14.04.1967
Neðri deild: 68. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

181. mál, hafnalög

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það er nú orðið all-áliðið kvölds, þar sem farið er að nálgast miðnætti, og skal ég ekki tefja þessar umr. neitt sem heitir. Ég vildi þó ekki láta hjá líða að segja aðeins örfá orð um þetta frv. Þetta er allmikill lagabálkur og snertir einn af stærri framkvæmdaþáttum þjóðarinnar og því eðlilegt, að um það verði nokkrar umr. Það ber að harma, að frv. kom fram mjög seint á þessu þingi, þannig að allan hraða verður að hafa við, ef það á að geta orðið að l., áður en þingi lýkur. Sum ákvæði frv. eru alveg án efa til verulegra bóta fyrir þann aðila, sem þau vissulega snerta mikið, en það eru hafnarsjóðirnir og hin einstöku sveitarfélög, þó að með öðrum ákvæðum í frv., eins og það var lagt fram, hafi verið nokkuð gengið á rétt þessa aðila, að því er talið er, a. m. k, af þeim mönnum, sem með sveitarstjórnarmál hafa farið. Kostir frv. eru að sjálfsögðu sú hækkun, sem fram kemur í 6. gr. þess, á framlagi ríkissjóðs til einstakra þátta hafnarmálanna, svo og fyrirhuguð efling hafnabótasjóðs. Ég tel, að það geti orkað nokkuð tvímælis, hvort hækkunin skuli vera eins og sagt er til í frv., þ, e. að þátttaka ríkissjóðs skuli vera 75% í einstökum þáttum hafnarframkvæmdanna og 40% í öðrum, eða hvort hækkunin hefði átt að vera almennari á alla liði framkvæmdanna. N. taldi ekki ástæðu og ekki tíma til þess að koma með neina breytingu um þetta atriði, því að til þess hefði þurft allvíðtæka útreikninga, þar sem sú hækkun, sem þarna er gerð, snertir verulega fjárhag ríkisins. Hækkunin úr 40% upp í 75% er á tveimur liðum framkvæmdanna, þ. e. annars vegar til byggingar hafnargarða og hins vegar til dýpkunar hafna. Eins og aðstaðan er í dag, má vel vera, að hækkun framlagsins til byggingar hafnargarða komi kannske ekki beint að miklum nótum, þar sem ég hygg, að flestar hafnir hafi þegar mótað utasta hring hafnarsvæðanna, en upp á framtíðina er þetta án efa mikil trygging fyrir þær hafnir, sem þurfa að byggja hafnargarða, því að það verða sennilega dýrustu framkvæmdirnar við hverja höfn. Hinn þátturinn, sú hækkun, sem fyrirhuguð er til hafnardýpkunar, kemur mun fleiri höfnum að notum, því að flestar hafnir þarf að dýpka vegna stækkandi báta og skipa, sem til hafnanna leita, og einnig að halda þeirra dýpkun við, þannig að ég hygg, að ákvæðið um hækkun framlags til dýpkunar hafnanna komi mörgum höfnum að mjög góðum notum.

