkanir á aðalsiglingaleið og á hafnarsvæði, innan ákveðinna marka, skuli geta notið styrks. Ég hygg, að það orðalag, sem sjútvn. leggur til, geri þetta alveg ótvírætt.

Þá kem ég að 7. gr. Í þeirri gr. er reynt að telja upp nokkurn veginn skýrt, hvað geti talizt til hafnargerðakostnaðarins og svo eru taldir nokkrir liðir, sem ekki mun hafa verið venja að telja með stofnkostnaði, þ.e.a.s. vextir á byggingartíma, lántökukostnaður eða annar fjármögnunarkostnaður, kostnaður vegna lóða- eða landakaupa fyrir höfn, gengistap á erlendum lánum eða kostnaður vegna hækkunar verðtryggðra lána. Við þessa gr. vill n, bæta orðunum „nema slík lán hafi verið tekin út á kostnaðarhluta ríkissjóðs í framkvæmdinni“. Ef tekin eru erlend lán út á kostnaðarhluta ríkissjóðs í framkvæmdinni, hlýtur að sjálfsögðu einnig að fylgja þeim gengisáhætta. Í sambandi við þessa gr. hafa hv. fulltrúar Framsfl. lagt til, að þarna verði felld niður úr upptalningunni orðin „kostnaður vegna lóða- eða landakaupa fyrir höfn“. N. ræddi þessa till., en um hana varð ekki samstaða, og taldi meiri hl. n., að ef farið væri inn á þessa braut, gæti það ýtt undir spákaupmennsku með lóðir og lönd og orðið til þess að hækka óeðlilega lóðaverð á tilteknum svæðum. Eins og hv. alþm. vita, njóta a.m.k. öll minni sveitarfélög sérstakrar aðstoðar og fyrirgreiðslu ríkisins við nauðsynleg lóða- og landakaup undir allt svæði, sem er skipulagsskylt, þ. á m. einnig hafnarsvæði. Þá kem ég að 8. gr. Henni hefur n. breytt, eins og fram kemur á þskj. 515, í það horf, að heimilt skuli vera að veita ríkisábyrgð á lánum vegna hafnargerða allt að jafnháum þeirri upphæð, sem hafnarsjóður á að leggja fram. En þetta orðalag þýðir það, að samanlagður kostnaðarhluti ríkissjóðs og upphæð ábyrgðar getur numið allt að 100%, og þá hygg ég, að í þessu efni sé komið að fullu til móts við óskir ýmissa hv. þm., sem vildu breyta þessu ákvæði.

Um III. kafla frv., sem fjallar um framkvæmdaáætlanir, var talsvert mikið rætt í n. Þetta er algert nýmæli í l. og að sjálfsögðu má gera ráð fyrir, að það þurfi e. t. v. nokkuð að þreifa sig áfram með tilhögun áætlanagerðanna, og sumum hv. nm. bar ekki saman við hafnamálastjóra um það, hvernig þessum málum ætti að skipa. Það kom fram í umr. n. við hann, að hann taldi ekki hægt að hafa á áætlunargerð fyrir hafnirnar sama fyrirkomulag og haft er t.d. á vegáætlun. Skýringin á því er sú, að framlögin til hafnanna koma ekki einungis frá ríkinu, eins og vegaféð, heldur koma þau frá fleiri aðilum, þ. e. hafnarsjóðum og öðrum slíkum aðilum, sem e. t. v. gætu verið aðilar að höfnum, sveitarstjórnum eða sýslufélögum. Lánveitingar til hafnargerðanna koma í flestum tilfellum frá lánastofnunum eða sjóðum, sem ekki heyra undir Alþ. Það er þess vegna, þegar miðað er við þetta allt saman, mjög hæpið, að hægt sé að gefa áætlun sem þessari fullt lagagildi. N. var sammála um að breyta 2. mgr. gr. þannig, að hún orðist svo: „Ráðh. leggur áætlunina fyrir Sþ. til leiðbeiningar varðandi fjárútveganir og framkvæmd þessara mála.“

Reynslan verður svo að skera úr því, hvernig til tekst með þetta fyrirkomulag á þessum málum, en það er a. m. k. trú mín, að ef vel tekst til með áætlanagerðina, geti orðið mikill ávinningur að því að hafa þetta fyrirkomulag, þannig að skipulegar verði unnið að framkvæmdunum og þau tæki, sem til þeirra eru notuð, nýtist betur og meira fáist fyrir það fjármagn, sem til þessara hluta er varið.

