14.04.1967
Neðri deild: 68. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

181. mál, hafnalög

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Þetta frv. til hafnalaga kom fyrir þingið fyrir 3–4 dögum og hefur verið til umr. í sjútvn. þessarar d. undanfarna daga. Því er ekki að leyna, að þegar frv. kom fram, var mjög augljós andstaða á móti mörgum ákvæðum þess, þannig að ýmsir töldu, að það væri nánast ótækt að samþykkja það eins og það var lagt fram af hæstv. ríkisstj. Það, sem a.m.k. framsóknarmenn höfðu sérstaklega út á frv. að setja, var það, að við töldum, að það væru of fáar framkvæmdir taldar upp af þeim, sem eiga að heyra til hafnargerðum, og einnig höfðum við mikið út á ákvæði 6. gr. frv. að setja, þar sem talað er um hluta ríkissjóðs af stofnkostnaði til hafnargerðar, einkum og sérstaklega það orðalag, að hluti ríkissjóðs skyldi vera allt að 75% og allt að 40%. Einnig höfðum við ýmsar aths. að gera við ákvæðin um framkvæmdaáætlanir, töldum þann kafla vera óljósan og nokkuð óákveðið, hvernig farið yrði með þessar framkvæmdaáætlanir og m.a. hvert valdsvið Alþ. yrði í því sambandi. Um hafnabótasjóð höfðum við einnig allmargar aths. uppi, að við töldum viðurhlutamikið að fela ráðh. einræðisvald yfir hafnabótasjóði, en vildum og lögðum það til, að kosin yrði sérstök þingkjörin nefnd eða stjórn, sem færi með málefni hafnabótasjóðs. Einnig vorum við andvígir því, sem segir í 20. gr., þar sem talað er um tekjuöflun til hafnabótasjóðs, að lagt yrði sérstakt hafnabótasjóðsgjald á íslenzk skip af vissri stærð, frá 5 rúml., sem sagt svo til öll skip landsmanna. Þessu vorum við mjög andvígir. Þá má líka geta þess, að við höfðum út á það að setja, að gert er ráð fyrir, að ábyrgð ríkisins á lánum til hafnargerða sé einföld ábyrgð, en ekki sjálfskuldarábyrgð, eins og við teljum, að eigi að vera. Jafnframt vil ég minnast á 8. gr. frv., sem við vorum einnig andvígir, og töldum, að yrði að breyta, þar sem settur er fyrirvari um 90% af lánsábyrgðinni á lánum, sem veitt eru hafnarsjóðum til hafnargerða. Öll þessi atriði ræddum við að sjálfsögðu í n. og gerðum grein fyrir skoðun okkar á því, og ég get sagt það hér, að undir margt af þessu var tekið eins og hv. frsm. hefur skýrt hér frá, og það var verulegt samkomulag í n. um víðtækar breytingar á frv., þannig að segja má, að það sé nú með allt öðrum svip en var, þegar það var fyrst lagt fram. Hins vegar tel ég, að ganga hefði átt enn lengra í breytingum á þessu frv. og þess vegna hef ég skrifað undir sameiginlegt nál. okkar með fyrirvara og jafnframt flutt ásamt hv. 4. þm. Reykn. brtt. á þskj. 516.

Um þetta mál mætti svo einnig, án þess að ég ætli hér að fara að vekja nokkrar deilur, minnast á það, að þetta frv. er lagt fram nú í þinglokin, þegar lokaannir þingsins eru hvað mestar. Þetta er auðvitað ákaflega óheppilegt og hefur ekki komið sér vel, því að ég efast ekki um, að það hefði verið ástæða til að senda þetta frv. allmörgum aðilum til umsagnar, a.m.k. sveitarstjórnasambandinu og raunar sveitarstjórunum. Form. Sambands ísl. sveitarfélaga, Magnús Guðjónsson, mætti á fundi hjá okkur og hann upplýsti það, sem hv. frsm. hefur einnig gert, að það hefði verið ósk sambandsins, að frv. yrði sent því og raunar sveitarfélögunum til umsagnar, en til þess var ekki talinn vinnast tími nú, vegna þess hve mikil áherzla var lögð á að koma frv. hér í gegn.

Ég skal ekki hafa mörg orð eða tala neitt almennt hér um hafnamál, vil aðeins segja það, að það hefur verið stefna okkar framsóknarmanna og við höfum haft uppi um það till. hér í Alþ., að gera þyrfti ýmsar umbætur á hafnalögum og endurskoða þau frá rótum, þannig að við getum út af fyrir sig fagnað því, að frv. til hafnalaga kemur nú fram. Við höfum á undanförnum þingum flutt ýmis frv., sem að því miða að bæta úr þeim verstu ágöllum, sem við teljum vera á hafnal., einkum því, að ríkissjóðsframlögin eru nú ekki lengur og hafa ekki lengi verið í neinu samræmi við nauðsyn og kröfur tímanna. Þessi frv. höfum við flutt hér ár eftir ár og raunar á þessu þingi, þó að þau hafi ekki náð fram að ganga.