Það sem ég tel, að hafi mátt finna að frv., er sú stefnubreyting, sem mjög greinilega kemur fram í 3. gr. þess, þar sem horfið er frá því ákvæði, sem nú er í gildandi hafnalögum, að hafnarsjóðirnir sjálfir skuli annast framkvæmdirnar undir yfirstjórn vitamálaskrifstofunnar og þess rn., sem hún heyrir undir en gert ráð fyrir því, að hafnamálastofnun ríkisins annist allar hafnaframkvæmdir, sem styrktar eru af ríkisfé. Þetta er veruleg breyting frá því, sem áður hefur verið, og þetta tel ég vera algera stefnubreytingu, sem ég hygg, að mjög hefði verið umdeild meðal forráðamanna sveitarfélaganna, en n. var sammála um að færa þetta í það horf, eins og fram kemur í till. hennar og frsm. hefur gert grein fyrir, að allar hafnarframkvæmdir, sem aðeins eru styrktar með 40% framlagi, skuli áfram vera í höndum hinna ýmsu hafnarstjórna, að sjálfsögðu eins og áður var undir yfirumsjón hafnamálastofnunarinnar, en aftur þær framkvæmdir, sem styrktar eru með 75% framlagi, skuli vera í löndum hafnamálastofnunarinnar einnar, ef hún ekki óskar þess að fela hafnarstjórnum, sem þar eiga hlut að máli, þessar framkvæmdir einnig, eða þá öðrum aðilum, sem hún telur, að aðstöðu hafi til þessara framkvæmda. Ég tel, að út af fyrir sig sé það eðlilegt og að sveitarfélögin geti ekki haft á móti því, að hafnamálastofnunin hafi aðstöðu til að annast þær framkvæmdir, sem ríkið greiðir að 3/4 hlutum, ef hún telur það heppilegra. Nokkrar aðrar greinar frv. ganga, að telja verður, verulega á rétt sveitarfélaganna til framkvæmda og binda hendur þeirra að öðru leyti umfram það, sem nú er í gildandi hafnalögum. Ég hygg þó, að þær breytingar, sem fram koma frá n. á þskj. 515, verði til þess, að sveitarfélögin geti eftir atvikum sætt sig við frv. eins og það er, þótt telja megi e. t. v., að of langt hafi verið gengið inn á valdsvið þeirra. Og ég tel, að jafnvel þótt eitthvað sé kannske að þeirra dómi út á frv. að setja að þessu leyti, þá sé þarna stigið svo veigamikið spor til lagfæringar og til þess að auka framlag ríkisins og koma til móts við þau að því leyti, að þau muni, eins og ég sagði, eftir atvikum geta sætt sig við frv. eins og það verður, ef till. n. verða samþykktar.

Hv. síðasti ræðumaður, hv. 3. þm. Norðurl. e., og einnig fyrri flm. minni hl. sjútvn., hv. 5. þm. Norðurl. e., hafa báðir nokkuð rætt um þær breytingar, sem gerðar eru á hafnabótasjóði og aðstöðu hans með frv., og telja báðir, að þó að þeir hafi út af fyrir sig getað fylgt því að leggja niður eða fella niður úr frv. þann tekjustofn, sem þar var ákveðinn undir 2. tölul. 20. gr., þá verði fé hans með því móti of lítið, og hafa þeir flutt brtt. um hækkað framlag úr ríkissjóði. Að sjálfsögðu mundu allir óska þess, að fé sjóðsins yrði sem mest, þannig að hann gæti orðið sem sterkastur bakhjarl þeirra hafna, sem l. gera ráð fyrir, að til hans þurfi að leita, en eins og ég sagði, varð samkomulag um það í n., að fella þennan tekjulið niður. Það koma tímar síðar, til þess að Alþ. og einstökum hv. þm. gefist kostur á að fá þessu breytt aftur, ef þeir geta bent á einhvern tekjustofn til handa hafnabótasjóði, sem Alþ. getur orðið sammála um. En ég hygg, að þeir geri þó allt of mikið úr því, að þetta skerði um of aðstöðu hafnabótasjóðs, því hún er vissulega verulega aukin, enda þótt þetta ákvæði verði fellt út úr frv. Það er gert ráð fyrir, að framlag ríkisins hækki allverulega til hafnabótasjóðs, og einnig er í 21. gr. gert ráð fyrir heimild til lántöku, allt að 350 millj. kr., til handa sjóðnum. Það er skoðun mín, að hvort tveggja muni verka mjög til hagræðis fyrir sjóðinn og gera honum mun betur kleift eftirleiðis heldur en hingað til að sinna því verkefni, sem honum er ætlað.

Ég skal svo, herra forseti, ekki tefja þessar umræður lengur, en ég vil láta það koma hér fram, að ég tel, að ef till. þær, sem sjútvn. sameiginlega flytur, ná fram að ganga, muni frv. í heild verða hinum ýmsu hafnarstjórnum úti í dreifbýlinu mjög til hagræðis, greiða fyrir uppbyggingu hafnanna og gera þeim mönnum, sem vinna að því, starfið léttara eftirleiðis heldur en það hefur verið hingað til. Uppbygging hafna víða um land hefur hvílt mjög þungt ekki einasta á hafnarsjóðunum, heldur einnig á hinum ýmsu sveitarfélögum og ber að fagna þeim skrefum, sem Alþ. stígur til úrbóta í þeim efnum. Ég tel, að þetta frv., eins og það væntanlega verður, miði í þessa átt.