Við 11. gr. eru tvær breytingar. Það er lagt til, að í stað orðanna „hafnarstjórn ræður hafnarstjóra og ákveður verksvið hans“ komi: „Sveitarstjórn ræður hafnarstjóra og ákveður verksvið hans samkv. till. hafnarstjórnar“. Það er gegnumgangandi í frv., að gert er ráð fyrir þeim möguleika, að fleiri en eitt sveitarfélag geti verið aðilar að höfn, eða jafnvel sveitarfélag og sýslufélag, eða tvö sýslufélög, og þetta fyrirkomulag mun okkur hafa dottið í hug, sem vorum í atvinnutækjanefndinni og sömdum frv. um þessi mái fyrir nokkrum árum, eins og sagt var frá við 1. umr. þessa máls. Nú hefur sú breyting á orðið, að það mun ekkert sýslufélag lengur vera aðili að höfn, eftir að Þorlákshöfn var gerð að landshöfn, þannig að í raun og veru hefði þurft, ef tími hefði unnizt til, að breyta frv. öllu hvað þetta snertir. Við höfum ekki lagt í það, en eftir gildandi sveitarstjórnarlögum eru sveitarstjórnirnar alls staðar æðsta vald í málefnum, hafnanna, en hafnarstjórnir og hafnarnefndir heyra undir sveitarstjórnirnar. Þessari gr. fannst okkur ástæða til að breyta þannig, að það komi fram, að það sé sveitarstjórn, sem ráði hafnarstjóra og ákveði verksvið hans samkv. till. hafnarstjórnar. Og loks fannst n. ekki ástæða til að hafa þarna síðasta málsl.: „Hafnarstjórn getur skuldbundið hafnarsjóð, enda komi til samþykki stofnanda eða stofnenda sjóðsins.“ Í reynd eru það yfirleitt sveitarstjórnirnar, sem skuldbinda hafnarsjóðina, samkv. því, sem ég sagði áðan, að þær eru æðsta vald í málefnum hafnanna.

Við 12. og 13. gr. gerir n. lítils háttar breytingu. Þar er sagt fyrir um, hvernig verja megi tekjum hafnanna og orðað svo í 12. gr.: „til þess að standast kostnað við hafnargerð og árlegan reksturskostnað hafnar . . .“ Þarna vill n. bæta við orðunum: „eða í þágu hafnarinnar“. Það er sem sé gert ráð fyrir, að það sé leyfilegt að leggja á þau gjöld, sem upp eru talin í 12. gr., til þess að standa straum af reksturskostnaði hafnarinnar, eða í þágu hafnarinnar, og sams konar breytingu leggur n. til við 13. gr. N. hefur ekki, enda þótt komið hafi fram einar tvær eða þrjár aths. við 13. gr., þar sem gert er ráð fyrir, hvaða gjöld hafnirnar megi leggja á til þess að standa undir kostnaði við rekstur og framkvæmdir, gert neinar brtt. við þau atriði í gr.

Sannast að segja er margt í henni, sem ætti frekar heima í reglugerð en í l. sjálfum.

Við 14. gr. leggur n. til, að orðin „til staðfestingar“ falli niður, en í gr. er gert ráð fyrir, að hafnarstjórnin skuli semja áætlanir um tekjur og gjöld og senda þær hafnamálar stjóra árlega fyrir 15. sept. til staðfestingar. N. fannst þetta ákvæði óþarft. Það eru að sjálfsögðu sveitarstjórnirnar sjálfar, sem ráða mestu um sín fjármál, og þær heyra undir félmrn. og það er félmrn., sem staðfestir allar þeirra fjárhagsáætlanir. En að sjálfsögðu er nauðsynlegt fyrir hafnamálastjóra að geta samt sem áður fengið þessar áætlanir, til þess að hann geti gegnt sínu hlutverki sem yfirmaður þessara mála, þótt það sé ekki í hans verkahring að staðfesta þær.

