14.04.1967
Neðri deild: 68. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

181. mál, hafnalög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Þegar frv. þessu var útbýtt hér á hæstv. Alþ., voru ekki beint glæsilegar horfur um það, hvernig þessum málum ætti að skipa í framtíðinni. Frv. var þannig úr garði gert, að það var óneitanlega í veigamiklum atriðum afturför frá því, sem áður var. En ég verð að segja, að ég tel, að hv. sjútvn. hafi unnið mjög vel að þessu máli. Svo veigamiklar breytingar á þessu frv. eiga væntanlega eftir að verða samþykktar með brtt. frá n., að það er orðið að verulegu leyti annað plagg. Því er að vísu ekki að neita, að það er að mínum dómi og sjálfsagt margra annarra gallað enn og þyrfti að vera á annan veg að ýmsu leyti. En ég minni sérstaklega á 5. brtt. n. við 6. gr., þar sem svo er mælt fyrir, að ríkið skuli afdráttarlaust leggja fram 40% og í öðrum tilfellum 75% af byggingarkostnaði hafna. Þetta. er það mikils virði, að mínum dómi, að ég fagna því alveg sérstaklega. Svo er ástatt í ýmsum landshlutum, að höfuðatvinnuvegur íbúanna er sjósóknin, fiskveiðarnar, en grundvöllurinn að þeim eru fyrst og fremst hafnirnar. Hið sama gildir um allar samgöngur og siglingar. Jafnframt þarf reyndar ekki að minna á, að ástandið í þessu efni, að óbreyttum l., er mjög ískyggilegt. Menn efast sennilega ekki um, að ýmsar hafnir voru svo að segja í þrotum með sinn fjárhag, ef ekki hefði nú verið breytt til með löggjöf. Og eftir að þetta ágæta samkomulag hefur náðst í sjútvn., þá vil ég lýsa sérstakri ánægju minni yfir þessum árangri. Ég fagna því, að þetta mál hefur komið fram, ef það verður afgreitt í aðalatriðum eins og þessar brtt. sjútvn. eru, þrátt fyrir það, að ýmsir ágallar eru enn, sem þyrfti að bæta úr. Það er nú svo, þegar ágreiningur er um mál, þá fá aldrei allir allt, en hér hefur sannarlega mikið áunnizt og meira en ég bjóst við í fyrstu, og ég er þakklátur sjútvn. fyrir hversu mjög hún hefur unnið að endurbótum á þessu frv., sem er svo þýðingarmikið fyrir öll sjávarpláss í þessu landi og þann höfuðatvinnuveg, sem fólkið lifir á.