Ég vil nú leyfa mér að fara hér örfáum orðum um þær till., sem ég flyt hér ásamt hv. 4. þm. Reykn. Eins og fram kemur í nál., skrifum við undir og erum sammála þeim till., sem n. flytur sameiginlega, sammála þeim a.m.k. að meginefni og í aðaldráttum og teljum, að þær séu allar til bóta og geri frv. betra heldur en það var í upphafi, en þó teljum við, að gera hefði þurft á þessu allmiklu fleiri breytingar, sem við höfum leyft okkur að flytja á þskj. 516. 1. brtt. okkar er við 4. gr. Það er sú till., að í stað orðsins „ábyrgð“ komi „sjálfskuldarábyrgð“. Við teljum eðlilegt, að þetta orðalag sé notað og höfuðröksemdin er sú, að það er áreiðanlega miklu líklegra, að sveitarstjórnir eða hafnarstjórnir eigi auðveldara með að fá lán, ef um slíka ábyrgð er að ræða á þeim heldur en þegar aðeins er um einfalda ábyrgð að ræða.

Nú er það svo t.d. um atvinnuleysistryggingasjóð, sem e. t. v. kann í framtíðinni að lána til hafna, að hann mun lána eingöngu þannig, að það sé sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs á lánum hans. Að vísu eru það ákvæði í l. sjóðsins, sem það ákveða, en okkur finnst, að þetta ætti svo að vera um öll hafnarlán. Þá höfum við einnig hvað snertir 4. gr. lagt til, að orðalag 4. mgr. yrði orðað nokkru víðtækar heldur en samkomulag varð um í n. Eins og frv. var lagt fram, var því m.a. sleppt úr, sem verið hefur í hafnal., að styrkja mætti verbúðir. Við ræddum það í n. að taka þetta upp að nýju, en um það varð ekki samkomulag, og við gerum því till. um, að þetta ákvæði haldist áfram í l. og jafnframt viljum við, að bætt verði inn því ákvæði, að lönd undir hafnarmannvirki komist þarna undir. Það er eðlilegt, að ríkissjóður taki nokkurn þátt í því að kaupa lönd undir hafnarmannvirki, því að hér er oft um mjög mikil verðmæti að ræða og dýrar eignir, sem sveitarsjóðum kann að reynast örðugt að eignast og ég held, að það sé ekki að öllu leyti rétt, að þetta verði til þess að hækka svo verulega landverð á þessum stöðum, því að vitanlega yrði það selt eftir mati og þá miðast við það. Við 6. gr. leggjum við til, að gerð verði frekari breyting en sú, sem samkomulag varð um í n. Við erum sammála því, sem hér hefur verið lýst og n. hefur samstöðu um, þ. e. að fella niður orðin „allt að“ í 1. og 2. tölul. o. fl., sem breytt var í þeirri gr., en við viljum, að þarna komi til viðbótar nýr tölul. og nýtt hlutfall, þ. e., að 60% stofnkostnaður bátakvía og einnar afgreiðslubryggju hafnarsjóðs með allt að 150 m viðlegukanti í hverri höfn, komist þarna undir. Þetta ákvæði er ekki alveg nýtt hér, það hefur verið flutt áður af hálfu framsóknarmanna fyrir nokkrum árum, og þetta mun hafa verið að ég hygg a.m.k. að verulegu leyti till. frá atvinnutækjanefnd, sem hér hefur örlítið borið á góma í umr.

3. brtt. okkar er við 7. gr. og hún stendur í sambandi við þá brtt., sem við flytjum við 4. mgr. 4, gr., þar sem við viljum fella niður úr 2. mgr. 7. gr. orðin „kostnaður vegna lóða- og landkaupa fyrir höfn.“

Þá kem ég að 4. og síðustu brtt. okkar, sem er við 20. gr., en 20. gr. hefur inni að halda ákvæði um tekjuöflun hafnabótasjóðs. Í frv., eins og það var lagt fram, var gert ráð fyrir því, að tekjur hafnabótasjóðs væru þrenns konar, þ. e. í fyrsta lagi árlegt ríkissjóðsframlag, hafnabótasjóðsgjaldið og svo tekjur af starfsemi sjóðsins. Nú hefur það verið skoðun okkar framsóknarmanna frá upphafi, að þetta hafnabótasjóðsgjald ætti ekki að leggja á og það var einnig niðurstaðan í sjútvn. að leggja til, að þetta gjald yrði fellt niður. En við það missir hafnabótasjóður mjög verulegar tekjur, að því er áætlað er um 12 millj. kr., þannig að sjóðurinn er nú ekki nema svipur hjá sjón og eins og vængstýfður fugl. Við teljum, að rétt sé að bæta þetta upp með því móti, að lagt sé fram beint úr ríkissjóði það, sem þarna er fellt niður, og að ríkissjóðsframlagið hækki þá úr 8 millj. í 20 millj. Þetta eru nú þær höfuðbreytingar, sem við gerum á frv. og teljum, að ef þær næðu fram að ganga, mundi það breytast mjög í batnaðarátt. Eins og ég hef sagt, hefur frv. tekið verulegum stakkaskiptum frá því, sem það var, þegar það kom fyrst fram. En það mundi að okkar dómi batna enn meira, ef þessar till., sem við hér erum með, yrðu samþ. og við væntum þess, að hv. þd. sjái sér fært að gera það.

Ég skal ekki eyða fleiri orðum að þessu máli nú, herra forseti, en vænti þess, að till. okkar fái góðar undirtektir.