Við 16. gr. leggur n. til nokkra breytingu á síðari hluta gr. Fyrri hluti gr. verði óbreyttur. Þessi gr. er sett til þess að veita hafnarsjóðum nokkurt aðhald um kaup á fasteignum og við lántökur og aðrar fjárhagslegar skuldbindingar og ráðstafanir í sambandi við framkvæmdir, og verður að teljast eðlilegt, að höfnunum sé veitt slíkt aðhald. En n, fannst síðari hluti gr. óþarflega strangur, þannig að hún breytir honum í það horf, að hann orðist þannig: „Rísi ágreiningur milli hafnarstjórnar og hafnamálastjóra út af ákvæðum þessarar gr., sker ráðh. úr. Skal þá óheimilt að hefja eða halda áfram framkvæmdum, sem deilt er um, fyrr en úrskurður ráðh. hefur verið kveðinn upp“.

Kem ég þá að 19. gr., sem fjallar um hafnabótasjóð. Það var rætt um það í n., að með tilliti til þess, að sjóðurinn fær, eftir till. frv., allmikið fé til ráðstöfunar og getur m.a. veitt styrki til hafnarsjóða, sem eiga við sérstaka fjárhagsörðugleika að stríða, auk þess sem honum er líka ætlað að styrkja endurbætur á hafnarmannvirkjum, er hafa skemmzt af völdum náttúruhamfara, eins og hann hefur áður gert, væri ekki óeðlilegt, að sérstök stjórn yrði sett yfir hafnabótasjóð. Varð það að samkomulagi hjá n. að leggja til að orða upphaf gr. þannig: „Fé hafnabótasjóðs má ráðstafa á eftirgreindan hátt, að fengnu samþykki fjvn. Alþ.“. Hafði n. þá í huga ákvæði, sem eru í l. um ríkisábyrgðasjóð, þar sem rætt er um samninga eða eftirgjöf á gjaldföllnum ríkisábyrgðum, sem ekki er leyfilegt að gera, nema að fengnu samþykki fjvn. Taldi n. sérstaklega styrkina samkv. 3. tölul. gr. vera hliðstæða við þetta og leggur þess vegna til, að upphafi gr. verði breytt eins og ég gat um.

Í 20. gr. eru ákvæðin um tekjur hafnabótasjóðs. Að sjálfsögðu eru það mjög mikilvæg ákvæði til þess að fullt gagn verði að því, sem þessum sjóði er ætlað að gera. Árlegt framlag ríkissjóðs er samkv. greininni hækkað úr 3.2 millj., eins og það er nú, í 8 millj. og í 2. tölul. gerir frv. ráð fyrir, að lagt sé sérstakt hafnabótasjóðsgjald á íslenzk skip, 5 rúml. eða stærri, og innheimt einu sinni á ári, 12 kr. á hverja nettórúmlest og enn fremur, að tekið sé gjald af öllum skipum, sem koma frá öðrum löndum til íslenzkra hafna. Þessi till. mun vera byggð á fyrirmyndum erlendis frá, því að slíkt gjald er tekið sums staðar erlendis, og það kemur fram í grg. með frv., að hafnargjöld hér á landi eru yfirleitt lægri en tíðkast annars staðar. En þetta nýja gjald fannst þó n. í heild, að þyrfti að athuga betur, og varð samkomulag um það að leggja til, að 2. tölul. í 20. gr. verði tekinn út. N. er ljóst, að við þetta rýrna tekjur sjóðsins. Skv. áætlun frv. mundi sú rýrnun nema 12 millj. kr., en n. telur, að það þurfi að athuga nánar, hvernig þeirra tekna verði aflað. Það er ekki gert ráð fyrir, að þessi lög öðlist gildi fyrr en 1. janúar 1968, þannig að með því að taka þetta ákvæði út, gefst enn tóm til að athuga betur um tekjuöflun til sjóðsins, áður en að því kemur, að l. öðlist gildi. En þrátt fyrir það, að n. leggi þannig til, að tekjur sjóðsins verði rýrðar, telur hún, eins og ég sagði í upphafi máls míns, mjög mikið fengið fyrir hafnirnar og hafnarframkvæmdirnar að fá frv. samþ. með þessum breytingum. Þess má einnig geta, að sjóðurinn hefur ríflega lántökuheimild samkv. frv.

Þá á ég aðeins eftir, að ég hygg, tvær brtt., sem n. flytur sameiginlega. Sú fyrri er við 25. gr. Þar er í síðustu mgr. gert rúð fyrir, að ef ráðuneytið telji, að hækka beri gjöld eða taka upp ný gjöld skv. 12. gr., geti það breytt gjaldskrá reglugerðar, án þess að till. um það liggi fyrir frá hafnarstjórn. Þarna vill n. bæta inn í, á eftir orðunum „gjaldskrá reglugerðar“ orðunum: „hjá þeim höfnum, sem í vanskilum eru við ríkisábyrgðasjóð“. Og loks leggur n. til, að niður Palli orðin „til að gilda“ úr ákvæðinu til bráðabirgða. Þá mundi bráðabirgðaákvæðið hljóða þannig:

„Fyrsta fjögurra ára áætlunin um hafnarframkvæmdir skal lögð fyrir reglulegt Alþ. haustið 1968 fyrir tímabilið 1969–1972“.

Ég hef í sambandi við brtt. þær, sem ég hef nú rakið, minnzt á a.m.k. sumar þær brtt., sem hv. 5. þm. Norðurl. e. og hv. 4. þm. Reykn. flytja á þskj. 516, en eina þeirra held ég, að ég hafi ekki nefnt enn sem komið er. Þeir flytja þá brtt. við 4. gr., að í stað orðsins: „ábyrgð“ komi „sjálfskuldarábyrgð“. Um þetta er ekki samkomulag í n. og raunar ekki um brtt, á þskj. 516 í heild.

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja þetta mikið frekar. Það er liðið á kvöld, og þetta er stórmál. En ég get þó ekki stillt mig um að víkja aðeins að ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e. við 1. umr. þessa máls, og vil ég þá sérstaklega þakka honum fyrir vinsamleg ummæli um samstarf okkar í atvinnutækjanefnd, sem samdi á sínum tíma frv. til hafnalaga. Þótt það frv. hafi ekki séð dagsins ljós hér á Alþ., hygg ég, að með samningu þess og undirbúningi hafi nokkuð áunnizt og þá sérstaklega í sambandi við þá 10 ára áætlun um hafnarframkvæmdir, sem atvinnutækjanefndin samdi. Enda þótt ýmislegt hafi breytzt á þeim tíma, sem liðinn er síðan það gerðist, var þá lagt í allmikla vinnu, sem áreiðanlega hefur komið að verulegu gagni í sambandi við undirbúning margra þeirra framkvæmda, sem síðan hafa verið unnar. En það er nú einu sinni svo, að við lifum á tímum mjög örra breytinga og á þeim tíma, sem liðinn er síðan við skiluðum frv. okkar 1961, hefur orðið mikil og ör þróun í skipastólnum, sem ég held, að við höfum þá ekki gert okkur fyllilega grein fyrir. Ég hygg, að við höfum t.d. miðað okkar till. í 10 ára áætluninni yfirleitt við minni skip heldur en nú er farið að nota. Og á þessum árum hefur það skeð, að hafnirnar, eða framkvæmdirnar í höfnunum, hafa orðið öllu stærri í sniðum, vegna þess að skipin hafa stækkað og vegna þess, hvað skipunum hefur fjölgað mikið. Þetta er svona á ýmsum sviðum. Það er margt breytingunum undirorpið. Ég minnist þess frá því að ég starfaði með hv. 3. þm. Norðurl. e. í atvinnutækjanefndinni, að eitt af því fyrsta, sem okkur var falið að vinna, var að semja frv. til togarakaupa ríkisins. Þá höfðu menn í nokkur ár hér á Alþ. og annars staðar rætt og flutt margar till. um, að það væri hægt að leysa atvinnuvandamál dreifbýlisins og árstíðabundið atvinnuleysi með því að láta stóra togara leggja afla á land í höfnum kringum allt landið. Þegar við fengum þetta verkefni og fórum að athuga það nánar, komumst við að þeirri niðurstöðu, að það var mjög óvíða á landinu, sem skilyrði voru til þess að afgreiða eins stór skip og togarana. Við brugðum þess vegna á það ráð, að í stað þess að leggja til, að keyptir yrðu eingöngu úthafstogarar, 600–700 rúml., eins og okkur hafði raunverulega verið falið, lögðum við til, að keypt yrðu nokkur 250 rúml. togskip, sem við töldum að mundu betur henta við aðstæðurnar, sem fyrir hendi voru. Við sömdum frv. um þetta, sem lagt var fram hér á Alþ., og við lögðum til, að keypt yrðu 6 skip til að byrja með af þessari stærð. Alþ. leizt svo vel á þessa hugmynd okkar, að mig minnir að skipin, sem keypt voru fyrst, hafi a.m.k. orðið 12 af þessari stærð, 250 rúml., og síðan hefur verið haldið áfram að kaupa mjög mörg skip af þessari eða svipaðri stærð. Eins og ég sagði, er allt breytingunum undirorpið. Þegar við lögðum til, að þessi skip yrðu keypt, héldum við, að þau mundu geta orðið uppistaðan í atvinnulífi margra minni staða úti á landi, þannig að þau stunduðu aðallega þorskveiðar og legðu afla sinn á land til vinnslu. En við höfðum einnig miðað stærð skipanna við það, að þau væru hentug til síldveiða. Framvindan hefur orðið sú, að þessi skip eru nú orðið svo að segja eingöngu notuð til síldveiða og hafa áreiðanlega skilað þjóðinni miklum arði við þær veiðar og komið að meira gagni við síldveiðarnar heldur en við togveiðarnar, sem við gerðum ráð fyrir, að þau mundu aðallega stunda. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi hér. Þetta er nokkuð skylt því máli, sem við erum að fjalla um, að því leyti til, að hvort tveggja er úr sjávarútvegi og sýnir okkur, hversu geysilega ör þróunin hefur verið í þessum málum á undanförnum árum.

Það er greint frá því í grg, með þessu frv., að þegar við sömdum 10 ára áætlun okkar í atvinnutækjanefndinni um nauðsynlegar hafnarframkvæmdir á árunum 1961–1970, hafi heildarniðurstaða þeirrar kostnaðaráætlunar orðið 696.2 millj. kr., en þar af til dráttarbrauta 48 millj. kr. En á 6 ára tímabili, sem liðið er síðan við sömdum þessa áætlun, hefur alls verið varið til hafnargerða 628.4 millj. kr., sem svarar til þess, að unnin hafi verið 64% af áætluðum framkvæmdum. Nú er þess að vísu að geta, að verðlag hefur að sjálfsögðu breytzt á þessum tíma, en samt sem áður ætla ég, að þessar tölur sýni nokkuð glöggt, hver þróunin hefur verið og hversu ör hún hefur verið í hafnarframkvæmdunum á síðustu 6 árum.

Það kemur svo í framhaldi af þessu, sem sagt er frá því, að á næstu 5 árum muni að mestu lokið framkvæmdum 10 ára áætlunarinnar og þá allvel séð fyrir hafnarþörfum flestra hafnarstaða landsins. Ef það ræðist, sem um þetta segir í grg., mundi það þýða, að 10 ára hafnaráætlun atvinnutækjanefndar yrði framkvæmd á 11 árum, en þá er að því að gá, að á því tímabili mun verða ráðizt í miklu stærri og kostnaðarsamari framkvæmdir en atvinnutækjanefnd gerði ráð fyrir.

Ég skal svo, herra forseti, láta máli mínu lokið. En ég leyfi mér fyrir hönd sjútvn. að mæla með því, að frv. verði afgreitt með þeim breytingum, sem ég hef gert grein fyrir.